21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1037 í B-deild Alþingistíðinda. (1582)

73. mál, fræðsla barna

*Pétur Halldórsson:

Ég get ekki neitað mér um að standa upp og benda á, hvernig málið horfir við frá mínu sjónarmiði, þar sem þetta er eitt af mestu málum þingsins. Málið kemur fram, ekki frá stj., heldur frá meiri hl. menntmn., og er gersamlega óathugað, þegar það kemur fram. Það er í raun og veru ekki fyrr en milli 2. og 3. umr., að farið er að athuga málið, með þeirri útkomu, að meiri hl. n. skilar af sér 20–30 till., sem gerbreyta málinu og taka upp 4 síður í venjulegu þingskjalabroti.

Hæstv. forseti taldi það ekki góðan sið, sem ég fór fram á, að umr. yrði ekki slitið, heldur væri hv. d. gefinn kostur á að athuga málið nánar. Ég verð nú hinsvegar að telja þetta óvenjulega afgr., sem höfð hefir verið. Málið hefði auðvitað átt að koma frá stj. í upphafi, vel athugað og undirbúið, en í stað þess er það borið fram af meiri hl. n. gersamlega óathugað. Ég hefi ekki heldur getað athugað málið fyllilega ennþá.