02.05.1936
Efri deild: 61. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í B-deild Alþingistíðinda. (1610)

73. mál, fræðsla barna

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég þarf ekki að víkja að undirbúningi þessa frv., því hv. frsm. menntmn. hefir drepið á hann. Hinsvegar get ég ekki neitað því, að mér finnst viðhorf hv. þm. til frv. nokkuð annað heldur en ég hafði búizt við. Mér lá við að finnast stundum undir ræðu hans að hann teldi það yfirleitt mjög vafasaman feng fyrir börnin að þurfa að ganga í skóla, því hann spurði, hvers vegna barnið mætti ekki vera utan skóla, og hann kom einnig með fleiri orðatiltæki, sem bentu í þessa átt. Ég skil það náttúrlega, að ef þetta skyldi vera annað og meira en það að orðin hefðu fallið svona, og meining skyldi vera á bak við orðin, að þá er erfitt að semja frv. um fræðslu barna við hæfi hv. þm.

Hann vildi telja, að þetta frv., sem liggur hér fyrir, væri miðað við þarfir eins aðiljans, sem að barnafræðslunni stendur, kennaranna, en börnin og foreldrarnir hefðu gleymzt. Ég held, að þetta sé ákaflega ofmælt. Það er ekki lítið á hag kennaranna umfram það, að það er gert ráð fyrir því, að starfstími þeirra verði lengdur og launin hækkuð í hlutfalli við það. Hinsvegar hefir hann slegið því föstu í ræðu sinni, að lenging á starfstíma kennaranna sé aðeins gerð fyrir kennarana, en ekki fyrir börnin, og það sé vafasamur hagur að því fyrir börnin. Mér virðist, að hann telji, og það kom fram í ræðu hans, að lengri skólatími fyrir börnin væri þeim til skaða, og foreldrunum sumpart til fjárhagslegs tjóns. Ég get ekki verið sömu skoðunar og hv. þm., heldur er ég á andstæðri skoðun. Ég álít, að lenging á starfstíma kennaranna og lengri skólatími sé gert fyrir börnin og foreldrana, ef ekki er gert ráð fyrir því, að kennarastéttin ræki sitt hlutverk svo hörmulega, að hún geri minna gagn en ógagn, en það vil ég ekki ætla.

Ég sé, að í því frv., sem hv. þm. vísaði oft til í ræðu sinni og hann flytur á þskj. 328, þá er gert ráð fyrir því, að hvert barn, sem er 10 ára að aldri, eigi að geta lesið algengt íslenzkt mál skýrt og hiklaust, skrifað alla íslenzka bókstafi glöggt og hreinlega og reiknað í huganum einföld dæmi um efni, sem eru barninu kunn.

Þetta er sú undirstöðufræðsla, sem hann telur, að börnin þurfi að hafa, áður en hinn eiginlegi skólatími tekur við. En það er að loka augunum fyrir staðreyndum að láta sér detta í hug, að slík fræðsla verði veitt öðruvísi en að hið opinber leggi til kennara og skólahús. Ég veit vel, að margir líta til gamalla tíma, þegar fræðsla barna fór fram í heimahúsum, en það er ekki til neins að búast við að slík breyt. verði á högum manna, að þeir tímar komi aftur. Ég get vel skilið það, að margir sakni þeirra tíma, þó að ég telji, að margt, sem um þá er sagt, séu aðeins gyllingar, því þó að segja megi um einstaka barn, að það hafi fengið góða fræðslu í heimahúsum, þá voru hin þó mörg, sem litla fræðslu fengu, en það vill oft gleymast þegar talað er um þetta. Það hefir sýnt sig, og það er ábyrgðarleysi að loka augunum fyrir því, að undirbúningur undir skólakennsluna fæst í mörgum tilfellum annaðhvort lítill eða alls enginn í heimahúsum. Það þýðir ekki lengur að vitna til kennslunnar á heimilunum almennt. Og ef menn játa þessa staðreynd, þá er ekki annað að gera en að mæta henni, og henni verður ekki mætt á annan veg betur en þann, sem gert er ráð fyrir í frv., eða með því að færa skólaskyldualdurinn niður, og það er gert kleift og mögulegt með því að lengja starfstíma kennaranna á hverju ári, þannig að ekki þurfi samtímis að leggja til kennslu og húsrúm fyrir öll börn 7–14 ára, heldur sé því skipt niður á vissa hluta ársins, sem 10–14 ára börn eru í skólanum, og svo séu yngri börnin á öðrum tíma. Á þann hátt má nota kennslukrafta og húsrúm betur en ella. Það er enginn vafi um það, að það, sem mér skildist, að hv. þm. færði frv. aðallega til foráttu, sem sé ákvæði 6. gr. um námstímann, er að minni hyggju aðalkostur frv. Hv. þm. telur, að námstími barna á aldrinum 7–9 ára, sem samkv. frv. á að vera minnst 33 vikur á ári, eða 300 kennslustundir, sé allt of langur. Það er ekki gert ráð fyrir þessu við aðra skóla heldur en heimangönguskóla, en þeir eru aðallega í kaupstöðum og stærri þorpum. Ég skal viðurkenna, að þetta er atriði, sem alltaf má deila um, hvað réttilega sé skammtaður tíminn í þessum efnum. En ef á það er litið, að á þessum 33 vikum eru börnunum ekki ætlaðar nema 500 kennslustundir, eða 15 á viku eða 2½ stund á dag, og þar með talin öll kennsla, bæði bókleg og fræðandi kennsla í öðru, þá get ég varla skilið, að nokkur maður telji, að börnunum sé íþyngt á þessum aldri með því að troða í þau fræðslu. En fyrir það, að þessi ár eru notuð til undirbúnings skólaaldursins 10–14 ára, þá er hægt að halda áfram að hafa tímann 30 stundir á viku, því þá eru börnin það betur undirbúin, að það má dreifa kennslunni meira, ef svo mætti segja, þar sem minni stund er lögð t. d. á lestur, sem því miður tekur mjög mikið af tíma barnanna milli 10 og 14 ára aldurs. Hvað snertir heimavistarskólana í sveitum, þá er ætlazt til, að námsvikur séu aldrei færri en 88 samtals á aldrinum 7–14 ára. Ég verð að segja það, að ég tel, að þetta lágmark, 11 vikur á ári að meðaltali, sé mjög lágt sett. Hvernig þetta færist til milli ára, er framkvæmdaratriði, sem liggur í höndum fræðslumálastjórnar, en ég verð að telja, að kröfurnar séu lágt settar, ef það er talin óhæfileg ítroðsla fyrir börnin að ætla þeim 88 vikna kennslu á aldrinum 7–14 ára.

Þá segir hv. þm., að í þessu frv. sé ekkert gert til þess að draga úr kostnaðinum við kennsluna í þá átt að fjölga þeim börnum, sem hver kennari á að sjá um. Hann vitnaði í það, að þetta er gert í bráðabirgðaákvæðunum, þar sem segir, að 50 börn á aldrinum 7–l4 ára eigi að koma á einn kennara við heimangönguskólana, en 40 börn á aldrinum 10–14 ára við heimavistarskólana. En ástæðan til þess, að ekki er farið lengra í þetta, er að verulegu leyti sú, að misræmi skólanna er þannig, að ekki er hægt að koma þessu við. Hinsvegar get ég vel hugsað mér, að þetta væri hægt, ef undirbúningskennslan væri í sæmilegu lagi. Ef börnin á aldrinum 7–9 ára fengju öll jafnan undirbúning, þá mundi þetta vera hægt. En nú sem stendur er þetta ókleift, því börnin eru svo misjafnlega undirbúin. En ég sé ekki, að þetta sé atriði, sem skiptir verulegu máli í þessu sambandi.

Þá sagði hv. þm., að ákvæði 3. gr. frv. væru sér torskilin. en þar segir svo: „Skólanefnd má veita heimild til fullnaðarprófs börnum, sem eru yngri en 14 ára, þegar tryggt er, að barnið njóti framhaldsfræðslu til fulls 11 ára aldurs.“ Ég fæ ekki séð, að þetta sé forskilið. Ég get ekki séð, að það sé neitt torskilið, að barn, sem lokið hefir fullnaðarprófi í barnaskóla 12 ára, eigi að njóta framhaldsnáms til 14 ára aldurs. Ef barnið ætlar að hverfa að öðru námi, þá er þetta skilyrði uppfyllt. (JJ: En það verður að fara í skóla). Ef ekki er gert ráð fyrir því, að 12 ára barn sé í skóla, hvað á það þá að gera? Ekki getur það tekið upp starf. Og ef það stundar ekki nám, hvað á það þá að gera? Ég held, að þetta ákvæði sé ekki torskilið, ef það er athugað vel og með fullri sanngirni. Það er engin ástæða til þess að ætla, að krafa hlutaðeigandi í þessu efni muni verða meiri en eðlilegt er og sanngjarnt í alla staði.

Þá telur hv. þm., að 4. liður 4. gr., um brotareikninginn, sé ákaflega varhugaverður, og mér skilst, að það sé ein aðalhneykslunarhella hv. þm. Ég get ekki verið sammála hv. þm. um það, því að ég tel, að reikningur sé sú grein, sem hvað mesta áherzlu eigi að leggja á í barnaskólunum. Ég veit, að ýmsir eru sömu skoðunar og hv. þm. um það, að brot eigi ekki heima í hinu daglega lífi, en dæmið, sem hv. þm. nefndi um jörðina, sýnir, að það er ekki gott að sleppa þeim með öllu. Ég held líka, að það sé ástæðulaust að óttast það, að þetta verði til erfiðleika fyrir börnin, þar sem skólaaldurinn er lengdur og gert ráð fyrir því, að börnin séu 10 ára betur undirbúin en nú er. Hv. þm. veit, að einn aðalannmarki kennslunnar á aldrinum 10–14 ára er sá, að svo mikið af þeim tíma fer í það, sem börnin eiga að kunna, þegar þau koma í skólana, lestur, skrift og undirstöðuatriði reiknings. Ef þessi undirbúningur er fenginn, þegar börnin eru 10 ára að aldri, þá er enginn vafi á því, að í flestum tilfellum verður þetta með reikinginn mjög auðvelt. Það kann að vera, að einstaka börn séu þannig gerð, að þeim sé mjög torvelt að læra reikning. En ég hefi fáa krakka hitt, sem eiga örðugt með að læra reikning. En það mætti telja upp fleiri námsgreinar, og þar á meðal námsgreinar, sem hv. þm. telur upp í sínu frv., sem einstaka börn eiga alltaf mjög erfitt með að læra. Það eru t. d. til börn, sem eiga ómögulegt með að teikna lauslegan uppdrátt. Ég tala nú ekki um það, að margir geta ekki lært nótur eða sungið lag. Ég held, að ég hafi einn vetur verið að reyna að læra söng, en ég gat ekki lært eitt einasta lag, og ég veit, að svo mun vera um fleiri. Svo að það er ekki neitt sérstakt með reikninginn. Annars hefi ég við lauslegan samanburð á þessu frv. og frv. hv. þm. á því, hvað 14 ára börn eiga að kunna, ekki getað fundið verulegan mun á því í þessum tveim frv. Í frv. hv. þm. er talið upp, að barnið eigi að kunna utanbókar ekki minna en 20 íslenzk kvæði, frumsamin eða í þýðingu, og 5 sálma, sem bæði hafa trúarlegt og bókmenntalegt gildi.

Þetta sýnir nú, að stærðfræðin er nokkurs metin í þessu frv. hv. þm.

Ég hefi áður drepið á lengingu skólahaldsins. Ég tel þessa lengingu tryggingu fyrir því, að börnin og foreldrarnir fái eitthvað grætt á þessu frv. Börnin á því, að þeim er tryggð öruggari fræðsla en nú er, og foreldrarnir, sem vilja tryggja börnum sínum fræðslu, sem er því samfara að kaupa sérstaka kennslu handa börnunum.

Ég held, að ræða hv. þm. hafi ekki gefið tilefni til fleiri aths., og ég get því látið þetta nægja.