02.05.1936
Efri deild: 61. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1058 í B-deild Alþingistíðinda. (1615)

73. mál, fræðsla barna

*Guðrún Lárusdóttir:

Við 1. umr. þessa máls hreyfði ég nokkrum atriðum, sem ég gerði mig ekki ánægða með. Þau atriði voru aðallega viðvíkjandi heimavistarskólunum í sveitum. Ég er þeirrar skoðunar, að ef til þess kæmi, að börn almennt í sveitum færu að vera í heimavistarskólum, gæti það komið til með að hafa talsvert alvarlegar afleiðingar. Ég sé þá hættu t. d., að börn, sem á þann hátt fara frá heimilum sínum, mundu ef til vill slitna úr sambandi við heimilið. Og það gæti orðið til þess að ýta undir los og flótta úr sveitunum. Því að það, sem við fyrst og fremst verðum að leggja stund á, ef við ætlum að varðveita sveitamenninguna, það er að hlynna að heimilunum. Og ég sé ekki annað en að það, að sópa börnunum burt af heimilunum vetur eftir vetur, hafi þær afleiðingar, sem ég drap á. Ég tel varhugavert að slíta það samband, sem ég tel helgasta sambandið, sem til er — sambandið milli foreldra og barna. Ég tel, að það samband þurfi að vera gott og að það sé aðalundirstaðan undir góðu uppeldi. Það er þetta, sem gerir mig dálítið myrkfælna við þessa hugmynd, að sanka saman börnum úr fjarlægum héruðum. Þetta á sérstaklega við þar, sem um góð heimili er að ræða, og sem betur fer á íslenzka þjóðin ennþá úr að velja góðum heimilum. Mér virðist þess vegna vera full ástæða til, að fólkið sjálft fái að ráða, hvenær og hvort þetta skuli gert. Ég sé, að hv. þm. N.-Ísf. hefir borið fram brtt., sem styrkir þessa mína skoðun. Ég verð að segja það, að yfirleitt finnst mér í þessu frv. fulllítið tillit tekið til þeirra aðiljanna, sem mest tillit ætti að taka til, sem eru börnin á heimili þeirra. — Það eru nokkur fleiri atriði, sem ég tel ábótavant í þessu frv. Í 3. gr. er talað um börn, sem skólanefnd gæti varnað skólavistar. Hvað á að gera við þessi börn? Þarna eiga hlut að máli börn, sem að dómi skólalæknis, skólastjóra eða kennara eru svo vangæf, að þau eru óhæf talin til að sitja með öðrum börnum í skóla. Og hinsvegar eru börn, sem að dómi þessara aðilja eru svo sljó, að þau eiga erfitt með að fylgjast með hinum börnunum. Frvgr. segir aðeins, að þessum börnum skuli varnað skólavistar. Eftir frv. á ekkert annað við þau að gera. Í frv. upphaflega var svo gert ráð fyrir, að ætla þessum börnum, a. m. k. erfiðu börnunum, dvöl á heimilum, sem ætti að stofna í þessu skyni, en þetta hefir verið fellt þaðan burtu og ekkert verið látið koma í staðinn. Meðan ekki blæs byrlegar fyrir þessu máli en í frv. gerir, þá sé ég ekki, að unnt sé að samþykkja þetta svona eins og það liggur fyrir, því að vissulega verður að sjá þessum börnum fyrir forsvaranlegu uppeldi og áhrifum, sem ætla mætti, að yrði þeim til bjargar og gerðu þau hæf til þess að lifa og verða menn með mönnum í okkar þjóðfélagi. Í 20. gr. er að vísu talað um, að þegar barn er orðið 14 ára og það kemur upp, að það hefir ekki náð þeirri kunnáttu, sem krafizt er, þá eigi skólanefnd að sjá því fyrir fræðslu, sem telja má nægilega til, að barnið geti tekið fullnaðarpróf. Ég vil bera þetta saman við það, sem stendur í núgildandi fræðslulögum. Þar segir í 19. gr.: „Reynist barn, sem er yngra en 14 ára, svo vankunnandi, að sterkar líkur séu til, að það nái eigi lögskipaðri kunnáttu, áður en það er 14 ára, ber skólanefnd að gera ráðstafanir til, að lögð sé við það meiri rækt en áður ...“ Hér er mjög ólíkt að orði komizt. Í núgildandi l. er gert ráð fyrir því, að barnið sé tekið sérstaklega til undirbúnings, áður en það er 14 ára, en í frv. er talað um að taka það ekki fyrr en það er orðið 14 ára. Þá fyrst á að lappa upp á það. Nú sé ég ekki annað en að kennara, sem búinn er að vera kennari barnsins kannske í nokkur ár, ætti að vera það innan handar að sjá, að barnið geti ekki fylgzt með hinum, og ætti hann þá að geta tekið það til hliðar, en ef það er ekki nokkur leið, þá sé ég ekki annað en að fræðslumálastjórnin verði að sjá slíkum börnum fyrir sérstakri kennslu.

Ég vil segja það, að það er sízt ofmælt, sem hv. form. menntmn. sagði um fátæklegan árangur reikningskennslunnar. Kennari, sem hefir stundað reikningskennslu í 35 ár og kennt á þriðja þús. ungs fólks á aldrinum frá 16 til 25 ára, hefir sagt mér, að það sé hreinasta undantekning með fólk á þessum aldri, sem ekki hefir notið annars skólanáms en í barnaskólunum, að það skilji nokkra vitund í t. d. almennum brotum og deilingu tugabrota. Þó eru það vel flestir, sem geta reiknað samlagning og frádrátt almennra brota, þegar dæmi eru sett upp, en hvorki margföldun né deilingu.

Þessi maður, sem hefir mikla reynslu í þessu efni og getur vel gert sér grein fyrir, hvað hér er um að vera, segir, að reikningskunnáttunni hafi enganveginn farið fram á þeim tíma, sem af er þessari öld, og oftast virðist sér hún lökust úr þeim skólum, sem fjölsóttastir eru. Setur hann það í samband við það, að of háar kröfur séu gerðar til barnanna. Þau missa kjarkinn og eru búin að fá vantraust á sjálfum sér og álíta, að þau geti alls ekki lært þetta fag.

Það er einkennilegt, að í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að börnum séu kennd almenn brot á undan tugabrotum. Tugabrotin eru nær hinu daglega lífi, og ætti því frekar að hafa þau á undan heldur en á eftir.

Ég hefi farið hér fljótt yfir sögu, og þeir gallar, sem á frv. eru, gera það að verkum, að ég get ekki fylgt því óbreyttu.

Ég hjó eftir því í dag, að hæstv. ráðh. talaði um það, að undirbúningsmenntun barnanna, áður en þau kæmu í skólann, væri vanrækt, þannig að þegar þau kæmu í skólann, færi svo langur tími í að undirbúa þau, svo að þau gætu tekið þátt í skólanáminu. Þetta kann vel að vera, en mjög er það sorglegt, og ég á erfitt með að trúa því, að ekki sé hægt að ráða bót á þessu.

Hvaða gagn er af skólamenntuninni, sem svo mikið er gumað af hér á landi? Unga fólkið fer til héraðsskólanna einkum af sveitaheimilunum. Getum við ekki vænzt þess, að þetta unga fólk, þegar það kemur af héraðsskólunum, veki almennan áhuga fyrir þekkingu á öllum sviðum og það af sjálfsdáðum reyni að undirbúa yngri systkinin undir að ganga þessa sömu braut?

Maður man þá tíð, að það þótti hreinasta hneisa, ef börnin voru ekki orðin læs eða stautandi 6 til 7 ára gömul, og voru ekki allir sprenglærðir kennarar, sem þeim kenndu. Það var kannske gömul amma eða gamall afi, sem kenndu þeim að stafa. Þetta blessaðist vel, og það voru ekki mörg börn á mínum æskuárum, sem ekki voru læs á þessum aldri, sem ég tiltók. Við getum líka hugsað okkur, að börnunum hafi ekki þótt neinn heiður að því að standa frammi fyrir sóknarprestinum, þegar hann kom til þess að láta þau lesa, og geta ekki stautað neitt.

Ég býst við að geta fylgt öllum brtt. hv. þm. N.-Ísf., því að þær ganga einmitt í þá átt, sem ég vildi, að frv. væri, ef að lögum yrði. En mér sýnist, að þetta frv. hefði þurft að vera í tvennu lagi. Önnur löggjöf fyrir sveitirnar og önnur fyrir kaupstaðina. Það er svo ólík aðstaða í sveitum og kaupstöðum í þessu efni.

Kaupstaðabörnin koma úr skólunum á vorin og hafa lítið að gera annað en að ólmast látlaust á götum bæjarins, því að enn sem komið er er allt of lítið til af leikvöllum. Mikill hluti af þessum tíma barnanna fer því í að ólmast á götunum, og oft hefi ég heyrt foreldra kvarta yfir því, að börnin vantaði starf. Þess vegna sýnist mér mjög ákjósanlegt, ef hægt væri að koma því í það horf í kaupstöðunum, að börnin ættu kost á áframhaldandi námi eftir því, sem íbúarnir óskuðu og þörf væri á.

Í sveitunum er engin þörf fyrir slíkt. Börnin taka sinn barnslega þátt í störfum heimilanna og er á þann hátt forðað frá öllum þeim hættum, sem skólabörn kaupstaðanna geta ekki komizt hjá.

Með tilliti til þessa hefir okkur í meiri hl. menntmn. hugkvæmzt að ráða nokkrar bætur á þessu með því á sínum tíma að bera undir þingið þáltill., sem á að undirbúa og gera þetta tvennt, sem hvorttveggja er nauðsynlegt, að tryggja börnunum dálítið lengra nám og sjá kennurunum fyrir nokkru aukastarfi og nota ennfremur nokkru lengur hin dýru skólahús, sem víða eru komin í kaupstöðum landsins.

Ég hefi þá lýst viðhorfi mínu til frv. Ég harma það, að líklega er ekki hægt að fá þær breyt. inn í frv., sem ég hefði helzt kosið. Þess vegna hefi ég skrifað undir till. um það að fresta þessu máli eða víkja því frá í bili, ef það gæti komið fram á næsta þingi í því formi, sem ég gæti fellt mig betur við, og sem ég veit, að gæti orðið meir að skapi hinna mörgu foreldra, sem allajafna verður að meta mikils. þegar um slíkt mál er að ræða sem þetta.