05.05.1936
Efri deild: 65. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í B-deild Alþingistíðinda. (1623)

73. mál, fræðsla barna

*Frsm. meiri hl. (Jónas Jónsson):

Ég á hér nokkrar brtt. við frv. á þskj. 536, og vil ég leyfa mér að skýra þær stuttlega, áður en fundinum verður frestað. Ég álít það sé nauðsynlegt að taka það fram í frv., hvað börnum sé almennt ætlað að vita, þegar þau eru 10 ára gömul. Það er gert ráð fyrir því í frv., að börnin eigi að vera skólaskyld frá 7 ára aldri. En það þýðir, að fjöldi foreldra í sveitunum neyðist til þess að sækja um undanþágu frá skólaskyldu fyrir börn sín. Þegar börnin eru 10 ára, á því að vera búið að kenna þeim í 3 ár í skóla, eða utan skóla samkvæmt undanþágu. Mig grunar, að þetta ákvæði leiði til þess, að börnunum verði kennt allt of mikið á þessum aldri. Ég held, að það sé oft látið viðgangast, að börnum séu kenndar allt of erfiðar og þungskildar fræðigreinar á þessum aldri, svo sem kristinfræði, landafræði, saga o. s. frv. — Það skiptir vitanlega mestu máli, að börnin læri að lesa skýrt og hiklaust, og byrji á að skrifa hreinlega og reikna einföldustu dæmi, áður en þau eru 10 ára. Fyrsta brtt. mín lýtur að því, að þetta verði viðurkennt takmark á þeim aldri, um leið og það er fyrirbyggt, að þeim verði þá ætlað þyngra nám.

Það stendur nú í frv., að veita megi börnum fullnaðarpróf, sem eru innan við 14 ára aldur, þegar tryggt er, að barnið njóti framhaldsfræðslu til fulls 14 ára aldurs. En þessu er ekki hægt að fullnægja sumstaðar á landinu; við skulum taka t. d. í þorpi eins og Ólafsvík, þar er enginn slíkur skóli, og eins er það víða í sveitum. Mér hefir verið bent á það af einum barnakennara, að heppilegast væri að ákveða, að börn mættu ekki taka fullnaðarpróf, fyrr en eftir 12 ára aldur. Það hefir verið litið svo á, að fræðslulögin ættu að tryggja hverju barni visst lágmark þekkingar í tilteknum fræðigreinum, enda væri því marki fullnægt við próf. Og þá er ekki ástæða til að heimta svo og svo langa skólavist af hverju barni. Hitt ætti að nægja, að halda börnum að þessu marki við fullnaðarpróf. Ég legg því til, að skólanefndum verði heimilað að veita börnum, sem eru yngri en 14 ára, burtfararpróf, ef þau hafa náð samskonar þroska og börn hafa almennt á 14 ára aldri.

Þá er samkvæmt 3. brtt. minni lagt til, að við fullnaðarpróf geti barnið lesið móðurmálið „hljóðvillulaust“. Það þykir ef til vill ekki ástæða til að bæta þessu orði inn í lögin, en ég vil með þessu benda kennurum á, að þetta er nú á tímum eitt hið hættulegasta mállýti og algengast hirðuleysi við framburð íslenzkunnar. — Ég hefi áður talað um reikninginn, og þá sérstaklega brotareikning, og þarf ekki að fjölyrða um hann nú. — En út af brtt. hv. 10. landsk. um að börnum sé veitt tækifæri til að nema prósentureikning, þá vil ég af því tvennu heldur halda honum en brotum, því að prósentureikningur er léttari fyrir börn. Hinsvegar geri ég ráð fyrir, að þorri unglinga læri brot í ungmenna- og héraðsskólunum.

Í fræðslulögunum er heimilað að kenna fleiri námsgreinar í barnaskólum en krafizt er til fullnaðarprófs, og er 5. brtt. mín, um kennslu í útlendum tungumálum, miðuð við það. Sumsstaðar í kaupstöðum, og jafnvel í sveitum líka, eru börnum á skólaskyldualdri kennd erlend tungumál. Þetta getur í sjálfu sér verið gott; þegar börnin eru greind og hafa góðar ástæður að öðru leyti, þá má vera, að þau læri málin sér til gagns. En þó er það áreiðanlega rétt, sem hér er tekið fram í till. minni, að áður en barnið fer að læra erlend tungumál, þá verður það að vera svo vel að sér í móðurmálinu, að það geti skrifað það ritvillulítið og auk þess kunnað nokkuð í málfræði, sérstaklega greiningu orða. Það er eitt frumskilyrðið fyrir því, að tungumálanám verði því að gagni.

Ég minnist þess, að það kom einn sinni á heimili mitt bréf frá vel menntaðri konu hér í bænum, og í því var kort með ósk um gleðilegt sumar, en stafsetningin var „Gliðiligt Sömar!“, með upphafsstaf í orðinn sumar. Sennilega af því að nafnorð í dönsku eru með stórum staf. Þetta dæmi ber vott um hljóðvillurnar, sem alltaf er verið að berjast við, og svo áhrifin frá dönskunáminu. (MJ: Hljóðvillurnar hafa viðgengizt frá upphafi). Já, en það er þó ekki búið að viðurkenna þær í fræðslulögum eða stafsetningarreglum íslenzkunnar. (MJ: Málið er alltaf að breytast). — Þá kem ég að ákvæðum frv. um dvöl barna í heimavistarskólum. Það er gert ráð fyrir því, að skólaskyld börn í sveitum eigi að vera 3–4 mánuði í heimavistarskólum árlega. Þetta er allt of kostnaðarsamt ákvæði, og vinnur á móti þeim tilgangi, sem lögunum er ætlað að ná. Þegar komið er með þennan lagastaf út í skólahéruðin í sveitunum og sagt við foreldrana, sem nú eru að basla þar við farkennslu: „Við krefjumst þess, að þið hafið börnin í heimavistarskólum 4 mánuði á hverjum vetri í 4 ár!“ — þá svarar sveitarfélagið: „Já, við eigum ekkert við slíkt skólahald. Sveitarsjóðurinn rís ekki undir því og fólkið hefir ekki efni á því.“ — Þá verður vitanlega gripið til undanþáguheimildar frá skólahaldi. En um leið er þá búið að smeygja fjötrinum á 10–14 ára gömul börn um minnst 16 vikna námstíma á ári. Þessi undanþáguheimild í frv. þarf að vera rýmri. Og í 6. brtt. minni er lagt til, að dregið verði úr þessari 4 mánaða námsskyldu. En hún er á þá leið, að aths. á eftir 6. gr. urðist svo: „Heimilt er þó skólanefnd að veita undanþágu frá ákvæðum e-liðs í samráði við forstöðumann heimavistarskólans, ef fullvíst þykir, að barnið öðlist engu að síður þá þekkingu, sem heimtuð er til fullnaðarprófs“, og er þá meiningin, að börnin geti hert eitthvað af námsgreinunum heima.

Þá vil ég skýra dálítið 7. brtt., sem er við upphaf annars málsl. í ákvæðum til bráðabirgða. Þetta er talsvert þýðingarmikið atriði. Í frv. er gert ráð fyrir, að einn kennari geti annazt kennslu 50 barna við heimangönguskóla. Og í stórum barnaskólum, eins og hér í Rvík, er 7 ára skyldunám fyrir börn og ætlazt til, að 50 börn, 7–10 ára, komi á hvern kennara. — En annarsstaðar á landinu, t. d. í þéttbýlum sveitum, þar sem börn eiga að byrja skólagöngu 10 ára, þar á ekki að vera hægt að færa þetta meira saman en svo, að hver kennari hafi 30 börn til kennslu. Í þessu er beinlínis mótsögn. Því ef reiknað er með, að í kaupstöðum geti hver kennari haft 50 börn, þá verður engu síður hægt að ganga út frá því, að börnin læri eitthvað heima hjá sér í sveitunum. Þess vegna held ég því fram, að einn kennari geti annað um 50 börnum. Það byggi ég á því, að í mjög mörgum kaupstöðum er börnum yfirleitt ofboðið með skólasetu. sérstaklega þar, sem eru léleg húsakynni, lítil áhöld eða lélegt bókasafn. Þegar svo kennarinn er orðinn þreyttur og slitinn, þá er langt frá því, að það sé fagnaðarefni fyrir börnin að eiga endilega að vera allan daginn í skóla við bóklegt nám. Það liggja þess vegna í till. minni mótmæli gegn því, að hvert barn milli 10 og 14 ára eigi að vera á tíma í skóla á dag við bóklegt nám. Í því efni vísa ég til þess, sem ég sagði við 1. umr. málsins, að reynslan af þessari skólasetu væri allt annað en góð. Því að það er mála sannast, að langminnstur áhuginn er fyrir íslenzkum bókmenntum fornum og nýjum þar, sem börnin eru lengst í barnaskóla. Ég er ekki með þessu að ásaka kennarana. Ég viðurkenni, að þeir hafa erfiða aðstöðu. Það er illa að þeim búið. Við skulum hugsa okkur, að þegar börnin, hundruð eða jafnvel þúsund, eins og hér í Reykjavík, hafa yfirfarið landafræði Mortens Hansens sjö sinnum, hvað mikinn áhuga þau hafa fyrir þessari beinagrind í sjöunda sinnið. Þó að þessi bók sé ekki notuð nú, þá er hún ekki lakari en mörg önnur kennslubókin. — Ég veit, að svona hefir ástandið orðið víðar í skólum landsins vegna þess, hve lítil tök eru á því að gera kennsluna fjölbreyttari.

Ég sé ekki, þegar ég lít yfir 4. gr. þessa frv., að það sé mikil þekking, sem er heimtuð af börnunum. Ég álít það ekki skaða.

Ástæðan til þess, að ég gerði ekki fleiri brtt. við frv., var sú, að ég álít, að það hljóti að verða tekið fyrir aftur kannske á næsta þingi. Þess vegna sé ég ekki ástæðu til að koma með till., sem mjög verulegu máli skipta.

Menn hafa haldið því fram við mig, að ef þessi till. verði samþ., að 50 börn komi á hvern kennara, verði skólarnir, a. m. k. í þorpum, látnir standa lengur, og þorpin verði því að borga þann kostnað úr sínum vasa. Ég álít, að þorpin geti komizt hjá því, og í minni till. liggur það, að kennarinn geti búið þessi 50 börn undir fermingu á fjórum vetrum.

Þá er hér ein brtt., sem er nýmæli, sem lýtur að því að hjálpa börnum, sem eru iðjulaus að sumrinu, sem ekki komast í sveit og lifa lifi sinn á götunni. Ég hefi stungið upp á því, að þau væru undir eftirliti skólans, þó ekki við bóklegt nám, heldur verklegt nám og íþróttir. Ég veit, að þetta eru aðeins frumdrættir, og býst við, að það mætti bæta mikið, en af því að þetta er aðeins tilraun, þá orðaði ég till. mjög varlega. Þetta verður ekki gert nema þar, sem fræðsluráð samþykkir það og kennslumálaráðh., og þar að auki aðeins ákveðið til eins árs í senn. Þetta er sjálfsögð varasemi af því að ég efast ekki um, að þó að þetta sé flutt nú, þá verði ekki hægt að komast hjá því að taka þessa hugmynd upp.

Það er ómögulegt að hugsa sér að halda því áfram að hafa nær þúsund börn, eins og maður sér hér í Reykjavík, eftirlitslaus og iðjulaus á götunni og kennarana atvinnulausa þann tímann. a. m. k. ekki sinnandi börnum. Ég hefi gert ráð fyrir því, að kennararnir yrðu með börnunum þennan tíma að sumrinu, og á þann hátt gæti starfstími kennaranna orðið 10 mánuðir. Það er misprentun hér í till. Þar á að standa 44 vikur, en er ekki nema 4. Þetta verður leiðrétt.

Þá hefi ég komið með brtt., sem ekki er ósvipað hugsuð og kemur fram hjá hv. 10. landsk., þar sem hann leggur til að hafa varasemi í því ofni, að skólastjórum og kennurum við heimavistarbarnaskóla skuli ekki veittur starfinn fyrr en 2 árum eftir að þeir hafa verið settir. Það má vera, að fólkið sé búið að kynnast þessum mönnum það eftir 2 ár, að það sjái, hvern mann þeir hafa að geyma, en ekki legg ég mikið upp úr því.

Það má búast við, að heimavistarskólum fari fjölgandi, a. m. k. ætlast þeir til þess, sem standa að þessu frv. Nú getur svo farið eftir frv., að í einhverri sveit, þar sem heimavistarskóli er, séu börnin hjá kennaranum 4 mánuði á ári í 6 til 7 ár, og fólkið er skylt til þess að láta börnin svona lengi.

Við vitum, að katólskir klerkar hafa tekið það ráð að viðurkenna ekki hjónaskilnað, en lúterskir menn hafa komizt að þeirri niðurstöðu, þó að fólk sé yfirleitt skynsamt og viðhafi fulla varasemi við byrjun hjúskapar, að færa löggjöfina meira og meira í þá átt að gera hjónum mögulegt að skilja. En hliðstætt hinum katólsku mönnum hugsa þeir sér, sem að þessu frv. standa, að fólk í einni sveit sé eilíflega bundið í hjúskap, ef svo mætti segja, við þennan heimavistarskólakennara, sem búið er að skipa eftir tveggja ára reynslutíma.

Ég ætla í þessu sambandi að segja hv. d. frá einu atviki, sem mér er kunnngt um.

Það vildi til fyrir nokkrum árum norður á Akureyri, að forstöðumaður barnaskólans, mjög vandaður maður og afburða námsmaður, Steinþór Guðmundsson, þótti nokkuð harður við börnin. Foreldrar margra barnanna komust að þeirri niðurstöðu, að hann gæti ekki verið skólastjóri. Ástandið var orðið þannig á Akureyri, að barnaskólinn var orðinn mjög slæmur. Nú kom upp það stóra spursmál, hvort ætti að láta manninn fara. Fólkið fann til þess, að þó að þessi maður ætti marga góða kosti, þá gat hann ekki verið þar. Skólanefndin fann til þess líka og skrifaði mér og lagði til, að manninum væri vikið frá. Nú er sama togstreitan hér í hv. d. eins og í þessu tilfelli. Spurningin er, hvort eigi að meta meira, börnin eða kennarann. Niðurstaðan af þessari deilu á Akureyri varð sú í bili, að allir kunnugir skólastjóranum kenndu í brjósti um hann, og eftir að búið er að kæra til kennslumálastj. dregur skólanefndin sig í hlé og vill taka aftur það, sem hún var búin að gera. Fræðslumálastjórinn leggur líka á móti því, að manninum sé vikið frá. Að síðustu valt það á mér sem kennslumálaráðh., hvort ætti að draga taum kennarans eða barnanna. Ég fann það, að það var rangt gagnvart Akureyringum að láta þennan mann vera skólastjóra áfram, og vék honum frá. Ég fékk í staðinn mann, sem var mér að vísu lítið kunnugur, en er þó einhver bezti barnaskólastjóri landsins. Niðurstaðan varð því sú, að þótt margir ágætir barnaskólar séu á landinu, þá er viðurkennt, að skólinn á Akureyri undir stjórn þessa manns er einhver sá allra fremsti. Það er viðurkennt af öllum, sem til þekkja, að líf barnanna á Akureyri hafi tekið stórfelldum breyt. til bóta. Í staðinn fyrir þunglamalegan og leiðinlegan skóla er kominn skóli, sem börnin eru ánægð með og kennarinn er ánægður með og foreldrarnir.

Ég tek þetta dæmi til þess að sýna fram á, hve skakkt það er að halda því fram, að það eigi að meta meira ímyndaða hagsmuni starfsmanns, sem þúsundir manna eiga að búa við, heldur en hagsmuni allra annara, og rígbinda þennan mann við starfið alla lífstíð. Ég veit, að þessu dæmi verður ekki mótmælt. Enginn treystir sér til þess að mótmæla því, að rétt hafi verið að láta vilja barnanna og foreldranna ráða í þessu efni. Ég skal játa, að komið geti það fyrir í ýmsum tilfellum, að reynt verði að misnota þessa till. mína, t. d. á þann hátt, að þetta ákvæði verði notað til þess að koma frá pólitískum andstæðingum. En skólanefnd má ekki segja upp kennara, nema samþ. kennslumálaráðh. komi til. Það eru því tveir dómstólar í þessu efni.

Ég skal nefna tvær tegundir starfsmanna, sem búa við miklu meira réttleysi, en það eru kaupfélagsstjórar annarsvegar, en héraðsskóla- og gagnfræðaskólakennarar hinsvegar, einkum þó héraðsskólakennarar. Skólan. getur sagt þeim kennurum upp með nokkurra mánaða fyrirvara.

Í öllum kaupfélögum landsins er hægt að segja kaupfélagsstjórunum upp með nokkurra mánaða fyrirvara. Það getur hent sig, að þessi heimild sé notuð, en það kemur afarsjaldan fyrir. Menn eru yfirleitt svo góðsamir, og það eru miklu meiri líkur til þess, þó að væri yfirdrifin ástæða til þess að segja barnaskólastjóra upp, að það yrði ekki gert. Lögin um héraðsskólana eru frá 1928, og ég veit ekki til, að þetta ákvæði hafi í nokkrum skóla verið misnotað eða yfirleitt notað. En það er ákaflega mikið öryggi í því fyrir skólana að vita, að ef óheppilegur maður kemst að þeim, þá sé hægt að losna við hann.

Ég skal koma með dæmi, sem hreyft var hér fyrir skömmu í d. Hér austur í sýslum eru mjög myndarlegir heimavistarskólar, tveir á heitum stöðum og tveir á köldum stöðum. Tveir af þessum skólum eru gamlir, en tveir yngri. Þessir nýrri skólar voru byggðir með miklum fórnum af hálfu fólksins. því að hvor um sig er fyrir einn hrepp. Meðal annars gengust nemendur frá Laugarvatnsskóla mikið fyrir byggingu annars þeirra. Fólkið í þessari einu sveit lagði á sig 1000 eða 1200 dagsverk við byggingu skólans og það framkvæmdi þessa skólabyggingu með svo miklum áhuga, að sveitin er nálega skuldlaus. Svo fá þessar sveitir unga, góða og duglega menn að skólunum. En það kemur bara eitthvað það fram í fari þessara manna, að fólkið getur ekki fellt sig við þá. Og í báðum hreppunum eru alvarleg samtök um það meðal foreldra að senda ekki börnin í skólana, af því að þeir vita, að enginn vegur er að losna við þessa menn. En hvort er nú hyggilegra að láta að vilja fólksins eða ekki? Ég er viss um, að ekki er hægt að segja, að það sé af léttúð, sem fólkið vill losna við kennarana, einmitt þetta fólk, sem svona mikið lagði á sig til þess að koma skólunum upp. Nei, ég er viss um, að það er virkilegur hlutur. Maður getur hugsað sér það, hvort það muni foreldrunum ljúft, þegar á að skylda þá til þess að láta börnin sín í 4 mánuði á ári sitja til borðs með mönnum, sem þeir ekki treysta. Ég verð því að segja, að fólkinu er gerður mikill greiði með þessari till. minni, verði hún samþ. Ég hefi gert skyldu mína í því að bera hana fram, og ég veit, að þótt hún verði felld nú, þá verður ómögulegt að standa á móti þessu til lengdar. Annaðhvort staðnar þessi heimavistarskólahreyfing í landinu, eða það verður að taka tillit til fólksins. Það sjá allir, að það er mikill munur, hvort er um heimavistarskóla eða heimangönguskóla að ræða. Ég get t. d. tekið fyrsta stóra heimavistarskólann hér á landi, Möðruvallaskólann, sem hafði mikla þýðingu fyrir Norður- og Austurland á sinni tíð. Það voru margir myndarlegir og góðir kennarar við þennan skóla, en niðurstaðan varð sú, að ekki varð sem best samkomulag milli kennaranna. Piltarnir tóku afstöðu með þessum kennaranum, en móti hinum. Ég kom að þessum sama skóla, eftir að hann var kominn til Akureyrar. Þá var hann hættur að vera heimavistarskóli, og bar lítið á þeim erfiðleikum, sem bar á á Möðruvöllum. Var skólalífið því tiltölulega gott.

Einn mikill enskur sagnfræðingur sagði einn sinni, þegar hann var að fara til Englands, að það væri hvergi hægt að verða eins mikið til þæginda og óþæginda eins og á skipi í langri sjóferð. Það er líkt með heimavistarskólana og þessar löngu sjóferðir. Þess vegna ber ég þessa till. mína fram í fullri alvöru, og hv. þm. verða að gera það upp við sjálfa sig, hvort beri að meta meira foreldrana og börnin eða kennarana. Það eru ekki til nema tvö fordæmi fyrir þessu ákvæði, annarsvegar kaupfélagsstjórarnir, en hinsvegar héraðsskólakennararnir. Hefir það gefizt vel í báðum tilfellunum. En ég geri glöggan greinarmun á heimavistarskólum og heimangönguskólum og hefi hagað till. minni eftir því. Það er allt annað með heimangönguskólana, og vil ég ekki vera mótgangsmaður kennarastéttarinnar að því, er þá snertir, úr því að hún leggur svo mikið upp úr þessu atriði. Ég vil ekki ganga á móti kennarastéttinni, nema þar sem það hefir óhjákvæmilega þýðingu.