28.04.1936
Efri deild: 58. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1091 í B-deild Alþingistíðinda. (1646)

114. mál, heimilisfang

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég kysi heldur, að þessu máli yrði frestað, þangað til hv. 1. þm. Skagf., sem hefir samið það, verður viðstaddur. Ég get ekki fallizt á frv. eins og það er, þótt ég játi, að þörf sé á fastari löggjöf um heimilisfang manna heldur en er, með tilliti til útsvarsgreiðslu, framfærsluréttar, tryggingarskyldu o. s. frv. En mér finnst ekki gengið hér svo frá þessu máli sem þörf er á. Ég held, að ekki sé hægt að ákveða nægilega vel um þetta í einum lagabálki um heimilisfang. Reglan er sú hér, að hver maður megi velja sér það heimilisfang, sem hann vill, nema ef það er gert til þess að flýja hærri skatta. Ýms mál af þessu tægi hafa verið fyrir dómstólunum, og þar hafa verið lagðar línur, sem fara verður eftir, sbr. mál eins borgara hér í bænum, er taldi sig til heimilis á Kolviðarhóli, sem dæmt var í vetur, eins og kunnugt er.

Eftir því, sem ég veit bezt, er ekki hliðstæð löggjöf til í nágrannalöndunnm, þar sem í einni heildarlöggjöf mun vera mjög erfitt að kveða á um öll þessi atriði. Hinsvegar hafa þau svokölluð „Folkeregister“, þ. e. manntöl, miklu nákvæmari en hjá okkur, þar sem ásamt ýmsum öðrum upplýsingum er auðvitað sagt, hvar maðurinn telur sig til heimilis. En um hið rétta heimilisfang ákveða dómstólarnir, ef til kemur, svo sem ef um rétt til framfærslu er að ræða. rétt til tryggingar eða skyldu til útsvarsgreiðslu. — Ég teldi réttast að láta þetta mál bíða næsta þings. Hér er fyrst og fremst stefnt að því, að hver maður greiði útsvar á sínum rétta stað. En þá hlið málsins álít ég, að réttast sé að athuga í sambandi við útsvarslögin á næsta þingi.