30.04.1936
Neðri deild: 60. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1094 í B-deild Alþingistíðinda. (1666)

126. mál, sala Hamra við Akureyri

*Guðbrandur Ísberg:

Ég vil leyfa mér að þakka hv. allshn. fyrir flutning þessa máls. — Um frv. þetta er ekki margt að segja. Ég vil undirstrika það, sem tekið er fram í grg. frv., að þjóðjörðin Hamrar er einskonar hólmi innan í landi Akureyrarbæjar. Lögsagnarumdæmi Akureyrarbæjar nær yfir 4 jarðir, Stóra-Eyrarland, Naust, Hamra og Kjarna. Land Hamra myndar fleyg á milli Stóra-Eyrarlands og Kjarna. Kjarni er að sunnanverðu við Hamraland, en Naustaland fyrir norðan. Að vestan takmarkast land Hamra af afréttarlandi Glerárþorps, sem er einnig eign Akureyrarbæjar. Þannig er land þetta umlukt af landi Akureyrarbæjar.

Á þessu koti, Hömrum, hefir verið heldur illbúið undanfarin ár, og mundu það verða mjög mikil umskipti til hins betra, ef bærinn fengi þetta land til umráða og ræktunar. Aðalræktunarlönd Akureyrar eru fyrir ofan bæinn einmitt í línu við Hamraland. Í Kjarnalandi og Naustalandi er stórfelld nýrækt, sem Akureyrarbær á, sem úr er eins og skorinn fleygur óræktaðs lands, sem er Hamraland.

Ég tel nú eftir atvikum sjálfsagt, að Akureyrarbær fái að festa kaup á þessu landi. Og þeir, sem annars eru á móti sölu þjóðjarða, geta að réttu lagi ekki verið á móti þessu, þar sem aðeins er farið fram á, að skipt verði þannig um eiganda þessarar jarðar, að hún að vísu hverfi úr ríkiseign, en komi þó í eign þess opinbera á annan hátt, þ. e. a. s. Akureyrarkaupstaðar. — Að endingu vil ég vænta þess, að hv. þdm. lofi þessu máli að ganga fram.