27.02.1936
Efri deild: 10. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1100 í B-deild Alþingistíðinda. (1689)

35. mál, stýrimannaskólinn

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Mér virðist þessi skilmingaleikur mesti óþarfi, a. m. k. í sambandi við þetta frv. Ég tel af ýmsum ástæðum mikla þörf á því, að þetta mál nái afgreiðslu nú þegar á þessu þingi. Það er nú svo ástatt um atvinnu við vélgæzlu og siglingar, að varla er lengi unandi við svo búið. Á því máli hafa verið gerðar breyt. á breyt. ofan, eins og hv. þm. er kunnugt. Þar úir og grúir af undanþágum, sem sumpart eru óþarfar, og sumpart er ekki hægt að veita undanþágur, þó að þörf væri á.

Hinsvegar er fásinna að hugsa sér að breyta l. um atvinnu við siglingar, nema samtímis séu gerðar breyt. á l. um skóla þann, sem búa á menn undir þessi störf. Og um þessi efni fjalla þau tvö frumvörp, sem liggja nú fyrir þessari háttvirtu deild.

Ég hygg, að hv. þm. S.-Þ. hafi ekki gert sér fyllilega grein fyrir því, hverjar þær meginbreyt. eru, sem í frv. er lagt til, að gerðar verði á gildandi 1. um stýrimannaskólann. Það kann að vera, að af þeim breyt. leiði nokkurn kostnaðarauka. En nú er fyrir alllöngu búið að samþ. á Alþingi l. um undirbúningsdeild við skólann, sem ég ætla, að með þessu frv., ef að 1. verður, verði felld niður.

Hv. þm. drap á, að hingað til hefði verið allt of lítið hugsað um, að skipstjórar fengju almenna menntun. En í sambandi við þetta fyrirhugaða fyrirkomulag á skólanum eru gerðar ráðstafanir til þess að þeir njóti meiri almennrar menntunar en hingað til hefir verið heimtað.

Það er sjálfsagt, að n. sú, sem fær frv. til meðferðar, geri sér sem gleggsta grein fyrir þeim kostnaðarauka, sem af því leiðir, og ég vænti, að sjútvn. geri það. En ég álít, að málið eigi alls ekki heima í menntmn. Þetta frv. er svo tengt frv. um atvinnu við vélgæzlu og siglingar, að það má telja sjálfsagt að vísa því til sömu n. og frv. um þau efni. Þau eiga öll heima í sömu n. Það er ekki ástæða til að ætla, að menntmn. standi betur að vígi til að athuga þetta frv. heldur en sjútvn. Hinsvegar hefir hv. sjútvn. flutt málið. Samhliða því, sem ég vænti þess, að sjútvn. fái þetta mál til meðferðar, vil ég beina því til n., að hún geri sér sem ljósasta grein fyrir þeim kostnaðarauka, sem af frv. mun leiða, ef að l. verður, og komi með álit um það efni fyrir næstu umr.