06.05.1936
Neðri deild: 64. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í B-deild Alþingistíðinda. (1704)

35. mál, stýrimannaskólinn

*Frsm. (Páll Þorbjörnsson):

Út af því, sem hv. þm. N.-Þ. sagði um fyrirvara sinn, verð ég að segja nokkur orð. Hann byrjaði á því að segjast vera mótfallinn 1. brtt., er fjallar um deildaskipun í skólanum. Nú er það svo eins og ég gat um áðan, að í skólann koma menn lítt undirbúnir, og er þessi lenging skólatímans, sem verður ca. 3–4 mánaða tími, aðallega til þess að auka undirbúningsþekkinguna. Nú eru gerðar kröfur um þekkingu í mörgum námsgreinum, sem tilteknar eru, og eftir þeirri reynslu sem ég hefi á því, hvaða kröfur eru gerðar, þá blandast mér ekki hugur um það, að fjölda og það öllum fjölda þeirra sjómanna, sem vilja í skólann fara, er nauðsynlegt að vera lengur við námið. Þess er t. d. krafizt, að þeir — auk þess að bera skyn á móðurmál sitt — kunni nokkuð í dönsku, ensku og þýzku. Og geri ég ráð fyrir, að hv. þm. N.-Þ. muni af þessu sjá og skilja, að piltar, sem ætla í stýrimannaskólann, þurfa að læra nokkuð áður en þeir koma í hann. Hinsvegar er það mjög dýrt að kaupa einkatíma, en nemendur verða að læra annarsstaðar, ef þeir eiga að taka inntökupróf. Álít ég heppilegra, að námið fari fram í skólanum sjálfum hjá þeim kennurum, sem síðan halda fræðslu þeirra áfram, og hygg ég, að það orki ekki tvímælis, að þessi breyt. er til bóta.

Þá talaði sami hv. þm. um þá breyt., að kennurum skyldi leyfilegt að gefa efnilegum nemendum undanþágu um að mega ganga undir varðskipaprófið, þó að þeir hefðu ekki hlotið hæsta próf. E. t. v. er ástæða til að gera frekari kröfur um þetta, en ég skal ekki rökstyðja þetta frekar, en vil benda á, að í frv. er strangt ákvæði um, að þessir menn þurfa að hafa tekið visst próf, en ef það sýnir sig, að það er af orsökum, sem eru óviðráðanlegar, þá er heimilt að veita undanþágu, og okkur hv. þm. N.-Þ. — og eflaust öllum hv. þm. — er kunnugt um, að það er til nokkuð í sambandi við próf, sem kallast óheppni, og þó kennararnir vilji gefa betur, þá er ekki víst, að það nægi til að ná tilskilinni einkunn undir þetta próf. En að af því geti stafað hætta að leggja þetta í vald kennaranna, fæ ég ekki séð, því þó að þeir veiti um þetta undanþágu, þá er burtfararprófið eftir.

Þá vildi ég víkja að brtt. við 19. gr. Hv. þm. N.-Þ. vill ekki hafa námskeiðin staðbundin. Ég held, að það sé óhætt að slá því föstu, að það hljóti að vera til bóta, að kennslan fari fram á vissum stöðum. Er hvorttveggja, að þá myndi fremur koma upp vísir til skólaáhalda, og eins verða fremur á vísan að róa um kennslukrafta vegna atvinnunnar á þessum stöðum, en það er mjög undir hælinn lagt um þá, ef alltaf er hringlað til. Ég býst ekki við, að það þætti heppilegt, að við legðum niður unglingaskólana í landinu, en legðum fram styrk til þeirra, sem látið væri óbundið, hvert færi, aðeins þangað, sem fólk óskaði.

Er tvímælalaust, að ef valdir eru ákveðnir staðir, þá vaxa skilyrði til betri kennslu en ella. Ég vildi því mælast til, að brtt. á þskj. 537 verði ekki samþ., því að ég get ekki séð, að þær séu til bóta, en heldur til skemmda.