24.04.1936
Efri deild: 55. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í B-deild Alþingistíðinda. (1721)

122. mál, skattfrelsi mjólkursamsölu og fisksölusambands

*Frsm. (Ingvar Pálmason):

Ég geri ráð fyrir, að ég hafi enga ástæðu til að mæla á móti því, að þetta mál verði athugað nánar í n. En ég lít svo á að því er snertir mjólkursöluna í Rvík, að þá sé það ekki annað en ágizkun, að hún komi til með að heyra undir ákvæði samvinnulaganna um útsvarsskyldu. Það getur verið, að dómstólarnir líti þannig á; ég skal ekki fullyrða neitt um það. En ef hv. þdm. álíta rétt, að þessar stofnanir verði undanþegnar útsvari, þá fæ ég ekki séð, hvað geti verið á móti því að ákveða það með lögum. Það getur vel verið, eins og hæstv. atvmrh. tók fram, að fisksölusamlagið kunni að verða rekið í öðru formi framvegis en verið hefir, og get ég því vel fallizt á, að það muni vera rétt að binda þessa undanþágu frá útsvarsskyldu við það, að hún gildi á meðan fisksölusamlagið býr við sömu skilyrði og nú. Annars finnst mér, að þeir hv. þdm., sem talað hafa, séu samþykkir efni þessa frv., og vona ég því, að það nái fram að ganga. Ég vil ekki setja fót fyrir það, að frv. verði athugað betur í allshn., og mun ég hlutast til um, að það verði íhugað þar í tilefni af þeim aths., sem hér hafa komið fram.