27.04.1936
Neðri deild: 57. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í B-deild Alþingistíðinda. (1745)

120. mál, jarðræktarlög

*Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Ég mun að þessu sinni láta mér nægja að mestu leyti að vísa til grg. þeirrar, sem frv. fylgir. Ég ætla, að í henni sé drepið nokkuð á þær höfuðbreyt., sem frv. þetta hefir í sér fólgnar á gildandi lögum um það efni, sem frv. fjallar um. Ég get þess vegna ekki séð ástæðu til þess — fyrr en þá að ég heyri raddir frá hv. þdm. — að fjölyrða um málið.

Breyt. þær, sem lagt er til, að gerðar séu, eru að vísu allvíðtækar og allmörgum atriðum vikið við frá því, sem gilt hefir, og allmörg nýmæli tekin upp, sem ekki hafa áður gilt í þessum lögum.

Ég ætla þá með nokkrum orðum að víkja að þeim atriðum, er ég hygg, að skipti allmiklu máli, og skal ég þá fyrst víkja að I. kafla, um stjórn ræktunarmálanna og verkefni B. Í. hvað þau áhrærir. Þar er gert ráð fyrir, að landbrh. hafi yfirstjórn þessara mála og sé æðsta vald, eins og tíðkazt hefir og er í gildandi lögum.

Þá er lagt til, að val búnaðarmálastjóra sé bundið samþykki ráðh. Meðan valdsvið hans er jafnvíðtækt og nú er og félagið hefir með böndum jafnmiklar framkvæmdir fyrir hönd þess opinbera, þá virðist það vera rétt, ekki ótilhlýðilegt og í alla staði sanngjarnt, að val hans sé bundið þessu skilyrði, þar sem milli þessara manna hlýtur ætíð að vera mjög náin samvinna, og hefir það því eigi litla þýðingu, að reynt sé að búa svo um, að sú samvinna verði sem bezt.

Nú dettur mér ekki í hug að segja, að þótt þetta ákvæði væri ekki, þá yrði samvinnan ekki góð, enda er ekki gengið lengra en svo, að þetta gildir aðeins þegar um val búnaðarmálastjóra er að ræða, en hinsvegar getur vel svo til borið, að ráðherraskipti verði, og er þó gert ráð fyrir, að búnaðarmálastjóri haldi sín starfi áfram.

Annað atriði, sem um ræðir í þessum kafla og rétt er að víkja að, er það, að ef búnaðarmálastjóra og stj. búnaðarfélagsins greinir á, þá á landbrh. að skera úr ágreiningnum, og skulu báðir aðiljar hlíta þeim úrskurði. Þetta er svo meint, að greini búnaðarfélagsstjórn og búnaðarmálastjóra á um málefni, er Búnaðarfélag Íslands fer með í umboði ríkisvaldsins, þá skuli landbrh. skera úr. Um önnur ágreiningaatriði er ekki til þess ætlazt, að landbrh. hafi afskipti af þeim.

Þá er annað mikilvægt atriði, sem ég veit ekki, hvernig menn kunna að líta á, en það er val fulltrúa til búnaðarþings. Nú er það svo, að ekki eru hafðar beinar kosningar til búnaðarþings, heldur kjósa búnaðarfélögin fulltrúa til að mæta á sambandsfundum, og þeir velja svo aftur fulltrúa til búnaðarþings, en menn heima í sveitum kjósa ekki beinlínis búnaðarþingsfulltrúana. Þetta er óheppilegt fyrirkomulag, og vil ég, að bændur velji sjálfir fulltrúa á búnaðarþing. Búnaðarþing hafa látið sig málefni landbúnaðarins miklu skipta, og er því nauðsyn, að þingið sé nógu fjölmennt og nægilega vel mönnum skipað til þess að geta tekið til meðferðar þau stórmál, er landbúnaðinn varða helzt. Ég fullyrði, að þetta hafi ekki fyllilega getað verið eins og þurft hefði undanfarið, og liggur það sumpart í því, að menn hafa ekki verið nógu margir til að geta sinnt ýmsum verkefnum, sem þeir hafa þó vafalaust viljað taka til meðferðar. Með því að fjölga búnaðarþingsfulltrúunum og láta bændur velja þá sjálfa, held ég, að stofnunin geti orðið færari um að leysa af hendi verkefni sín og að menn myndu geta borið betra traust til hennar. Í grg. frv. er minnzt á landssamband bænda, sem ég vil ekkert fullyrða um, hve mikið eða þarft starf liggur eftir. En mér finnst, að ef búnaðarþing væri skipað hæfilega mörgum mönnum og ef bændur gætu treyst því, að þingið hefði nógum kröftum á að skipa til að geta sinnt málefnum þeirra, þá hefðu þeir varla þurft að mynda félagsskap eins og landssambandið. Því fel ég það mikilvægt atriði, að svo sé frá þessari stofnun bænda gengið, að þeir þurfi ekki að hafa með sér annan félagsskap til að leysa af hendi þau verkefni, sem heyra undir búnaðarþingið.

Þar sem hér er um prívatfélagsskap að ræða, býst ég við, að mönnum finnist óþarfi, að löggjafarvaldið sé að setja fyrirmæli um þetta allt. En þegar þess er gætt, hve mörg af störfum stofnunarinnar eru unnin í umboði ríkisvaldsins og hve tengslin eru hinsvegar lítil milli hennar og ríkisvaldsins, mun mörgum finnast, að þetta sé ekki óeðlilegt fyrirkomulag.

Til skamms tíma var það fyrirkomulag á stj. þessa félags, að Alþingi kaus 2 af 3 í stj. félagsins. Búnaðarþingið óskaði þess fljótt að vera laust við þetta fyrirkomulag og vildi sjálft fá að kjósa stj., en láta ríkisvaldið skipa annan endurskoðandann, án þess að nánari tengsl væru svo við ríkisvaldið. Ég þarf ekki að taka fram, hver mín afstaða var og fleiri hv. dm. Ég taldi þessa breytingu athugaverða og ekki rétt að gera breytingar í þá átt, að ekki væru nánari tengsl milli ríkisvaldsins og búnaðarþingsins en þetta, þar sem búnaðarfélagið hefði allt sitt starfsfé, að heita má, frá ríkinu. Þó var að þessu ráði horfið. En ég hygg, að heppilegra væri, með tilliti til framtíðarinnar, að slík ákvæði sem þessi væru sett í löggjöfina, er ákveða, að bændur skuli sjálfir hafa á valdi sínu valið til búnaðarþingsins, og svo um hin nánari tengsl milli ríkisvaldsins og búnaðarfélagsins.

Í 3. gr. er ákvæði um það, að ef búnaðarfélagið kýs að vera laust við þessi mál, sem að hefir verið vikið, þá skuli landbrh. ráða þeim til bráðabirgða, eða þar til önnur skipan hefir verið á þessu gerð. Þetta hlýtur að teljast sjálfsagt, því að óeðlilegt væri að hafa ekki ákvæði í 1. um það, hver skuli sjá um framkvæmd málanna, ef búnaðarfélagið hættir því.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að II. kafla frv., og læt ég mér þá að mestu nægja að skírskota til grg. frv., en þar er nógsamlega gerð grein fyrir því, hve hátt skuli vera framlag hins opinbera til styrktar jarðrækt og húsabótum. Er styrkurinn ákveðinn mishár eftir því, hve mikið búið er að greiða til umbóta á jörðunum. Jarðir, sem fengið hafa innan við 1000 kr., fá meira en hinar. Jarðir, sem fengið hafa 1000–3000 kr., fá styrk samkv. 9. gr. frv. Svo er ákveðið í 11. gr., að býli, sem fengið hafa 3000–4000 kr., skuli fá 25% minna, en 50% minna þau, sem fengið hafa 4000–5000 kr. Loks er lagt til, að býli, sem fengið hafa 5000 kr., fái ekki frekari styrk. Þetta er miðað við gildistöku jarðræktarl. nr. 43 23. júní 1923. Þetta á þó aðeins við sérstök býli, eins og tekið er fram í 11. gr. frv. Séu býli sameinuð í ábúð eins manns, er lagt til, að dregið verði úr styrkveitingunni, þannig að styrkur sá, er þau hafa hlotið, reiknast 25% hærri en hann var, og viðbótarstyrkurinn miðaður við þá upphæð, sem þannig kemur fram. Ef býli er skipt og jarðarhlutarnir verða í sjálfsábúð, erfðaábúð eða lífstíðarábúð, þá skal draga frá 25% af upphæð styrksins, áður en skiptin fara fram. Á jörðum, sem þannig eru partaðar sundur, fær þá hvert býli á 6. þús. kr., og er þetta gert til að hvetja menn til að skipta jörðunum.

Um nokkuð margar greinar styrks, sem áður hefir verið veittur, er það lagt til, að hann haldi sér. Aftur hefir verið hækkaður nokkuð styrkur til framræslu. Lækkaður hefir verið lítilsháttar styrkur til þaksléttna og græðisléttna, en til sáðsléttna hefir hann verið látinn haldast óbreyttur. Mönnum þykir e. t. v. miður, að framlög til þessara hluta skuli hafa verið lækkuð. Og ég hefði sjálfur kosið, að styrkurinn hefði allsstaðar getað orðið jafnhár og áður a. m. k. En það hefir hingað til ekki verið um jafnvægi að ræða í ræktun þessara sléttna. Er heldur ekki sanngirni að hafa sama styrk fyrir endurbætur í óræktaðri jörð og sáðsléttu í túni. Óræktað land krefst mikillar vinnu og áburðar, og er ekki rétt að styrkja slíka nýrækt að jöfnu við aðra ræktun. Ef menn una því illa, að þessi styrkur sé lækkaður til býlanna, leiðir af sjálfu sér, að hækka verður framlagið til sléttunar í óræktaðri jörð. Vil ég í þessu sambandi minna á það, sem þeir hafa sagt um þetta atriði Ólafur Jónsson, Kristján Klemenzson og Árni Eylands.

Með auknum styrk til framræslu vona ég, að betur verði séð fyrir þurrkun lands þess, sem ætlað er til ræktunar. Hefir oft mikið vantað á, að það væri gert sem skyldi. Sú aukning, sem hér er gert ráð fyrir, að verði á framlögum í þessu efni, vona ég, að muni greiða fyrir betri þurrkun landsins. Ef ræktunin á að bera fullan árangur, verður að þurrka landið betur.

Lagt er til, að nokkur hækkun verði á hámarki framlags til byggingar á safnþróm og áburðarhúsum. Er lagt til, að hámarksstyrkur hvers býlis til þessara hluta nemi 1500 kr. Nægir það til að byggja safnþró fyrir fjós með 15–20 nautgripum, og er það langt ofan við meðallag þess, sem tíðkast hér á landi. Er því fyllilega fyrir því séð, að þetta geti verið orðin myndarleg og góð býli, þegar hætt er að styrkja. Yfirleitt er hámark styrks til jarðræktar og húsabyggingar miðað við það, að skapazt geti góð bú með 15–16 kúm, góðum byggingum og ca. 15 ha. ræktaðs lands. Býli, sem þannig hafa verið endurbætt, eru góðar jarðir á okkar mælikvarða.

Ég held, að ég víki svo ekki frekar að þessum kafla. Eru þar reyndar enn nokkrar breytingar, er snerta rétt manna til að vinna af sér jarðarafgjöld. Ég sé ekki ástæðu til, að þeir ábúendur ríkisjarða, sem eiga kost á erfðafestu, fái hærri styrk en aðrir. Þeir njóta samkvæmt frv. sama styrks. Öðru máli gegnir um þá, sem ekki geta fengið jarðir hins opinbera á erfðaleigu. Þeir eiga þá rétt á að vinna af sér afgjaldið til þess að geta notið þeirra umbóta, er þeir gera á jörðinni. Eru oftast litlar líkur til, að niðjar þeirra geti notið þessara umbóta, og er því sjálfsagt, að þeir fái tækifæri til að vinna af sér afgjöldin.

Ég mun ekki fara sérstaklega út í ákvæði III. kafla, um félagsræktun. Þar sem fjölbyggt er, í kaupstöðum, kauptúnum og þorpum, er gert ráð fyrir, að menn hafi með sér félagsskap um ræktun. Verður það ódýrara og á ýmsan hátt hagkvæmari.

Þá hafa verið tekin upp í frv. ákvæði um verkfærakaupasjóð, og mun ég ekki rekja þau hér. En ég vil geta þess, að af vangá hefir fallið niður ákvæði um hámark þess styrks, sem hver bóndi má fá til verkfærakaupa, en ætlazt er til, að það hámark sé 300 kr. Ég tel sjálfsagt að setja þetta hámark, eða e. t. v. eitthvað ríflegra. Ég vil benda hv. landbn. á að athuga þetta atriði.

Þá er V. kafli, um vélasjóð, og vísa ég að því er hann snertir til grg. frv.

VI. kafli er um búferlaflutning. Þar eru nokkur ný ákvæði, og hygg ég, að grg. sýni nógsamlega, hvað fyrir okkur hefir vakað.

Þá er VII. kafli. Í kaflanúmerinu hefir fallið niður einn stafur. Stendur þar VI. fyrir VII., og verður það leiðrétt. Þar eru ákvæði nokkru fyllri en þau, sem um erfðaleigulönd hafa gilt. Höfum við í því efni fengið ýmsar bendingar frá Pálma Einarssyni.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að þessu sinni að fjölyrða öllu meira um þetta máli. — Ég hefi rekizt á einstaka prentvillur, og má vera, að þær séu fleiri en ég hefi tekið eftir, en þær verða að sjálfsögðu leiðréttar og eru ekki þess eðlis, að ekki sé fyllilega sýnileg hin rétta meining. Ein af þessum prentvillum er í upphafi grg., þar sem talað er um, hvað aðrar menningarþjóðir hafi gert fyrir jarðræktina hver í sínu landi. Þar er sagt: „Þetta hafa aðeins þær þjóðir gert, sem hafa haft margþætta atvinnuvegi“. Þetta á að vera: „Þetta hafa eins þær þjóðir gert“ o. s. frv. — og vitanlega sér hver maður, að það á þannig að vera. — Svo er prentvilla á bls. 19, 1. línu, í samanburðinum á styrk samkv. jarðræktarlögunum nú og till. Þar stendur styrkur samkv. jarðræktarlögum kr. 7.50, en samkv. till. 8.50, og mismunurinn er náttúrlega ein króna, en ekki kr. 1.50, eins og þar stendur. Þetta sjá líka allir. — Svo er villa á bls. 43, og vantar þar í tvo dálka eitt 0, á að vera 2000–3000 og yfir 3000. Allt eru þetta auðsæjar villur, og vil ég biðja hv. þm. að taka þetta til greina. Nokkrar fleiri smávægilegar prentvillur hefi ég rekið mig á, en ég sé ekki ástæðu til að benda á það frekar. Mun ég því láta máli mínu lokið og geri það að till. minni, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til landbn.