27.04.1936
Neðri deild: 57. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í B-deild Alþingistíðinda. (1746)

120. mál, jarðræktarlög

*Jón Sigurðsson:

Það er nú orðið nokkuð síðan vitað var, að ríkisstj. var að undirbúa breyt. á jarðræktarlögunum, og þessar breyt. koma víst fáum á óvart, sem þekkja hugarfar stjórnarflokkanna til Búnaðarfélags Íslands og annara þeirra manna, sem fremst hafa staðið í fylkingarbrjósti þeirra, er unnið hafa að ræktun landsins og mesta trú hafa haft á gróðurmagni íslenzkrar moldar.

Ég mun ekki að þessu sinni ræða um frv. í heild, en aðallega snúa mér að þeim breyt, sem ætlazt er til, að gerðar séu á Búnaðarfélagi Íslands, og 1. kafli fjallar um. — Þegar jarðræktarlögin voru sett árið 1923, var það eitt af því, sem sett var inn í þau, að landbn. Alþingis skyldu kjósa tvo menn í stjórn. Þetta var gert með samkomulagi við þá stj. búnaðarfélagsins, sem þá sat. Út af þessu ákvæði var alltaf mikil óánægja innan búnaðarfélagsins, og það hafði síðar unnizt á, að þetta ákvæði var fellt niður. Það hefði því mátt vænta þess, að félagið fengi nú að vera í friði og starfa eftir þeim reglum, sem það hafði sett sér. En það er öðru nær en svo sé. Í 2. gr. frv. er það tekið fram, að val búnaðarmálastjóra skuli vera bundið samþykki landbrh. Með öðrum orðum, ef landbrh. sýnist, að búnaðarmálastjóri hafi ekki verið valinn eftir sínum geðþótta, þá getur hann sett þann mann, sem honum sýnist. Þetta var af hv. flm. stutt með því, að mikið ylti á góðri samvinnu milli landbrh. og búnaðarmálastjóra. Þessu vil ég ekki neita, en þá átti líka að gera ráð fyrir því, að ef nýr landbrh. yrði valinn, þá yrði búnaðarmálastjóri að víkja, ef ekki væri gott samkomulag um starfið; annars er ekki um að ræða tryggingu fyrir góðri samvinnu. Eins og allir vita, er oft skipt um landbrh., en hinsvegar er það svo um búnaðarmálastjóra, að þar virðist vera um starf að ræða, sem geti orðið æfistarf. Það er ekki gert ráð fyrir, að þessum manni verði vikið frá starfi af ráðh. Það er því aðeins gert ráð fyrir þörf á samvinnu á milli búnaðarmálastjóra og þess ráðh., sem skipar hann í fyrstu, en ekki verið að tryggja almennt góða samvinnu milli landbrh. og búnaðarmálastjóra, heldur hið gagnstæða. — Þetta er sú hliðin, sem veit að ríkisstj. Hin hliðin veit svo að stjórn búnaðarfélagsins, og er búnaðarmálastjóri þar sérstakur valdsmaður og getur farið sínu fram og þarf ekki að taka tillit til þess, sem búnaðarþingið ákveður, því að í 3. gr. segir svo: „Greini búnaðarmálastjóra og stjórn félagsins á, skal skjóta ágreiningsatriðinu til landbrh., er fellir fullnaðarúrskurð um málið.“ Hv. frsm. upplýsti, að þetta ætti aðeins við þau mál, er snerta þær framkvæmdir, sem búnaðarmálastjóra er með lögum þessum falið að annast í samráði við stj. félagsins, en þá vantar þetta í gr. og hefði átt að standa þar: „Greini búnaðarmálastjóra og stjórn félagsins á um stjórn og framkvæmdir“ o. s. frv. Eins og gr. er nú orðuð, má skilja hana þannig, að búnaðarmálastjóri geti alltaf tekið ráðin af búnaðarfélaginu í samráði við landbrh.

Þá var annað atriði, sem hv. flm. lagði aðaláherzlu á, og það var breyt. á kosningu til búnaðarþings. Í framsöguræðu sinni og í grg- er lögð áherzla á tvær ástæður, sem séu fyrir því að breytu þessu kosningafyrirkomulagi. Í fyrsta lagi það, að bændur séu óánægðir með það fyrirkomulag, sem nú er, og í öðru lagi, að það sé afaróheppilegt og beint brot á almennum lýðræðisreglum. Ég hefi ekki orðið var við þessa óánægju hjá bændum, en ég hefi orðið var við hana annarsstaðar og skal víkja að því síðar. Svo sem til að sanna það, sem sagt er um óánægju bænda, er bent á það, að þeir hafi stofnað landssamband, og það á að vera sprottið af þessari óánægju. Þetta er vitanlega mesta fjarstæða og rökvilla. Það mætti engu síður halda því fram, að landsfundir framsóknarmanna væru sprottnir af því, að flokksmenn væru sáróánægðir með þm. sína. Landssambandið er ekkert annað en stéttarsamtök, og slík samtök geta verið ágæt og haft hvetjandi áhrif við hlið búnaðarþingsins. Landssambandið hefir nákvæmlega sömu afstöðu gagnvart búnaðarþinginu eins og flokkaþingin gagnvart flokkunum í þinginu. Svo er, eins og hv. flm. drap á, ekki hægt að koma öllum mönnum, sem eru áhugasamir um landsmál, á þing, og ekki heldur á búnaðarþing. Þessir fundir eru til þess að veita þessum áhugasömu mönnum tækifæri til að koma fram með skoðanir sínar. Það er því firra ein, að landssamband bænda sé á nokkurn hátt vantraust á búnaðarþingið, heldur þvert á móti, því að landssambandið vísar málum sínum til búnaðarþingsins. Sú óánægja, sem ég hefi orðið var við, er aðeins frá einum manni, og hefir þessi óánægja komið fram í málgagni Framsfl., Tímanum. Sá maður, sem hefir alið á þessari óánægju, er form. Framsfl.; hefir hann eftir föngum reynt að gera búnaðarþingið tortryggilegt og níða niður störf þess. Hann er ekki bóndi, og þegar talað er um vilja bænda, þá er ekki um hann að ræða sem neinn mælikvarða, enda vita allir, að þessi úlfúð hans við búnaðarþingið er af pólitískum rótum runnin.

Þá er sú ástæðan, að kosningafyrirkomulagið sé óheppilegt og brot á almennum lýðræðisreglum. Þetta ákvæði er sett fyrir fáum árum undir stjórn Tryggva Þórhallssonar og með samþykki allra þeirra, er þá sátu á búnaðarþingi. Þetta skipulag, að félögin kjósi fyrst fulltrúa til þess að mæta á fundum búnaðarsambandanna og fulltrúar þessir kjósi síðan fulltrúa til búnaðarþings, er nákvæmlega það sama eins og í S. Í. S., og þetta fyrirkomulag telja hv. flm. frv. og aðrir þeir, sem að því standa, að sé bæði óheppilegt og beint brot á almennum lýðræðisreglum!!

Nú mætti gizka á það, að hér þætti meira um vert, hvernig tækist að skipta því fé, sem búnaðarþingið hefir til umráða, að það þætti enn meira varða heldur en hvernig tekst að fara með fé það, sem S. Í. S. hefir með höndum, því að hvorttveggja eru prívatstofnanir, sem hafa mikilsverða þýðingu fyrir bændur. Nú er hægt að upplýsa það, að fé það, sem Búnaðarfélag Íslands fer með, er um eða innan við eina milljón kr. á ári, en aftur á móti hefir S. Í. S. nálega allan útflutning bænda í sínum höndum og auk þess megnið af innkaupum, og sú upphæð, sem þar kemur til greina, er ekki innan við eina millj. kr. á ári, heldur skiptir hún mörgum millj. kr., og er óhætt að fullyrða, að hagur bænda veltur mjög á því, hversu farið er með það fé. Það er því síður en svo, að þörf sé á að breyta þessu kosningafyrirkomulagi búnaðarfélagsins fremur en kosningafyrirkomulagi annara prívatfélaga hér á landi. En það hefir ekki heyrzt orð í þá átt, að þetta fyrirkomulag væri óheppilegt hjá S. Í. S. og að því þyrfti að breyta, og setti þó Alþingi á sínum tíma lög um S. Í. S.

Eins og ég benti á, er þetta kosningafyrirkomulag eðlileg afleiðing af því skipulagi, sem á þessum félagsskap er á okkar landi, að hann byggir sig þannig upp stig af stigi, og ég hygg að þessu sé ekki í nokkru landi eins eðlilega og vel fyrir komið. En það, sem vakir fyrir form Framsfl. og öðrum þeim, sem að þessu standa, er, að þeir finna, að það er örðugra að koma pólitískum æsingum að við kosninguna, þegar þannig er kosið, heldur en þegar um beinar kosningar er að ræða og hægt er að ná til hvers einstaks kjósanda með pólitískum agitationum. Til búnaðarþingsins eru helzt kosnir þeir mennirnir, sem bændur trúa bezt fyrir málum sínum, án þess að spurt sé um pólitískar skoðanir þeirra, og þótt þeir hafi pólitískar skoðanir þá er ábyrgðartilfinning þeirra svo mikil, að þeir vilja ekki draga búnaðarfélagið niður í það pólitíska sorp, sem nú er til ætlazt með till. þessum, að það lendi í.

Þá er ennfremur ein till., sem ég vil gera að umtalsefni, og er í svokölluðu ákvæði til bráðabirgða. Þetta ákvæði virðist sanna það, að þrátt fyrir það, þótt þetta frv. hafi verið lengi í smíðum, þá hafi það verið samið í svo miklu flaustri, að ekki hafi þeir, sem við smíði þess áttu, gefið sér tíma til að gá í lög Búnaðarfélags Íslands til þess að sjá, á hvern hátt það gæti breytt lögum sínum, svo að löglega væri að farið. Í bráðabirgðaákvæðinu er svo ákveðið, að þegar lög þessi hafi öðlazt staðfestingu, skuli landbrh. hlutast til um, að stjórn Búnaðarfélags Íslands kveðji búnaðarþing til aukafundar, og þetta búnaðarþing á að hafa komið saman svo snemma, að nýjar kosningar til búnaðarþings samkv. þessari löggjöf geti verið búnar fyrir næstkomandi áramót. Nú er það þannig samkv. lögum búnaðarfélagsins, að ekki er heimilt að halda búnaðarþing nema annaðhvort ár, og næsta þing verður ekki fyrr en á næsta ári, og þessum lögum er ekki hægt að breyta nema á búnaðarþingi. Með þessu ákvæði er svo til ætlazt, að kallaður sé saman aukafundur, sem ekkert lagalegt gildi hefir, og sá fundur á svo að breyta þeim lögum, sem kosið er eftir. Það sýnir, hve hlýjan hug og hve mikla virðingu þessir menn bera fyrir Búnaðarfélagi Íslands, að þeir skuli bjóða því önnur eins sómaboð. Ég sé ekki annað en allt þetta stefni að því að gera búnaðarfélagið að gólfþurrku, sem ósvífinn ráðh. geti farið með eftir geðþótta sínum, og kosningar til búnaðarþings að pólitísku æsingamáli, og loks að því, að þröngva búnaðarþinginu til þess að breyta lögum sínum á algerlega ólöglegan hátt.

Ég minntist á það áðan, að búnaðarfélagið væri sjálfstætt félag, og hv. flm. sagði líka í ræðu sinni, að það væri prívatfélag. Ég held, að þetta félag hafi notið óskoraðs trausts þings og þjóðar. Því hefir verið falið að úthluta jarðræktarstyrk, og mörg önnur vandasöm trúnaðarstörf hefir það leyst af hendi. Það er þess vegna mjög eðlilegt, þegar slíkt frv. kemur fram, að ýmsum verði það fyrir að spyrja, hvað Búnaðarfélag Íslands hafi unnið til saka, sem gefi ástæðu til þess, að það sæti slíkri meðferð. Hefir það svikizt um að leysa þau verk af höndum, sem því hefir verið trúað fyrir? Ég veit ekki til þess, að svo sé, og hefi engar kvartanir heyrt um það. Ég held, að bæði framkvæmd jarðræktarlaganna og önnur þau mál, sem félagið hefir haft til framkvæmda, hafi það reynt að fara með eftir beztu getu. Vafalaust hefir orðið misbrestur á í einhverju atriði, en það hefði líka efalaust orðið svo hjá hverjum, sem með öll þessi vandamál hefði farið.

Þá er annað spursmál. Hefir félagið farið illa með það fé, sem það hefir haft til umráða? Ég held ekki. Það má ef til vill einhversstaðar tylla tá á misfellu, en með þetta fé hefir alltaf verið þannig farið, að ráðh. hefir samþ. þá áætlun, sem búnaðarþingin hafa samþ., og nú síðast staðfesti núv. landbrh. orðalaust þá áætlun, sem síðasta búnaðarþing setti. Það virðist því svo sem hann hafi ekki haft neitt sérstakt út á hana að setja.

Þá er það síðasta, sem mig langar til að spyrja um og vikið er að í grg. Hvaða félagsskapur bænda er það, sem Búnaðarfélag Íslands hefir vanrækt, en er þó innan þess verkahrings? Í grg. er verið að gefa það í skyn, að svo sé um sum þau félagsmál, sem búnaðarfélagið hafi ætlað sér að varðveita, eða séu innan þess ramma, sem það hafi sett sér. Mér er það ekki heldur kunnugt, og vildi ég fá upplýsingar um það, hvaða mál það var sérstaklega, sem Búnaðarfélag Íslands hefir vanrækt. Ég tel, að þær breyt., sem hér um ræðir, muni algerlega kyrkja félagið, og mér liggur við að segja, að það væri eins gott að leggja félagið niður sem slíkt eins og að afhenda pólitískum ráðh. yfirráð yfir félaginu, svo að hann geti leikið með það eftir sínum geðþótta. Annars er ég hissa á því, að þetta skuli eiga að ganga yfir búnaðarfélagið eitt. Það eru til stór félög, sem njóta stuðnings þess opinbera, t. d. S. Í. S., sem nýtur a. m. k. óbeinlínis miklu hærri styrks of opinberu fé heldur en búnaðarfélagið. Hvað ætli stuðningsmenn þessa frv. mundu segja, ef S. Í. S. væri tekið svipuðum tökum eins og gert er ráð fyrir að taka Búnaðarfélag Íslands? Ég er hræddur um, að það kæmi hljóð úr horni, ef slíkt kæmi fram.

Að endingu vil ég benda hv. þm. á það, að Búnaðarfélag Íslands er annað eða þriðja elzta félag þessa lands, og það á 100 ára afmæli á næsta vetri, þegar tekið er tillit til þess félags, sem var undanfari þess. Ég verð að segja, að það eru kaldar kveðjur, sem þessu merkilega félagi eru sendar með þessu frv., og ég hafði satt að segja hugsað mér, að hæstv. ríkisstj. mundi færa Búnaðarfélagi Íslands aðra afmælisgjöf á 100 ára afmæli þess en þá, að leggja það að hálfu leyti niður, eins og hér á að gera.