27.04.1936
Neðri deild: 57. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í B-deild Alþingistíðinda. (1747)

120. mál, jarðræktarlög

*Jón Pálmason:

Hv. síðasti ræðumaður hefir að nokkru leyti tekið af mér ómakið við að svara, en ég kvaddi mér hljóðs meðan hv. flm. var að tala, svo að það sakaði ekki, þó að hv. l. landsk. væri hleypt fram fyrir mig, því að nógu er að svara, þrátt fyrir það, sem hann hefir vikið að.

Um það bil, sem við komum á þingið, fengum við þær fréttir, að búið væri að skipa mþn. til þess að undirbúa breyt. á jarðræktarlögunum og skipulagningu Búnaðarfélags Íslands. Við þetta var náttúrlega ekkert að athuga, og svo var útbýtt hér í þinginu frv. frá þessari n., en því var aðeins útbýtt til fylgismanna stj. Ég gerði nokkra tilraun til þess að fá þetta frv. í hendur, en því var neitað. Ég vil leyfa mér að mótmæla þessari óþinglegu aðferð. Ég skal láta það ósagt, hvort búið er að tryggja, að frv. þetta nái óbreytt fram að ganga, en það vekur illan grun, að strax og farið er að andmæla þessu frv. hér í þessari hv. d., fer mikill meiri hl. af stuðningsmönnum hæstv. stj. af fundi. Mér þykir þó vænt um að sjá, að sá hv. þm., sem er stjórnarnefndarmaður í Búnaðarfélagi Íslands, er hér enn.

Skal ég svo víkja að frv. nokkrum orðum. Undanfarin hér um bil 20 ár hafa verið sett fjölmörg lög íslenzkum landbúnaði til hagsbóta, en ég þori að staðhæfa, að engin af þessum lögum hafa verið jafnvinsæl og þýðingarmikil eins og jarðræktarlögin frá 1923. Því til sönnunar, hvað þessi lög eru vinsæl, má geta þess, að ýmsir stjórnmálamenn hafa keppzt um að þakka sér meiri hlutdeild í þessari löggjöf en þeir hafa átt. Það atriði þessara laga, sem lengi hefir verið deiluefni, er þau skilyrði, sem sett eru til þess, að bændur geti fengið styrk; til þess hefir meiri hl. stj. Búnaðarfélags Íslands þurft að vera skipaður eftir ákvörðun Alþingis. Þessu hefir verið mótmælt af bændum víða um land um langt árabil, og ég fullyrði, að í þessu efni hefir enginn flokkságreiningur komið til greina. Og loks eftir mikla baráttu var samþ. frv. á síðasta þingi, sem ég var flm. að, um að kippa þessu í lag, þannig að búnaðarþingin skuli kjósa alla stjórn félagsins, eins og vera ber. Það hefir komið í ljós við þær umr., sem fram hafa farið undanfarin ár um þetta mál, að uppi eru tvær stefnur í landinu að því er snertir fyrirkomulag Búnaðarfélags Íslands. Önnur er sú, sem ég hygg, að flestir bændur landsins fylgi, að þessi félagsskapur skuli vera sem frjálsastur og sem minnst háður hinu pólitíska valdi; hin stefnan er sú, að Búnaðarfélag Íslands skuli ekki vera til, en í þess stað skuli koma stjórnarskrifstofa, sem á að heyra beint undir stjórnarráðið. Síðari stefnan hefir að vísu farið huldu höfði, sökum þess að þeir, sem berjast fyrir henni, hafa fundið, að hún er óvinsæl. Þess vegna hafa þessir menn farið bil beggja með því að setja inn í jarðræktarlögin þau ákvæði, sem hér er vikið að, en annars gengur frv. það, sem hér liggur fyrir, miklu lengra en eldri ákvæði í því að rýra vald búnaðarfélagsskaparins og Búnaðarfélags Íslands, því að stjórn búnaðarfélagsins er gerð valdalaus, ef hana greinir á við þann framkvæmdarstjóra, sem hún á að sjálfsögðu að eðlilegum hætti að ráða yfir, en það er búnaðarmálastjóri.

Þá vil ég snúa mér að skipun búnaðarþinganna, sem hv. síðasti ræðumaður hefir drepið svo rækilega á, að ég þarf ekki að fara langt út í það, enda kemur það út af fyrir sig ekki beinlínis þessu máli við, en hitt kemur málinu við, að hér skuli vera gerð tilraun til þess að brjótast með löggjöf inn á einkasvið félagsskapar, sem á að vera óháður og ráða sínum málum sjálfur. Hér er með öðrum orðum verið að beita aðferð, sem ég vil mótmæla harðlega í þessu sambandi, því að samkv. þessu frv. er það gert að skilyrði fyrir styrkveitingu samkv. jarðræktarlögunum, að það sé einhver ákveðin skipun á öllum búnaðarfélagsskapnum í landinu. Ef hér væri rétt farið að af hálfu þeirra, sem vilja breyta þessu skipulagi, þá stendur sú leið vitanlega opin að semja frv. og till. og „agitera“ fyrir þeim á eðlilegum vettvangi, sem er búnaðarsamböndin og búnaðarþingin. Á þeim vettvangi skyldi ég ræða um þessi mál við þá, en ég skal náttúrlega ekki um það segja, að hve miklu leyti ég gæti orðið þeim samdóma um breyt. frá því, sem nú er. Aðalatriðið í þessu sambandi er það, að hér er verið að útrýma félagsfrelsi íslenzkra bænda. Þessu mótmæli ég harðlega, og ég mun aldrei hér á þingi ganga inn á neina miðlun í þessu efni. Það var skiljanlegt, að hv. flm. þessa máls væri fús til þess að taka það að sér að vinna að þeim breyt., sem farið er fram á í þessu sambandi, því að hann er kunnur að því að hafa undanfarin ár staðið við hlið þeirra manna í þessari deilu, sem vilja draga sem mest úr frelsi búnaðarfélagsskaparins, en láta ríkisvaldið ná tökunum.

Þá vil ég benda á það ósamræmi, sem fram kemur bæði í grg. og eins í ræðu hv. flm. Hann heldur því fram, að með þessum hætti sé verið að auka lýðræðið í þessu efni. Við skulum nú segja, að þetta væri rétt með tilliti til þess kosningafyrirkomulags, sem þarna er gert ráð fyrir. En hvernig verður þetta þá útfært? Þannig að þegar búið er að breyt. kosningafyrirkomulaginu eins og gert er ráð fyrir og búnaðarþingin eru orðin fjölmenn og allt á að vera í samræmi við vilja bændanna, þá á að kjósa stjórn, sem er gerð valdalaus, þegar til framkvæmda kemur, því að ef framkvæmdarstjórann greinir á við hana, þá hefir hann vald til þess að skjóta þeim ágreiningi til ráðh., og hann sker svo alltaf úr. Svona er samræmið og svona er lýðræðið hjá þessum mönnum.

Í 8. gr. er ákvæði um það, að Búnaðarfélag Íslands skuli skylt að hlíta þessum fyrirmælum, meðan það hefir umsjón með jarðræktarmálum landsins. Hér kemur til greina atriði, sem sýnir, að hv. flm. frv. gerir ráð fyrir, að það geti komið til mála, að búnaðarfélagið eigi um tvennt að velja, að hlíta í einu og öllu þeim fyrirmælum, sem því eru sett í þessu frv., eða sleppa að öðrum kosti allri umsjón með jarðræktarlögunum. Ég verð að segja, að ég tel miklu aðgengilegra fyrir búnaðarfélagið að sleppa umsjóninni með jarðræktarlögunum en láta taka af sér það félagsfrelsi, sem hér um ræðir. Og hvað tekur þá við? Þá þarf bara að skipa marga nýja starfsmenn, sem eiga að hafa með höndum að sjá um framkvæmd þessara mála, sem er algerlega óþarft að kosta fé til.

Þetta, sem nú hefir verið drepið á, er það höfuðatriði, sem ég mun einkum gera að ágreiningsatriði í þessu sambandi, en þar með er náttúrlega ekki sagt, að ekki sé um fleiri atriði að ræða í þessu frv., sem ég er mótfallinn, og eru þar einkum tvö atriði, sem ég held, að ágreiningur hljóti að verða um. Annað er það, að styrkurinn er gerður mismunandi hár, eftir því, hvað hlutaðeigandi menn hafa unnið mikið, áður en þessi lög koma til framkvæmda, þannig að þeir, sem minnst hafa gert hingað til, eiga að fá hæstan styrk, en þeir, sem mest hafa á sig lagt, fá engan styrk, og þeir, sem eru þar á milli, fá mismunandi háan styrk, eins og ákveðið er í frv. þessu. Þetta atriði er að ýmsu leyti mjög athugunarvert frá mínu sjónarmiði. Mér finnst það hart, ef ríkisvaldið ætlar að fara að hegna þeim mönnum, sem mestan dugnað hafa sýnt í þessu efni, með því að taka af þeim styrkinn eða takmarka hann stórum. Þá er annað f þessu sambandi, sem vert er að athuga. Í frv. er gert ráð fyrir því, að góð áburðarhirðing eigi að sitja fyrir sem umbætur. Nú getum við hugsað okkur, að til séu margir bændur hér á landi, sem hafa brotið stórt landflæmi til ræktunar og fengið af þeim ástæðum styrk upp að því hámarki, sem þar kemur til greina, og þeir hafi ekki komið sinni áburðarhirðingu í sem bezt horf. Það getur verið, að þeir komist að þeirri niðurstöðu, að þeir þurfi að byggja áburðarhús, en ekki áburðargryfju, eins og nú er talið fullkomnast, en til þess eiga þessir menn engan styrk að fá.

Þá er eitt atriði enn, sem kemur fyrir í 17. gr. frv.; samkvæmt henni er þessi styrkur ekki lengur skoðaður sem slíkur, heldur sem lán. Ég er því algerlega mótfallinn, að einhver ákvæði séu um það í þessum lögum, að ekki sé hægt að selja háu verði þær framkvæmdir, sem eru sprottnar af framlagi ríkisins, en með ákvæðum þessarar gr. er gert miklu meira en að tryggja þetta, því að það getur undir mörgum kringumstæðum farið þannig, að þó að jörð, sem bóndi á og býr á, falli í verði, ekki aðeins að því er snertir umbæturnar, þá hvíli á henni sú skuld, sem jarðræktarstyrkurinn skapar, og það er ekki nein smáupphæð, því að við skulum gera ráð fyrir, að styrkurinn allur væri að meðaltali ½ millj. kr. á ári, þá væri þetta eftir 20 ár orðið 10 millj. kr., sem verður að greiða ríkinu. Þetta tel ég ákaflega óheppilegt fyrirkomulag.

Svo að ég víki aftur að því, að ráðgert er að veita mismunandi háan styrk út á jarðabætur, þá skal ég taka það fram, að ég gæti sætt mig við það, ef það væri gert á öðrum og heppilegri grundvelli og þar væri bókstaflega miðað við, hvað jarðabótin væri vönduð og vel frá gengið. Það er sem sagt nauðsynlegt að breyta jarðabótastyrknum á þann hátt, að hann sé aðeins veittur fyrir framtíðarverk, sem einnig er unnið fyrir þá, sem eftir koma, og það skal játað, að þetta atriði er þörf að tryggja betur en gert er í núgildandi lögum.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en vænti, að menn sjái, hvaða atriði það eru, sem ég tel sérstaklega athyglisverð, en væntanlega gefst mér tækifæri síðar til þess að svara frekari rökum, ef fram koma frá þeim, sem að frv. standa.