27.04.1936
Neðri deild: 57. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í B-deild Alþingistíðinda. (1748)

120. mál, jarðræktarlög

Páll Zóphóníasson:

Af því að ég hefi dálitla sérstöðu gagnvart I. kafla frv., sem líklega engir aðrir hv. þm. hafa, og kem þess vegna til með að verða að sætta mig við það, sem ég tel næstbezt, tel ég rétt að segja nokkur orð, svo að það a. m. k. sjáist, hver mín skoðun er.

Mín skoðun er sú, að nú heyri undir búnaðarfélagið fjöldi verkefna, sem á það er dembt, en stjórnarvöldin í landinu ættu í raun og veru að sjá um. Þess vegna lít ég svo á, að búnaðarmálastjóri eigi að standa beint undir ríkisstj., eins og t. d. vegamálastjóri, sem hefir á hendi framkvæmdir fyrir ríkisvaldið. Þar með er ekki sagt, að búnaðarfélagið eigi að hætta störfum. Það hefir mörg önnur störf en þau, sem það vinnur fyrir löggjafarvaldið. Þess vegna er það ekki rétt, sem hv. þm. sagði, að við, sem höfum þessa skoðun, viljum leggja búnaðarfélagið niður. En framkvæmd jarðræktarlaganna heyrir ekki að neinu leyti undir umráð íslenzkra bænda né lagasetning um búfjárrækt, sandgræðslu o. fl. Ég gæti talið upp heilan hóp af slíkri löggjöf, sem Búnaðarfélag Íslands sér um framkvæmd á, en heyrir alls ekki undir félagsskap bænda. Ætti ríkið sjálft að hafa sérstakan mann, sem sæi um framkvæmd þeirra. Hin störfin, sem virkilega heyra bændunum til, er leiðbeininga- og upplýsingastarfsemin. Þessi störf á búnaðarfélagið að halda áfram að annast. Ég veit ekki, hvort nokkur hér á hv. Alþingi hefir þessa skoðun. En af því að sagt hefir verið, að þeir, sem þessa skoðun hafa, þori ekki að láta hana koma fram vegna þess, hvað hún væri óvinsæl, þá skal ég lýsa því yfir, að ég hefi haft þessa skoðun og haldið henni fram um mörg ár og þorað að láta hana koma fram, hvenær sem var. Enda verður það svo, að sú skoðun á eftir að sigra, þó ekki verði nú, þá síðar. Það er allsstaðar gangur málsins. Svo hefir það verið t. d. í Noregi og Finnlandi, og svo verður þetta hér, að eftir því, sem ríkið felur félaginu að fara með fleiri mál og styrkir það meira, eftir því dregur að því, að ríkið taki sjálft eftirlitið. En hvort þetta verður 1940 eða 1945, skal ég láta ósagt, en að því kemur, þó að það hafi ekki byr nú. Þessa skoðun mína þori ég að láta koma fram, hvar og hvenær sem er.