27.04.1936
Neðri deild: 57. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1129 í B-deild Alþingistíðinda. (1750)

120. mál, jarðræktarlög

*Eiríkur Einarsson:

Ég skal ekki teygja umr. mikið, en vildi aðeins vekja athygli á einu atriði, sem ég hefi ekki tekið eftir, að aðrir hafi haft orð á. Ég tel þetta skipta töluvert miklu máli og vildi þess vegna hreyfa því, áður en málið fer til hv. landbn. Þetta atriði snertir 11. gr. frv., þar sem takmörk og reglur eru sett fyrir því, hve mikinn styrk skuli borga út til einstakra býla með hliðsjón af því, hve mikinn styrk þau hafi fengið áður, og þar sett það hámark, að ef býlið sé búið að fá 5000 krónur, þá valdi það styrksviptingu með öllu, nema eftir sérstökum ákvæðum frv. Ég játa það fúslega, að það er réttmætt að setja skerður við því, að einstakir máttarmiklir menn geti gleypt allan jarðræktarstyrkinn frá fjöldanum, og jafna honum á sem réttastan hátt á milli sveitabúanna. En þrátt fyrir það, þá álít ég þetta varhugavert, eins og frá því er gengið hér í 11. gr. þessa frv. Ég skal nú reyna að skýra það höfuðatriði, sem fyrir mér vakir, með einföldu dæmi.

Nú eru tvær sveitajarðir, sem eiga lönd saman. Á annari þeirra hafa nú á tíma jarðræktarlaganna verið gerðar miklar umbætur. Þar hefir upprunalega verið kargþýft tún og lélegar engjar, en það hefir verið lögð mikil stund á það í krafti jarðræktarlaganna að gera jörðina að betri eign, og býlið er búið að fá þann styrk, sem hér er settur sem hámark. 5000 krónur. Á hinni jörðinni, sem er við hliðina á þessari, er frá náttúrunnar hendi grasgefið tún og sléttlent og engjar sléttar, svo að þegar allt kemur til alls og þegar búið er að verja 5000 krónum til annarar jarðarinnar, en engu til hinnar, þá má ekki á milli sjá um verðgildi þessara jarða, og við skulum segja, að þær séu álitnar jafnverðmætar og séu báðar nýseldar fyrir sama verð og aðkomnir ungir bændur séu orðnir eigendur þeirra. Þá er aðstaða þeirra ákaflega ólík. Báðir vilja þeir gera meiri umbætur á jörðunum, og stendur þá öðrum þeirra opin leið til að verða aðnjótandi mikils styrks, en hinn er sviptur þeim möguleika að fá nokkurn styrk. Ég held, að það sé ekki um þetta að villast eftir orðalagi 11. gr., því að þar er í upptalningunni alltaf miðað við býli, en ekki við ábúanda, og að það sé býlið, sem sé háð þessu hámarksákvæði. Ég álít samkv. þessu dæmi, sem ég tók, að þetta geti komið ósanngjarnlega niður, þar sem um tvo bændur er að ræða, sem búa á jafndýrum jörðum, og annar getur orðið fulls styrks aðnjótandi, en hinn er sviptur öllum styrk, en báðir vilja gera umbætur á jörðum sínum.

Ég vænti, að hv. landbn. taki það til rækilegrar athugunar, að þannig getur orðið hið mesta óréttlæti, þar sem miðað er við býli, en ekki við ábúendur. Það gæti og verið stigsmunur á þessu, eftir því hvernig á stendur, og ætti að vera.

Ég get tekið það fram í þessu sambandi, að þar sem býli var óbyggilegt, en með dugnaði er búið að gera það að sæmilegri jörð, og þá búið að eyða öllum möguleikum fyrir áframhaldandi jarðræktarstyrk, — því það, sem jörðin er þá orðin, er hún orðin í krafti jarðræktarlaganna, — þá er það hart lögmál undir að búa, að vera þannig sviptur tækifæri til þess að auka ræktunina áframhaldandi. T. d. ef roskinn bóndi með tveimur sonum sínum stefnir að því að gera jörðina þannig, að henni megi skipta á milli þeirra, þá hefir hann sjálfur svipt þá tækifæri til aukinnar ræktunar. Þessar skorður eru óeðlilegar og geta orðið hreinasta ranglæti. Og ég vildi benda á þetta, af því að það hefir ekkert verið nefnt áður.

Þá var eitt atriði, sem ég tók eftir í ræðu hv. flm., þegar hann talaði um skiptingu á styrk til nýræktunar og ræktunar í túni. Hann taldi rétt að gera mun á þessum styrkveitingum, vegna þess að nýræktin væri mun erfiðari. Það er rétt, að nýræktin er erfiðari, en að gera verulegan mun á þessu tvennu álít ég varhugavert. Ég álít, að lögin þurfi á sérstakan hátt að hvetja bændur til að rækta hin gamalræktuðu tún. Mér finnst, að hér hafi sézt yfir það, hve gömlu túnin eru orðin góð jörð. og að það er þess vegna mikið hagsmunamál fyrir bændur að gera gömlu túnin véltæk og ágæt, áður en byrjað er á nýræktun. Það væri ekki ástæðulaust að hvetja sérstaklega til að rækta fyrst og fremst hin gömlu tún. Bændur hafa stundum verið of djarfir í því að taka magra mold til ræktunar, og svo kemur til þess, sem erfiðast verður, að uppfóstra ræktunina og fita landið. Þetta er mér sérstaklega hugleikið, að komi fram til athugunar fyrir hv. landbn.

Ég vil svo aðeins að lokum láta þá heildarskoðun mína á þessu frv. í ljós, að mér sýnist stefna þess vera sú, að keyra sem mest undir ríkisvaldið og smækka olnbogarúm þegnanna til að ráða sjálfir yfir málum sínum. Ég álít þessa stefnu skaðlega. Ég veit, að bændur fylgjast vel með þessu máli, og þeir eiga sjálfsagt eftir að segja, hvort þeim finnst, að Alþingi hafi tekizt giftusamlega afgreiðsla þessa máls eða ekki. En því frjálsari sem almenningur fær að vera fyrir ríkisvaldinu, því betur finnst mér vera.