27.04.1936
Neðri deild: 57. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í B-deild Alþingistíðinda. (1752)

120. mál, jarðræktarlög

*Jón Pálmason:

Hv. síðasti ræðumaður hefir gert þessu máli allgóð skil að því er snertir ýmsar aths., sem ástæða er til þess að gera við það, og að öðru leyti hafði ég og hv. 7. landsk. farið um það allmörgum orðum hér í dag. En þrátt fyrir það finn ég ástæðu til að segja nokkur orð til viðbótar og til andsvara nokkrum atriðum, sem fram komu í ræðu hv. flm. hér í dag, og mér þykir leiðinlegt, að hann er ekki viðstaddur. En á meðan skal ég snúa máli mínu að hv. 2. þm. N.-M. um þau atriði, sem hann vék að í ræðu sinni.

Ég tók það fram í dag, að það hefðu verið hér uppi að undanförnu tvær stefnur í því, hvernig ætti að haga yfirráðunum í okkar búnaðarmálum. Unnur er sú, að Búnaðarfélag Íslands væri skrifstofu í stjórnarráðinu og þar með lagt niður, en hin sú, að efla og viðhalda félagsskapnum með því að byggja hann upp neðan frá og upp í gegn. Hv. 2. þm. N.-M. talaði um það, að það, sem ég sagði um það, að sú stefna, að gera Búnaðarfélag Íslands að stjórnarskrifstofu, hefði farið huldu höfði, að það væri illa mælt í sinn garð, því að hann hefði ekki farið dult með stefnu sínu í þessu efni. En sannleikurinn er sá, að fáar reglur eru án undantekningar. og þó að ég hafi orðið þess var, að mjög margir, sem fylgt hafa þessari stefnu í huga sínum, þó þeir hafi ekki látið hana, uppi, nema að hálfu leyti, þá er þessi hv. þm. undantekning, því að hann hefir alltaf haldið henni fram hvarvetna úti um land. — En við skulum nú athuga dálítið þær röksemdir, sem hann kom fram með í þessu efni í dag. Og þær voru, að hann vildi, þrátt fyrir það, þótt hann fylgdi þessari stefnu, halda Búnaðarfélagi Íslands áfram á svipaðan hátt og það er nú. Með þeim hætti er það augljóst mál, að það mundi verða tvöfaldur kostnaður að ýmsu leyti frá því, sem gera má ráð fyrir, ef önnurhvor stefnan yrði útfærð til fulls. Ef á að setja á fót sérstaka skrifstofu í stjórnarráðinu, eins og t. d. fræðslumálaskrifstofan er, og með þeim ráðamönnum, sem þar þyrftu að vera til þess að sjá um framkvæmd jarðræktarlaganna, búfjárræktarlaganna o. s. frv., þá taka þeir að mjög miklu leyti að sér þau störf, sem ráðunautar Búnaðarfélags Íslands hafa nú. Þess vegna tel ég, að það valdi sérstökum kostnaði að hugsa sér það fyrirkomulag, sem þessi hv. þm. vildi halda fram, að hafa annarsvegar skrifstofu í atvinnumálaráðuneytinu, sem hefði þessi mál, en hinsvegar hafa Búnaðarfélag Íslands eftir sem áður með sínum starfsmönnum og ráðunautum.

Að öðru leyti þarf ég ekki að svara því, sem þessi hv. þm. tók fram í sinni ræðu. En það voru nokkur atriði, sem fram komu í ræðu hv. flm., sem ég finn ástæðu til þess að víkja að. Hann lét sér þau orð um munn fara, að með því fyrirkomulagi, sem hér er gert ráð fyrir, væri verið að auka rétt bænda fram yfir það, sem nú er. Það er þvert á móti verið að rýra hann með því að gera búnaðarmálafélagsskapinn meir en áður var háðan hinu pólitíska valdi. Hann tók það ennfremur fram, að hann vildi ekki, að neitt væri sett inn í l., sem gæfi tilefni til þess, að ágreiningur rísi milli ráðherra annarsvegar og búnaðarmálastjóra hinsvegar. En ég veit ekki, hvað er betur fallið til þess að stofna til ágreinings milli þessara manna en það, að það sé gefið, að það sé settur í stöðu eins og búnaðarmálastjórastöðuna maður, sem þangað er settur gegn vilja meiri hluta búnaðarþings. Eins og tekið hefir verið fram rækilega í dag, þá má gera ráð fyrir, að það breytist aðstaðan að því er hina pólitísku skoðun snertir, þegar skipt er um stjórn, og eftir sömu hugsun ætti þá jafnframt að skipta um búnaðarmálastjóra. Það er að sjálfsögðu alltaf það heppilegasta í þessu sem öðru, að það séu sem allra minnstir árekstrar sem um getur verið að ræða hjá öllum þeim, sem eiga að byggja upp félagsskapinn, og hinum, sem yfir hann eru settir. Ég segi ekki með þessu, að það sé um neinn árekstur að ræða eins og sakir standa. Ég skal ekki um það segja, hvort hann verður, en það er til þess stofnað, að það er ekki ólíklegt, að hann verði meiri en verið hefir.

Hvað því viðvíkur, sem hv. flm. var að tala um, að það mundi að sjálfsögðu fara svo, að hver pólitískur ráðh., sem misnotaði vald sitt á þessu sviði, yrði ekki langgæfur, þá veit ég ekki, hvernig á frekar að misnota meirihlutavald hér á þingi en stefnt er að með þessu frv. gagnvart félagsskap íslenzks landbúnaðar. Það er hin herfilegasta misnoktun, að ætla sér með löggjöf að gera það að skilyrði fyrir jarðræktarstyrk, að umturna skipulagi búnaðarfélagsskaparins í landinu eftir geðþótta meirihlutavaldsins á þingi, þó að gengið sé framhjá því, sem ég vék að í dag, og mun vera fágætt, en það er, að frv., sem samið er af mþn., er falið fyrir þeim þm., sem eru andvígir stj., en geymt hjá hinum í heilan mánuð.

Þá tók hv. flm. það fram, að hann liti svo á, að áhrifin, sem Alþingi hafði til stjórnar á Búnaðarfélagi Íslands, hefðu verið miklu sterkari eins og þau voru áður en frv. til breyt. á jarðræktarlögunum, sem samþ. var í fyrra, náði fram að ganga. Þessu er, að því er ég fæ bezt séð, þveröfugt farið, því að eins og síðasti ræðumaður vék að, var því ekki verr fyrir komið en það, að það voru landbn. Alþingis, sem réðu því, hverjir stjórnarnefndarmennirnir voru, og svo höfðu þeir frjálsar hendur úr því sem stjórnendur í Búnaðarfélagi Íslands. En nú er gert ráð fyrir því, að ef þá greinir á við framkvæmdarstjórann, sem að sjálfsögðu á að vera undir þá settur, þá er það ráðh., sem á að skera út; en þetta stefnir að því, að stjórn Búnaðarfélags Íslands getur verið valdalaus um þau atriði, sem hún ef til vill kysi helzt að koma fram. Það leiðir af sjálfu sér, að ef þessir menn fara út í eitthvað það, sem bændastéttinni er ógeðfellt þá verða þeir ekki langgæfir, því gegnum fulltrúa búnaðarfélaganna á að vera hægt að skipta, um þá, hvenær sem þeir fara inn á aðrar brautir en þær, sem búnaðursamböndin telja heppilegar.

Þá kem ég að því atriðinu að hafa mismunandi styrk til einstakra bænda. Hann játaði það, hv. flm., sem eðlilegt var, að það lægju ekki eingöngu þær orsakir til þess, að minna væri ræktað á sumum jörðum en öðrum, að styrkurinn væri of lágur. Hann tilfærði m. a. það, að menn á sumum jörðum hefðu ekki lagt eins ríka áherzlu á það að auka ræktunina, af því að þeir hefðu góðar engjar og véltækar. Ennfremur það, að áður en þessi 1. gengu í gildi 1923, þá hefðu verið til margar jarðir svo góðar, að menn þeir, sem á þeim bjuggu, töldu ekki brýna þörf á því að auka heyframleiðsluna með aukinni ræktun. En ef við lítum nú á þetta, þá kemur það þannig út, að menn, sem búa á þessum góðu jörðum og hafa ræktað lítið, síðan jarðræktarlögin gengu í gildi, eiga að fá hærri styrk en aðrir. En hvernig kemur þetta svo út? Þeir, sem búa á þessum góðu jörðum og lítið hafa ræktað, fá hærri styrk en þeir, sem búa á lélegum jörðum, en hafa lagt mikið kapp á það að rækta, en eiga lítinn eða engan styrk að fá, þótt jarðir þeirra séu lakari en hinna, sem tiltölulega litla ræktun hafa þurft að leggja í, af því að þeir búa á svo góðum jörðum. Þetta er aðeins eitt atriði af mörgum, sem kemur fram sem árekstur í sambandi við þessar reglur, sem hér eru upp teknar, og ég held, að þeir árekstrar verði miklu fleiri en þetta eina.

Þá er það eitt atriði, sem ég skal ekki fara mikið út í, en tel rétt að minnast á, að gefnu tilefni frá hv. flm., en það eru ákvæði 17. gr., sem gera ráð fyrir því, að jarðræktarstyrkurinn sé lán, sem hvílir á jörðinni um aldur og æfi. Hv. flm. játaði, að það kynni að vera, að það vantaði ákvæði í sambandi við þessa gr. um það, hvernig ætti með að fara, ef verðfall yrði á jörðunum. Nú vitum við, að frá 1930 hefir verið svo mikið verðfall á jörðum hér á landi, að það er ekki aðeins, að jarðir á mörgum stöðum hafa fallið í verði sem nemur öllum þeim umbótum, sem á þeim hafa verið gerðar síðan, heldur miklu hærri upphæð. Undir slíkum kringumstæðum hafa viðkomandi bændur ekki aðeins tapað því, sem þeir hafa lagt í jarðirnar, heldur meira til. En eftir þeirri reglu, sem hér á að innleiða, verkar þetta þannig, að þeir, sem hafa vegna verðfalls tapað þeirri upphæð, sem þeir hafa lagt í sínar jarðir, eiga til viðbótar að taka á sig það, að það sé reiknaður þeim til skuldar allur sá styrkur, sem ríkið hefir lagt fram, til þess að þessar umbætur verði. Á þennan hátt verður þessi regla herfilegasta ranglætisregla. Hér þarf að hafa allt aðra skipun á, til þess að unnt sé að ná því takmarki, sem mér virtist af ræðu hv. flm., að helzt vekti fyrir honum.

Ég held, að það hafi ekki verið fleiri atriði í ræðu hv. flm., sem gáfu sérstaka ástæðu til andsvara, og skal ég því láta hér staðar nema. En að lokum vil ég geta þess, að menn geta sannarlega ekki undrazt það, þótt mál eins og þetta sé rætt allmikið, eins og undirbúningur þess hefir verið fram að þessu, síðan það þing byrjaði sem nú stendur yfir.