27.04.1936
Neðri deild: 57. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í B-deild Alþingistíðinda. (1753)

120. mál, jarðræktarlög

*Jón Sigurðsson:

Ég mun verða stuttorður að þessu sinni. Síðan ég talaði og hv. flm. svaraði, hafa tveir hv. þm. talað á undan mér, og þeir hafa eðlilega komið inn á ýmislegt af því, sem ég ætlaði að svara. Ég mun þess vegna ekki fara að endurtaka það í neinum verulegum atriðum, en aðeins minnast á örfá atriði.

Aðalatriðið í þessu máli er viðvíkjandi búnaðarfélaginu, sem er það, sem ég sérstaklega drap á í minni ræðu. Það, sem hefir unnizt við þessar umr., er, að það er viðurkennt, að yfir Búnaðarfélag Íslands á að setja starfsmann, sem getur farið sínu fram, hvað sem stjórn Búnaðarfélags Íslands og búnaðarþing segja, ef hann aðeins hefir meðhald ráðh. Hann getur þess vegna bæði hundsað búnaðarþing og stjórn Búnaðarfélags Íslands. Ég get ekki betur séð en að þegar svo er komið, þá sé frjálsræðið orðið lítið og tæplega hægt að segja, að hér sé um óháðan félagsskap að ræða. Völdin í félagsskapnum eru þess vegna, eins og ég sagði áður og haldið hefir verið fram, ekki lengur í höndum bænda eða fulltrúa þeirra, heldur eru völdin í raun og veru lögð í hendur landbrh. eða þeim stjórnmálaflokki, sem fer með völdin í það og það skiptið. En það skrítna við þetta er, að þetta skipulag tryggir alls ekki þá góðu samvinnu, sem hv. flm. var að tala um í sinni ræðu. Mér virðist, að þessi breyt. sé sýnilega miðuð við það eitt að gagna núverandi valdhöfum, sem er samkv. frv. ætlað að skipa fyrsta búnaðarmálastjórann.

Þá var hv. flm. mjög fjölorður um þær breyt., sem ætti að gera á kosningafyrirkomulaginu. Hann gat ekki neitað því, að við kosningar til búnaðarþings væri fylgt sömu reglum eins og við kosningar til aðalfundar Sambands íslenzkra samvinnufélaga. Hann sagði, þegar hann var að tala um þetta, að kosningar til búnaðarþings væru nánast brot á öllum lýðræðisreglum og að þetta væru alls ekki sambærilegar stofnanir, S. Í. S. og búnaðarþing, eins og ég hafði þó bent á. Ég vil benda á það, að hvorttveggja þetta félag er bændafélag, og bæði byggð upp á sama hátt. Í S. Í. S. eru félagadeildir í hverjum hreppi; þær safna sér saman í heildir, þar sem kaupfélögin eru, en þau eru hliðstæð búnaðarsamböndunum hjá búnaðarfélagsskapnum, og að lokum kemur svo S. Í. S. sem er hliðstætt Búnaðarfélagi Íslands. Hvortveggja þessi félagsskapur er því hliðstæður og byggður upp á sama hátt. Það er því ekki nema eðlilegur hlutur, að það gildi mjög svipaðar reglur um kosningar í báðum þessum félögum. Nú hefir ekki komið hreyfing um það, hvorki frá stjórn Sambandsins eða þeim, sem eiga við þessi ákvæði að búa, að breyta ákvæðum Sambandsins á þá lund, sem hér er farið fram á. Hann vildi færa það fram sem ástæðu, að þetta væri ekki sambærilegt að því leyti, að Búnaðarfélag Íslands hefði með höndum ýmis störf fyrir ríkisstj. Það er alveg rétt, að það hefir hingað til haft með höndum mörg störf fyrir ríkisstj. En það hefir S. Í. S. líka. Ég veit ekki betur en það hafi haft áburðarsöluna, og líka mun það hafa kartöflusöluna, sem hlýtur að verða mjög stórt fyrirtæki. Þessi félög eru því fullkomlega sambærileg, og það var fullkomin ástæða til þess fyrir mig, þegar ég tók þessi tvö félög og benti á, að aðstaðan hjá þeim væri lík. Þá hefir S. Í. S. verið tryggður mikill óbeinn styrkur með ákvæðum samvinnulaganna. Hér er því um félög að ræða, sem eru algerlega hliðstæð, og sé kosningafyrirkomulagið talið óhafandi hjá Búnaðarfélagi Íslands, hlýtur í því að felast viðurkenning þessara sömu manna um, að það sé það einnig hjá hinni stofnuninni. En ég skal játa, að þetta út af fyrir sig er ekki neitt aðalatriði í þessu máli. Aðalatriðið er það, að hvergi liggja fyrir óskir frá bændum um, að þessu kosningafyrirkomu lagi sé breytt. Ég hefi alls ekki orðið var við, að þetta væri orðað, ekki einu sinni á landsfundum bænda, en hv. flm. vitnaði mjög í það, að landssamband bænda hefði verið stofnað af því, að menn hefðu verið óánægðir með kosningafyrirkomulag Búnaðarfélags Íslands. Ég hefi nú nokkuð fylgzt með störfum landssambandsins, og ef það hefði verið stofnað í þeim tilgangi, sem hv. flm. vildi telja, hlaut það að verða eitt af þess fyrstu verkum að samþ. áskorun um að breyta lögum búnaðarfélagsins. En mér er ekki kunnugt um eina einustu áskorun frá landsfundum bænda um að gera neitt slíkt. Það virðist ljósasta sönnunin fyrir því, að þetta, sem hv. flm. er að ræða um, er ekkert nema hans eiginn hugarburður. Aftur hafa legið fyrir á undanförnum árum mjög ákveðnar áskoranir, bæði frá landsfundunum, búnaðarsamböndum og fundum víðsvegar um land um það, að B. Í. fengi full umráð allra sinna mála, ekki aðeins vald yfir búnaðarmálastjóra, heldur hefði líka rétt til að skipa stjórn félagsins að öllu leyti. Þær áskoranir hafa bæði legið fyrir búnaðarþingi og Alþingi. En setjum svo, að einhver fótur væri fyrir því, að þær óskir séu uppi, sem hv. flm. talar um, — því þá ekki að láta bændur sjálfa um að kippa þessu í lag? Þetta er þeirra félagsskapur, — og hverjum stendur nær en einmitt þeim sjálfum að lagfæra slíki og koma fram með rökstuddar till. um, á hvern hátt það skuli gert? En tilfellið er, að þeir, sem að þessu máli standa, hafa enga trú á þessum fullyrðingum sínum um óskir bænda. Og af því, sem fram er komið, er þannig fyllilega ljóst, að þeir trúa bændum alls ekki fyrir því að ráða, hvernig þeir velja sér fulltrúa. Þeir hvorki trúa þeim eða treysta til þess. Traustið er nú einu sinni ekki meira en þetta. Það, sem þeir stefna að, það er ekki að leggja þetta á vald bændanna sjálfra og ætla þeim að ráða þessum málum, eins og öðrum félagsmálum sínum, heldur hugsa þeir sér að kúga þetta fram með valdboði frá Alþingi og ríkisstj. Það er þetta, sem ég átel. Það má vel vera, að slíkar breyt., sem hér er um að ræða, hafi einhvern rétt á sér. Það má vel vera, að æskilegra væri, að búnaðarþingið væri eitthvað fjölmennara og gæti setið lengur að störfum heldur en nú er. En það kostar peninga, stóraukin útgjöld, og búnaðarþingið hefir ekki talið, að Alþingi væri ennþá svo ríflegt á fjárframlög til búnaðarfélagsins, að ástæða væri til að verja miklu meira en nú er gert til þingsetunnar, og að því fé, sem það hefir til umráða, væri betur varið til annara þarflegra framkvæmda, sem alltaf kalla að. Ég tel því, eins og ég sagði áðan, að það komi ekki til mála, að búnaðarþing fari að gera slíkar breyt. eftir valdboði. Hitt stendur alltaf opið fyrir fulltrúa bænda, að koma fram með till. um þær breyt., sem þeir telja nauðsynlegar á hverjum tíma, jafnt þessar sem aðrar. Ég segi fyrir mig sem búnaðarþingsfulltrúi, að ef ég ætti sæti á næsta búnaðarþingi, mundi ég ekki sjá mér fært að taka á móti öðru eins valdboði eins og hér er lagt til að leggja á búnaðarfélagið.

Ég skal svo ekki hafa þetta miklu lengra, þótt eitt og annað sé, sem ég hefði e. t. v. ástæðu til að svara. Hv. flm. var að gera sér það til gamans að taka upp eftir mér orð og brot úr setningum, slíta þau úr samhengi og leggja svo út af því. Slíkt er alltaf hægt að gera, og reka svo ofan í viðkomanda það, sem hann aldrei hefir sagt í því sambandi, sem látið er heita. En um það ætla ég ekki að ræða. Ég hefi haldið mér stranglega við það efni, sem hér liggur fyrir til umr. Hv. flm. virtist vera undrandi yfir því, að ég spurði um. hvers búnaðarfélagið ætti að gjalda, er slíkum fantatökum — mun ég hafa sagt — á að beita við það, eins og ég tel hér um að ræða. Hann taldi, að hér væri ekki um neina refsingu að ræða eða neitt slíkt; þetta væru aðeins bætur. Það má vel vera, að þegar honum er skipað eitthvað með valdboði, þá telji hann það bætur einar, og að hann sé fús að kyssa á vöndinn, ef svo mætti segja, og þyki það vel hlýða á allan hátt. Það gladdi mig þó, að hann lýsti að endingu yfir, að hann hefði þá trú, að hver sú stj. eða sá landbrh., sem reyndi að þrengja kosti búnaðarfélagsins, mundi ekki verða langlífur í ráðherrasæti. Ég hefi líka þessa trú og vænti, að svo fari einnig í þetta sinn.