30.04.1936
Neðri deild: 60. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (1762)

120. mál, jarðræktarlög

*Frsm. 2. minni hl. (Jón Pálmason):

Það hefir þegar verið tekið fram af þeim 2 meðnm. mínum, sem hafa talað, hvernig samstarfið í n. byrjaði hvað mál þetta snerti. Það fór á þá leið, eins og vikið hefir verið að, að við hv. þm. Borgf. fórum fram á, að leitað yrði eftir áliti B. Í, sem allir voru sammála um, en hinir töldu sig ekki geta tafið málið með því að bíða eftir áliti félagsins. Því hefir verið borið við, að líkindi væru til þess, að það gæti tafið málið svo og svo lengi. Nú hefir það sannast, sem við héldum fram í þessu sambandi, að þetta þyrfti ekki að tefja málið mikið, því að álit búnaðarfélagsstjórnarinnar liggur nú þegar fyrir, og eru þó ekki nema tveir dagar liðnir frá því, að n. hélt fund. Hér er beitt svo mikilli frekju af hálfu hv. meiri hl. þessarar n., að ég hefi ekki kynnzt slíku fyrr hjá henni, því að með þessu hefir verið komið í veg fyrir, að n. gæti verið sammála um að taka þetta mál til athugunar. Við 1. umr. kom það í ljós, hvaða höfuðatriði það eru, sem ágreiningur er fyrst og fremst um, og get ég því verið stuttorður um málið, jafnvel þótt full ástæða sé til að fara út í mörg þau umr. En vegna þess að hv. frsm. 1. minni hl., hv. þm. Mýr., fór svo ýtarlega út í þetta mál, þá kemst ég ekki hjá því að víkja nokkrum orðum að þeim atriðum, sem hann drap hér á til varnar þeim aðferðum, sem hér er beitt í sambandi við þetta mál. Ég verð að segja, að það er raunalegt til þess að vita, að það skuli vera meðstjórnandi í Búnaðarfélagi Íslands, sem kosinn hefir verið af búnaðarþinginu í fullu trausti, sem verður til þess að hafa hér framsögu fyrir því að knýja þetta mál gegnum þingið síðustu daga þess, knýja, það fram með svo mikilli frekju, að það má ekki einu sinni bíða eftir áliti stjórnar búnaðarfélagsins 1–2 daga, og er þetta því furðulegra, sem hér er um svo gersamlega breyt. að ræðu á þeim félagsskap, sem Búnaðarfélag Íslands er höfuðið á og bændastétt landsins er kærari en nokkur annar félagsskapur og er þess vegna flestum öðrum félagsskap þýðingarmeiri fyrir þjóðina í heild sinni. Ég og hv. þm. Borgf., sem erum í minni hl., teljum það algerða óhæfu að gera slíkar gerbreyt. á þessum félagsskap, án þess að þeir aðiljar, sem hlut eiga að máli. fái tækifæri til þess að láta í ljós álit sitt á málinu. Hv. þm. Mýr. sagði, að sér þætti leitt að geta ekki vísað þessu máli til búnaðarsambandanna og búnaðarþinganna, og mig furðar ekkert á því, þó að hann hálfpartinn klígi við því að afgreiða þetta mál án þessa sjálfsagða undirbúnings, en hann hélt því fram, að það mundi ekki hafa þau áhrif, að skoðun þm. breyttist nokkuð við það. Menn hljóta að sjálfsögðu að hafa sína sannfæringu án tillits til skoðana annara, en þetta er svo sjálfsögð krafa frá okkar sjónarmiði, að framhjá henni er með öllu óheimilt að ganga. Það er kunnugt, að hv. þm. Mýr. hafði sem stjórnarmeðlimur búnaðarfélagsins samkv. kröfu búnaðarþingsins flutt árum saman í lagaformi beiðni um, að búnaðarþingin fengju að kjósa alla stjórn búnaðarfélagsins, svo að félagið fengi þar með að fullu sitt sjálfsforræði. Þetta frv. var drepið ár eftir ár, m. a. af flokksbræðrum þessa hv. þm., og það var þess vegna almenn skoðun úti á landsbyggðinni, að ekki væru svo fullkomin heilindi á bak við, þau sem tveir stjórnarnefndarmenn í Búnaðarfélagi Íslands áttu sæti í sama flokki á þingi. Að þetta hefir verið svo, sannaðist fullkomlega á síðasta þingi með framkomu hv. þm. Mýr., þar sem hann mælti með því, að ekki væri aðeins kippt til baka því, sem náðist í þessu efni í fyrra, heldur að gengið væri miklu lengra í því að tryggja ríkisvaldinu yfirráð yfir þeirri stofnun, sem hér um ræðir. Þó að það sé í sjálfu sér illt, að landbn. Alþingis kjósi meiri hl. í stjórn búnaðarfélagsins, þá er hitt þó verra, sem ákveðið er með þessu frv. Í fyrsta lagi, að val búnaðarmálastjóra skuli vera samþ. af ráðh., í öðru lagi, að ef stjórn búnaðarfélagsins og búnaðarmálastjóra greinir á, þá skuli ráðh. skera úr, og í þriðja lagi gerbreyting á kosningafyrirkomulaginu, sem er undirstaðan undir búnaðarþingunum. Allt þetta gerir það að verkum, að vald það, sem þessi allsherjarfélagsskapur bænda hefir haft og á að hafa,er af honum tekið. Hv. þm. Mýr. var að tala um það, sem er nokkuð til í, að þessi félagsskapur væri tvíþættur; annarsvegar væri prívatfélagsskapur, sem hefir með að gera leiðbeiningarstarfsemi á sviði landbúnaðarins, en hinsvegar félagsskapur, sem hefir umsjón með þeim lögum, sem sett eru um jarðrækt og kvikfjárrækt. Þetta vildi hv. þm. greina mjög í sundur og sagði það, sem ég efast mjög um, að sé rétt, að sú stefna hefði fengið aukið fylgi undanfarin ár, að taka umsjón með búfjárræktarlögunum, sandgræðslunni o. fl. algerlega undir ríkisvaldið. Ég held, að þeirri stefnu hafi ekki aukizt fylgi meðal bændastéttarinnar. Það undanhald, sem kemur fram í brtt. þessara manna á þskj. 465, um ágreining milli búnaðarmálastjóra og Búnaðarfélags Íslands, kemur ekki að því haldi, sem fullnægir mér eða öðrum, sem heimta að þessi félagsskapur fái sjálfur að ráða sínum málum. Við skulum segja, að það yrði ágreiningur milli stjórnar búnaðarfélagsins og búnaðarmálastjóra um það, hver ætti að vera jarðræktarráðunautur eða hver ætti að vera búfjárræktarráðunautur, þegar skipt verður um þessa starfsmenn. Það er áreiðanlegt, að það hefir mjög mikla þýðingu, hvað menn hafa þessi störf með höndum, og ég efast ekki um, að ef ágreiningur yrði um þetta atriði milli stjórnar búnaðarfélagsins og búnaðarmálastjóra, að ráðh. vildi taka ráðin í sínar hendur. Að þessu athuguðu, get ég slegið því föstu, sem ég gerði við l. umr., að það er höfuðkrafa mín í sambandi við þetta mál, að hér sé engu breytt án þess að það sé borið undir búnaðarþingin og búnaðarsamböndin, og ég held, að þeir, sem berjast fyrir þessu máli og nú hafa stjórn landsins í sinni hendi, treysti næsta lítið á sitt áhrifavald í þessu efni, ef þeir treysta sér ekki til að koma þessu máli á framfæri við búnaðarþingin og búnaðarsamböndin, þannig að þeir geti fengið fram þær breyt., sem þeir kunna að óska eftir.

Ég skal ekki fara mikið út í þau mörgu atriði, sem að öðru leyti er stór ágreiningur um í þessu sambandi, því að það er höfuðatriðið, að fara að lögþvinga búnaðarþingin og stjórn Búnaðarfélags Íslands undir vald ríkisins, — það er höfuðatriði, sem ekki er um nokkra tilslökun að ræða á frá minni hálfu og hv. þm. Borgf. Hitt er annað atriði, sem kemur hér mjög til greina, sem sé breyt. á styrkjum og það, að jarðræktarstyrkurinn skuli vera lán, en ekki styrkur. Það er að vísu atriði, sem við erum mótfallnir, en við skiljum, að er innan þeirra takmarka, sem Alþingi á að sjálfsögðu að hafa með höndum.

Hv. þm. Mýr. talaði um það, að ríkistekjurnar færu stöðugt minnkandi og þess vegna væri nauðsynlegt að draga úr á þessu sviði, eins og öðrum, en ég vil bara segja það, að frá sjónar miði bændanna mundi það verða talið óheppilegra en nokkuð annað að draga úr þessu, vegna þess að þetta eru þeir styrkir, sem koma að langmestu haldi til umbóta í sveitum landsins

Að því er snertir ákvæðið um styrk til einstakra manna, þá fór ég nokkuð inn á það við l. umr., hvílík mótsögn gæti komið þar fram, og þarf því ekki að fara mikið út í það nú. Ég benti á það, að svo getur verið, að maður, sem býr á ágætri jörð með miklum flæðiengjum og stóru og stéttu túni og hefir ekki þurft að leggja áherzlu á jarðrækt á því tímabili, sem lögin hafa gilt, en ef hann stundar jarðrækt núna, frá fær hann hærri styrk en þeir, sem hafa gert góðar jarðir úr kotum. Í öðru lagi er það svo, að þess eru dæmi, að fleiri en einn maður búi á sömu jörð, og þess vegna hafa verið gerðar miklu meiri jarðabætur á henni en ella hefði verið gert, en með þessum hætti, að setja hámark á styrkinn, yrði hann skorinn niður hjá þeim aðiljum, og þannig mundi koma fram ranglæti, sem frá mínu sjónarmiði er með öllu óverjandi.

Þá skal ég aðeins víkja að 17. gr., sem fjallar um, að þessi styrkur verði talinn lán. Gr. hefir verið breytt nokkuð að vísu, en þrátt fyrir það er með öllu útilokað, að við hv. þm. Borgf. getum gengið inn á þessa gr. Ég skal ekki fjölyrða um önnur smærri atriði þessa frv., því að þau eru aukaatriði, borið saman við þau þrjú höfuðatriði, sem hér valda aðallega ágreiningi.

Þá skal ég að lokum minna lítið eitt á 8. gr. frv., sem gerir ráð fyrir, að landbrh. sjái um framkvæmd þessara laga, ef búnaðarfélagið kastar frá sé umsjóninni með þeim. Með þessum hætti er yfirumsjónin, ef til þeirra kasta kæmi, tekin ekki aðeins af búnaðarfélaginu, heldur einnig af Alþingi og sett undir vald ráðh. Allt þetta gerir það að verkum, að við hv. þm. Borgf. álitum, að það sé með öllu ófært að knýja þetta mál fram undir þinglokin, enda hefir ekkert atriði verið tekið fram til sönnunar því, að nokkur þörf sé á því að flýta þessu máli, eins og þeir vilja gera, sem harðast berjast fyrir því að knýja þetta mál áfram. Ég hefi ekki fengið nokkra sönnun fyrir því, hvað það er, sem gerir það að verkum, að ekki sé óhætt að draga afgreiðslu þessa stórmáls um eitt ár, því að það er rétt, sem hv. þm. Mýr. sagði, að það mundi ekki valda nema eins árs bið að vísa málinu til búnaðarsambandanna og búnaðarþinganna.