02.05.1936
Neðri deild: 61. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1178 í B-deild Alþingistíðinda. (1768)

120. mál, jarðræktarlög

*Hannes Jónsson:

Það verður varla nema til málamynda, að ég tek hér til máls við þessa umr. um þetta merkilega mál, sem hér liggur fyrir. Ég hefi undanfarna daga verið veikur og ekki getað sinnt þingstörfum og ekki getað fylgzt með málflutningnum eða séð brtt. við frv. eða annað það, sem fram hefir komið því viðvíkjandi. Ég bjóst líka við því, að í svona stóru máli sem þetta er, þá myndi sú sanngirni sýnd af meiri hl. á þingi, að ekki yrði hrapað að því að afgr. þetta, heldur yrði gefinn tími til þess að athuga málið vel og rækilega og bera fram brtt. við það, svo rækilegar sem efni stóðu til, eins og málið var lagt fyrir Alþingi. Nú sé ég, að þetta mál á að hespa af með afbrigðum af meiri hl. á Alþingi. Og hvað er það, sem veldur því, að stjórnarflokkarnir leggja svo mikla áherzlu á að fá þetta mál afgr. í þinglokin, eftir að þeir eru búnir að hafa málið til meðferðar svo að segja allt þingið innan sinna flokka? Þeir hafa legið yfir frv. án þess að lofa öðrum flokkum að fylgjast með málinu. Hvað er það, sem veldur því, að stjórnarflokkarnir leggja svo mikið kapp á þetta mál og fara svo mjög aftan að þingfulltrúunum, að þeir leggja málið ekki fyrir þingið, þegar það er tilbúið frá mþn., heldur liggja sjálfir með það og eru að bræða sig saman um afgreiðslu málsins á þinginu? Það er sjálfsagt víða að leita þeirra orsaka, sem fyrir þessari afgreiðslu málsins liggja. Þær orsakir hafa komið fram bæði á Alþingi og í skrifum stjórnarflokkanna í blöðum þeirra. Ástæðan er sú, að þeir lita hornauga þá starfsemi bændastéttarinnar, sem kemur fram í starfsemi Búnaðarfélags Íslands, búnaðarsambandanna og hreppabúnaðarfélaganna. Það eru samtök bændastéttarinnar, samtakamáttur bændastéttarinnar, sem þessir flokkar eru að reyna að fyrirbyggja með því að koma sem mestri ringulreið á skipun þessara mála, sem sýndust vera komin í það horf, að í gegnum þann félagsskap væri hægt að sameina átök bændanna í sterka og voldug, heild. Samhliða þessari árás stjórnarflokkanna á samtök bændastéttarinnar, þá er einhver uggur í brjósti þeirra um það, að það væri ekki álitlegt, ef bændastéttin íslenzka losnaði úr þeim fjárhagskút, sem hún er komin í og hefir verið í að undanförnu. Það yrði kannske óþægilegt að eiga ráð sitt undir þeirri stétt, ef hún myndi eitthvað vera að rétta við fjárhagslega. Annars virðist þetta ekki vera á sterkum rökum byggt. En þetta virðist koma fram í orðum, sem form. Framsfl. lét falla nýlega, þar sem hann sagði, að bændastéttin væri bezt stæða stétt þjóðfélagsins. Það er svo komið, að hann virðist hræddur við það, hvað þessi stétt sé fjárhagslega öflug. Sá maður og ýmsir aðrir, sem honum fylgja, virðast hafa eitt lífstakmark, og það er að berjast á móti þeim, sem efla hinn fjárhagslega mátt í lífi og störfum hinnar íslenzku bændastéttar. Á móti öllum slíkum mönnum er barátta háð, og það er nú svo komið, að þessir leiðandi menn í Framsfl. eru farnir að líta bændastéttina hornauga. Það safnast saman rök fyrir því, hversvegna slíkt mál sem þetta er flutt á Alþingi, þar sem svo mikil undirhyggja og flærð hefir komið fram við undirbúning þess. Það á svo sem að reyna að tryggja það, að ekki réttist við fjárhagsleg afkoma bændanna meira en góðu hófi gegnir. Þeir hafa þó undanfarin ár haldið því hátt á lofti, að þeir hafi staðið vörð um þá löggjöf, sem nú hefir staðið um nokkur ár og hefir verið talin af þeim ein bezta máttarstoðin í viðreisnarstarfi íslenzku bændastéttarinnar. En nú er að þeirra áliti kominn tími til þess að stinga við fæti og taka þennan styrk af að sumu leyti, en að sumu leyti á að skerða hann stórkostlega, og að sumu leyti á það ekki að vera neinn styrkur, heldur lán, sem endurkræft er á sínum tíma. Þetta er öll umhyggjan fyrir íslenzkri bændastétt, sem kemur fram hjá Framstl., fyrst og fremst hjá formanni hans, en síast síðar og seytlar út til annara flokksmanna, svo að síðustu nær hún út í litla fingur hins óbreytta flokksmanns. Mér sárnar, að hv. þm. Mýr. skuli vera orðinn eins sýktur af árásarhug til bændastéttarinnar og aðrir flokksmenn hans. Ég get sagt, að þegar svo er komið, þá getur maður ekki vænzt neins góðs, því að ég vonaði þó, að hann styngi við fótum í lengstu lög. Og verð ég þá næstum að trúa þeirri hugmynd, að aðstaðan hafi verið þannig, að hann telji sig hafa verið neyddan til að ganga með til þessa gráa leiks til þess að hindra enn þá svæsnari árásir, sem riðið hefðu bændastéttinni alveg að fullu, og það er sú eina afsökun, sem er frambærileg. Maður hefir aldrei búizt við, að frá sósíalistum kæmi annað en niðurrifsstefna í þessum málum, byggð á því, að þeir óttast, að bændastéttin geti orðið óháð fjárhagslega, en það telja þeir ekki heppilegt fyrir sig eða vænlegt til pólitísks sigurs. Ég sé, að hv. 2. þm. N.-M. glottir við tönn út í glugga, en hann fær áreiðanlega tækifæri til að iðrast, þótt ekki verði fyrr en eftir næstu kosningar. Hann getur glott, meðan hann sker niður við trog áhugamál bændanna, sem þessi hv. þm. þykist vera að vinna fyrir og á að vinna fyrir sem trúnaðarmaður þeirra í starfi hjá B. Í., en hann á eftir að finna á öðrum vettvangi, hvernig íslenzk bændastétt lítur á aðstöðu hans gagnvart hennar hagsmunum, sem hann á að gæta.

Það mætti rifja hér upp og benda á, hver þróunin hefir verið í skipulagi B. Í., en ég ætla ekki að eyða löngum tíma í það. Ég vil aðeins benda á það, að á síðari árum hefir færzt í það horf að byggja félagið upp neðan frá, allt frá einstökum félögum hreppanna í búnaðarsambönd héraðanna og upp í Búnaðarfélag Íslands, sem kosnir eru til fulltrúar frá búnaðarsamböndum héraðanna og er því nokkurskonar samband sambandanna. Þetta fyrirkomulag hefir gefizt vel og samsvarar félagslega alveg nákvæmlega þeirri tilhögun, sem er á samvinnufélögum bændanna og hefir þar gefizt vel. En nú koma íslenzku valdhafarnir og segja, að það verði að bylta þessu fyrirkomulagi. En það er ekki rétt að rjúfa þetta fyrirkomulag. En ég veit, að þessir menn líta í eiginn barm og hvísla að sjálfum sér, að þetta skipulag sé of sterkt til þess, að þeir geti notað bændurna í sínum pólitíska skollaleik; þeir gera því sinn leik til þess að rýra vald bændastéttarinnar. — til að fyrirbyggja, að bændur í gegnum sinn félagsskap geti eflzt að félagslegum mætti —, til að fyrirbyggja, að l. um jarðræktarstyrk verði til þess, að bændurnir verði fjárhagslega sjálfstæðir og óháðir. En það er sorgleg staðreynd, að stjórnarflokkarnir byggja starf sitt á því, að bændurnir séu ekki efnalega sjálfstæðir, og á þá lund hafa stjórnarflokkarnir rekið starfsemi sína nú um stund, og endurspeglast í þeirri skoðun, sem komið hefir fram hjá merkum bónda austanfjalls, að stærsta ólánið við uppgerð kreppulánasjóðs væri, að slitin hefðu verið tengsl bóndans við verzlunina, svo að þar væri nú ekki sama bandið og áður á milli, þ. e. skuldabandið. Það er löngunin til kúgunar, sem þessir flokkar nærast á í störfum sínum á Alþingi.

Ætli það væri ekki ástæða til með jafnstórt mál og þetta, sem snertir hagsmuni jafnmargra bænda og þetta mál, að lítið væri við og þjóðinni væri gefið tækifæri til að líta um öxl og henni væri gefin aðstaða til að láta uppi skoðun sína um þetta mál. Er það of mikið frjálsræði að gefa bændunum kost á því að segja álit sitt um þetta mál, — þessi lög, sem nú á að breyta? Eða vilja stjórnarflokkarnir loka öllum eyrum sínum fyrir því að leyfa bændum að hafa áhrif á þetta, — þessar breytingar, sem leiðandi menn stjórnarflokkanna vilja gera? Ég vil beina því til þeirra manna innan þessara flokka, sem einhvers meta hagsmuni bændanna og ekki vilja gersamlega fótum troða vilja þeirra, hvort þeir séu ekki fúsir til að gefa bændunum kost á að ræða nánar þetta mál, og hvort þeir vilja ekki innan þingsins leggjast á sveif með stjórnarandstæðingum um að hindra afgreiðslu þessa máls nú á þessu þingi.

Eins og ég hefi tekið fram, þá hefi ég ekki haft tækifæri til að rekja einstök atriði og bera saman brtt. þær, sem fyrir liggja, og frv., þar sem ég hefi ekki séð þær fyrr en nú áðan. En mér sýnist svo, að þeir þm., hv. þm. Mýr. og hv. 2. þm. N.-M., sem mynda hér minni hl., hafi þrátt fyrir ýtarlegan lestur frv. og yfirlegu um tveggja mánaða skeið, borið fram brtt., og síðan gagngerðar brtt. við sínar eigin brtt., svo að manni sýnist eftir þennan tíma og undirbúning, að margs sé að gæta og margt að laga, og varla skal maður halda, að þessi endurbót sé sú eina rétta, sem þeir nú að lokum hafa fallizt á. Þar sem ég hefi ekki fyrr verið viðstaddur umr. um þetta mál, hefi ég vikið nokkuð að einstökum atriðum og brtt., sem sjálfsagt hefir verið gert við fyrri umr.

Ég ætla ekki að fara út í þetta frekar, en hefi viljað með nokkrum orðum láta í ljós skoðun mína á frv. sjálfu og þeim tilhneigingum stjórnarflokkanna, sem eru fyrir því, að þeir flytja þetta mál. — Sennilega er þýðingarlaust að halda uppi löngum umr., því að mér skilst, að búið sé að hneppa í þá fjötra, sem ekki verður leyst úr, en það skulu þeir vita, þm. stjórnarflokkanna, að þótt þeim takist nú að reyra hnútinn að hálsi íslenzkrar bændastéttar, þá mun síðar verða á hann höggið. Og það mega þeir vita, að þá munu þeir gjalda glópsku sinnar, þeir sem mest hafa beitt sér fyrir því að ræna íslenzka bændastétt þeim rétti, sem í hverju siðuðu þjóðfélagi er álitinn helgur, — réttinum til að mynda sinn félagsskap óáreittur af þjóðfélaginu og án afskipta löggjafarvaldsins. Þessi réttur bændanna er nú brotinn á bak aftur af íslenzkum valdhöfum nú um sinn. En trúa mín er sú, að sá þróttur sé með íslenzkum bændum, er síðar komi fram, þó að ekki verði nú, og þá munu þeir hrista af sér fjötrana við tækifæri, sem áreiðanlega mun gefast áður en langt um liður.