02.05.1936
Neðri deild: 61. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1187 í B-deild Alþingistíðinda. (1772)

120. mál, jarðræktarlög

Pétur Ottesen:

Hv. 2. þm. N.-M. fann ástæðu til þess að láta sín getið í sambandi við þetta mál við hliðina á forsvarsmanni Búnaðarfélags Íslands, sem hér hefir verið valinn til þess að verja þær árásir, sem hér eru hafnar á það. Hv. 2. þm. N.-M. hefir fundizt, að hann launaði bezt ofeldið hjá Búnaðarfélagi Íslands með því að leggja nú stein í götu þeirra manna, sem hann á að vinna gagn, — bændastétt þessa lands. — Ég gæti trúað, að starf þessa hv. þm. í þágu hinnar íslenzku bændastéttar yrði á sínum tíma vegið og léttvægt fundið.

Hann var að tala um vonda samvizku. Að sönnu fór hann ekki langt út í þá sálma, enda ætti hann ekki að gera það, því að ef hann býr sjálfur yfir nokkru af því, sem nefnt er samvizka, þá ætti hún að vera í allhörmulegu ástandi hjá þeim manni, sem trúað er fyrir því að vinna til hagsbóta fyrir bændur, en ræðst nú af alefli á málefni þeirra. — Ég býst við, að hv. 2. þm. N.-M. sé sá af hv. þm. Framsfl., sem lætur einna bezt að beizlinu hjá sósíalistum, þegar þeir teyma flokkinn að þjóðnýtingarmálum sínum hér á þingi, þótt flokkurinn sé ef til vill allur léttur í taumi og ekki þurfi að knýja hann áfram, vegna þess að honum sé í raun og veru ljúft að fylgja á eftir.

Skilning hv. þm. á þýðingu jarðræktarlaganna fyrir íslenzkan landbúnað má marka af því, þegar hann segir, að þau hafi ekki falið í sér neina tryggingu fyrir því, að bændur gætu búið betur að jörðum sínum. Hvernig hljómgrunn skyldi þetta finna hjá íslenzkum bændum? Það liggur fyrir opinber viðurkenning á því frá íslenzku bændastéttinni, að af þessari löggjöf hafi hún haft hina beztu stoð. Og við skyldum sjá, hvernig nú væri umhorfs í sveitum landsins, ef sú uppörvun og sá styrkur, sem veittur er með jarðræktarlögunum, hefði ekki verið til hjálpar bændum síðan 1923. Straumurinn hefir verið mikill úr sveitunum og í kaupstaðina, — en hvernig mundi það hafa verið, ef þessi hjálp hefði ekki verið til fyrir sveitabóndann? Og þó stendur þessi hv. þm. hér upp, svo ríkt haldinn af flónslegu eðli, að hann segir, að jarðræktarlöggjöfin hafi ekki tryggt það, að bændur gætu búið betur að jörðum sínum. Það er illt, að bændastéttin skuli vera svo ólánssöm að hafa í sinni þjónustu þann mann, sem ekki hefir skarpari skilning á því, hvað mest horfir til heilla fyrir íslenzkan landbúnað.

Hv. 2. þm. N.-M. vék að mér persónulega og sagði á þá leið, að það, að ég vildi ekki leggja hönd á þessa atorkumenn, mundi stafa af því, að ég mundi vera kominn nærri því að fá upp fyllt þau gæði, sem eiga að falla í skaut hvers bónda samkv. þessu frv. Hann vildi náttúrlega með þessu gefa í skyn, að það væru eiginhagsmunir mínir, sem réðu stefnu minni í þessu máli. Ég ætla nú ekki að fara langt út í þetta; ég ætla, að það hafi verið sýnt nægilega skýrt, hve mikla þýðingu þessi jarðræktarstyrkur hefir haft fyrir íslenzkan landbúnað og hve mikið þeir hafa unnið að því að þoka áfram jarðyrkju þessa lands, sem nú eru búnir að uppfylla þetta hámark, sem sett er í þessu frv., og þess má geta, að það, sem þeir hafa borið úr býtum fyrir 12 ára strit, er ekki nema 1/3 hluti þeirra launa, sem hv. 2. þm. N.-M. hefir á ári fyrir að predika bændum þá speki, að þeir eigi ekki að setja þau lömb á, á haustin, sem hafi drepizt á vorin, eða að þeir eigi að brytja ærnar niður í kýrnar. Það er ekki nema 1/3 hluti þess, sem þessi hv. þm. fær á ári fyrir þessa verðleika, sem bændum má hlotnast fyrir ótrautt margra ára starf til eflingar á lífsmöguleikum íslenzkrar bændastéttar. Ég býst við, að það reynist rétt, sem hv. 7. landsk. sagði, að það, sem hv. 2. þm. N.-M. hefir lagt til viðreisnar íslenzkum landbúnaði, verði ekki skráð með óafmáanlegu letri á spjöldum sögunnar.

Hv. frsm. 1. minni hl. vék að minni ræðu og afsakaði sig með því nú eins og áður og útmálaði það, að það væru hinar erfiðu fjárhagsástæður ríkissjóðs, sem lægju til grundvallar fyrir því, hve nú yrði að skera mikið niður, og minntist hann m. a. á það, að nú hefði brugðizt afli við strendur landsins. En ég vil spyrja: Hvaða ráðstafanir ætla þessir hv. þm. að gera við afgreiðslu fjárl. til þess að mæta þessum aflabresti og erfiðu fjárhagsástæðum ríkissjóðs? Ég býst við, að þessu verði mætt með því að afgr. nú hærri fjárlög en nokkru sinni áður. Er þá ekkert annað, sem þarf að spara? Er það höfuðráðið að ráðast á landbúnaðinn, þegar hart er í ári? Ég hefi ekki heyrt á þessum hv. þm., að nauðsyn væri á að grípa til svipaðra ráðstafana gagnvart öðrum útgjöldum ríkissjóðs. Ég vil aðeins benda á, hve algerlega haldlaust þetta er fyrir afkomu ríkissjóðs, þegar ekki er bent á aðrar sparnaðarleiðir. (BÁ: Þessar takmarkanir koma ekki til framkvæmda á þessu ári). Heldur hv. þm., að afleiðingar af aflabrestinum og harðindunum nái ekki út yfir þetta ár, og þess vegna þurfi ekki að færa niður útgjöld á næsta árs fjárlögum? Ég býst við, að það gerði alltaf nægum erfiðleikum að mæta á hverjum tíma. (HannJ: Bændur eru bezt stæða stéttin og þess vegna sjálfsagt að ráðast þar á garðinn!!).

Hv. 7. landsk. benti á, að með þessum hömlum yrði dregið úr áhuga og framkvæmdum í jarðræktun, og að þær yrðu til að sporna á móti því, að nýbýlahugmyndin yrði klædd holdi og blóði. Hann tók það réttilega fram, að langlíklegasta og eðlilegasta leiðin væri sú, að skipta býlum þar, sem ræktun væri mikil, en hitt er ólíkt erfiðara, að ræsa fram og yrkja óræktað land og reisa þar nýbýli, svo segja má, að með þessu frv., ef samþ. verður, sé verið að torvelda þá leið, sem er langsamlega líklegust til býlafjölgunar.

Þá sýnir það ljóslega rökþrot og hve langt er seilzt eftir því að ná í einhver hálmstrá til að halda sér við, þar sem það á svo sem að vera ein höfuðkenningin, að með lækkuðum styrk eigi að fást betri jarðabætur. Það er þá rökrétt áframhald þessarar kenningar, að jarðabæturnar yrðu þá beztar, ef styrkur til þeirra væri algerlega felldur niður. Ég hefi talið, að vandaðar jarðabætur fengjust bezt með því móti, að haft væri gott eftirlit með því, að þær væru styrkhæfar, en nú kemur þessi nýja kenning og þessi þungu rök fyrir ágæti þessa frv., að með því að minnka styrkinn fáist betri jarðabætur, og þá að sjálfsögðu beztar með því að fella hann alveg niður!!

Það er talað um, að fjárframlagið, sem gengur til jarðabóta á þeim jörðum, sem eru eign einstaklinga, skuli ekki skoðast sem eign jarðareiganda, heldur skuli það skráð sérstaklega í fasteignamatsbækur. Það er eins og eign einstaklinganna sé einskis virði fyrir þjóðfélagið, og það er svo sem ekki í fyrsta sinni, sem sú hugmynd skýtur upp höfðinu hér, og er sýnilegt, til hvers refirnir eru skornir. Það er verið að verja þá stefnu að láta ríkið á þennan hátt eignast allar jarðir smátt og smátt, með hálfkveðnum vísum um það, að það fé, sem með þessum hætti fer til einstakra manna, sé engin eign fyrir þjóðfélagið, ef einstaklingarnir fái fullan eignarrétt yfir því. Hvílík röksemdafærsla!! Hv. þm. Mýr. kallaði þetta virðingarverða tilraun, að látu ríkið hreint og beint á þennan hátt ná tangarhaldi á jörðunum! Já, það má nú segja. Það er í meira lagi virðingarverð tilraun!! Eg verð að taka undir með hv. 7. landsk. um það, að ef gengið er inn á þá braut að setja hér slíka kvöð á þessar fjárveitingar, þá muni verða skammt að bíða þess, að farið verði að gera sömu kröfur um fjárframlög til annara hluta. t. d. um framlög til búfjárræktunar, til sandgræðslu, til skóggræðslu og yfirleitt allsstaðar þar, sem ríkið leggur fram fé til betri ræktunar landsins. Ef nú er stýrt í þessa átt, þá er áreiðanlegt, að ekki verður slakað á klónni, heldur siglt með fullum seglum áfram að því marki að gert sjálfstæði einstaklinganna sem minnst og gera þá sem háðasta ríkisvaldinu. Það er ekkert annað en áframhald af þeirri braut, sem sízt þarf að efa, að lagt verði inn á, eins og þetta er allt í pottinn búið. Með því, sem hér er stefnt að, er það ef til vill tilgangurinn að neyða bændur til þess að afsala sér þessum styrk, af því að þeir vilja ekki ganga undir þessar kvaðir, og eins virðist að því stefnt að neyða búnaðarfélagið til þess að taka ekki að sér að hafa með höndum framkvæmd þessara mála, þar sem það á að bíða skarðan hlut í sinni eigin stjórn með því að taka þetta að sér, og þá er náttúrlega að því leyti, sem einstaklingar eru neyddir til að afsala sér styrk, um sparnað að ræða fyrir ríkissjóð, en hitt er vitað, að sá sparnaður er enginn búhnykkur, þegar vitað er, að þetta verður til þess að hefta framgang ræktunarmála sveitanna og annara nauðsynjamála, sem framtíð þeirra byggist á.