02.05.1936
Neðri deild: 61. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1190 í B-deild Alþingistíðinda. (1775)

120. mál, jarðræktarlög

*Ólafur Thors:

Út af því, sem hæstv. varaforseti þessarar d. leyfði sér að varpa fram, vil ég benda hv. þm. á það, að við höfum setið hér kvöld eftir kvöld og jafnvel nótt eftir nótt, án þess að svo að segja nokkur stjórnarliði hafi verið sjáanlegur, og svo leyfir þessi maður sér að spyrja, hvort þessir flokksbræður mínir hafi tilkynnt forföll.

Við hæstv. forseta vil ég segja það, að undanfarna daga hefir hvað eftir annað orðið að fresta atkvgr., vegna þess að það hefir vantað hans eigin samherja. — Nú vantar 5 sjálfstæðismenn; einn er veikur, svo að hann getur ekki mætt, tveir eru á bæjarráðsfundi og tveir á öðrum fundi. Mér finnst því sanngjarnt að fresta atkvgr., með því að það getur ekki seinkað framgangi málsins.