06.05.1936
Efri deild: 66. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1210 í B-deild Alþingistíðinda. (1796)

120. mál, jarðræktarlög

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég býst nú varla við, að ég hafi tíma til að svara allri hinni löngu ræðu hv. 10. landsk., enda sannast að segja ekki mörgu að svara, þrátt fyrir lengdina. — Hv. þm. sagði, að þetta frv. minnti sig á úrskurð Rússakeisara um það, hvar járnbrautin ætti að liggja milli Pétursborgar og Moskva, er hann lagði reglustikuna á kortið. En hann gleymdi að geta þess, að einmitt þessi járnbraut er nú talin einhver hin „tekniskt“ fremsta meðal járnbrauta nútímans. Ég held, að sú verði líka reyndin á um jarðræktarlögin, að þau verði í framtíðinni talin vera í samræmi við sinn tíma, enda eru þau samin af hinum færustu mönnum með sérstöku tilliti til framtíðarinnar.

Hv. 10. landsk. vildi þó halda því fram, að undirbúningur frv. væri ófullkominn og hefði verið miklu betri undir gömlu jarðræktarlögin. En ég vil benda á það, að frv. þetta er samið af búnaðarmálastjóra og starfsmönnum búnaðarfélagsins og þremur ágætum og alþekktum bændum, þar við bætist, að jarðræktarlögin hafa nú verið reynd í 10–20 ár, og því hægt að styðjast við reynslu hinna beztu og gleggstu manna af þeirri löggjöf. Það hefir verið að því fundið, að frv. hafi verið lagt of seint fyrir þingið. En ég álít það aðeins slæman sið, að frv. liggi tímunum saman fyrir þinginu, án þess að á þau sé litið. Öllum var kunnugt um, að mál þetta var í undirbúningi, enda hefir það þegar verið rætt meira í blöðum og manna á milli en nokkurt annað mál, sem fyrir þinginu liggur. Reynsla manna af gömlu löggjöfinni gerir mönnum og léttara fyrir að skilja, hvað um er að ræða. Er hér ólíku saman að jafna og brtt. þeim, sem hv. 10. landsk. hefir sjálfur komið fram með við jarðræktarlögin hér á þingi tvisvar sinnum og talið mjög mikilsverðar. Hvers vegna átti ekki að bera þær undir Búnaðarfélag Íslands ?

Andstæðingar málsins tala mikið um frelsi Búnaðarfélags Íslands. Það er nú bezt að athuga, hvernig þessu frelsi var háttað undir stjórn hv. 10. landsk. Þá voru tveir menn af þremur í stj. félagsins skipaðir af atvmrh., eftir till. landbn. Alþingis. Félagið var því þá fullkominn bandingi Alþingis og réð engu um sín mál, ekki einu sinni um sín einkamálefni. Stjórnin, sem Alþingi réð, valdi búnaðarmálastjóra og aðra starfsmenn. Þetta fyrirkomulag var hv. 10. landsk. ánægður með. Þegar kom dauft kvak frá félaginu um það að hafa ekki tvo búnaðarmálastjóra, var því alls ekki sinnt, né heldur áskorunum um ákveðinn búnaðarmálastjóra. Við síðustu kosningar tók Framsfl. það á kosningastefnuskrá sína að leysa þennan bandingja, og skyldi félagið kjósa stjórn sína sjálft. En til bráðabirgða var freistað að ná samkomulagi milli félagsstj. og landbrh. um búnaðarmálastjóra, sem tókst, eins og menn vita. Þetta er grundvöllurinn undir hinni nýju löggjöf. Það er talið réttlátt og eðlilegt, að félagið ráði sjálft sínum eigin málum, en að þau mál, sem það fer með í umboði ríkisins, eigi að sæta opinberri íhlutun. Nú segir blaðið Framsókn, sem allt er um þetta mál, að með 3. gr. sé búnaðarfélagið svipt öllu frelsi, af því að gr. er misskilin á þá leið, að búnaðarmálastjóri geti vísað öllum ágreiningi til ráðh., líka þeim, er snertir einkamálefni félagsins. Ég vil leyfa mér að lesa upp 3. gr. í heild. Hún hljóður svo:

„Störf þau, sem Búnaðarfélagi Íslands eru falin í lögum þessum, annast búnaðarmálastjóri með aðstoð ráðunauta, og trúnaðarmanna í samráði við stjórn félagsins. Greini búnaðarmálastjóra og stjórn félagsins á, skal skjóta ágreiningsatriðinu til landbrh., er fellir fullnaðarúrskurð um málið.“

Það er auðsætt, að hér er átt við áfrýjunurrétt í þeim málum, sem Búnaðarfélag Íslands fer með fyrir ríkið. Og er það að svipta félagið rétti og frelsi, þótt framkvæmdarstjóri megi áfrýja til umbjóðandans, ef ágreiningur verður?

En þótt þessi gr. sé svona ljós, hefir hún verið misskilin, eins og ég skýrði frá. En aths. við þessa gr., 3. gr., taka af allan vafa, ef nokkur gæti verið. Ég vil því leyfa mér að lesa þær:

„Ágreiningi, sem kann að rísa milli stjórnar Búnaðarfélags Íslands og búnaðarmálastjóra út af framkvæmdum þeirra mála, er búnaðarfélagið fer með í umboði ríkisstjórnarinnar, er ætlazt til, að verði skotið til landbrh. til úrskurðar, og virðist það sjálfsagt. Það mun öllum aðiljum fyrir beztu, að þesskonar ágreiningsmál verði sem fyrst leyst, og sýnist þetta vera eðlilegasta lausn þeirra mála.“

M. ö. o.: Þeir, sem skrifað haft í blað þessa hv. þm. um þetta atriði, hafa fyrst og fremst misskilið gr. og auðsjáanlega ekki lesið grg. fyrir frv.

Svo kemur endirinn á öllu saman, eftir að deilt hefir verið á það, að Búnaðarfélag Íslands hafi verið svipt öllu frelsi, og hann er þannig, að sagt er í þessari blaðagrein, sem ég sé, að hv. 10. landsk. hefir fyrir framan sig, að það sé vitanlega ekkert við það að athuga og það virðist sjálfsagt og eðlilegt, að búnaðarmálastjóra væri fenginn áfrýjunarréttur um þau málefni, sem búnaðarfélagið fer með í umboði ríkissjóðs. M. ö. o. nákvæmlega það samat og ákveðið er í gr., nema hvað þessir menn, sem telja sig vera að vernda frelsi búnaðarfélagsins, ganga lengra, því að þeir halda fram, að áfrýjunarrétturinn ætti að ná til hvers einasta manns, sem framkvæmdir búnaðarfélagsins koma fram við, í öllum þeim máefnum, sem búnaðarfélagið fer með í umboði ríkissjóðs, — að hver einasti maður, sem þannig stendur á, geti áfrýjað til landbrh. Ég segi fyrir mig, að ég mundi alls ekki vilja taka við því valdi, sem blað þessara manna vill fá mér í þessu efni. En þetta sýnir það, að það atriði, sem mest er deilt um, hefir verið svo gersamlega misskilið, að fyrst er deilt á ríkisstj. fyrir ákvæði í frv., sem alls ekki er til. Síðan er í niðurlagi gr. sýnt fram á, að einmitt það, sem er innihald frv., sé á allan hátt eðlilegt og sjálfsagt, og meira en það; þeir, sem vilja verja frelsi búnaðarfélagsins, vilja ganga lengra í áfrýjunarréttinum. Þegar svona fer um þau atriði frv., sem meir er deilt um heldur en öll önnur ákvæði frv. til samans, þá er hægt að hugsa sér, á hvaða rökum og skilningi allar þær ádeilur, sem hafa komið fram gegn þessu frv., eru byggðar. Það, sem raunverulega hefir verið gert með þessu frv., og það, sem við munum fá tækifæri til að tala um á öðrum vettvangi en þessum, er það, að Búnaðarfélagi Íslands hefir í fyrsta skipti verið veitt það frelsi, sem félagið var svipt með jarðræktarlögunum, sem nú gilda, og það bjó undir í góðu næði allan þann tíma, sem hv. 10. landsk. var landbrh. Eftir þessu frv. getur félagið kosið sína eigin stjórn, og sú stjórn fer með öll málefni félagsins og málefni í umboði ríkisstj. Ef ágreiningur verður á milli búnaðarmálastjóra og félagsstj., er áfrýjunarréttur til ríkisstj. aðeins í þeim málefnum, sem það fer með í umboði hennar. Þetta er nú allt einræðið, sem lagt hefir verið út af.

Þá er unnað atriði, sem mikið hefir verið deilt á ríkisstj. fyrir, og það er, að sett er sérstakt ákvæði í frv. um það, hvernig eigi að kjósa til búnaðarþingsins. Það er talið hið mesta ófrelsi og nálega hneyksli, að Alþingi skuli setja lög um búnaðarfélagið, og það þykir benda á, að hér sé enn verið að leika þann leik við búnaðarfélagið að svipta það því valdi, sem það eigi að hafa. Það, sem fyrst og fremst er um þetta atriði að segja, er, að með þessu ákvæði er bændum landsins gefinn beinni kosningarréttur til búnaðarþings heldur en hingað til hefir verið samkv. ákvæðum, sem gilt hafa í lögum um Búnaðarfélag Íslands. Og er það eitthvert ófrelsi, sem bændur landsins eru beittir, að láta þá fá beinni kosningarrétt til þess að kjósa þá fulltrúa, sem þeir senda á búnaðarþing til þess að ræða sín stærstu áhugamál? Hverjum er það í óhag að vera veittur þessi beini kosningarréttur? Er það bændum í óhag? Er það bændum í óhag, að þeir fá beint með atkvæði sínu að hafa áhrif á það, hverjir eru valdir á búnaðarþing? Ég er ekki í neinum vafa um það, að þessi beini kosningarréttur hefir þau áhrif, að það vaknar miklu meiri áhugi meðal bænda fyrir því, hvernig verður valið á búnaðarþing. Þessu ákvæði er einmitt ætlað að kveikja það líf í starfsemi Bf. Ísl., sem hefir óneitanlega þótt vanta tilfinnanlega hingað til. Það sýnir ekkert betur heldur en einmitt það, hversu ófullnægjandi Bf. Ísl. er að sumu leyti íslenzkum bændum. Á undanförnum árum hafa þeir gert hverja tilraunina eftir aðra til þess að stofna landssamband bænda og kjósa fulltrúa á landsfund til þess að ræða sín áhugamál utan við búnaðarfélagið.

Það er talið einsdæmi, að sett séu lög um félagsskap í landinu. En hvað er um hlutafélögin? Eru ekki sett lög um hlutafélög? Eru það ekki lög, að það er ekki hægt að stofna hlutafélög, sem hafa viss réttindi, nema með því að fara nákvæmlega eftir þeim lögum, sem alþingi hefir sett um slíkan félagsskap? Meira að segja er farið svo nákvæmlega út í þetta, að skráning fer fram á þessum félögum og ýtarleg rannsókn á því, að starfsemi þeirra sé í samræmi við lög, sem Alþingi hefir sett. Eru ekki sett lög um samvinnufélög? Það getur ekkert samvinnufélag starfað, nema það sé skráð og það sé rannsakað, að félagið starfi í fullu samræmi við þau lög, sem Alþingi hefir sett. Skiptir það kannske dálítið minna fyrir Bf. Ísl. heldur en hlutafélög, sem sérstök lög eru sett um? Það hefði kannske verið ástæða til að koma fram með slíkar aðfinnslur, ef löggjöfin um kosningarréttinn hefði gengið í þá átt að takmarka réttindi þeirra, sem eiga að kjósa á búnaðarþing, en þegar þess er gætt, að kosningarrétturinn er gerður miklu frjálsari fyrir bændur, þá er það einkennilegt, að slík ádeila skuli koma fram frá þeim manni, sem þykist vera að verja réttindi íslenzkra bænda.

Ég veit ekki, hvort ég get farið út í öll þau atriði, sem hv. 10. landsk. tíndi upp viðvíkjandi ákv. 9. gr. frv., en sú grein fjallar um styrkinn og gerir breyt. á jarðræktarlögum þeim, sem nú gilda um það atriði. Ég get aðeins bent á það, að í grg. með þessari gr. er tafla, sem sýnir, að hve miklu leyti styrkurinn fyrir einstakar framkvæmdir hefir lækkað og fyrir hverjar hann hefir hækkað. — Hv., 10. landsk. notaði þá málfærslu, að hann tók þá sex liði, þar sem styrkurinn er lækkaður, og útfærði það, en minntist ekkert á þau tólf tilfelli, þar sem styrkurinn er hækkaður, en hann hefir hækkað í tólf tilfellum, en lækkað í sex. Þetta er rétt til þess að sýna, hversu heiðarleg málfærslan er, þegar verið er að deila um þetta atriði. Ég vil segja hv. 10. landsk. það, að hann mun fá að sjá á sínum tíma þær skýrslur, sem hafðar hafa verið til hliðsjónar, þegar þessi ákvæði voru sett, og hann mun fá að sjá það eftir útreikningum, sem eru nákvæmari heldur en hann las upp, hvaða áhrif þessi breyt. á jarðræktarstyrknum hefir fyrir íslenzka bændur. Og á þessu stigi málsins ætla ég að segja hv. 10. landsk. það, að hann má vera viss um, að það hefir verið nákvæmlega útreiknað, áður en þessi ákvæði voru sett, hvernig þessi styrkur verkar, svo að hann getur ekkert kennt þeim, sem undirbjuggu frv., í þeim efnum. Ég skal aðeins benda á það í þessu sambandi, að þegar þessi styrkur var ákveðinn, sem hér er gert ráð fyrir í frv., var hann ákveðinn af þessum sömu mönnum, sem undirbjuggu frv. í samræmi við þá reynslu, sem fengizt hefir af þessum framkvæmdum, og í samræmi við þá reynslu, sem fengizt hefir af því, hvaða framkvæmdir er sérstaklega nauðsynlegt að styrkja, og sérstaklega þá, fyrir hvaða framkvæmdir á að hækka styrkinn. — Það var eitt atriði sérstaklega, sem hv. þm. gerði að umtalsefni, og það voru nokkrar lækkanir, sem gerðar verða á styrk fyrir græðisléttur, þaksléttur og sáðsléttur í túnum. Aftur á móti standa sáðsléttur í nýrækt í stað. Ég ætla að benda hv. þm. á það, að þetta er gert vegna þess, að að dómi þeirra, sem þekkja bezt til ræktunar og látið hafa skoðun sína opinberlega í ljós um þetta atriði, — og get ég þá sérstaklega bent á Ólaf Jónsson framkvæmdarstjóra Ræktunarfélags Norðurlands og Árna G. Eylands — er það beinlínis eðlilegt, að það sé dregið úr þeim ræktunaraðferðum, sem þeir telja óheppilegar, en hinsvegar frekar styrktar þær ræktunaraðferðir, sem eru taldar beztar. Og það vita allir, sem fást við ræktun, að nú er meir og meir stefnt að því að nota sáðsléttuaðferðina.

Það yrði of langt mál, ef ég talaði um það lið fyrir lið, á hverju einstakar hækkanir eru byggðar og á hverju einstakar lækkanir eru byggðar. En það hefir, eins og önnur atriði frv., verið nákvæmlega athugað af þeim mönnum, sem hafa undirbúið þetta mál.

Það má í þessu sambandi benda á eitt atriði, sem fundið hefir verið að, og það er, að ekki hefir verið hækkaður styrkur fyrir steinsteypuhlöður. Steinsteypuhlöður geta að vísu verið góðar, en það er ekki deilt um það nú af mönnum, sem hafa fengið reynslu um þetta atriði, að aðrar hlöður, sem hægt er að byggja miklu ódýrar, geti verið og séu oftast betri, og með tilliti til þessa er nú veittur styrkur út á þær hlöður, sem alls ekki var veittur styrkur út á samkv. jarðræktarlögunum. Svona er um mörg atriði, sem ég ætla ekki að fara sérstaklega út í, vegna þess að það mundi tefja allt of mikið þessar umr.

Hv. 10. landsk. fór um það mörgum orðum, hvernig þessi 20% hækkun á styrknum hjá þeim mönnum, sem ekki hafa ennþá fengið 1000 kr. í styrk. verkaði. Hv. þm. sýndi fram á, þegar hann var búinn að lesa upp þær breyt., sem hafa verið gerðar á styrkveitingum samkv. 9. gr. frv., hvernig þetta verkaði í sumum tilfellum til lækkunar, með því að taka aðeins — með þeirri heiðarlegu málfærslu — þá liði, þar sem styrkurinn er lækkaður, en sleppa hinum. Eftir að hv. þm. var búinn að fara um þetta mjög mörgum orðum og lýsa því átakanlega, þá snýr hann sér að því að tala um jörð, sem sé sérstaklega góð, sem hafi stórt flæðiengi og slétt tún, og ekkert hafi verið gert að jarðabótum á henni. Þá snýr hv. þm. við blaðinu — en ég efast um, að hann hafi tekið eftir því, því að hann var svo æstur — og fór um það mörgum orðum, að nú eigi að fara að verðlauna þessa jörð. Ég vil því spyrja þennan hv. þm. að því, úr því að hann heldur því fram, að ekki eigi að veita styrk þeim jarðeigendum, sem búa á jörðum, sem hafa stórt flæðiengi og slétt tún, hvers vegna þær jarðir hafi ekki verið undanskildar í þeim jarðræktarlögum, sem nú gilda. Því að með nákvæmlega sömu röksemdinni mætti halda því fram, að það hefði átt að undanskilja þessar jarðir frá upphafi. En ég get sagt hv. þm það, að þetta atriði hefir verið mjög vel rannsakað, þegar frv. var samið. Ég vil ennfremur spyrja þá hv. þm., sem hér eru viðstaddir í d., hvort þeir vildu ekki, ef setja ætti ákvæði um að undanskilja vissar jarðir, sem hefðu stórt flæðiengi og slétt tún, gera sér grein fyrir því, ef þeir ættu að hugsa þessa hugsun til enda, hvernig ætti að koma slíku ákvæði við. Það yrði sem sagt að mæla öll flæðiengi í þessu landi og mæla, hvað þau eru góð, því að flæðiengi eru ákaflega misjöfn. En allt þetta skraf um það, að þær jarðir, sem hafa stórt flæðiengi og slétt tún, skuli ekki njóta þessarar hækkunar, sýnir ef til vill betur heldur en flest annað, í hvað miklum vandræðum andstæðingarnir eru með að finna rök gegn þessu frv., því að þetta er ákvæði, sem alltaf hefir verið í jarðræktarlögunum síðan þau voru sett 1923. En það er vitanlegt, að það er ómögulegt að koma í veg fyrir það, þegar sett er lagaákvæði eins og þetta, sem yfirleitt gripur til þeirra jarða, sem eru verr úr garði gerðar frá náttúrunnar hendi, að það nái til hinna líka, sem betri eru frá hendi náttúrunnar. Og það sér hver maður, sem nokkuð þekkir til jarðræktar, að erfiðleikarnir við jarðræktina eru fyrst og fremst í byrjun, og þess vegna er ástæða til þess að létta sérstaklega undir með þeim, sem eru að byrja á sinni jarðrækt. En þegar menn hafa unnið það mikið að jarðabótum, að þeir hafa fengið 1000 kr. í styrk og þar yfir, þá geta þær framkvæmdir, sem hafa verið gerðar, staðið undir þeim framkvæmdum, sem þar koma á eftir. Aðalatriðið er að geta komið mönnum af stað, styrkt þá, sem eru að byrja og hafa enga jarðræki á sinni jörð, til þess að standa undir áframhaldandi jarðrækt.

Þá minntist hv. 10. landsk. á gallana, sem eru á tveimur gr. þessa frv. Það sýnir e. t. v. betur en flest annað, hvað frv. er vel undirbúið, að með öllum þeim sparðatíningi, sem þessi hv. þm. hefir í frammi, getur hann ekki fundið nema tvær gr. í þessu frv., sem hann getur talið, að sé vansmíði á. Og vansmíðið er nú allt það, að því er hv. þm. telur, að í 51. gr. frv. er vísað til 43. gr. Ég ætla ekki að tefja umr. með því að lesa upp þessar gr., en ef hv. þm. vill lesa betur saman þessar gr., sér hann, að það er fullt samræmi í þeim, svo að þetta er ekki annað en útúrsnúningur eða misskilningur.

Svo var annað atriði, sem hv. þm. setti út á, að í 29. gr. stendur „hann“ í staðinn fyrir „það“, þar sem vísað er til Bf. Ísl. Það er auðsjáanlega aðeins prentvilla, sem auðvelt er að laga. þetta eru atriðin, sem hv. þm. getur fundið að frágangi frv.

Svo kemur hv. þm. að einstökum gr., sem hann er mótfallinn að efni til. Það er þá einkum 17. gr., sem hann telur varhugaverða. Ákvæði 17. gr. eru sett inn samkv. ósk og yfirvegun þeirra manna, sem fest hafa augu á því, hvernig jarðræktarstyrkurinn kemur til með að verka á íslenzkan landbúnað í framtíðinni, ef ekkert verður að gert. Það, sem raunverulega er verið að gera nú, er, að það er lagður fram af hálfu ríkisins styrkur til þess að auka verðmæti jarða. Það er lagður fram styrkur, sem nemur fleiri þús. króna, til þess að bæta jarðirnar og þar með að auka verð þeirra. Það, sem svo gerist, þegar sá, sem fengið hefir þessa peninga og hækkað jörð sína í verði, fer frá jörðinni og selur hana, er það, að þeir peningar, sem ríkið hefir lagt fram, eru seldir bóndanum, sem tekur við, og síðan á hann æfilangt, og sömuleiðis næsti bóndi og næstu kynslóðir, að borga vextina af því fé, sem ríkið hefir fengið einum einasta manni í hendur. M. ö. o.: verðhækkunin, sem þannig kemur fram. lendir sem byrði á kynslóðunum, sem koma á eftir. Það er þetta, sem ákvæðið í 17. gr. á að fyrirbyggja. Mér þótti gott að heyra það, vegna þess að það hefir mikið verið deilt um þetta atriði, að jafnvel hv. 10. landsk. treystir sér ekki lengur til þess að verja þann málstað, að ekkert ætti að gera í þessu efni. Þetta er einmitt eitt af mestu ádeiluatriðunum á þetta frv., og hefir því m. a. verið haldið fram í blaði hv. þm., að nú ætlaði ríkið að taka aftur það, sem það hefði lagt í jarðirnar. Nú er þó þessi hv. þm. kominn það langt, að hann segist geta viðurkennt, að það væri kannske ástæða til þess að koma í veg fyrir það, að þessi byrði lenti á komandi kynslóðum, og benti í því sambandi á aðra aðferð. Hv. þm. er þó byrjaður á að ganga inn á okkar málstað í þessu máli, en hann álítur, að hægt sé að stofna sérstaka sjóði, sem fylgi jörðunum. En hvaða sjóðir eru betur til þess fallnir heldur en sveitarsjóðurinn, þar sem jörðin er? Það er sveitarsjóðurinn, sem á að taka við þessari upphæð, sem þannig á að koma þeim bændum til góða í því héraði, sem jörðin er. Mér þykir mjög vænt um að heyra, að frv. fær þó þessa viðurkenningu hjá hv. 10. landsk. og að hann er horfinn frá þeim málflutningi, að ekkert eigi að gera í þessu efni. Ég býst við, að það fari svo, að því lengur sem þetta mál er rætt, því fleiri ákvæði verði það, sem þessi hv. þm. sér þann kost vænstan að ganga inn á.

Það leiðir af sjálfu sér, að ákvæði 19. gr. takmarkast af l. um nýbýli og að þeir menn, sem fá 2300 kr. framlag úr ríkissjóði samkv. því, sem þar er ákveðið, fá ekki jarðræktarstyrk á það framlag, og þurfti því ekki að gera aths. við það.

Viðvíkjandi 25. gr. vil ég segja það, að þar fór hv. 10. landsk. alveg rangt með. Ég var hissa, þegar hann gerði þá aths. við frv., að styrkurinn til véla væri í því lækkaður frá því, sem ákveðið er í eldri l. Hann virtist það augnablikið hafa fyrir sér ákvæði, sem voru í frv. upphaflega, þegar það var lagt fyrir, en ekki eins og það liggur fyrir nú. Eldri ákvæðin um þetta er að finna í l. nr. 75 frá 1933, og þar er ákveðið, að til kaupa á hestaverkfærum til jarðræktar leggi ríkissjóður fram helming, en til heyvinnuvéla og tóvinnuvéla 1/3 kaupverðs. Hámarksstyrkur er þar ákveðinn 300 kr. En samkv. ákvæðum frv., eins og það liggur fyrir nú. þá er þessu breytt þannig, að hámarkið er fyrst og fremst hækkað úr 300 kr. upp í 400 kr., og að öðru leyti eru hlutföllin þannig, að styrkurinn fremur hækkar en lækkar. Það, sem hv. þm. sagði um þetta atriði, er því gersamlega rangt með farið, en um það var einmitt mikill hluti af ræðu hans. Það var ákaflega mikill gustur á hv. þm., og get ég vel skilið, að hann hafi gripið skakkt frv. í mesta fuminu, og getur þetta stafað af því, en ekki hinu, að hann fari vísvitandi rangt með.

Hvað snertir 33. gr., þá sést það af samhenginu við gr. á undan og eftir, að það er vitanlega ætlazt til, að það sé Bf. Ísl., sem dæmir um, hvenær á að kaupa skurðgröfur.

Þá voru ákvæði 52. gr. eitt af því, sem hv. þm. gerði mikið veður út af. Vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp gr. Það sýnir ef til vill betur en margt annað, þótt málafærslan væri yfirleitt öll svipuð, hvernig hv. þm. hefir misskilið mikið af ákvæðum frv. eða fer vísvitandi rangt með þau. Gr. hljóðar svo:

„Með þeim takmörkunum, sem felast í 51. gr., getur leigutaki selt rétt sinn og veðsett. Þó má hann aldrei veðbinda það fyrir hærri fjárhæðum en sem nemur verðmæti þeirra mannvirkja, er hann á á landinu, að frádregnum opinberum styrk.“

Nú vil ég spyrja hv. þm.: Hvaða áhrif hefir það á rétt þess, sem lánar út á þessa eign, að ekki má veðbinda eignina fyrir hærri fjárhæð en hér er tiltekið? Hann lagði út af því í löngum kafla ræðu sinnar, hvernig færi fyrir veðhafanum, ef þessi eign skemmdist, t. d. fyrir sjógang eða eitthvað þessháttar. Nú sér hver heilvita maður, sem les gr. og hugsar um þetta atriði, hvílíka firru hv. þm. fer hér með. Eins og veðhafinu væri betur settur, ef sá, sem hefir landið, mætti veðsetja það fyrir ennþá hærri upphæð. Ef maður má veðsetja eign fyrir 2000 kr., mundi þá ekki veðhafi vera ennþá verr settur, ef það mætti veðsetja hana fyrir 4–5 þús., og svo eyðilegðist hún á einhvern hátt?

Ég hefi þá farið í gegnum einstök atriði þessa frv. Ég hefi gert það í eins stuttu máli og ég frekast gat, þar sem áliðið er orðið og vitað er, að afgr. á nokkur mál önnur í kvöld eða nótt. Ég býst við, að þetta verði eitt af þeim málum, sem við fáum seinna tækifæri til að ræða á opinberum vettvangi, þar sem fleiri heyra mál okkar heldur en hér í hv. d. Ég skal því láta máli mínu lokið í aðalatriðum. Ég vil aðeins benda á það, sem ég reyndar sagði í upphafi máls míns, að þegar hv. þm. heldur því fram, að það sé gerræði gegn Bf. Ísl. að afgr. þetta mál án þess að senda það fyrst búnaðarsamböndunum og búnaðarþingi, þá er það í álíka samræmi við hans framkomu eins og yfirleitt allt, sem hann heldur fram. Hann gerir það að ádeiluatriði, þegar hann fær höndum undir komið, að sú frumvarpsómynd, sem hann hefir á undanförnum þingum borið fram um breyt. á jarðræktarlögunum, skuli ekki hafa verið látin ganga gegnum þingið viðstöðulaust, án þess að það væri sent búnaðarsamböndunum. Svo á það að vera hin mesta goðgá, að þetta frv. gangi fram, sem er margfalt betur undirbúið og samið af búnaðurmálastjóra og starfsmönnum Bf. Ísl., — þeim mönnum, sem mesta þekkingu hafa á þessum málum. Það er svipað um þetta og hitt atriðið, sem hann gerir mest úr, að nú eigi að svipt, búnaðarfélagið öllu frelsi, þótt hægt sé að sýna fram á með skýrum rökum, að nú fyrst er verið að gefa búnaðarfélaginu frelsi, sem í stjórnartíð þessa hv. þm. var algerlega háð því, hvernig Alþingi skipaði stjórn þess. Því sá hann ekki minnstu ástæðu til að breyta meðan hann var ráðh.