08.05.1936
Efri deild: 68. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í B-deild Alþingistíðinda. (1803)

120. mál, jarðræktarlög

*Þorsteinn Briem:

Við 2. umr. þessa máls gerði ég grein fyrir afstöðu minni til þessa frv. í heild og gerði mínar aths. við þær stefnubreyt., sem í þessu frv. felast, svo og við einstakar gr. frv. og frágang þess og meðferð í heild sinni. Þar sem svör hæstv. forsrh. hafa ekki gefið mér tilefni til andsvara um þau efni frekur en ég gerði þá, við 2. umr. málsins, skal ég ekki fara frekar inn á þessi atriði, nú um sinn. Ég vil aðeins í áframhaldi af þeim aths., sem ég gerði um þær grundvallarbreyt., sem gerðar hafa verið með þessu frv. á sambandi Búnaðarfélags Íslands og samvinnumöguleikum við ríkisstj., gera grein fyrir brtt., sem ég ásamt hv. 2. þm. Rang. ber fram við fyrsta kafla frv. Ég hefi áður gert grein fyrir því, hversu fráleitt það væri, að Bf. Ísl. fengi ekki að ráða sínum lögum sjálft, og það því fremur, sem skipulag búnaðarfélagsins væri með fullkomnu lýðræðisfyrirkomulagi, og í aðalatriðunum eftir sömu lýðræðisreglunum eins og skipulag S. Í. S. Og ég hefi einnig bent á það, að ef ríkisvaldið færi að skerast í slík skipulagsatriði hjá Bf. Ísl., þá gæti það alveg eins tekið að sér að gera breytingar á skipulagi fleiri félaga, svo sem fiskifélagsins og jafnvel S. Í. S. Þær brtt., sem við flytjum við fyrsta kafla frv., hníga því allar í þá átt að sníða úr frv. þau ákvæði, sem horfa í einræðisátt af ríkisvaldsins hálfu gegn sjálfstjórn og lýðræðisfyrirkomulagi búnaðarfélagsins. Það hefir ekki ennþá unnizt tími til þess að fá þessar brtt. prentaðar, en ég mun síðar afhenda hæstv. forseta þær og fara þess á leit við hann, að hann leiti leyfis d. til þess að þær megi koma fyrir til umr. — Fyrsta brtt. er við 2. gr. frv., um það, að síðari málsgr. fulli burtu, sem hljóðar svo: „Meðan Búnaðarfélag Íslands fer með mál þessi, skal val búnaðarmálastjóra bundið samþykki landbúnaðarráðherra“. Það hefir verið á það bent, að búnaðarmálastjóri fer með mörg fleiri mál heldur en þau ein, sem ríkisvaldið felur búnaðarfélaginu til meðferðar samkv. jarðræktarlögunum. Það eru margir flokkar annara mála, sem undir búnaðarmálastjóra heyra, og það er bein mótsögn við sjálfstjórnarrétt búnaðarfélagsins, sem hefir verið viðurkenndur af síðasta Alþ., ef það má ekki hafa frjálsræði til þess að ráða sjálft vali sinna eigin starfsmanna, og þá ekki síður vali framkvæmdarstjóra félagsins. Við höfum því lagt til með fyrstu brtt. okkar, að síðari málsgr. 2. gr. falli niður.

Ég hefi áður gert grein fyrir því, og það hefir einnig verið gert af ýmsum öðrum, að það eigi ekki við, að hverskonar ágreiningur, sem rísa kann milli búnaðarmálastjóra og stj. félagsins, heyri undir úrskurðarvald landbrh. Frv. gerði ráð fyrir því í fyrstu, en mér er kunnugt um, að það var lagfært eftir bendingu frá ákveðnum bændaflokksmanni utan þings. En þrátt fyrir þessa lagfæringu, þá höfum við talið ástæðu til að hafa þrengra og ákveðnara orðalag um þetta heldur en er í þessari lagfærðu málsgr., sem er síðari málsgr. 3. gr., og leggjum við til, að málsgr. verði orðuð á þessa leið: Landbúnaðarráðh. fellir fullnaðarúrskurð um skilning á lögum þessum, að fengnum till. Búnaðarfélags Íslands. — Það má veru, að það hafi legið nær að fella þessa síðari málsgr. 3. gr. alveg niður, en við vildum til samkomulags fara þessa millileið.

Í samræmi við þá breyt., sem við leggjum til, að gerð verði á síðari málsgr. 2. gr., þá leggjum við til, að breyt. verði gerð á 4. gr., þannig að í stað „búnaðarmálastjóra“ í l. málsgr. 4. gr. komi: Búnaðarfélag Íslands, — og jafnframt, að aftan við 1. málsgr. 4. gr. bætist: eftir því sem lög og reglur Búnaðarfélags Íslands mæla fyrir — Það hefði getað verið ástæða til að gera fleiri brtt. við þessa gr. T. d. er í 3. málsgr. talað um, að víkja megi trúnaðarmönnum frá, ef starfi þeirra þyki mjög ábótavant, en það er ekki tiltekið þar, hver skuli þá víkja þeim frá starfi, og getur það þó verið nokkurt álitamál, þar sem það eru búnaðarsamböndin, sem ráða trúnaðarmennina, þó að það sé gert í samráði við Bf. Ísl. En við vildum ekki fara út í smáatriði og smásmíðagalla á frv., svo að við gerðum ekki neina brtt. um þetta atriði.

Þá er næsta brtt. okkur í þá átt, að 5. gr. frv. falli niður, og er það í sambandi við þá brtt., sem við gerum við 6. gr. frv., og eru þá fyrirmælin um þetta færð nær því, sem er í núgildandi jarðræktarlögum. Við leggjum til, að 6. gr. orðist þannig:

Hver sá, er njóta vill styrks samkv. lögum þessum, verður að vera félagsmaður í búnaðarfélagi hrepps eða bæjar. Stjórn slíks búnaðarfélags skal skylt að halda skýrslur og reikninga, eftir því sem Búnaðarfélag Íslands mælir fyrir.

Með þessari till. okkar þykjumst við hafa náð því, sem þarf að ná úr efni 5. og 6. gr., og það, sem þá er eftir, álítum við að sé ekki til bóta, heldur sumt til hins lakara. Við höfum sleppt ákvæðinu um búnaðarblað félagsins, með því að ég veit ekki til, að það séu nein lagaákvæði um það, sem tryggi það, að búnaðarfélagið gefi út búnaðarblað. Þetta, hefir verið ákveðið á búnaðarþingi, en það getur vitanlega breytt því.

Þá leggjum við til, að 7. gr. frv. falli niður. Þar er gengið inn á sjálfstjórnarrétt búnaðarfélagsins, því að það er tekinn af því rétturinn til þess að mega hafa þau lög, sem það hefir kosið sér og búið við frá því 1931. Og ef búnaðarfélagið óskar ekki sjálft eftir því að breyta lögum sínum um sín skipulagsmál, þá teljum við, að það heyri ekki undir starfssvið löggjafarvaldsins að gera þar á breytingar. Kjósi hinsvegar búnaðarþingið sjálft að breyta lögum sínum að einhverju leyti í þá átt, sem 7. gr. frv. gerir ráð fyrir, þá er náttúrlega ekkert við það að athuga. En reyndar er það ólíklegt, að það kjósi það, með því að slíkt fyrirkomlag, sem það hefir á skipulagi sínu, hefir gefizt vel, ekki aðeins hjá búnaðarfélaginu sjálfu, heldur og hjá ýmsum öðrum félagsskap í landinu, þar á meðal samvinnufélagsskapnum. Við teljum t. d. alveg óviðurkvæmilegt, að ráðh., sem ekki er a. m. k. nein trygging fyrir, að sé neinn sérfræðingur í búnaðarmálum yfirleitt, og þaðan af síður í félagsmálum búnaðarfélagsins, fái rétt til þess að setja í reglugerð allar nánari reglur um kosningafyrirkomulag til búnaðarþings og önnur slík atriði. Þar af leiðandi leggjum við til, að 7. gr. frv. falli niður.

Um 8. gr. frv. er þess að geta, að hún mun í upphafi hafa verið miklu lakara orðuð heldur en nú, og mun hún hafa verið lagfærð einnig eftir bendingu frá ákveðnum bændaflokksmanni. En þrátt fyrir þessa lagfæringu, sem gr. hefir nú fengið, þá leggjum við til, að aftan við hana, þar sem talað er um, að ef Bf. Ísl. kjósi að hætta umsjón með framkvæmd þessara laga, þá skuli landbúnaðarráðh. sjá um framkvæmd þeirra á þann hátt, sem telji bezt henta, unz önnur skipun er þar á gerð, skuli bætast: af Alþingi —, þannig að það afsali sér ekki neinum rétti nema aðeins til mesta þings um yfirráð ráðh. yfir framkvæmd þessara laga.

Í samræmi við þetta sjónarmið, sem ég hefi gert grein fyrir bæði nú og áður, þá leggjum við til, að ákvæði frv. til bráðabirgða í niðurlagi frv. verði látin niður falla, enda geta þau ekki samrýmzt því, að Bf. Ísl. fái sjálft að ráða sínum málum. Og ákvæði, sem eru í fyrstu málsgr., koma alveg í bága við lög búnaðarfélagsins, því að aukafundur búnaðarþings getur ekki gert skipulagsbreytingu á félaginu. (Forsrh.: Það er hvergi bannað í lögum félagsins). Það hefir verið skilið svo af búnaðarfélaginu sjálfu, og mér er kunnugt um, að búnaðarþingsfulltrúarnir líta svo á, og ég vil ætla, að þeir menn, sem staðið hafa að lagasmíði búnaðarfélagsins, viti bezt, hvernig eigi að skilja skipulagslög félagsins.

Ég hefi þá lítillega gert grein fyrir þeim brtt., sem ég mun bera fram ásamt hv. 2. þm. Rang. En auk þessara brtt., þá hefi ég og leyft mér að bera einn fram brtt. við 9. gr. þessa frv. — Ég hefi áður viðurkennt það, að í þessu frv. er tekið tillit til þess frv. til breytingar á jarðræktarlögunum, sem ég hefi borið fram á undanförnum þingum, þannig að þær hækkunartill., sem í þessu frv. felast, eru á sömu atriðunum og í mínu frv. En ég hefi gert grein fyrir því, hversu skammt þær brtt. til bóta ná. Um styrk til áburðarvarðveizlu hafði ég lagt til, að styrkur til safnþróa yrði hækkaður um 50 aura á dagsverk, en hér í þessu frv. hefir styrkur til alsteyptra þvaggryfja verið hækkaður um aðeins 20 aura á dagsverk, en ekkert fyrir steyptar safnþrær með járnþaki. Ég flyt brtt. í þá átt, að styrkur til þessara framkvæmda verði hækkaður upp í sömu upphæð, sem ég hafði lagt til í frv. mínu, þannig að styrkurinn verði í báðum tilfellum tvær krónur á dagsverk, og samkv. þeim „skala“ kemur þá í stað 8,50 kr. á m3, sem frv. gerir ráð fyrir, 10 kr. fyrir alsteyptar þvaggryfjur, og fyrir steyptar safnþrær með járnþaki kemur 6,50 í stað 5 kr. í frv. — Ég hefi margsinnis áður gert grein fyrir því, hversu nauðsynlegt það er að styðja að bættri áburðarvarðveizlu betur en gert hefir verið, og þá sérstaklega að varðveizlu þeirra efna, sem eru í þvagi búfjáráburðarins, með því að þar er helzt hætta á efnatapi, og þau efni tapast jafnvel algerlega, ef ekki er höfð sérstök geymsla fyrir þau. Því miður má með sanni segja, að þessar framkvæmdir séu hörmulega skammt á veg komnar enn sem komið er hjá bændum þessa lands, þannig að það munu ekki vera til áburðarhús eða safnþrær yfir þriðjunginn af þeim áburði, sem til fellur í landinu, og þannig má benda á eina sýslu, þar sem húsrúm fyrir áburð, bæði fljótandi og fastan, nær ekki yfir 10% af áburðarmagninu, og það má einnig benda á aðra sýslu, sem húsrúm er aðeins yfir 1/10. Þess ber að gæta í þessu sambandi, að búfénaðurinn getur framleitt að fullu og öllu tvö af þeim efnum, sem á þarf að halda til þess að viðhalda ræktuninni í landinu, fosforsýru og kalí, ef allur áburðurinn undan búfé landsmanna væri nægilega vel hirtur, og þá mun ekki vanta nema þriðjung af þriðja efninu, sem er köfnunarefni. Þegar tekið er tillit til þeirra gjaldeyrisörðugleika, sem þjóðin á við að stríða nú sem stendur, þá skiptir það ekki litlu máli, að varðveitt séu þau verðmæti, sem þannig er hægt að fá frá búfénaðinum sjálfum, til þess að þurfa ekki að kaupa þessi sömu efni dýrum dómum frá útlöndum, og jafnvel þó að uppi séu raddir um að koma upp áburðarverksmiðju hér innanlands, þá mun það hvorttveggja vera, að það kostar ekki lítið fé að koma þeirri áburðarverksmiðju á fót, og í annan stað ætla ég, að það muni vera ódýrara fyrir þjóðarbúið í heild að kosta nokkru til að varðveita þessi efni, í stað þess að framleiða þau með verksmiðjuaðferð, jafnvel þótt slík framleiðsla gæti orðið innlend. Innlend áburðarverksmiðja mundi hafa allmikið verkefni fyrir því, þó að þessi efni væru varðveitt, því að alltaf þarf mikinn áburð til aukningar.

Þegar ég flutti frv. mitt til breyt. á jarðræktarlögunum, lagði ég jafnhliða því, sem ég hefi nú nefnt, ekki síður ríka áherzlu á framræslu til undirbúnings jarðræktinni, því að það er kunnugt, að allmikið af þeirri ræktun, sem þegar er framkvæmd í landinu, kemur ekki að fullum notum, vegna þess að framræslunni er enn ábótavant. Frjóefni jarðvegsins nást ekki og koma ekki að gagni, vegna þess að jarðvegurinn nær ekki að leysast sundur fyrr en hann er nægilega framræstur, og jafnvel áburðurinn, sem kostar mikið fé, kemur ekki að slíkum notum sem hann ella mundi gera, og loks verður töðuframleiðslan af ræktuðu landi, sem er ekki nógu vel framræst, bæði miklu minni og jafnframt margfalt verðminni að fóðurgildi; það munu t. d. ekki vera tök á að fóðra mjólkurkýr fullkomlega á þeirri töðu, sem ræktuð er á illa framræstu landi. Ég hefi áður gert grein fyrir skýrslu um framræsluna, sem sýnir, að aðeins 1/7 af ræktuðu landi er ræstur fram, og er nærri 1/3 nýrækt. Jafnvel gömlu túnin vantar víða framræslu, og hefir það í för með sér minni not af mjólkurpeningnum. — Þegar jarðræktarlagafrv. mitt var til athugunar hjá búnaðarfélaginu og búnaðarþinginu, þá lagði það sérstaka áherzlu á ákvæðið um framræsluna, og það lagði jafnvel til, að styrkur til lokræsa væri hækkaður frá því, sem ég lagði upphaflega til. Ég hefi því flutt brtt. við þetta frv. um þá liði, sem ræða um framræsluna; ég legg til, að í stað þess, sem dagsverk í eins metra djúpum skurðum er aukið um aðeins 8 aura, yrði dagsverkið aukið um 50 aura, og í stað þess, sem dagsverkið í dýpri skurðum er aukið um 20 aura, þá verði það einnig hækkað um 50 aura. Að því er lokræsi snertir legg ég einnig til, að í stað þess, sem lokræsi eru aðeins hækkuð um 2 aura, 8 aur., 20 aura og upp í 26 aura, þá verði þau hækkuð til samræmis við það, sem ég hafði lagt til í jarðræktarfrv. mínu, þannig að í staðinn fyrir 1,20 kr. á m3 komi 1,70, í staðinn fyrir 1,50 á m3 í skurðum, sem eru 1 m. til 1,3 m., komi 2 kr., og svo er tilsvarandi hækkun eftir dýpt skurðanna, nema á pípuræsi, því að ég lít svo á, að pípuræsi séu ekki það algeng, nema helzt í nánd við kaupstaði, og þess vegna hefi ég ekki lagt til, að þau yrðu hækkuð eins mikið, með því að þau eru ekki almennt notuð og virðist ekki bein ástæða til þess að vera að nota þau, þar sem önnur ræsi geta komið að nokkurn veginn fullum notum.

Viðvíkjandi steyptum þurrheyshlöðum með járnþaki hefir frv. ekki gert ráð fyrir neinni hækkun, en ég lagði til í mínu frv., að sá styrkur yrði hækkaður um helming, upp í 1 kr. á dagsverk, og legg ég til í brtt. minni, að í staðinn fyrir 50 aura á hálfan m3 komi 75 aurar, eða á 1 m3 1,50 kr. Er þarna farinn meðalvegur milli þess, sem er í mínu frv. og þessu frv., og jafnframt legg ég til, að styrkur til byggingar á þurrheyshlöðum úr öðru efni en með járnþaki hækki að sama skapi um þriðjung, og loks hefi ég lagt til, að í stað þess, sem styrkur til votheyshlöðubygginga er aukinn í þessu frv. aðeins um 28 aura á dagsverk, þá verði hann aukinn til samræmis við það, sem ég hafði lagt til í mínu frv., og þykist ég ekki þurfa að gera nánari grein fyrir þeirri brtt., með því að ég hefi áður bæði í ræðu ug riti sýnt fram á það, hversu nauðsynlegt það er íslenzkum landbúnaði að geta nokkurn veginn nýtt heyin með meiri votheystóttum en er. Það er hörmulegt til þess að vita, að í sumum sýslum skuli enn ekki vera til votheystóttir nema yfir nokkur hundruð hesta, og það þrátt fyrir þær alvarlegu áminningar, sem við höfum fengið af veðuráttunni í ýmsum hlutum landsins hin síðustu ár. Það verður ekki hjá því komizt að leggja allríflega fram til þessara framkvæmda meðan verið er að koma þessari verkunaraðferð í lag. Sömuleiðis hefi ég lagt til í þessari brtt., að styrkur til matjurtaræktar verði aukinn og styrkur til græðisléttana í túni, því að hvað sem segja má um græðisléttanir utan túns, þá verður maður að líta svo á, að græðisléttanir í túni geti a. m. k. að jafnaði komið að hinum mestu notum, og það er meira að segja vafasamt, að dómi ýmsra bænda, sem reynt hafa, hvort græðisléttanir í túni gefast nokkuð verr heldur en sáðsléttanir. Hér í nánd við Reykjavík, þar sem menn hafa bezta aðstöðu til þess að athuga, hvernig kýrnar mjólka af töðunni, virðist það hafa verið reynsla, að taða af græðisléttunum gefi betri raun og heimti minni fóðurbæti en taða af sáðsléttunum. Ég sakna þess, að í þessu frv. skuli ekki vera geri ráð fyrir neinum styrk til vermireita, því í að þessar framkvæmdir eru mjög mikilsverður þáttur í garðræktinni, ef hún kemst í það lag, sem hún þarf að komast í hér á landi. En fyrst þessi tegund jarðræktarframkvæmda hefir ekki fundið neina náð af hálfu þeirra manna, sem hafa undirbúið þetta frv., þá hefi ég að þessu sinni sleppt því að gera brtt. um þetta, þó að ég telji slíkan styrk mjög þýðingarmikinn fyrir þessa tegund íslenzkrar framleiðslu.

Þar sem þessar till., sem ég ber fram, eru ekki nýjar, heldur hafa fengið lofsamlega umsögn Bf. Ísl. og síðasta búnaðarþings og einnig fjölmargra bænda og búnaðarfélaga, og ennfremur verið vel tekið á nokkrum almennum þingmálafundum úti um land, þá tel ég ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þessar brtt. mínar, en skal þó að lokum aðeins geta þess að því er snertir kostnaðarhlið þeirra, að samkv. skýrslu fyrrv. búnaðarmálastjóra, sem var næst á undan þeim, sem nú er búnaðarmálastjóri, og hafði með þessi mál að gera, mun kostnaðaraukinn, sem þessar brtt. hafa í för með sér, miðaður við jarðabætur áranna 1932–'33, nema 50000 kr. yfir allt landið, og verð ég að segja, að þessi upphæð er sízt of mikil, þegar slíkt mál sem ræktun landsins á í hlut, því að við verðum að gæta þess, að hver sá eyrir, sem varið er til jarðræktar, fer til þess að auka þjóðarauðinn.

Ég verð algerlega að mótmæla þeim skilningi, sem komið hefir fram sérstaklega nú upp á síðkastið hjá ráðandi mönnum í ákveðnum stjórnmálaflokki þessa lands, að jarðabótastyrkurinn sé gjöf eða ölmusa: það er langt frá því, að þetta nái nokkurri átt, því að jarðabótastyrkurinn er fé, sem lagt er á vöxtu til þess að auka verðmæti landsins, auka þjóðarauðinn og tryggja, að sá atvinnuvegur, sem skiptir jafnvel allra mestu fyrir okkar menningu og viðhald okkar þjóðernis, fái að verða landsins stólpi eins og hann hefir verið og á að vera.

Á þeim stutta tíma, sem við höfum haft þetta frv. til meðferðar, hefi ég ekki séð mér fært að gera fleiri brtt. við það, þó að þess væri vissulega full þörf. Ég hefi ekki getað komið því við að semja brtt. til lagfæringar á ýmsum vansmíðum, sem eru á síðasta kafla þessa frv., og er þar jafnvel um mótsagnir að ræða, en ég hefi viljað binda mig við það, sem ég hefi talið höfuðatriði í málinu, enda hefir hv. 2. þm Rang. gert brtt. við ýmsar aðrar gr.: um þau atriði, sem hann flytur brtt. um, get ég að mestu eða öllu leyti vísað til þess, sem ég sagði hér við 2. umr. þessa máls, og skal ég ekki fara mikið frekar út í það, en viðvíkjandi því, sem hæstv. forsrh. var að vitna í orð mín áðan, skal ég gera nokkra aths. — Til stuðnings sínu máli vildi hann færa það, að ég hefði verið sér sammála um ákvæði 17. gr. Ég get að sjálfsögðu látið mér vel líka þessi miklu „kompliment“ frá hæstv. landbrh., fyrst hann lítur svo á, að það sé sérstök meðmæli með sínu máli að geta vitnað í mín orð, en ég verð nú samt að draga ofurlítið úr þakklætinu fyrir þessi „kompliment“, því að ég ætla, að það hafi verið nokkurn veginn ljóst af því, sem ég sagði við 2. umr. þessa máls, að ég er honum ekki sammála um þau ákvæði, sem hann hefir sett í 17. gr. Ég sagði að vísu, að það gæti komið til mála að setja einhver ákvæði, annaðhvort í þessi lög eða önnur, sem gengju í þá átt að koma í veg fyrir, að jarðir hækkuðu í verði, ég sagði, að það gæti komið til álita, en ég mótmælti því, að þegar einskonar skattur væri lagður á sölu jarðar, sem hefði notið styrks til jarðabóta, þá væri sá skattur gerður að eyðslufé sveitarsjóða. Ég skaut því fram til athugunar, án þess að hafa nægilega athugað það, að til mál, gæti komið að fara þá leið, að gera slíkar umbætur að sérstöku fylgifé jarðarinnar, sem lagt væri fram til þjóðarauðsins, en ekki gert að eyðslueyri, heldur ávaxtað á einn eða annan hátt. Ef farið er inn á þessa leið, sem virðist vaka fyrir hv. flm., verður féð að varðveitast sem fylgifé, ófráskiljanlegt jörðinni sjálfri. Er þessu skotið fram án þess að það sé fyllilega athugað eða að ég treysti mér til að koma með það sem till., sízt í sambandi við lagasetningu. Einnig benti ég á, að það væri altítt og mætti heita algild regla eins og nú árar, að þó bændur leggi sitt eigið fé, og oft einnig skuldafé; í byggingar og aðrar umbætur á jörðunum, þá verði að afskrifa það fé að meira eða minna leyti við næstu sölu. Jafnvel mun koma fyrir, að jarðir, sem nú eru til sölu, seljist ekki miklu meira en fyrir því, sem búið er að leggja í byggingar á þeim, vegna markaðsaðstöðu nú og ranglátlegrar skráningar á peningum. Ég benti á, að þar sem afskriftir við sölu jarða nú á tímum stöfuðu m. a. af rangri gjaldeyrisskráningu, þá væri ekki sanngjarnt að heimta þetta fé aftur affallalaust, og algerlega fráleitt að heimta aftur jarðræktarstyrkinn, þegar jörð selst neðan við fasteignamat. Hæstv. ráðh. benti á, að ákvæði 17. gr. kæmu ekki til framkvæmda þegar börn eiganda tækju við jörðinni. Ég ætla þó, að þegar eitt eða fleiri börn taka við eftir föður sinn, þá verði samt að setja verð á jörðina vegna annara erfingja. og er þá sízt loku fyrir skotið, að þau börn, sem jörðina taka, greiði þetta fé aftur til þess opinbera samkv. ákvæðum greinarinnar. Jafnvel þó að ég hefði fremur kosið að hafa meiri tíma til þess að geta sjálfur gert brtt. við þessa gr. II. kafla, sem hv. 2. þm. Rang. hefir nú gert sínar brtt. við, og hafa þær á nokkuð annan veg en hann hefir gert, þá tel ég, að í þessari gr. séu svo vafasöm ákvæði, sem ég gæti sumum verið fylgjandi, ef þau væru lagfærð, og tel, að til þess gefist tækifæri síðar; mun ég af tvennu fremur fylgja till. hv. 2. þm. Rang. en ákvæðum nefndrar gr., með því að ég tel, að sum ákvæði gr. hafi stórkostlega ágalla; þó ég viðurkenni að nokkru leyti örfá atriði, þá ætla ég samt sem áður að greiða till. atkv., með því líka að í frv. kemur fram stórkostleg stefnubreyt., sem breytir grundvelli l., og það án þess að búnaðarfélaginu hafi verið gefinn kostur á að athuga frv. og lýsa áliti á því áður en það er gert að l. — Ég vil taka það fram um frv. allt, að ég tel sérstaklega miður fara, að það sé afgr. án þess að búnaðarfélagsskapurinn í landinu hafi fengið það til athugunar. — Ég hafði ekki ætlað mér, þar sem ég gerði grein fyrir afstöðu minni við 2. umr., að fara nánar út í einstök atriði að þessu sinni.