11.03.1936
Neðri deild: 21. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1249 í B-deild Alþingistíðinda. (1812)

32. mál, landssmiðja

*Frsm. minni hl. (Gísli Sveinsson):

Það er rétt, að fjhn. þessarar d. gat ekki orðið sammála um till. í þessu máli, en það er ekki rétt, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að minni hl. hafi ekki um það spurt í n., hvort komið gætu til mála frekari breyt. á frv. en þegar væru á orðnar. Það er sem sé eins og hv. frsm. meiri hl. hefir að nokkru leyti skýrt frá, að frv. er fram komið með þeim sáralitlu og lélegu breyt., sem á því urðu í fyrra. Ég vil ekki neita því, að þær breytingar hafi aðeins miðað til bóta, en það skiptir litlu máli, þegar verið er að tala um stefnu þessa frv., sem við í minni hl. verðum að telja að ýmsu leyti skaðlega. eins og nú standa sakir. Við vildum gjarnan fá það fram, hvort meiri hl. væri ekki sveigjanlegur inn á það að breyta frv., en vitanlega hefðu það orðið að vera allgagngerðar breyt., ef samkomulag hefði átt að nást. En því var ekki til að dreifa. Sósíalistarnir réðu því. Þeir hafa talið þetta af einhverjum ástæðum sitt mál, þó að ég verði að telja, að það sé kannske ekki allskostar rétt, en frv. sjálft sver sig að vísu í ættina. Ég veit, hvaðan þetta frv. er komið, og því er ekki að neita, að ýmsir standa að því, sem eru áhugamenn í þessum efnum. En þeir eru miklir ofstækismenn í pólitík, og þó þeir fari hægt dagsdaglega, þá er undir niðri svo mikil sósíalistísk alda, sem við og við gýs upp hjá þeim, að við ekkert verður ráðið. Þetta er alkunnugt, líka hér á Alþingi, en einkum er það nú á tímum öllum lýðum ljóst, að það er verið að leitast við að lita þjóðmálin á eina lund, og fyrir því standa stjórnarflokkarnir, enda er því ekki neitað af þeim. Reyndar mega framsóknarmenn sín einskis, heldur eru það sósíalistar, eins og hv. frsm. meiri hl., sem berja í borðið. Þótt þetta væri svona, sem ég reyndar undrast ekki, þá var sjálfsagt að byrja að leita lags um breyt. til samkomulags, enda þótt það færi ekki leynt, að við sjálfstæðismenn værum á móti frv. eins og það er. En hitt var hlálegt, að meiri hl. n. þorði ekki að leita álits kunnáttumanna, og það sýndi veiluna í öllu saman. Mér kom það heldur ekki á óvart, því það er kunnugt, að þegar pólitíkin hefir gripið þessa menn, þá mega þeir ekki heyra nefnt, að til kunnáttumanna sé leitað, nema þeirra, sem fyrirfram eru á þeirra máli. Ég stakk upp á iðnráði Reykjavíkur, og taldi það ekki neina goðgá, því ég veit, að það er skipað mönnum úr öllum flokkum. En þá vildi meiri hl. fá að vita, hverjir menn þar væru, til þess að geta flokkað þá eftir stefnu, og þegar hann komst að þeirri niðurstöðu, að form. væri ef til vill ekki sósíalisti, þá þótti ekki ráðlegt að leita þangað. — Þá var einnig farið fram á það af okkur minni hl. að leita til trúnaðarmanna ríkisins, þeirra sem hafa verið í stjórn landssmiðjunnar, og forstjóra fyrir þeim stofnunum, sem eiga að skipta við landssmiðjuna, eins og t. d. vegamálastjóra, póst- og símamálastjóra og vitamálastjóra. En það var ekki nærri því komandi, því þessir menn væru pólitískir; vegamálastjóri væri pólitískur og þess vegna mætti ekki fara til hans. Nú veit ég ekki til, að nokkur maður hér á Alþingi geti hermt það upp á þann mann, að hann láti pólitík ráða í umsögnum sínum. Það hefði því mátt segja, að rétt hefði verið að leita umsagnar hans, og þá hinna annara, sem kannske mundu vega salt á móti, og svo mætti „sortera“ úr, því ekki eru menn skyldugir til þess að ganga inn á allt, sem í umsögnum stendur. Valdir menn geta haft aðra skoðun heldur en pólitíkusar, og það getur vegið meira undir vissum kringumstæðum það þjóðmálalega heldur en það tekniska, en það má ekki útiloka, að hitt komi fram.

Þetta sýnir í fáum dráttum, hvernig málstaðurinn er hjá meiri hl., enda var það öllum ljóst eftir því, hvernig umr. féllu í fyrra og hvernig niðurstaðan varð á framgangi málsins — svo langt sem hún komst — að þetta mál fór eftir flokkum. En það er einkennilegt, ef slíkt mál sem þetta þarf að fara eftir flokkum. Og ég vil spyrja hv. frsm. meiri hl., hvers vegna svona mál, sem er sumpart verkfræðilegs eðlis og sumpart viðskiptalegs eðlis, snertandi svo mjög atvinnuvegi og iðnað í þessu landi, og ekki sízt þessa bæjar, þarf að fara eftir flokkum, þegar á að ráða því til lykta á heppilegan hátt fyrir þjóðina. Þeir, sem byrjuðu að girða þetta mál með flokksmúrum, verða að segja til um það, hvers vegna þeir gerðu það.

Þá skal ég víkja að þeim aðfinnslum, sem hv. frsm. meiri hl. þóttist vera að gera á nál. og skoðun okkar í minni hl. og umsögn þess manns, sem við leituðum til. Aðalröksemdin á móti þessu áliti Helga H. Eiríkssonar er sú, að hann sé pólitískur. Nú sjá menn, hversu mikinn þunga þessi orð geta haft í munni þessa þm., þar sem maður veit um meðferð málsins í höndum hans og stjórnarflokkanna. Og jafnframt hneykslast hv. frsm. á því — þegar hann í gegnum alla sína ræðu hefir borið það fram, að hér sé ekki um annað en pólitík að ræða — að rétt sé að forðast pólitík í þessum efnum hjá ráðh. Hvers vegna. segir hann, að vera að tala um pólitík hjá ráðh., eins og þeir séu blindaðir af pólitík! Ég tel því, að sú röksemd hv. frsm. meiri hl., að hér sé gefið álit af pólitískum ástæðum, sé fallin af þeim ástæðum, að það er sýnt, að hann metur ekki pólitíkina nema á einn veg. En hitt er annað mál, hvort hv. frsm. getur hrakið nokkuð það, sem í umsögninni stendur. Og ég vil benda hv. frsm. á það, að ef hann ætlar sér þá dul að hrekja það, þá er hann kominn í ósamræmi við mikinn hluta eða e. t. v. allan þorra þeirra, sem ópólitískt geta um þetta mál talað, og má hann fyrir þá skuld nú taka upp þá aðferð, sem hann þorði ekki áður, að leita til þessara ráða, og sjá, hvernig umsögn þeirra fellur, hvort hún verður athugasemdalaus við frv. Ég hefi haft í höndum álit frá miklu fleiri mönnum um þetta mál, og ég hefi einnig átt tal við marga, og allflestir — ég vil ekki segja allir — hafa fallizt algerlega á álitsgerð Helga H. Eiríkssonar bæði hvað snertir viðhorfið til bæjarfélagsins, til borgarann, og til viðskiptanna, og ekki sízt til þess tekniska.

Hv. frsm. meiri hl. vildi ekki viðurkenna, að Helgi H. Eiríksson væri trúnaðarmaður iðnaðarmanna. Hann hljóp þá í þeirri andránni yfir það, sem ekki verður hrakið, að auk þess sem Helgi H. Eiríksson hefir verið skólastjóri iðnskólans og hefir verið trúað fyrir því um langan tíma af þeim mönnum úr öllum flokkum, sem þar standa að, þá er hann verkfræðingur og hefir sæmilegt verksvit, bæði fræðilega og vafalaust að öðru leyti, því hann hefir lagt á ýmislegt gjörva hönd. En hann er í raun og veru æðsti trúnaðarmaður þessara manna, þar sem hann er formaður landssambands iðnaðarmanna. Það gefur að skilja, að enginn fáráður í þessum efnum væri settur í þá stöðu. Nei, það er alveg rangt að hann sé ekki trúnaðarmaður þessara manna, en hitt er annað mál, að hann talar hér ekki í þeirra umboði sérstaklega. Hann var beðinn sem fróður maður í þessum efnum að gefa upp álit sitt. Það hefir hann nú gert, en þar sem meiri hl. vildi ekki fá álit fleiri manna, þá er ekki um neitt að sakast.

Hv. frsm. meiri hl. taldi það mikinn kost á þessu frv., að með því væri ætlað að ryðja nýjar brautir, og átti hann þá við það sérstaklega, sem sagt er í 1. gr. frv. um hlutverk landssmiðjunnar, að hún eigi að annast viðgerðir skipa, smíði mótora og annara véla, og aðra smíði. Það er í rauninni einkennilegt, að það er farið hér inn á svið, sem í sjálfu sér hefði ekki þurft, ef landssmiðjan hefði átt að halda áfram þeim störfum, sem hún mestmegnis hefir fengizt við, en það er smíði og aðgerðir fyrir ríkisstofnanirnar. En hér er sýnilega á ferðinni mikið meira, eins og líka öllum er ljóst, sem hér hafa komið við mál. Meiningin er náttúrlega í raun og veru sú að reyna að svæla undir ríkið þetta fyrirtæki. Nú var þessi stofnun að vísu rekin undir nafni ríkisins, en hún hafði þó ekki með lögum verið gerð að einokunarstofnun. En þetta er tilgangur frv., enda kemur það ljóslegu fram á orðalagi þess. Að vísu er 2. gr. frv. dálítið lævíslega orðuð, því þeim, sem það sömdu, hefir vafalaust verið það ljóst, að hér er um nokkuð viðkvæmt mál að ræða, þar sem taka á þau verk, sem eru svo margvísleg samkv. 1. gr., af þeim stofnunum, sem hér eru fyrir, og demba þeim inn undir ríkið og banna ríkisstofnunum að skipta við önnur fyrirtæki. En það er einmitt það, sem flestum kunnáttumönnum kemur saman um, að þessar nýju brautir séu varhugaverðar, sem sé smíði mótara og annara véla, því það sé svo áhættusamt. Það er alkunnugt, að véla- og mótoraverksmiðjur erlendis, sem alltaf eru að sérgreina sig, leggja of fjár í slíkar tilraunir, sem kannske verður ekkert úr, bara til að reyna að koma einhverju fram, sem síðar meir gæti orðið til hagsbóta og til þess að auka veg þeirra í samkeppninni. Ef ríkið færi út á þessa braut, yrði það að vera viðbúið að leggja í þetta of fjár, fé sem mundi ekki einungis nema hundruðum þúsunda, heldur ennþá meira. Það er ekki nóg með það, að það mundi þurfa að útvega þessu fyrirtæki öll nýjustu og beztu tæki og vélar, það yrði einnig ávallt að vera tilbúið að útvega sér alla beztu sérfræðinga, sem völ er á, annars dugar það ekki. Því ef það fer út á þessa braut á annað borð, verður að gera tilraunina þannig, að það verði fyrst og geri hlutina bezt. Þetta er alkunnugt, en um það hefir ekki verið skeytt í þessu frv. Þetta er það raunverulega, nema því aðeins að orðin í l. gr. „smíði mótora og annara vél,“ séu sett til þess að slá ryki í augu fólksins, því sé bara ætlað að gleypa þetta, að nú eigi að fara að smíða hér allskonar vélar, allt sé tilbúið til þess, að bátaútvegsmenn fari nú að geta fengið þessa hluti góða og ódýra, og allt innlent. En það er misskilningur, að allt sé tilbúið. Það er þvert á móti allt ótilbúið í þessu efni. En einokunarkenndin er alveg greinileg, því í síðari hluta fyrri málsgr. 2. gr. segir: „Ríkisstjórnin getur mælt fyrir um, að stofnanir, sem styrktar eru með fé úr ríkissjóði“ — ekki aðeins þær, sem eru ríkisstofnanir kallaðar, heldur allar stofnanir, sem njóta einhvers styrks úr ríkissjóði. — „skuli skipt, við landssmiðjuna um smíði þá, er þær þurfa að láta gera innanlands enda sé um sambærilegt verð og vinnubrögð við aðrar samskonar smiðjur að ræða.“ Ég sagði áðan, að þessi ákvæði frv. væru að vísu nokkuð lævíslega orðuð. Það er látið skína í gegn, að þetta þurfi ekki að verða svona, ríkisstj. geti mælt svo fyrir o. s. frv. En nú getur maður ímyndað sér, hvort sú stj., sem nú situr, mundi ekki blátt áfram mæla svona fyrir þegar í stað. Auðvitað mundi hún gera það, og hefði því alveg eins mátt orða þetta ákveðnara. En þó svo væri, að í einu eða öðru atriði yrði látið undan falla að gera slíkt. þá er þetta ákvæði sem hangandi sverð yfir höfði þeirra einkafyrirtækja, sem í frjálsri samkeppni hefðu tök á að bjóða í slík verk, sem hér er um að ræða. Þetta er það, sem útilokar, að við sjálfstæðismenn getum fallizt á frv. vitanlega er eitthvað líkt í hverri grein, en þetta eitt mundi skera úr. Við teljum það algerlega óhæfilega stefnu að ætla að fara að ákvarða svona um niðurskurð á þrifastofnunum í landinu. Sérstaklega er það að okkar dómi of mikil áhætta að heimila ríkisstj. með lagaákvæði að svæla undir sig viðskipti við einkafyrirtæki. Er það eftirtektarvert, að sá maður, sem minni hl. leitaði til, er einnig hneykslaður, þegar um þetta atriði er að ræða. Tekur hann eitt dæmi, sem hv. frsm. minntist ekki beinlínis á. Hann segir: „Loks verður ekki annað sagt en að það sé langt gengið að þvinga einkafyrirtæki, eins og t. d. Eimskip, til þess að skipta við landssmiðjuna, þótt þau njóti ríkisstyrks, hvernig sem þeim líkar viðskiptin að öðru leyti.“ Hvaða sanngjarn maður getur neitað þessu? Er þessi setning svo gegnsýrð af pólitík, að ekki sé hægt að íhuga hana? Það er ekki einungis hægt, heldur sjálfsagt. Mér er kunnugt um, og sjálfsagt fleirum, að það hafa verið gerð mörg útboð á verkum fyrir ríkisstofnanirnar, sem landssmiðjan hefir tekið þátt í ásamt einkafyrirtækjum í þessari grein. Og það hefir komið í ljós, að landssmiðjan hefir ekki getað annað en haft sín tilboð mikið hærri og óaðgengilegri heldur en einkafyrirtækin. En hvað hefir skeð? Það hefir skeð það, að þó tilboð landssmiðjunnar hafi verið mörgum þúsundum hærri, þá hefir ráðh. leyft sér að úrskurða, að þeim skyldi tekið. Hvað mundi þá verða, eftir að slík ákvæði væru komin í gildi, sem eru í þessu frv.? Hann tók það sem dæmi, hv. frsm., að það væri alveg sambærilegt, að löghelga einokun landssmiðjunnar á þennan hátt, við það að ríkisútvarpið hefði viðgerðarstofu. Þetta er hin fáránlegasta villa, hvort sem hún nú stafar bara af meðfæddri þröngsýni hv. frsm. eða öðru. Hann hlýtur að sjá það, þegar hann rankar við sér, að það er allt annað, þó einhver ríkisstofnun hafi sett upp viðgerðarverkstæði fyrir sig, heldur en ef ríkið kemur á einni allsherjarstofnun, sem á að taka að sér alla smíði fyrir allar ríkisstofnanirnar og einnig þær stofnanir aðrar, sem nú eða í framtíðinni kunna að njóta styrks frá ríkinu. Ég held hv. þm. ætti ekki að endurtaka þessa samlíkingu, því það er öllum ljóst, að hún getur ekki komið til greina.

Hann taldi það fjarstæðu, að atvinnuleysi gæti aukizt við að setja á stofn svona landssmiðju. Það má náttúrlega deila um það, hvort þessari smiðju er ætlað, eða hvort hún er þess megnug að taka við öllum þeim mönnum, sem verða atvinnulausir, ef önnur fyrirtæki í þessari grein leggjast smátt og smátt í rústir. Þangað til hv. frsm. lýsir því yfir, að landssmiðjan sé m. a. til þess stofnuð að taka við öllum þeim mönnum, sem flosna upp hjá öðrum slíkum fyrirtækjum vegna misréttis af hálfu löggjafarvaldsins, skoða ég þetta sem marklaust hjal. Ef atvinnuleysið á ekki að vaxa, verður hið nýja fyrirtæki, sem á að gína yfir þeim verkum, sem hin fyrirtækin annars hefðu haft, að taka við öllum þessum mönnum. En það er ekki að ófyrirsynju, að þeir óttast nokkuð um atvinnu sína og hugleiða, hvað margir þeirra muni komast að landssmiðjunni undir þeirri stj., sem fer með þessi mál og væntanlega verður stundum a. m. k. pólitísk, þó hv. frsm. segi það goðgá, að ráðh. sé pólitískur, sem er nokkuð einkennilegt að heyra úr hans munni. Þegar maður veit, hvernig raðað hefir verið að jötunni við ríkisstofnanirnar, og hverskonar fólk það hefir verið, þannig að það þótti undur, er hæstv. fjmrh. lýsti því yfir á síðasta þingi, að einn eða einn og hálfur maður, sem ekki væri af þeirra flokki, hefði verið tekinn að einni nýstofnaðri ríkisstofnun, og taldi þar af leiðandi ekki ástæðu til að vera neitt að deila á hana, — þegar þetta þykir undrum sæta, að einn, ég vil ekki segja réttlátur, en af öðru sauðahúsi, er á meðal þess fjölda, sem tekinn var að þessari stofnun, þá getur maður ímyndað sér, hvort ekki er ástæða til þess fyrir þá, sem atvinnulausir verða vegna sérréttinda landssmiðjunnar, að vera dálítið kvíðafullir. Ég held, að hv. frsm. hafi ekki getað fært nein rök gegn áliti minni hl. og þeirra manna annara, sem telja þetta mál óhæfilegt og óframbærilegt eins og það liggur hér fyrir. En ég tel nauðsynlegt, að raddir komi fram frá þessum mönnum og þeim stofnunum, sem reynslu hafa á þessu sviði, líka einstaklingsstofnunum, því að því verður ekki á mæti mælt, að til þeirra verka, sem landssmiðjan hefir með höndum, eru risin upp einkafyrirtæki, sem standa henni fyllilega á sporði, og að sumra dómi standa henni framar. En þó ekki sé meira sagt en að þau séu eins vel úr garði gerð, þá getur verið varhugavert að ráðast á slíkar stofnanir og fyrirtæki innanlands, sem orðin eru því vaxin að inna þessi störf af hendi, svo að ekki er ástæða til að kvarta yfir. Hitt getur verið ósköp eðlilegt, að ríkið hafi, ef henta þykir, stofnun til sinna smíða, til þess að gera betur fljótar og ódýrar heldur en önnur hliðstæð fyrirtæki, ef hægt er. En til þess að kleift sé að fara þá leið, þarf að vera frjáls samkeppni. Hitt er engin kúnst, að einoka verk fyrir sig og ráða öllu um, hvernig þau eru unnin, og verðleggja þau svo eftir eigin höfði. En þetta er það, sem þeim mönnum verður hált á, sem halda, að einokun í öllum greinum sé vegurinn til lífsins. Það má benda á sem dæmi samanburð þann, sem gerður var á síðasta þingi og ræddur í blöðunum um verðlag hjá raftækja- og bifreiðaeinkasölunni samanborið við það, sem áður var. Sá samanburður var svo hroðalegur, að það tók út yfir allan þjófabálk. Álagningin var langt yfir það, sem lög heimiluðu og viðskiptamennirnir höfðu gert sér í hugarlund, þó þeir fyndu, að ástandið var illt. Það var að vísu reynt að mótmæla þessu út í hött á þinginu, en síðan hafa ekki hlutaðeigandi stjórnarvöld hreyft litlafingur til að hrekja það. Þannig spor laða ekki, þau hræða.

Það er eitt, sem þessir menn gera svo lítið úr, og það er, hvort borgararnir, skattþegnarnir, eiga að fá að lifa eða ekki. Þeir mega bara deyja út eða fara á vonarvöl. Því fyrir atvinnulausum mönnum liggur ekki annað en fara á vonarvöl. Þó það heiti svo, að þeir fari á bæinn eða hreppinn, þá lifa þeir ekki lengi á því. Í raun og veru er það ríkið, sem þeir fara á, og það er bara stóri vonarvölurinn. Það eru ekki þessir háu herrar sjálfir, sem þunginn lendir á, heldur allur landslýður. Hvað þennan bæ snertir veit ég ekki betur en það mæði mest á honum, líka hvað snertir ríkisfjárhirzluna. Ég held, að það væri rétt að athuga, hvort ekki ætti einmitt að hlynna að honum, láta hann njóta undantekninga að ýmsu leyti, vegna þess hvað ríkið þarf mikið á honum að halda. En í stað þess eru gerðar beinar árásir á bæinn og skattþegna hans. Við því geta menn ekki þagað, menn verða að standa upp og mótmæla. Það getur a. m. k. ekki komið til mála, að menn úr Sjálfstfl. fylgi slíku. Menn verða að athuga, að það dugar ekki til lengdar að ganga þá braut að draga alla atvinnu með valdi frá þeim stofnunum, sem standa undir gjaldgetu bæjarins, og leggja hana undir stofnanir, sem ríkið setur á laggirnar. Einhverntíma kemur það mönnum í koll, fyrst bænum og svo ríkinu sjálfu. Þegar þetta eru orðnar ríkisstofnanir, má ekki leggja á þær útsvör. Þær eiga að vísu að greiða 5%, en það vita allir, að það er allt of lágt samanborið við það, sem þær velta, hvað þá samanborið við þá gjaldstofna, sem þær hafa eyðilagt fyrir bænum. Það er talað um, að þessi bær hafi marga útvegi. En ef svo væri, að hann gæti einhvernveginn bjargað sér, eru þá þessar þörfu stofnanir, sem einstaklingarnir hafa komið upp og gert starfhæfar með sérlegu miklum dugnaði, svo réttlausar, að það megi svo að segja með einu orði þurrka þær út? Ég segi nei, og það munu margir segja með mér.

Frá hvaða hlið, sem þetta frv. er skoðað, er það í næstum öllum atriðum óframbærilegt. Sérstaklega er það einkennilegt, og um leið varhugavert, að það skuli koma fram á þessum tíma, þegar allir eru í vandræðum, og þegar ríkið getur ekki rekið sínar stofnanir, nema með raunverulegum halla, ef rétt er spilað. Þegar við vitum, að viðskiptin við útlönd, líka innflutningurinn á því, sem við þurfum til þess að geta unnið eitthvað í landinu, hafa skapað slíkt öngþveiti, að enginn getur sagt, hvað víðtækar afleiðingar það kann að hafa, þá er það goðgá að ætla sér þá dul, eins og nú standa sakir, að telja mönnum trú um, að það sé bjargráð að samþ. annað eins frv. og þetta, eða yfirleitt að ríkið fari að svæla undir sig stofnanir, sem náð hafa góðum árangri, og sem miklu fremur ætti að styrkja til þess að veita sem mesta atvinnu, til þess að vinna þessar vélar, ef tiltækilegt reynist, og til þess að einhver fyrirtæki séu fyrir hendi til þess að bera byrðarnar af hinu opinbera.

Ég vil leggja sérstaka áherzlu á þetta, en það er ýmislegt fleira, sem ég skal ekki fara út í, í þetta sinn, er líka gerir það að verkum, að rétt væri fyrir hv. stjórnarflokka að byrja nú á því að fara dálítið varlega. Ég vil aðeins benda á það, að þegar minnst vonum varir, geta þessi verk þeirra, þetta hrófatildur, sem þeir hafa byggt upp, og þar með ýmislegt annað, fallið um koll. Það má vissulega ekki miklu muna. T. d. hér í d. voru verstu og varhugaverðustu málin kúguð fram á tveim síðustu þingum með eins, atkv. mun. Ætla þessir menn, stjórnarflokkarnir, að halda áfram á þessari braut með eins atkv. meiri hluta? Við vitum, að þetta eina atkv. er þannig til komið, hvort sem það er nú frá Pétri eða Páli, að það getur varla talizt sómasamlegt að tjalda því fram sem sérstakri stoð undir þessari stefnu og þessari löggjöf. Það er tilfengið atkv. til þess að koma fram málum, og það versta er, að þegar þeir ljá atkvæðið, þá er það gert til óþurftar landi og lýð.