11.03.1936
Neðri deild: 21. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1259 í B-deild Alþingistíðinda. (1815)

32. mál, landssmiðja

*Emil Jónsson:

Mér finnst ég ekki geta látið mál þetta ganga áfram án þess að segja nokkur orð, þó að frsm. meiri hl. hafi drepið á ýmis atriði og leitt fram þau rök, sem frsm. minni hl. hefir í engu hnekkt.

Þá hafa og komið fram ný atriði í umr., sem ekki hafa komið fram fyrr og ég vil minnast á. En áður vil ég drepa á höfuðtilganginn með frv. þessu, þó rætt hafi verið um hann á við og dreif, og í fyrra, þegar frv. þetta kom fram fyrst. Álít ég því æskilegt að rifja þetta upp í stórum dráttum. Í fyrsta lagi er ætlunin að skapa landssmiðjunni þá festu, sem hún hefir ekki áður haft. Hún hefir nú starfað í 5–6 ár, og þó raunar lengur, en aldrei hefir verið til neinn lagabókstafur um, hvernig haga bæri rekstri hennar, aðeins ráðherrabréf. Ekkert annað.

Losaraskapurinn á rekstri þessarar stofnunar hefir jafnvel gengið svo langt, að sumar deildir hennar hafa verið keyptar eitt árið, en svo seldar aftur næsta ár, til stórtjóns fyrir fyrirtækið. (PHalld: Er það nokkur sönnun?). Ef það er ekki sönnun fyrir því, að fyrirtækið þurfi að fá fastara form, að tæki þess eru keypt eitt árið, seld á næsta ári og síðan keypt aftur þriðja árið, þá veit ég ekki, hvað er sönnun. (PHalld: Það getur verið gróði). Ég tel þetta a. m. k. mjög óheppilegt og tel allsendis óvíst, að hv. 5. þm. Reykv. vildi gera þetta við fyrirtæki, sem honum væri annt um, og þetta er fyrirtæki, sem hann á að láta sér annt um, þó ekki sé beint vegna persónulegra hagsmuna, þá vegna hagsmuna þjóðarinnar, sem hann er kosinn til að vera á verði um. (PHalld: Þetta geta verið hagsmunir fyrirtækisins). Hv. þm. veit, að það eru ekki dagsmunir til ágóða fyrir stofnunina eða hagræðis, að kaupa inn hlut, selja síðan fyrir hálft verð, og verða loks að kaupa hann aftur með uppskrúfuðu verði. (PHalld: Af hverju var þetta gert?). Án þess að ég rökstyðji þetta frekar, veit ég að hv. þm. hlýtur að skilja nauðsyn þess að fyrirbyggja svona óstjórn með því að skapa festu um starfsemi stofnunarinnar.

Annar tilgangurinn með frv. er sá, að skapa fyrirtækinu fastan grundvöll til að starfa á, þ. e. þá ríkisvinnu, sem til fellur, þó svo, að tilboð landssmiðjunnar standist samkeppni um verð og gæði við tilboð annara slíkra fyrirtækja. Ef svo er t. d., eins og þm. V.-Sk. segist þekkja, að tilboð hennar verði mörg þús. kr. hærri, þá er ekki hætta á samkeppninni við einstaklingsfyrirtækin. (GSv: Hvar er þetta í frv.?). Það stendur í frv., ef tilboð reynast ekki óhagstæðari um vörugæði og verð. Ég efast um, að tilboð landssmiðjunnar séu svo óhagstæð sem þess hv. þm. vill vera láta, og sjálfur þekki ég gagnstætt dæmi því, er hann nefndi.

Þriðji höfuðtilgangur frv. er að koma af stað nýsmiði, og hafa í því sambandi verið nefndir mótorar, en vitaskuld er það ekki nema ein grein járniðnaðarins, sem hefir sérstaklega komið til greina vegna þess, hve hér er stór liður í innflutningnum, jafnvel allt að 500 þús. kr. á ári, sem nokkrar líkur hafa þótt til, að mætti spara á með innlendri smíði.

En auk þessa er til fjöldi annara hluta, sem landssmiðjan getur snúið sér að og einstaklingsfyrirtækin hafa ekki sinnt. Þessa hluti á að taka upp á að smíða hér, ekki til þess að koma járniðnaðarmönnum úr vinnu — eins og sumir hv. þm. hafa þótzt bera, svo mjög fyrir brjósti og verið að tilkynna hér —, heldur til þess að koma þeim í vinnu. Það vita allir, sem til þekkja og vilja vita, að aðbúnaður allur við landssmiðjuna er lélegur, og aðstaða svo slæm, að ekki er sæmandi siðuðum mönnum. Ég hefi séð menn þar í vinnu úti í porti, þar sem ekki var svo mikið sem steingólf, hvað þá þak yfir höfuðið; hefir þessi aðbúnaður aukið erfiðið og verið til hins mesta óhagræðis.

Það er því svo langt frá öllum sanni, að verið sé að stofna til þess að bola út öðrum fyrirtækjum, að með frv. þessu er aðeins verið að hindra það, að landssmiðjan dragist aftur úr í samkeppninni.

Þá langar mig til að minnast á álit minni hl. fjhn. Þar hefir verið leitað álits manns, sem að dómi minni hl. hefir sérþekkingu til að bera og umboð fyrir þann aðilja, sem skiptir þetta mál miklu.

Um sérfræði þessa manns er það að segja, að hann er ekki meiri sérfræðingur en ég á þessu sviði; við erum báðir verkfræðingar, og hvorugur er vélaverkfræðingur. Við höfum báðir nokkra nasasjón af þessum hlutum, en hvorugur sérfræðiþekkingu.

Hvað það snertir, að hér tali hann sem „trúnaðarmaður í félagsskap þeirra stétta, sem óneitanlega verður að taka mark á“ — þá efast ég um, að þetta sé rétt, þó honum hafi borizt umleitun minni hluta fjhn. og hann sé í stjórn Landssambands iðnaðarmanna — sem ég geri ráð fyrir að átt sé við, þó heldur sé óljóst og loðið að orði komizt á nál. —, þá talar hann ekki hér um f. h. stj., til þess hefði þurft að leggja þetta mál fyrir stjórnarfund, heldur talar hann hér sem „prívat“maður. Ég hringdi líka til hans strax, þegar ég sá þetta nál. og spurði hann að því, hvort hann talaði í umboði stj., og neitaði hann því, enda hafði hann ekki leyfi til þess að koma fram sem fulltrúi félagsskaparins, nema kalla saman fund, og ég leyfi mér að efast um, ef bréf þetta og frv. hefði verið borið undir stjórnina, að það hefði fengið þessa útreið.

Álit minni hl. kom fram í gær, en það varð furðu fljótt hljóðbært um bæinn, enda hefi ég nú fengið hér langa álitsgrein frá því félagi, sem mál þetta stendur næst, bæði sem atvinnuspurning og hvað þekkingu snertir, og á jafnframt mest undir um samþykkt þess og framkvæmd. Allt þetta er frá stjórn Félags járniðnaðarmanna í Rvík, og vil ég leyfa mér að lesa það hér orðrétt upp með leyfi hæstv. forseta:

ÁLIT

stjórnar Félags járniðnaðarmanna á frumvarpi til laga um Landssmiðju.

Eftir að hafa athugað ofangreint frumvarp, leyfum vér okkur að láta í ljós eftirfarandi álit. 1. Höfuðverkefni félagsins á undanförnum árum hefir verið það, að berjast fyrir aukinni atvinnu fyrir járniðnaðarmenn, og viljum við því taka það fram, að þetta sjónarmið ræður að mestu áliti voru um þetta mál.

Þar sem frv. gerir ráð fyrir, að stofnað verði til framleiðslu á hlutum, sem ekki hafa verið smíðaðir hér á landi áður, svo sem mótora og annara véla, einnig smíði á hlutum, sem íslenzkir hugvitsmenn hafa fundið upp og gert uppdrætti að er það stórt spor til aukinnar atvinnu í landinu.

2. Þar sem gert er ráð fyrir, að smíði mótora verði einn höfuðþátturinn í starfi landssmiðjunnar, viljum við geta þess, að við teljum fulla möguleika á því, að slík smíði sé framkvæmanleg hér á landi. Það er oss fullkunnugt, að hér hafa verið smíðaðir með góðum árangri allir aðalhlutar ýmsra mótortegunda, svo sem cylindrar, stimplar, deksel, skrúfuásar, sveifarásar, drifskrúfur, sem og aðrir smærri hlutir. Og dæmi eru til, að hér á landi hafa verið smíðaðir heilir mótorar, og það án þess, að hér væru til staðar „special“-verkfæri til framleiðslu slíkra hluta. Þetta sýnir m. a., að hér er fyrir hendi nokkur iðnþekking á þessu sviði, og mundi hún koma að miklu liði, þegar hér væru fyrir hendi fullkomin verkfæri til þess að framkvæma smíði mótora. Teljum við, að því fé, sem lagt væri fram til slíkra framkvæmda, væri vel varið. Jafnvel þó ekki væri ráðizt í að smíða nema eina stærð mótorvéla fyrst um sinn, þá væri það stórt spor í rétta átt, þar sem allur fjöldi þilfarsbáta er af svipaðri stærð: 15–25 smálestir.

3. Sem bein afleiðing af þeirri auknu starfrækslu landssmiðjunnar, sem frv. felur í sér, mundu verða reistar nýtízku verkstæðisbyggingar, þar sem verkamenn kæmu til með að hafa góðan aðbúnað og aðstöðu til allrar vinnu. Teljum við það hafa mikið hagsmunalegt og menningarlegt gildi fyrir járniðnaðarmenn.

4. Samkvæmt áðurnefndum grundvelli á áliti voru á frv. viljum við taka það fram, að við teljum það stórkostlegt hagræði fyrir íslenzka hugvitsmenn að fá tækifæri til þess með styrk landssmiðjunnar að koma hugmyndum sínum, sem nothæfar reynast, í framkvæmd, sem að öðrum kosti væri undir hælinn lagt, að kæmust í framkvæmd án aðstoðar hins opinbera, enda eðlilegt, að ríkisvaldið hefði forustu í slíku. Ennfremur viljum við benda á það, að slíkur nýiðnaður, sem um getur í frv., mundi stórum ýta undir smíði þilfarsbáta innanlands, og einnig önnur svið atvinnulífsins, sem að vísu færi eftir því, hve víðtækur nýiðnaðurinn væri, því það er staðreynd, að því meiri fullkomnun sem járniðnaðurinn í landinu nær, því meiri möguleikar eru til fjölbreytni og aukningar annars iðnaðar, þar eð járniðnaðurinn er undirstaða annars atvinnulífs.

Að síðustu lætur stjórnin þess getið, að hún sér ekki ástæðu til að hafa þetta álit sitt víðtækara að þessu sinni.

Stjórn Félags járniðnaðarmanna.

Til formanns meiri hl. fjhn.

Mér finnst það alveg greinilegt af þessari samþykkt járniðnaðarmannafélagsins, að þeir skilja, að hér er ekki um atvinnumissi að ræða heldur þvert á móti atvinnuaukningu. Það er lagt til í frv., að aðbúnaður í landssmiðjunni verði bættur, henni verði afhent nokkur lóð og að ríkisstj. verði heimilað að ábyrgjast lán fyrir hana. Og ennfremur, að heimilt sé að láta landssmiðjuna að öðru jöfnu inna af hendi þá smíði, sem ríkisfyrirtæki þurfa að kaupa. (JakM: Ekki eftir útboðum). Það, sem frv. gerir ráð fyrir í þessu efni, er að mínu álíti alveg eðlilegt og sjálfsagt, að gert verði, ef það getur náð þeim tilgangi að auka járniðnaðinn í landinu. Ég er fyrir mitt leyti alveg viss um, að það getur náð þeim tilgangi. En það kostar náttúrlega tíma og erfiði og mikla kunnáttu að koma þessu í kring. En ég hefi enga trú á því, að Íslendingar séu það meiri lassarónar en aðrir þjóðir, að þeir geti þetta ekki. Ég hefi séð mótorverkstæði langt uppi í landi, sem engin sérstök skilyrði virðast hafa fyrir hendi, nema þau, að þar hafa kunnáttumenn og áhugamenn drifið þau upp og getað fengið markað fyrir smíðar sínar, og þess vegna fleygir þeim fyrirtækjum áfram. Hér er nú markaðurinn fyrir hendi og einnig þörfin á atvinnunni. Einnig eru hér kunnáttumenn til þess að hrinda þessu áfram. Og tilraunir og athuganir hafa verið gerðar sameiginlega einmitt af þeim, sem mest hafa með útgerð að gera hér á þessu landi, fulltrúum fiskifélagsins og forstjórum landssmiðjunnar. Og eftir þeim tilraunum hefir verið komizt að þeirri niðurstöðu, að vel sé kleift, bæði frá teknisku og fjárhagslegu sjónarmiði, að láta landssmiðjuna annast smíði mótora. Vitanlega eru menn þeirrar skoðunar, að ekki eigi að ana út í þessa hluti, heldur prófa sig áfram, gera t. d. eina gerð véla fyrst. Enda ætti að halda því principi, að hafa gerðirnar á vélunum sem fæstar, því að það er engum til góðs, að þær séu hafðar eins margar og verið hefir hingað til.

Um álit minni hl. n. að öðru leyti eða bréf Helga Hermanns Eiríkssonar þarf ég ekki að vera ýkja fjölorður, því að hv. frsm. meiri hl. n. hefir hrakið það svo lið fyrir lið, að ekki stendur mikið af því eftir.

Höfuðástæðan, sem hv. frsm. minni hl. n. hefir fært fram á móti frv., er sú, að það sé runnið undan rifjum sósíalista og einn liður í þeirri stefnu að koma sem flestum stofnunum undir ríkið. Þetta er ekkert annað en venjuleg sósíalistagrýla, sem er aðalundirrót þeirrar andspyrnu, sem kemur fram gegn þessu frv. Og svo er reynt að finna ýmsar átyllur til þess að geta mælt á móti frv., sem ég tel léttvæg rök. Það hefir verið á það minnzt, að þetta fyrirtæki gæti orðið skaðvænlegur samkeppnisaðili fyrir fyrirtæki, sem fyrir eru hér í bænum, og að þess vegna gætu nokkrir menn orðið atvinnulausir og komizt á vonarvöl, og það hefir verið sagt, að atvinna þessara manna mundi minnka o. s. frv. En þetta er ekkert annað en falsrök. Því að þó að landssmiðjunni tækist að uppfylla sitt verksvið samkvæmt þessu frv. betur en áður, þá yrði það engan veginn til þess að vinna járniðnaðarmanna minnkaði við það. Sá versti möguleiki í þessu tilliti í augum sjálfstæðismanna er e. t. v. sá, að vinna við járniðnaðinn gæti færzt eitthvað til. En að vinnan minnki við járnsmíðar vegna endurbóta á landssmiðjunni og útfærslu á verksviði hennar, það fæ ég ekki skilið.

Okkar rök fyrir þessu frv. eru þau, að aðalstarfsemi landssmiðjunnar eigi að vera sú, að byrja á nýjum iðnaði, sem möguleikar eru til að framkvæma hér á landi. Og við það skapast náttúrlega aukin vinna, en ekki rýrnun á atvinnu.

Það stendur í þessu nál. minni hl. fjhn., að með valdboði eigi hér að þvinga einkafyrirtæki, eins og t. d. Eimskip, til þess að færa viðskipti sín frá gömlum viðskiptamönnum og til landssmiðjunnar. Þetta er algerlega rangt. Í frv. er ekki sagt annað í þessu sambandi en að ríkisstj. geti mælt fyrir um, að stofnanir, sem styrktar eru með fé úr ríkissjóði, skuli skipta við landssmiðjuna um smíði þá, er þær þurfa að láta gera innanlands, ef hún býður ekki lakari kjör að neinu leyti en aðrar samskonar smiðjur.

Þá segir í þessu nál. minni hl. n., að erfitt sé að meta vinnubrögð fyrirfram. Það er furðulegt, að nokkur verkfræðingur skuli láta sér slíka vitleysu um munn fara (þ. e. H. H. Eiríksson í bréfi sínu, sem er í nál. minni hl.). Allir vita, að þesskonar verk eru metin fyrirfram. Og útboðslýsingar er hægt að gera svo nákvæmar, að ómögulegt er að fara í kringum þær, þannig að báðir aðiljar, sá, sem selur, og sá, sem kaupir vita nákvæmlega, hvað þeir eiga að fá, svo að um þarf ekki að deila.

Þá segir ennfremur í nál., að vélar þær, sem hér eru notaðar, séu mjög mismunandi að stærð, frá 1 til 100 hestorkur. Þetta er rétt. En svo segir líka í nál. minni hl., að það megi telja víst, að smiðjan gæti ekki selt nema stærstu vélarnar fyrir kostnaðarverð. Getur hv. frsm. minni hl. upplýst, á hverju þessi fullyrðing er byggð? Mér er það ekki ljóst.

Þá er það í nál. talið hættulegt, að ríkisstj. ein tilnefni þá kunnáttumenn, sem meta eiga nýsmíði hugvitsmanna samkvæmt 2. gr., og sagt, að ráðh. hafi sjaldnast iðnræna þekkingu og séu sterkpólitískir menn, og séu því illa fallnir til að dæma um þetta. Um þetta ætla ég ekki að ræða frekar. En mér virðist þetta nál., sem hér liggur fyrir frá minni hl., vera sterkpólitískt, svo að varla geti fremur verið. Í því er gengið framhjá staðreyndum í málinu og þar er slegið fram skoðunum, sem eru alls ekki rökstuddar, eingöngu af þjónustu við þessa sterkpólitísku skoðun, að frv. sé runnið undan rifjum sósíalista og geti þess vegna aldrei orðið nema til tjóns.

Ég vil beina einni spurningu til hv. þm. V.-Sk. Hann sagði, að hann hefði leitað álits, og fengið álit skildist mér, ekki eins manns, heldur margra manna, sem þetta mál snertir eitthvað, og að það væri alveg einróma álit þeirra, að þetta frv. væri ómögulegt og ófært. M. ö. o., að þeirra álit hefði verið alveg samhljóða áliti Helga Hermanns Eiríkssonar. Ég vildi nú gjarnan fá að heyra, hvernig þetta álit hljóðar, því að nú hefir verið lesið upp álit járniðnaðarmannafélagsins og álit fiskiþingsins um þetta mál. Og ég tel, að það séu aðiljar, sem taka megi mark á í þessu sambandi. En það væri ekki óviðeigandi, að láta álit þessara manna, sem hv. þm. V.Sk. var að tala um, einnig koma fram.

Því verður ekki neitað, að járniðnaðarmenn eiga mest undir þessu frv. (PHalld: Þeir vilja komast á ríkissjóðinn). Þeir vilja fyrst og fremst fá atvinnu. Og með þessu móti fá þeir atvinnu, sem þeir mundu ekki fá að öðrum kosti. Ég væri vel til með að stuðla að því, að einkafyrirtæki framkvæmdu þetta, ef ég hefði vissu fyrir því, að þau þá gerðu það. En ennþá hefir ekki verið bent á einn einasta möguleika til þess, að þau gangi inn á þá braut.

Hv. 1. þm. Rang. sagði, að einkafyrirtæki sæktu eftir beztu mönnum til sinna iðngreina. Það er sjálfsagt rétt, að það gera allir. En ég hefi aldrei heyrt annars getið en að landssmiðjan hafi hinum beztu kunnáttumönnum á að skipa. Ég hefi ekki heyrt þess getið, að þangað söfnuðust þeir, sem út undan hefðu orðið annarsstaðar. Mér hefir virzt, að þeir smiðir, sem þar eru að verki, séu sízt lakari til sinna starfa heldur en þeir, sem vinna hjá einkafyrirtækjum. En ef einhverjar skýrslur liggja fyrir um, að svo sé ekki, þá er rétt að láta þær koma fram.

Þá sagði þessi hv. þm., að þetta gæti gengið eins og það hefði gengið, þessu máli lægi ekkert á. En mér virðist þessu máli liggja á, því að aðbúð landssmiðjunnar er nú svo slæm, að slíkt er fyrir neðan allar hellur. Ég hefi lýst því áður, og skal ekki að þessu sinni fara frekar út í það. Þeir menn, sem að þessu fyrirtæki standa, hafa sýnt, að landssmiðjan getur unnið vel. Og hún gæti unnið ennþá betur, ef hún hefði betri aðbúð, og þess vegna finnst mér alveg sjálfsagt að láta hana fá þessa betri aðbúð. — Einnig sagði hv. þm V.-Sk., að nýiðnaður þessi væri gálaust verk og runnið undan rifjum sósíalista, að nýsmíðið væri langvarhugaverðasta atriði þessa frv. og að ekki væri hægt að ætlast til, að neinn gæti unnið hér á landi það, sem frv. færi fram á, og allra sízt, ef ríkið ætti að skipta sér af því. Þetta er sama vantrúin, sem skotið hefir oft upp höfðinu, á því, að Íslendingar geti gert þessa hluti eins vel og útlendingar. Ég veit ekki, hvaðan þessi vantrú er sprottin, en mér finnst hún afaróviðfelldin. Ég veit ekki neinar ástæður til að ímynda sér svona fyrirfram, að Íslendingar séu nokkuð verr til þess fallnir að vinna þessi verk heldur en aðrir. En ég veit, að Íslendingar sumir hverjir hafa síðustu árin aflað sér mikillar kunnáttu í þessum efnum. Og ég álít rétt að láta þá sýna, hvað þeir geta, einmitt nú á þessum erfiðu tímum.

Þessi sami hv. þm. sagði líka, að það væri undarlegt og varhugavert að koma fram með svona frv. á þessum tímum, og taldi goðgá að kalla þetta bjargráð. Röksemdir hans fyrir því voru þær, að með þessu væri hrúgað inn í landið vélum, sem kostuðu mikla peninga, en þyrfti ekki með og afköst yrðu engin. En nú hefir verið sýnt fram á það með rökum, að vélainnkaup í þessu sambandi eru hverfandi lítill kostnaðarliður samanborið við það, sem hægt er að gera með þeim vélum. Það, sem því sparast af erlendum gjaldeyri með því að smíða mótorvélar og annað þ. h. í landssmiðjunni, eins og frv. gerir ráð fyrir, yrði svo miklu, miklu meira heldur en sem vélakaupunum til landssmiðjunnar mundi nema, að það yrði ekkert sambærilegt. Þess vegna er það, að einmitt í þessum valútuvandræðum, sem nú eru hér, á að fara að reyna það, sem sparað getur gjaldeyrinn, en sem menn annars mundu ekki reyna, ef allt gengi vel í atvinnulífi þjóðarinnar. Þegar menn ganga auðum höndum og atvinnulausir, er rétt og sjálfsagt að gera tilraunir til að bæta úr atvinnuleysinu m. a. með því, sem frv. gerir ráð fyrir. Og mér finnst líka alveg sjálfsagt, að ríkisvaldið hjálpi til við þær tilraunir.