11.03.1936
Neðri deild: 21. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í B-deild Alþingistíðinda. (1817)

32. mál, landssmiðja

*Frsm. minni hl. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti! Það hefir í raun og veru ekkert nýtt komið fram frá meiri hl. n. í þessu máli. Og get ég sparað mér að eiga orðastað við hv. frsm. meiri hl. n., sem hefir tilkynnt mér, að hann yrði að fara af fundi. Mun ég meir víkja máli mínu til hv. þm. Hafnf., sem er nú einskonar fulltrúi flokks og manns að þessu sinni.

Hv. l. þm. Rang. hefir nú gersamlega hrakið allt, sem átti að vera meginmál hv. frsm., sem sé, að liðsauki hafi nú komið forsvarsmönnum frv. frá fiskiþinginu. Að vísu geta menn deilt um það, hversu heppileg þessi ályktun fiskiþingsins muni vera í hinu og þessu. En eftir ummælum hv. 1. þm. Rang. orkar ekki tvímælis, hvernig þessu áliti er farið. Enda var síður en svo, að um meðmæli með frv. væri að ræða. Nm. virðast hafa verið að reyna að leysa þá gátu, hvernig þeir ættu að lýsa yfir andstöðu sinni við frv. með sem vægustum orðum. Ályktunin ber fyllilega með sér, að þeir eru á móti frv., en vilja ekki kveða niður þann anga af sæmilegum tilgangi, sem kann að liggja á bak við það. Þeir leggja greinlega á móti því, sem er aðalatriði frv. Það hefir verið ítrekað, ekki sízt af hv. þm. Hafnf., að meiningin væri, að hér yrði um fullkomið nýsmíði mótora að ræða. Ég lýsti að vísu í fyrri ræðu minni, hvernig væri háttað í þeim efnum og við hverjum útlátum ríkið mætti búast, ef þetta væri ekki aðeins flagg, sem hv. flm. vilja hampa framan í fólkið, að nú eigi að fara að auka atvinnuna með því að smíða innanlands þær vélar, sem mest þörf er á, og enda þótt efnið sé aðflutt, sparist svo og svo miklar greiðslur út úr landinu fyrir vinnu á þennan hátt. Fiskifélagsnefndin leggur til, að ekki sé farið út á þessa braut, en stingur jafnframt upp á, svo sem til þess að segja eitthvað, hvort ekki mætti athuga að hálfvinna eitthvað af mótorum hér, fá frá smiðjum ytra eitthvað af hlutum í þá, sem léttara er að vinna þar en hér, o. s. frv., allt í þeim dúr, er styður það, sem hv. 1. þm. Rang. sagði, að hér væru ekki fróðir menn að gera ályktun.

Eins og ég hefi sýnt fram á, er ekkert útlit fyrir, að þessi starfssemi gæti orðið nema sem tilraunir fyrst um sinn. Ég neita því ekki, að slíkar tilraunir mætti gera, en það er allt annað heldur en að útiloka um leið alla aðra. Málið er þannig vaxið, að það er ekkert í veginum, að landssmiðjan geti gert þessar tilraunir nú, ef hún treystir sér til þess. Ég vil spyrja hv. þm. Hafnf., hvaða hömlur eru á því. Þetta frv. breytir engu í því efni, nema með þessu almenna ákvæði að útiloka alla aðra. Það má vera, að slíkar tilraunir þyrfti að styðja með styrk úr ríkissjóði, en það kemur ekki þessu frv. við frekar en verkast vill. Það kostar bara fé, og eins og fiskiþingsnefndin bendir á, er ekkert bundið við, að það væri lands5miðjan, sem fengi slíkan styrk. Það er alveg rétt hjá nm., enda eru þeir þeir komnir inn á svið, sem þeir geta dæmt um. Það sér hver leikmaður, að ef gera á tilraun á þessu sviði, getur þurft að styrkja hana, en slíkan styrk getur ríkið með eins góðum árangri og e. t. v. betri veitt einkafyrirtæki, sem aflað hefir sér reynslu og þekkingar í þessari grein og hefir beztum kröftum á að skipa.

Nú er því ekki heldur til að dreifa, þó hér sé verið að flagga með hugvitsmönnum, að Alþingi geti búizt við, að þeir séu á hverju strái og ekki þurfi annað en koma upp landssmiðju, til þess að þeir geti skarað fram úr því, sem gerist annarsstaðar. Þó hér sé margt góðra manna, þá er ekki ástæða til að ætla, að það spretti upp úr grjótinu menn, sem í einu vetfangi fara fram úr því, sem gert er annarsstaðar á þessu sviði, þar sem miklu lengra er komið í þekkingu og reynslu.

Höfuðvígi hv. meðmælenda frv. er þá fallið. Fiskiþingið hefir ekki blandað sér í þetta mál á þann hátt, að þeir geti tekið sér það til inntekta. Allt, sem nm. segja og getu sagt, er á móti frv. Þess er og að vænta, að svona ályktanir, þegar frá er tekið orðalagið, þetta sem sagt er til þess að þurfa ekki að styggja neinn, séu að meiningu til réttar og góðar.

Hv. þm. Ak. sýndi ljóslega fram á, að það, sem hv. þm. Hafnf. taldi einu af aðalundirstöðum þessa frv., á enga rót í virkileikunum á þá lund sem hv. þm. vildi vera láta. Hann sagði, að með þessu frv. ætti að skapa landssmiðjunni þá festu, sem hún ekki hefði haft, en þyrfti að hafa. En landssmiðjan gæti sannarlega haft þessa festu, ef hún hefir þessum framúrskarandi mönnum á að skipa og kappkostar eins og einkafyrirtækin að vinna verkin svo, að menn geti verið ánægðir með þau. En það er eitt, sem mótmælir því, að svo sé virkilega. Landssmiðjan hefir, eins og er, ýms hlunnindi fram yfir einkafyrirtækin, en samt getur hún ekki verið eins ódýr eins og þau. Ég get nefnt sem dæmi tvö verk, sem það opinbera þurfti að láta framkvæma og boðin voru út. Í öðru tilfellinu var tilboð landssmiðjunnar 7000 kr. hærra heldur en tilboð hliðstæðs einkafyrirtækis. En ráðh. úrskurðaði, að hvað sem þessu liði, þá skyldi landssmiðjan fá verkið, með öðrum orðum, útboðið var bara loddaraleikur. En samkv. frv. þarf ekki einu sinni að bjóða slík verk út til málamynda. Ég býst við, að fyrir ráðh. hafi vakað að hlynna að landssmiðjunni með þessu, af því hún er ríkisfyrirtæki, enda er það stefna sósíalista að koma öllum stofnunum á ríkið og hlynna svo að þeim á kostnað hins opinbera, en sú stefna er óneitanlega nokkuð hörð í framkvæmdinni.

Í hinu tilfellinu munaði um 11 þús. kr. á tilboðunum. Að vísu var þessi hroðalegi munur notaður til að skrúfa nokkuð niður tilboð landssmiðjunnar, en hún fékk verkið. Þetta voru verk, sem vinna átti fyrir síldarverksmiðjurnar á Siglufirði, og þetta mun orðið alkunnugt mál. Þessi dæmi sýna, hvernig gengur undir núverandi kringumstæðum, sem eru þannig, að allir mega bjóða í verkin. Það er ekki hægt að segja, að einkafyrirtækin séu útilokuð frá að koma til greina. En svona er farið að af þeim, sem ráða. Hvernig skyldi þá verða farið að, ef slík ákvæði yrðu samþ., sem hér liggja fyrir?

Þegar hv. þm. Hafnf. var að lesa hér upp úr álitinu, sem hann hafði fengið frá félagi járniðnaðarmanna, spurði ég í gamni, hvort það félag væri í Alþýðusambandinu. Hann leit upp stórum augum: Hvað kom það málinu við? Það skipti nú reyndar ekki máli að öðru leyti en því, að þetta mun ekki vera félag, sem fjallar um járniðnaðarmálin frá teknisku sjónarmiði, heldur er það bara atvinnufélag, eins og félögin í Alþýðusambandinu yfirleitt. Þetta eru ekki fræðimenn, sem þarna standa saman, heldur er það atvinnuspursmálið, sem félagið hefir með höndum. Þetta eru verkamenn, og ekki hægt að áfellast þá, þó þeir vilji fá sér aukna atvinnu, en að því miðar frv. að dómi hv. þm. Hafnf. Einkum þegar sú atvinna er á vegum ríkisins, því þá sitja þeir fyrir, sem eru í Alþýðusambandinu, og það er ekki margt að því að fá embætti hjá ríkinu. Ég get ekki séð, að þetta félag sé sérstaklega dómbært um þetta mál, sem ekki er ólíklegt, að sé að einhverju leyti runnið undan rifjum þeirra, sem ekki telja sig nógu fasta í þessum landssmiðjuembættum. Sýnast þeir þó hafa verið nógu fastir, sem þar hafa eitthvað starfað að undanförnu, enda mun þessi ríkisstofnun ekki standa öðrum að baki í því að sópa að sér mönnum, sem engir hafa fyrr uppgötvað, að hefðu neitt sérstakt til að bera, en sem komizt hafa í hæstu laun, af því þeir hafa verið hollir flokki sínum. Það er líka varhugavert atriði að stofna með löggjöf ríkisstofnanir beinlínis til þess að æra menn út í að varpa frá sér annari atvinnu eða láta sér fátt um hana finnast í þeirri von, að allir geti komizt á hið opinbera. Það er kunnugt, að þegar einkafyrirtækin falla um koll eða verða að færa saman kvíarnar, þá þykir gott og eftirsótt að flýja á náðir hins opinbera í eina allsherjarkös og reyna að fleyta þar fram lífinu. En það mál hefir tvær hliðar. Frá sjónarmiði pólitískrar siðfræði er það ekki af því góða að stofna ný ríkisfyrirtæki í þessu skyni. Ég vil ekki væna hv. þm. Hafnf. um, að þetta sé aðalatriðið fyrir honum, en vitanlega vill hann taka tillit til þess, ef hægt er að tryggja þessa menn, því það er nú einusinni þeirra sósíalistanna fagri siður að þykjast vera að tryggja alla menn.

Ég held, að landssmiðjan geti gert eins og er það, sem hv. þm. Hafnf. nú telur aðalatriði þessa máls. Hún getur haldið áfram smíði á þeim hlutum fyrir ríkisfyrirtæki og aðra, sem hún í frjálsri samkeppni getur náð í með þeim hlunnindum, sem hún þegar hefir og gera leikinn strax ójafnan. Og hún getur líka með sérstökum styrk, ef það er ekki öðrum stofnunum falið, gert tilraunir með nýsmíði, þar á meðal véla og vélarhluta. Getur maður þá séð, hvort ekki vantar þarna það hugvit eða þá verklagni, sem með þarf.