12.03.1936
Neðri deild: 22. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1270 í B-deild Alþingistíðinda. (1819)

32. mál, landssmiðja

*Jakob Möller:

Hv. þm. Hafnf. hélt því fram hér við umr., að ekki gæti verið nein spurning samkv. 2. gr. frv. um afstöðu landssmiðjunnar til vinnu fyrir það opinbera, að því aðeins eigi hún að fá vinnuna, að hún bjóði eins lágt eða helzt lægra en aðrir í að vinna verkið.

En þetta er einmitt höfuðatriðið, sem um er deilt. Í fyrra kröfðumst við sjálfstæðismenn þess, að þetta væri skýrt og ákveðið tekið fram í frv., og skilyrðislaust reynt með útboðum, svo að landssmiðjan yrði að sýna, að hún væri samkeppnisfær. Enda liggur það í augum uppi, að sé þetta meiningin hjá hv. þm. Hafnf., þá er sjálfsagt að setja það inn í frv., og vænti ég, að það verði gert við 3. umr. verði ekki aðrir til þess, mun ég flytja um það brtt. og vænti, að hv. þm. Hafnf. greiði þá atkv. með þeirri till. Þarf sú till. að fela það í sér, að sannað verði með útboði, að landssmiðjan fái ekki verkið fyrir hærra verð en aðrir bjóða. Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið á þessu stigi, en geri ráð fyrir, að hv. þm. Hafnf. standi við orð sín um þetta atriði.