12.03.1936
Neðri deild: 22. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1274 í B-deild Alþingistíðinda. (1822)

32. mál, landssmiðja

*Frsm. minni hl. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti. Það fer að verða óþarft og að bera í bakkafullan lækinn að ræða meira á þessu stigi málsins, nema því aðeins, að eitthvert lát fengist á því, sem við minnihlutaþingflokkar höfum gengið út frá, að ekki fengist, og að meiri hl. gangi nú til nýrrar samvinnu um að breyta stórkostlega þessu frv., því við umr. hefir það berlega komið í ljós, að gallar frv. eru svo miklir, að ekki tekur tali að lögleiða það, nema vitandi vits um, að ýms ákvæði í því eru ekki eingöngu óþörf, eins og komizt er að orði í nál., heldur líka beinlínis skaðleg. Ég skal aðeins með fáum orðum benda á sumt af því, sem komið hefir fram í umr. bæði af minni hálfu og annara og ekki hefir tekizt að hrekja.

Í fyrsta lagi, að nýrri og eldri einkafyrirtæki, sem hér eru fyrir í þessari grein (og má segja, að þau nýrri séu framhald af þeim, sem fyrir voru, það er að segja með endurnýjun á vélum), hafa bæði tæki og mannafla til þess að smíða allt það, sem þetta frv. greinir, að landssmiðjunni sé ætlað að smíða, að einu undanteknu, sem mjög er deilt um og flestir komast að við athugun, að lítið sé upp úr að leggja, eins og ætlazt er til, að landssmiðjan hafi það með höndum — sem sé að smíða mótora í báta. En þess er að geta, snertandi þessa mótora, að þótt þeir séu ekki smíðaðir hér, og það verði ekki af landssmiðjunni gert fyrst um sinn, þá eru smíðaðar ýmsar smærri vélar, sem til nota koma, og eru smíðaðar óaðfinnanlega að dómi þeirra, sem reynt hafa.

Í öðru lagi er það upplýst og stendur fast, að landssmiðjan, eins og hún upphaflega var, varð til fyrir atbeina vegamálastjórnar, til þess að smíða þar það, sem þá var ekki hægt að smíða í landinu og heyrði sérstaklega til brúargerðar. Þá var engin vélsmiðja hér, þegar þetta var gert, en nú eru komnar fleiri vélsmiðjur, sem eru svo fullkomnar, að þær geta tekið þetta að sér, vitanlega í frjálsri samkeppni, svo þess vegna þarf ekki að halda uppi þeirri landssmiðju, sem nú er. Hitt er líka ljóst, að landssmiðjan, eins og hún starfar, og sérstaklega, ef lögfest er það, sem í frv. er, hlýtur að draga vinnukraftinn frá þeim einkafyrirtækjum, sem fyrir eru. Þess vegna er það ekki fjarstætt, sem svo hefir verið orðað, að þessi tilraun með frv. væri árás á fyrirtæki þau, sem fyrir væru í landinu, og um leið, fjárhagslega séð, árás á gjaldþegna landsins, bæði að því er snertir ríki og bæi.

Í fjórða lagi er það upplýst og stendur óhrakið, að ef landssmiðjan yrði einokuð um þessi verk, þá hlyti það að valda mikilli verðhækkun á öllu smíði, og sérstaklega fyrir ríkið, því þess er að gæta, að aðalverkefni landssmiðjunnar hlýtur að verða verk fyrir ríkið, því ríkisstofnun með þeim hætti, sem nú er og verða kann, verður látin gera þau stórfelldustu verk, sem nú eru gerð hér á landi í þessari grein, og þetta kemur til af því, að ef þessi verk verða einokuð hjá landssmiðjunni, þá er ekki við neitt að keppa. Það má nærri geta — þótt hv. þm. Hafnf. vildi láta það skína í gegn, að þetta væri gert til þess, að verkið yrði ódýrara hvernig fer, þegar útilokuð er öll samkeppni, þegar, eins og upplýst er og vottað, svo er, þótt samkeppni sé lofað, að tekið er tilboði landssmiðjunnar, þótt það sé mörgum þúsundum króna hærra en annað tilboð. Ég nefndi hér tvö tilfelli, þar sem svo var ástatt, um viðbótarbyggingu fyrir síldarverksmiðju á Siglufirði, að annað tilboð landssmiðjunnar var 7 þúsund krónum, en hitt 11 þúsund krónum hærra en annað fáanlegt tilboð. Það var ekki um það að ræða, að hinn tilbjóðandinn væri ekki fullfær um með sínum tækjum að vinna verkið. Hér átti þessi stofnun hlut að máli, og var ekki haldið þeirri höfuðreglu, sem er um útboð, að fara eftir lægsta tilboði, heldur var úrskurðað, að því hærra skyldi tekið. Þessi spor hræða. Og vitanlega verður það svo, að ef lögfest verður það frv., sem hér er á ferðinni, þá er samkeppnin útilokuð í þessari grein, og þá eru engin takmörk fyrir því, hversu háttað verður verðlagi fyrir þau verk, sem þessi stofnun verður látin inna af höndum, því hið pólitíska vald yrði þá einrátt og skeytti engu öðru. Þá er nokkur hvöt til þess að láta kostnaðinn berast uppi af verðinu og þar af leiðandi að þurfa ekki að koma fram fyrir stjórn og þing með ævarandi árlegan halla, hvöt sem þá yrði í algleymingi, þegar dæmin sýna, hvernig með svokallaða frjálsa samkeppni er farið. Þá verður hvötin í algleymingi með það að halda uppi verðinu, til þess að verkið teljist borga sig, því allur tilkostnaður við verkið verður raunverulega óútreiknanlegur, — hann verður alltaf hár og hærri en hjá einkafyrirtækjum, að fenginni reynslu. Það er sem sé augljóst, enda fram tekið í meðmælum um þetta frv. í grg., að reynslan af landssmiðjunni hingað til er sú, að hún getur ekki keppt við einkafyrirtæki, og það eru einkennileg meðmæli með stofnun fyrirtækis, að það er ekki samkeppnisfært, og þá á að gera það að einkafyrirtæki fyrir ríkið, — að einoka það.

Í sjötta lagi er ljóst, og ekki hrakið, að landssmiðjan, eins og til hennar er stofnað, hlýtur að verða kostnaðarauki fyrir ríkið. Það opinbera þarf með þessu að leggja fram stórfé til bygginga og vélakaupa, að ég ekki tali um það nýsmíði, sem hv. þm. Hafnf. leggur mest upp úr, og tilraunir með verk, sem ef til vill verða eingöngu til kostnaðar, fyrir utan það, að engar líkur eru til að halda uppi landssmiðju með þessu. Miklu réttara væri að gera tilraunir einhversstaðar annarsstaðar með nýsmíði, ef ástæður leyfðu, en með þessu hlýtur að verða mikill kostnaðarauki. Hitt er líka víst, að svo miklu leyti sem landssmiðjan tekur að sér að vinna fyrir einstaklinga og önnur einkafyrirtæki, þegar þau ekki eru til þess lengur, þá bætist við sú almenna viðskiptahætta, sem vitanlega vélsmiðjur eins og öll önnur fyrirtæki eiga við að búa, — áhætta af viðskiptum og ástandi á hverjum tíma. Sú áhætta er engu minni hjá opinberu fyrirtæki, en það er áhætta, sem ber að reikna með, því sögur segja, að hjá slíkum verksmiðjum fari mikið forgörðum, sem ekki næst inn og verður að afskrifa. Það er enn í viðbót við það, sem ríkið ætti á hættu, ef það tæki hana sem einokunarfyrirtæki á sína arma.

Ég skal þá benda á það beina, sem ætlazt er til, að ríkið leggi fram og mundi gera það að verkum, að þótt landssmiðjan væri ekki einokuð í sjálfu sér, þá mundi hún standa miklu betur að vígi en nokkurt annað fyrirtæki í landinu. Í fyrsta lagi á að afhenda landssmiðjunni lóð: ekkert annað fyrirtæki á kost á slíku. Í öðru lagi á að ábyrgjast handa henni lán, allt að 400 þúsundum króna, sem að vissu leyti er sama sem veiting, enda ekki hægt að endurborga lán nema með tekjuafgangi. Í þriðja lagi er gengið út frá því, að fé verði lagt í fjárlögum til styrktar landssmiðjunni. Ekkert fyrirtæki á kost á þessu, enda væri það óeðlilegt. Í fjórða lagi á landssmiðjan að vera útsvarsfrjáls að öðru leyti en þessu, að nú á að borga, eins og af öðrum ríkisstofnunum, 5%. En þetta eru hlunnindi, sem taka yfir allt, sem allir aðrir geta átt kost á. Og loks í fimmta lagi, ef frv. yrði að lögum, þá er þessi allsherjarstyrkur, sem felst í 2. gr., 1. málsgr. 2. málsl., að ríkisstj. geti einokað það, að allar stofnanir, ríkisstofnanir fyrst og fremst, og allar stofnanir, sem fá nokkurn styrk úr ríkissjóði, skuli skipta við landssmiðjuna, en er, eins og ég sagði í gær, svo lævíslega orðað, en enginn efi um, hvernig farið verður með þetta, að sú ríkisstj., sem nú situr, mundi gera þetta, þótt bætt sé við, „að sambærilegum vinnubrögðum og kostnaði“, eftir því dæmi, sem ég tók, að þótt það munaði mörgum þúsundum króna, þá er landssmiðjan úrskurðuð sú, sem verkið eigi að taka. — Það er þá svo komið, að þessir kostir, sem áttu að fylgja þessu frv., eru orðnir að stórvægilegum ágöllum. Það er ekkert uppistandandi af því nú, sem talið var til kost, frv., og það stendur fast, sem við leyfðum okkur að taka fram í nál. minni hl., að sumpart er frv. óþarft og sumpart beinlínis skaðlegt.

Niðurstaðan verður þá þessi, að með því að lögleiða þetta frv. muni koma á daginn, að ríkinu út af fyrir sig með sínar stofnanir aðrar verður gert erfiðara fyrir. Það á erfiðara með smíði á því, sem þarf, af því að það er gefið, að það verður dýrara. Í öðru lagi er verið að skapa ríkissjóði óþarfa áhættu í rekstri, og hún er óútreiknanleg. Í þriðja lagi er bert, að slíkt ríkisfyrirtæki einokað mundi verka til skaða fyrir þau fyrirtæki, sem fyrir eru í þessari grein. Þá sjá væntanlega hv. þm., að þetta spor getur ekki orðið neitt heillaspor. Og þetta hefir alls ekki verið hrakið, heldur hafa allar umr. sannað, að svo er, sem ég nú hefi mælt.

Ég skal geta þess, eins og ég tók fram í gær, að það er ekkert við því að segja, ef ráðamönnum járnsmiðjanna kæmi saman um að gera tilraun með einhverja nýsmíði, við skulum segja mótorsmíði í vélbáta, sem erfitt er að taka upp nema með ærnum kostnaði. En í fyrsta lagi er því aðeins ekkert við það að athuga, að það sé falið þeim mönnum, sem beztir eru í það hlutverk, og án þess að nota það sem gyllta veifu yfir framkvæmd þessa máls.

Þá skal ég aðeins taka þetta fram út af því, sem hv. þm. Hafnf. gat um í sinni ræðu, þar sem hann bar saman þá verkfræðinga, sem minni hl. n. vitnar til, og þann félagsskap, sem hann bar fram álít frá. Ég tel í raun og veru, að það sé ekki neitt um það að ræða. Ég fór ekki neinum hörðum eða lítilsvirðandi orðum um þann félagsskap, félag járniðnaðarmanna í Rvík, en ég sagði það, að það félag er faglegt eða tekniskt félag í þessu efni. Tilgangur þess er, eins og hvers annars verklýðsfélags, atvinnutrygging, og hefir það eitt með höndum að annast hag verkamanna í iðninni í atvinnuskyni, og þessu hefir heldur ekki verið mótmælt. Og þótt ég hafi heyrt sagt, að þetta félag sé svo kommúnistískt, að Alþýðusambandið á sínum tíma hafi vart séð sér fært að taka það í sambandið, þá er það ekkert verra fyrir það, ef það stundar sína vinnu í rétta átt. En þetta sýnir ekki, að hér sé um að ræða félagsskap, sem eigi að láta í ljós skoðun sína á vélagerð og framgang þessarar stofnunar, en það nær einhverri átt, að trúnaðarmaður iðnaðarmanna og menntaður maður í ýmsum greinum er látinn gefa álit um málið, þótt hv. þm. Hafnf. vefengi það. Ég get þá alveg eins vefengt vizku hv. þm. Hafnf. í þessu efni, sem þó er verkfræðingur. Ég veit ekki til, að hann sé járnsmíður. Hann getur kannske rekið nagla í hóf, þótt hann kannske sé ekki svo hófsamur að vera í skeifunni.

Ég vil svo að lokum geta um eitt atriði enn. Hér fyrir fáum árum var sett upp trésmíðadeild við landssmiðjuna, en svo þótti ekki fært af þeim ráðamönnum, sem voru í stjórn landssmiðjunnar, að halda henni áfram, og þessi stjórn lagði einróma til, að sú deild yrði lögð niður, vegna þess að hún væri að engu leyti samkeppnisfær við aðrar trésmiðjur og bæri sig ekki og mundi ekki bera sig.

Nú mundu hv. þm. andstöðuflokkanna svara því, eins og hv. frsm. meiri hl., hv. 1. landsk., gat um í gær, að þessir menn í stjórn landssmiðjunnar hefðu verið andstöðumenn hennar og kannske íhaldsmenn. En þessir tillögumenn að þessari einróma till. voru ekki slakari menn en Hermann Jónasson, sem nú er forsrh., og Pálmi Loftsson, sem er trúnaðarmaður ríkisstofnana hér. Þessir menn álitu þá, að þetta gæti ekki gengið. Þá voru þeir það vitibornir — og eru það kannske enn, — og ekki á valdi sósíalista, en það er þeirra, sósíalista, skoðun á málefninu, sem kemur fram.

Ég geri ráð fyrir, að þessi óhæfa trésmíðadeild, sem dæmd var fyrir nokkrum árum, sé nú aftur endurreist, því það er raunverulega í samræmi við allan gang málsins.