12.03.1936
Neðri deild: 22. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1277 í B-deild Alþingistíðinda. (1823)

32. mál, landssmiðja

Guðbrandur Ísberg:

Það hefir verið vakið máls á því af 1 eða 2 ræðumönnum að ganga til samninga um þetta frv., ef á því fengist nokkur breyt. til bóta. Ég vil taka það fram strax fyrir mitt leyti, að ég get ekki tekið undir það. Ég álít, að hér sé um svo mikilvægt stefnumál að ræða, að það komi ekki til mála nokkrir samningar um slíkt. Það er eins og allir vita yfirlýst stefna jafnaðarmanna að taka sem mest af atvinnurekstri þjóðarinnar undir ríkið. Þetta nær til allra atvinnuvega þjóðarinnar, og er því ekki úr vegi í þessu sambandi að athuga, hvernig þessi flokkur, jafnaðarmenn, hefir búið að atvinnuvegum þjóðarinnar. Við vitum það, að eftir síðustu aldamót reis hér upp fyrir atbeina og dugnað nokkurra útgerðarmanna allblómleg útgerð, sem þróaðist um langt skeið, og hér myndaðist álitlegur vísir til fjársöfnunar, sem hagfræðingar allra þjóða mundu telja fulla þörf og nauðsyn á. En hvernig hefir svo afstaða sósíalista verið til þessa atvinnuvegar? Þeir hafa frá byrjun, í stað þess að styrkja hann, nítt hann á alla vegu og íþyngt honum með sköttum, þar til nú, að svo er komið, að þessi atvinnuvegur er að hrynja í rústir. Yfir lík hans ætla þeir svo að ná valdi yfir þessum þætti athafnalífs þjóðarinnar og koma á ríkisrekstri á því sviði. Þetta er um það svið atvinnulífsins.

Næst getum við athugað landbúnaðinn. Við vitum það, að fyrir nokkrum árum var sendur maður úr þeirra herbúðum til þess að ginna bændur til fylgis við jafnaðarstefnuna. Þetta tókst svo, að nú mun allmikill hluti bænda vera reiðubúinn til að láta Jafnaðarmannaflokkinn gleypa sig með húð og hári, ef hann kærir sig um það. Samtímis þessu hafa svo jafnaðarmenn alltaf haldið fast fram þeim kröfum sínum, að allar jarðir ætti að taka af bændum og gera þær að ríkiseignum, og gera bændur þann veg að einskonar ríkisleiguliðum eða ríkisþrælum. Þannig er að landbúnaðinum farið.

Þá er næst að minnast á verzlunina. Það er sama sagan. Verzlunarstéttin er ung, og fyrst meðan henni var að vaxa fiskur um hrygg, þurfti hún stuðnings með, en ekki fjandskapar og andúðar, en í þess stað hefir hún frá byrjun verið hundeit af sósíalistum með þeim árangri, að nú er frjáls verzlun að leggjast í rústir að framkvæmd stefnu sósíalista með því að fjölga æ meir og meir einkasölum, sem sagt að taka verzlunina úr höndum einstaklinganna og færa hana í hendur ríkisins.

Hvað er þá eftir af atvinnuvegum þjóðarinnar? Það er iðnaðurinn, sem er tiltölulega ungur og má segja að sé ekki nema fárra ára gamall, svo að nokkru nemi. En iðnaður hefir á undanförnum árum blómgazt hér furðu hratt fyrir dugnað og atorku iðnaðarmannastéttarinnar. En nú á líka að fara að ráðast á þessa stétt. Á nú að byrja með því að gera landssmiðjuna, sem upphaflega var ekki annað en járnsmiðja vegamálastjóra, að miklu ríkisfyrirtæki, sem gleypa á járniðnaðinn í höfuðstað landsins. Það er látið í veðri vaka, að þetta eigi að skapa einhverja festu í þessum iðnaði, en ég hefi þegar bent á, að þess er ekki þörf. Þetta sjá líka hv. flm., því að þeir segja, að smiðjan eigi líka að hafa það hlutverk að stofna til ýmiskonar nýsmíði. En þetta er ekki annað en blekking. Ef þeir treysta ekki okkar duglegu iðnaðarmannastétt til að hafa þetta með höndum, þá mætti ná þessu marki, að ýta undir nýsmíði véla o. fl., með því að veita nokkurn ríkisstyrk til þeirra hluta. En þetta er sem sagt blekkingin ein. Hér er byrjað á járniðnaðinum, en það er heldur ekki nema byrjunin. Næst kæmi svo t. d. húsgagnaiðnaðurinn, efnagerðin o. s. frv.

Sú mynd, sem við höfum fyrir okkur, er þessi: Iðnaðarmannastéttin hefir sýnt af sér mikinn dugnað og atorku. Á þessa stétt á nú að ráðast með harðneskju og knýja hana til að gefast upp. Áhugi og þekking eiga ekki lengur að fá að vera driffjaðrir þessarar iðngreinar, í stað áhuga- og kunnáttumannanna eiga að koma pólitískt litaðir miðlungsmenn, sem vantar atvinnu, e. t. v. vegna þess að einkafyrirtækið getur ekki notað þá vegna áhuga- og kunnáttuleysis. Þetta er sú mynd, sem ég hefi fyrir augum, þegar ég horfi á þetta frv. Nú er svo komið, að enginn vill vera útgerðarmaður hér á landi og enginn treystist til að hefja verzlun, af því að búið er að leggja allt í rústir, og áður en langt um líður mun enginn vilja byrja á iðnrekstri á eigin spýtur.

Þó er eitt sorglegast af öllu. Hv. þm. Hafnf., sem ég veit ekki betur en að iðnaðarmenn hafi kosið sem varaformann félagsskapar síns, gengur í þessu fram fyrir skjöldu. Verð ég að segja, að það er hart til þess að vita, að hann, sem kosinn var til að gæta hagsmuna iðnaðarmanna, skuli nú koma fram eins og flugumaður til að eyðileggja hagsmuni þeirra.