12.03.1936
Neðri deild: 22. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1280 í B-deild Alþingistíðinda. (1825)

32. mál, landssmiðja

Guðbrandur Ísberg:

Hv. þm. Hafnf. skoraði ú mig að færa orðum mínum stað, að hann væri flugumaður í herbúðum iðnaðarmanna. Ég sagði nú aldrei, að hann væri flugumaður, heldur að hann kæmi fram sem flugumaður. Ef hann vill ekki viðurkenna þetta, þá er það af því, að honum er þetta ekki ljóst sjálfum, enda þótt öðrum sé það ljóst. Ég færði rök að því áðan, að það væri yfirlýst stefna sósíalista að koma öllum atvinnurekstri yfir í ríkisrekstur. Ég benti á, hvernig þessi stefna hefir verið færð út í praksis.

Að því, er iðnaðinn snertir, á nú að byrja á því að taka eina grein hans og leggja undir ríkið, svo verður tekin önnur greinin og svo koll af kolli. Hér liggur annarsvegar fyrir yfirlýst stefna flokksins, en hinsvegar viðleitni hans með þessu frv. til að taka eina grein iðnaðarins til þessarar meðferðar. Hitt getur vel verið, að iðnaðarmönnum sé það yfirleitt ekki ljóst, að stefnt sé að þessu.

Hv. þm. hélt því enn fram, að hér ætti aðeins að vera um atvinnuaukningu að ræða, hér væri aðallega stefnt að nýsmíði o. þ. h. En þetta er ekki annað en blekking. Í frv. eru ýms ákvæði, sem miða beinlínis að því að skapa landssmiðjunni betri skilyrði en fyrirtækjum einstaklinga. Er því ljóst, að landssmiðjunni er ætlað að standa í samkeppni við þau.

Mér þykir leitt, að hv. þm. skyldi hverfa úr d., því að ég ætlaði að leiða enn frekari rök að því, að ég teldi hann koma fram sem flugumann í herbúðum iðnaðarmanna.