12.03.1936
Neðri deild: 22. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1280 í B-deild Alþingistíðinda. (1826)

32. mál, landssmiðja

*Jakob Möller:

Það gleður mig, að hv. þm. Hafnf. hefir gefið fyrirheit um, að hann myndi ekki leggjast á móti breyt. á frv. í þá átt, sem ég ræddi um áðan, að skylda opinber fyrirtæki til að hafa útboð á þeirri vinnu, sem þau ætla að láta framkvæma. Hann beitir þá væntanlega áhrifum sínum í þá átt, að slíkar breyt. komist fram.

Ummæli hv. þm. um ótta manna við landssmiðjuna gáfu mér tilefni til að taka til máls. Slíkur ótti er til og ekki ástæðulaus, þar sem viss opinber fyrirtæki fá alltaf vinnu öðrum fremur og samkeppnilaust, enda þótt þau selji vinnuna dýrar en aðrir, og standa þar af leiðandi betur að vígi en önnur fyrirtæki. Geta þau því með tímanum komið einkafyrirtækjum á kné, enda þótt þau séu í rauninni alls ekki samkeppnifær. Þessi ótti er líka til í sambandi við rekstur landssmiðjunnar. Með tilliti til hans er sú krafa gerð, að allt, sem fyrirtæki þessi vinna, skuli gert samkvæmt útboðum, til þess að tryggja, að þau geti verið samkeppnifær á öllum sviðum. Nú gefst meðmælendum frv. tækifæri til að sýna, að þeir álíti í raun og veru, að þessi fyrirtæki geti verið samkeppnifær. Ef þeir greiða ekki atkv. með þessum breyt., þá er það af því, að þeir treysta þeim ekki til að standast samkeppnina.