16.03.1936
Neðri deild: 25. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1282 í B-deild Alþingistíðinda. (1833)

32. mál, landssmiðja

*Sigurður Kristjánsson:

Það er eiginlega út af þessari brtt. á þskj. 152, sem ég kvaddi mér hljóðs. Það er sjálfsagt, ef hér á að efla ríkissmiðju til samkeppni við þá menn, sem annars hafa komið upp slíkum fyrirtækjum, og má ekki minna vera en að þeim sé gefinn kostur á að halda áfram þessari atvinnu með því að láta þá fá tækifæri til að bjóða í verk. Ég er ekki í vafa um það, að þetta frv. er borið fram af ríkisstj. eða flutt fyrir hennar hönd í þeim tilgangi að koma þessum atvinnurekstri hér á landi undir ríkið. Með öðrum orðum hefja hér þetta kommúnistíska fyrirkomulag, sem með harðri hendi er verið að keyra hér yfir allar atvinnugreinar þjóðfélagsins. Ég efast ekkert um, að því mundi fylgja sá sami ágalli, sem hefir fylgt og fylgir núverandi ríkisstj. og þingmeirihluta. Það er, að það verði höfð í frammi ýmiskonar undanbrögð til þess að gera þetta ákvæði að engu. Það er kunnugt, að þar sem menn eiga að fá að njóta þeirra réttinda að fá að bjóða í hluti, sem út eru boðnir, þá eru notaðir ýmsir prettir til þess að gera betri aðstöðu fyrir einum en öðrum. Og ég ætla ekki, nema ég reyni annað, að efast um, að slíkt yrði reynt, þó að ætti að bjóða út verk fyrir landssmiðjuna og einstakra manna smiðjur. Það þarf náttúrlega ekki að fara mörgum orðum um það, að þetta, frv. er borið uppi af stefnu, sem sjálfstæðismenn ekki geta aðhyllzt. Það er sú stefna, sem setur allsstaðar fótinn fyrir athafnamenn í þjóðfélaginu. Það er, að ríkið skuli gerast meinsmaður þeirra manna, sem vilja vinna sjálfstætt sér og þjóðfélaginu til gagns. Þessu frv. fylgdi fyrra grg., sem vísað er í nú. Í þeirri grg. segir, að tilgangur frv. sé tvennskonar, fyrst og fremst að taka að sér aðgerðir fyrir ríkið og einstakling, og svo að hefja nýja smíði. Nú er svo um þann þáttinn að taka að sér aðgerðir, að hann hefir verið ræktur af öðrum og ýmsir menn eru búnir að leggja í stórvægilegan kostnað til þess að geta sinnt þessari brýnu þörf. Það þýðir ekki að vera að koma með það, að landssmiðjan hafi verið sett á stofn vegna þess, að verkfræðingur landsins sá sér ekki annað fært til þess að geta sinnt ýmiskonar viðgerðum, sem engin tæki voru til að vinna með. Síðan hefir orðið svo stórvægileg breyting í þessu efni, að ósambærilegt er. Það er enginn vafi á því, að tilgangurinn með þessu er sá, að ganga að einkafyrirtækjunum dauðum. Ef ríkið ætlar að fara að hefja nýsmíði til þess að auka iðnaðinn í landinu og bæta úr þeim atvinnuskorti, sem nú er, verður að fara að því á allt annan hátt en hér er til stofnað. Eigi að hefja hér verksmiðjuiðnað, verður að rannsaka nákvæmlega, hvað þjóðfélagið vanhagar mest um, hvaða iðnaðarvörur eru fluttar inn af þeim, sem framleiða mætti innanlands o. s. frv. En hér hefir engin rannsókn farið fram, og er eins og hér gani áfram blindir menn í algeru ráðleysi.

Svo á að fara að smíða hér mótorvélar, án þess fyrir liggi nokkur rannsókn um, hvort slík iðngrein geti orðið samkeppnisfær eða hvort nokkrar líkur væru fyrir því, að hún gæti borið sig fjárhagslega og risið undir kostnaði við byggingar og vélakaup fremur en aðrar iðngreinar. Þetta er aðeins fálm þeirra manna, sem vilja leggja alla framleiðslu einstaklinganna undir ríkið. Undir umr. hefir verið vituað til þeirrar fáránlegu staðhæfingar, að það gerði ekkert til, þó vinna hjá landssmiðjunni yrði dýrari en hjá öðrum smiðjum, þar sem hún skipti mest við ríkið sjálft, og þess vega, væri það verið að taka úr öðrum vasanum og láta í hinn. Það eru engin undur, þó mönnum ofbjóði að heyra vitiborna menn tala þannig og fara með aðra eins fjarstæðu og þá, að það gildi einu, hvað ríkisfyrirtækin tapi, þar sé bara verið að taka úr einum vasa og láta í annan. Ég skal aðeins nefna það dæmið, sem næst er. Þegar smíðuð var síldarverksmiðjan á Siglufirði, var tekið tilboði frá landssmiðjunni, þó það væri hærra en einstakir menn buðu. Er alveg sama, hve dýr hún varð, vegna þess að það var að taka úr öðrum vasanum og láta í hinn? Við skulum spyrja þá menn, sem skipta við verksmiðjuna. hvað þeim finnst um það. Vitanlega er svona heimska ekki svara verð. Það eru viðskiptamennirnir, sem eiga að borga bæði vexti og afborganir af stofnkostnaði verksmiðjunnar. Það má því nærri geta, hvort þeim hefir mátt standa á sama, hvort hún kostaði 10–30% meira eða minna. Svona fjarstæð rök bera menn ekki fram nema í máli, sem er fjarstæða.

Ég vil fullyrða, að það sé fjarstæða fyrir ríkið í allri sinni eymd að leggja í stórfelldan kostnað á dýrum tíma við fyrirtæki eins og þetta. Enda er þetta vitanlega gert í þeim eina tilgangi að taka verk frá einstaklingum þjóðfélagsins og koma þeim undir ríkisrekstur. Ég taldi sjálfsagt fyrir ríkið að setja á stofn litla smiðju til þess að vinna þau verk, sem aðrar smiðjur gátu ekki leyst af hendi. En ég tel enga ástæðu til þess fyrir ríkið að vera að vasast í því nú, þegar hægt er að fá verkin unnin hér innanlands í fullri samkeppni atvinnurekenda. Nú þegar ríkið veit ekki sitt rjúkandi ráð fyrir skuldabasli, væri það eina rétta og sjálfsagða fyrir það að draga fé sitt inn og bjóða smiðjuna út til kaups.

Ég skil vel, að það geti verið þægilegt að láta smiðjuna hafa með böndum nýsmíði, ef nauðsynlegt þætti fyrir fyrirtækið að laga reikningslega afkomu á pappírnum; þá er svo þægilegt að klína tapinu á ýmisleg, nýsmíði og kalla eignaauka. Ég þekki slíkar skýrslur og reikningsfærslur ríkisstj. til að fela og þurrka út ýmiskonar missmíði.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Hér rekast á tvær ólíkar stefnur, þar sem atkv. verða að skera úr.