01.04.1936
Efri deild: 39. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1287 í B-deild Alþingistíðinda. (1848)

32. mál, landssmiðja

*Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Eins og sjá. má á nál. mínu á þskj. 250, hefi ég ekki orðið sammála hv. meiri hl. n., heldur legg ég til, að þetta frv. verði fellt. Hv. meiri hl. n. virðist raunar ekki vera ákaflega sterkur í trúnni á þetta frv., því að báðir hv. þm. í hv. meiri hl. áskilja sér rétt til þess að vera með brtt., og annar þeirra gerir meira að segja fyrirvara um fylgi sitt við málið. Það má því segja, að einn sé með frv., annar á móti því og sá þriðji geri fyrirvara um málið sjálft. Eins og þingið er nú skipað, þykir mér það ekkert undarlegt, þótt mál eins og þetta fái slíka afgreiðslu, því að hér er um stefnumál að ræða, enda þótt það sé ekki mjög stórt, og það er óhætt að segja, að hér á þingi séu til allar afstöður til þessa máls. Einn flokkurinn er á móti því, að ríkið reki fyrirtæki, sem einstaklingar eru færir um að reka, annar flokkurinn er meðmæltur ríkisrekstri, og loks er einn flokkur, sem veit ekki, hvaða skoðun hann hefir í þessu máli, flokkur, sem er hlynntur ríkisrekstri að meira og minna leyti, án þess þó að vilja nokkru sinni taka það mál á sína stefnuskrá, og þessi flokkur er Framsfl. Hann hefir hringlað fram og til baka, þó að hann hallist oftar að ríkisrekstrinum, af því að hann hefir, eins og það er stundum kallað, dvalið langdvölum í flatsænginni, og það er eðlilegt, að það dragi hugina saman, þó að það kosti snurður við og við, eins og gerist og gengur.

Eins og ég hefi áður tekið fram, hefi ég tekið þá afstöðu til þessa máls, að þetta frv. beri ekki að samþ., og byggist sú afstaða fyrst og fremst á því, að ég er á móti því, að ríkið sé yfirleitt að reka slík fyrirtæki sem þetta, vegna þess að ég get ekki sannfærzt um, að hér sé um nokkurt verkefni að ræða, sem einstaklingar geta ekki annazt eins vel. En hinsvegar er ég á engan hátt svo mikill andstæðingur ríkisrekstrar, að ég geti ekki fallizt á, að ríkið taki að sér rekstur fyrirtækja, sem augljóst er, að einstaklingar geta ekki rekið eins vel, annaðhvort af því, að þeir hafa ekki bolmagn til þess eða af öðrum ástæðum, og má í því sambandi minna á póst og síma. Það er eðlilegt, að ríkið reki þau fyrirtæki, enda þótt því hafi farið það illa úr hendi, því að bæði póstur og sími eru illa rekin, og gæti ég tilfært mörg dæmi þess; það er ekki hægt að búast við því, að til séu einstaklingar, sem hafa bolmagn til þess að reka þessi umfangsmiklu fyrirtæki. Það getur borgað sig fyrir þjóðfélagið að reka póst og síma, þótt þau fyrirtæki út af fyrir sig beri sig illa, og því er eðlilegt, að slík fyrirtæki séu í höndum þess opinbera.

En þegar um er að ræða fyrirtæki eins og það, sem þetta frv. fjallar um, þá er ég og minn flokkur þeirrar skoðunar, að þetta sé bezt komið í höndum einstaklinga, því að á þann hátt teljum við, að reksturinn fari bezt úr hendi.

Það hefir stundum verið vitnað í það í blöðum stjórnarflokkanna, að landssmiðjan hafi upphaflega verið sett á fót af þeim manni, sem um árabil var fremsti maður Sjálfstfl., Jóni heitnum Þorlákssyni, þegar hann var landsverkfræðingur. Þetta er alveg rétt. En hitt er jafnvíst, að þessi sumi maður taldi það fjarstæðu, að ríkið væri að reka þetta fyrirtæki eftir að komin voru upp fyrirtæki einstaklinga, sem gátu annazt þetta sama starf. Það var heilbrigt á sínum tíma, á meðan einstaklingana vantaði tæki og mega þekkingu í þessum efnum, að ríkið tæki að sér að fá unnin hér heima ýms verk, sem annars varð að sækja til útlanda, en það er allt annað en að setja upp slíka stofnun til samkeppni við innlendar verksmiðjur í sömu grein, eins og hér um ræðir.

Ef litið er á þetta mál frá mjög einföldu sjónarmiði, þá liggur það í augum uppi, að þau fyrirtæki, sem nú eru til í þessari grein, sérstaklega hér í Reykjavík, verða fyrir þungum búsifjum af slíku fyrirtæki, sem hér um ræðir. Það opinbera má ekki stuðla að því, að fyrirtæki, sem mikið fé hefir verið lagt í, geti ekki borið sig vegna samkeppni af hálfu þess opinbera, sem að sumu leyti er alveg óeðlileg, en að hér er um að ræða óeðlilega samkeppni liggur í augum uppi, ef litið er á nokkur ákvæði þessa frv. Eins og kunnugt er, verða þau verk, sem unnin eru fyrir við opinbera, yfirleitt arðvænlegri fyrir slík fyrirtæki, því að það opinbera hefir aldrei eins gott lag á að þvinga verðið niður eins og einstaklingarnir. Um það þarf ekki að deila. Auk þess er borgunin miklu vissari, þegar það opinbera á í hlut, en það kemur oft fyrir, að verzlanir og önnur fyrirtæki fara um koll vegna þess, að þau fá ekki greitt það, sem þau eiga útistandandi. En fyrir utan það, að með þessu frv. er þannig sölsað undir þetta einu fyrirtæki betra verkefni, er því þar að auki sköpuð sérstaða samanborið við önnur fyrirtæki að því er snertir gjöld til bæjarins. Á móti þessu var borið í n. og sagt, að þetta fyrirtæki ætti lögum samkvæmt að greiða útsvar til bæjarins eins og aðrar ríkisstofnanir, en það er áreiðanlegt, að það gjald verður ekki nema lítill hundraðshluti af hreinum ágóða, og það kemst ekki nálægt því, sem samskonar fyrirtæki verða að greiða, ef þau eru rekin af einstaklingum.

Það er í rauninni mjög óákveðið, hvað landssmiðjunni er ætlað að fást við, en þó eru rakin hér nokkur atriði, t. d. viðgerð á skipum, en það geta stórar járnsmiðjur vitanlega vel leyst af hendi; svo er henni ætlað að annast smíði á öllum mögulegum munum úr járni, en svo er henni ætlað alveg nýtt verkefni, og það er smíði á mótorum, sérstaklega í báta, og ég hefi orðið var við, að því hefir verið haldið fram, að með þessu væri verið að draga nýja atvinnu í stórum stíl inn í landið, þar sem hingað til hefðu verið fluttir til landsins mótorar fyrir 300–500 þús. kr. á ári.

Ég verð að segja það fyrir það fyrsta, að ég fæ ekki séð, hvaða yfirnáttúrlegan mátt þessi eina smiðja fær til þess að smíða mótora, af því að hún er landssmiðja. Ef þetta borgar sig á annað borð í höndum kunnáttumanna hér á landi, þá getur það alveg eins borgað sig fyrir önnur fyrirtæki, sem eru byggð upp á svipaðan hátt og landssmiðjan. Það skeður ekkert kraftaverk við það eitt, að sett verð upp landssmiðja.

Í öðru lagi vil ég minna á það, að það er ekkert annað en rannsóknaratriði, hvort það er yfirleitt nokkur gjaldeyrissparnaður í því að smíða mótora hér á landi. Þó að þessir mótorar verði smíðaðir hér, þá býst ég við, að ekki verði hjá því komizt að kaupa ýms stykki og hluta í mótorana, og auk þess getur orðið svo mikill munur á verði mótora, sem hér verða smíðaðir, og þeirra, sem nú eru keyptir frá útlöndum, að gjaldeyrissparnaðurinn verði enginn. Þessi liður, sem heitir mótorar, hverfur að vísu af verzlunarskýrslunum, en í þeirra stað kemur „ýmsir hlutir í mótora“ og „hráefni“, en það eina, sem hefst upp úr þessu, er, að þeir, sem nota þessar vélar, verða að borga svo svo mikið fé fyrir að útvega þessa nýju atvinnu. Vilji menn leggja þetta á sjávarútveginn, verður fiskframleiðslan dýrari. og afleiðingin af því verður sú, að nokkrir menn missa þar atvinnu. Það má náttúrlega alltaf setja upp svo og svo margar iðngreinir, ef það er bara hægt að leggja á þá, sem nota vörurnar, það aukagjald, sem þarf til þess, að hægt sé að framleiða þessar vörur. Hin gamla regla þessara alfrjálsu viðskipta var þannig, að hver þjóð ætti að framleiða það, sem henni hentaði bezt að framleiða, og kaupa svo hitt, en nú er reglan sú hjá öllum þjóðum, að stefna í þá átt að búa sem flest til sjálfar, en menn verða að gæta þess að íþyngja ekki þeim atvinnugreinum, sem fyrir eru, með hinum nýju iðngreinum.

Í sambandi við þessa fyrirhuguðu mótorsmíði má benda á eitt atriði enn, og það er gæði þessara mótora. Eru líkindi til þess, að þeir geti orðið eins góðir og mótorar, sem framleiddir eru erlendis af stórum fyrirtækjum, sem hafa á að skipa fjölda af verkfræðingum og uppfinningamönnum, sem starfa stöðugt að því að gera endurbætur á þessum vélum, sem hefir það í för með sér, að þessar vélar taka stöðugum framförum? Nú skilst mér eiga að senda einhverja menn og láta þá höggva inn í þessa framþróun og grípa einhvern mótor eins og hann er nú og byrja að framleiða hann hér fyrir hærra verð, en við verðum að nema staðar í þessari þróun, þó að henni fleygi áfram erlendis. Hvaða ráð hefir landssmiðjan á því að ónýta þá vélategund, sem hún hefir í meðförunum, eftir því, sem þróunin heldur áfram á þessu sviði hjá stóru verksmiðjunum erlendis? Afleiðingin af þessu verður sú, að hér verða notaðar vélar, sem eru á eftir tímanum.

Mér finnst einkennilegt, að menn skuli vera að leggja út í svona fyrirtæki áður en nokkur rannsókn hefir farið fram um það, hvort það er yfirleitt hægt að smíða slíkar vélar með sæmilegum kjörum.

Ég held, að það sé mjög vafasamt, hvort þjóðarheildin og sá atvinnuvegur, sem sérstaklega á að nota þessar vélar, sjávarútvegurinn, græði nokkuð á þessu. Ég hefi þá persónulegu skoðun í þessu máli, að sjávarútvegurinn skaðist á þessu. Undir þessa verksmiðju á að draga alla smíð, sem hún getur tekið að sér fyrir ríkið og þær stofnanir, sem eru ríkiseign. Upphaflega var þetta, að mig minnir, alveg skilyrðislaust, og sýnist með því hægt að setja upp sómasamlegt fyrirtæki. Samt sem áður var nú settur inn í Nd. sá varnagli, að þetta skyldi gert, ef vinnubrögð og verðlag ekki er óhagstæðara að dómi stjórnarinnar. Ekki er það nú smáræðis víggirðing, að ríkisstj., sem sett hefir upp þetta fyrirtæki gegn allharðri mótstöðu, á sjálf að meta alla verðleika þessa óskabarns síns, dæma ein, hvort kjörin eru aðgengileg eða ekki! En þegar það var sett inn í, að prófa skyldi þetta með útboði, þá fór það svo klaufalega, — eða þá að það var gert svo haglega með vilja — að það er lagt á vald ráðh., hvort útboð fari fram. Þetta er víst nóg frá sjónarmiði hv. þm., ef hann álítur alla nauðsyn á að hafa landssmiðju, jafnvel þótt hún þoli ekki útboð á móti einstaklingum. En ekki skil ég satt að segja, hvernig nokkur getur verið með að láta ríkið annast sjálft þau verk, sem einstaklingar þjóðfélagsins geta gert ódýrar og eins vel. Það er ljóst mál, að ráðh. er ekkert bundinn við að láta útboð fara fram. Og með því að ráðh. getur lagt svo fyrir, að stofnanir, sem styrktar eru með fé úr ríkissjóði, skuli skipta við landssmiðjuna, þá er náttúrlega hægt að sýna góða útkomu, ef vill, hvað sem líður hag fyrirtækisins sjálfs. Ég verð að segja, að ég skil ekki, hvað meðhaldsmönnum þessarar stofnunar, getur gengið til þess að hlaða óeðlilega undir þessa stofnun. Ef ríkisrekstrarmenn hafa þá trú á þessu fyrirtæki, þá skil ég vel, að þeir vildu setja það upp af því að það myndi sigra í frjálsri samkeppni. Það væri virkilega fallegur og heiðarlegur málstaður. En hvað þeim gengur til að setja upp þetta fyrirtæki, sem þeir ekki treysta til að standa sig í samkeppni, svo að hlaða þurfi undir það með allskonar óeðlilegum lagaákvæðum, það er hálf óskiljanlegt, nema hrein ríkisrekstrarpólitík gangi til.

Eins og getið er um í nál. mínu, er náttúrlega ekki nema rétt að setja l. um fyrirtæki, sem hvort sem er er til. En frv. fer fram á meira en að lögfesta fyrirkomulag það, sem er. Það fer fyrst og fremst fram á að skylda ríkið til að láta þessa einu smiðju vinna fyrir sig, og þarf ekki að hafa gætur á, að kjör séu eins hentug og hjá einstaklingum. Sömuleiðis á að hlynna að fyrirtækinu með því að láta aðrar stofnanir, sem ríkið styður, skipta við það. Svo á að leggja fyrirtækinu fé til þess að færa út kvíarnar. Það á að verja til bygginga og vélakaupa allt að 100 þús. kr., leggja til lóð; og svo er ekki útilokað, að lána megi landssmiðjunni á fjárlögum — sennilega verður það með góðum kjörum — til þess að efla fyrirtækið.

Sem sagt, lögin ganga út á það að búa þessu fyrirtæki, sem hefir starfað að miklu leyti í frjálsri samkeppni, þá fullkomnu sérstöðu, af því að það hefir átt erfitt uppdráttar í samkeppni við einkareksturinn. Það var sagt í grg. með frv. í fyrra — nú er engin grg. —, að þetta fyrirtæki hefði ekki borgað sig vel, og ríkið hefði ekki alltaf getað haft næg verkefni En hvaða ástæða er til að vera með fyrirtæki, sem ekki borga sig? Ekki er það svo, að smiðjan skapi atvinnu, sem annars væri ekki til, því að aðrar smiðjur mundu annars þurfa starfskrafta hennar, sem nú eru. Ef þarna væru starfskraftar, sem annars væru ónotaðir, þá er það líka óeðlilegt.

Nei, það eina, sem gæti réttlætt, að ríkið setti upp slíkt fyrirtæki, er nefnilegu sömu ástæður og fyrir hendi voru þegar Jón heitinn Þorláksson setti landssmiðju fyrst á stofn, að taka upp verkefni, sem borgaði sig að vinna innanlands, en menn þá ekki treystu sér til að taka að sér í prívatrekstri. Það er nú verið að reyna að fóðra þetta frv. með mótorasmíði. Það gæti verið ástæða til að ríkið hlypi undir byrðina, ef um sérstaka nýja smíði væri að ræða. En ég tel mjög hæpið, að þessi nýsmíði gæti orðið til nokkurra hagsmuna.

Ég held það sé svo ekki fleira, sem ég þarf að taka fram viðvíkjandi frv. Það, sem ég felli mig alveg sérstaklega illa við, er þessi sérstaða, sem landssmiðjunni er sköpuð með frv. Það er komið í veg fyrir allt heilbrigt mat á verðleikum fyrirtækisins og haldið til þess vinnu, sem það ekki myndi fá í frjálsri samkeppni. Því er lagt til rekstrarfé með ódýrari og hentugri kjörum en önnur fyrirtæki fá. Því er sköpuð sérstaða í skattagreiðslum með því að það komist undir skattgreiðsluákvæði ríkisstofnana. Og yfirleitt er því sköpuð sú sérstaða, sem gerir það að verkum, að ómögulegt er að dæma um það, hvort fyrirtækið tapar eða græðir. Því að þótt smiðjan sýni á sínum reikningum ágóða, getur í raun og veru alveg eins verið um tap að ræða fyrir þjóðarheildina.