02.04.1936
Efri deild: 40. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1295 í B-deild Alþingistíðinda. (1852)

32. mál, landssmiðja

*Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Hv. frsm. minni hl. hélt hér langa ræðu um þetta frv. í gær, og sagði hann þá nokkuð í þá átt, að hann væri á móti því að lögfesta nokkuð um landssmiðjuna, þótt hann hinsvegar væri því ekki mótmæltur, að sú landssmiðja, sem nú er, héldi áfram starfi sínu. Skoða ég þetta sem tryggð hans við hinn látna foringja sinn. — Í sjálfu sér er það engin breyt. á rekstri landssmiðjunnar, þótt ríkisstj. sé heimilað að festa handa henni lóð. —

Sú andstaða hv. þm., sem kom fram gegn þessu frv., er eðlileg frá sjónarmiði flokks hans, sem álítur, að öll slík verk, sem landssmiðjunni eru ætluð, eigi að vera unnin af einstökum mönnum og höfð um þau frjáls samkeppni. En ég hygg, að þessi frjálsa samkeppni fari nú að verða lítið annað en nafnið eitt, og að ekki sé hægt að benda á mikið af henni. Það er sama, til hverrar greinar af atvinnu er litið; allsstaðar eru samtök um verðlag. Prentsmiðjur hafa sameiginlegt verðlag, og ekki er líklegt, að þær fari að taka verk hver frá annari með því að undirbjóða. Sama er að segja um þær smiðjur, sem hér eru starfandi. Þær hafa sameiginlegt verð og bjóða saman, og er þar alls ekki um samkeppni að ræða. Sama er um smjörlíkisgerðirnar; þær hafa einnig sameiginlegt verð á framleiðslu sinni. Olíuverzlanirnar hafa sameiginlegt verð, og eins er um kolaverzlanir. Yfirleitt hvert sem litið er í atvinnugreinum eða verzlun er engin samkeppni, enda mundi þá vera þannig, að ef einhver lækkaði vöru sína í dag, þá yrðu aðrir búnir að lækka á morgun, og fyrir þessum sífelldu undirboðum hafa þeir einstaklingar, sem reka fyrirtæki, beinlínis tryggt sig með samkomulagi og samtökum um verðlag. Frjáls samkeppni er einskonar vígorð, sem sumum finnst láta vel í eyrum, en er hugtak, sem naumast þekkist í veruleikanum, svo þau rök að þetta frv. stefni að því að lama hina frjálsu samkeppni eru í sjálfu sér mjög léttvæg.

Hitt skal ég játa og hefi játað það áður, að það sé ástæða, sem hafi við rök að styðjast, sem þeir hv. 1. þm. Reykv. og hv. þm. N.-Ísf. hafa fundið að frv., að það eigi að fara að ráðast í smíði á mótorum, og þeir hafa ekki trú á því, að landssmiðjan geti í þeirri grein orðið samkeppnisfær við útlend fyrirtæki, sem hafa margra ára reynslu á því sviði. Það var sérstaklega hv. þm. N.-Ísf., sem fór um þetta mörgum orðum. og að mínu áliti mörgum óþarfa orðum. Hann hélt, að þetta yrði fúsk, sem bæði yrði til stórskaða og skammar, og mundi leiða til þess, að útgerðarmenn yrðu að kaupa mótora fyrir margfalt hærra verð og fengju þar að auki lítt nothæfar vélar. Ég skal játa það, að ég tel ekki líklegt, að landssmiðjan geti um langt skeið fullnægt þörf landsmanna í þessari grein, en ég tel ekki útilokað, að hún gæti búið til einfaldar tegundir af mótorum, og takmarka sig þá við litlar vélar, og mér finnst ekkert fráleitt, að landssmiðjan gerði nokkrar tilraunir í þessu. Ég tel ekki líklegt, að það sé minni verklagni eða minna hugvit í mönnum hér á landi en annarsstaðar, og ef til vill gætu Íslendingar fundið upp einhverja þá vél eða breyt. á vél, sem gæti komið að notum. Íslendingar hafa fundið upp umbætur á vélum, og eins gæti orðið hér, ekki sízt að eitthvað fyndist, sem hentugra væri fyrir þá staðhætti, sem við höfum við að búa.

Ég álít, að við verðum að byrja smátt og að við verðum að fá færa menn til þess að geta gert þessa hluti, en ég lít alls ekki svo á, að þessa hugmynd beri að dauðadæma, og ég er alls ekki hræddur við það, að sú smíði, sem landssmiðjan gerir, verði léleg eða illa nothæf.

Ég tók ekki eftir, hvort þeir hv. 1. þm. Reykv. og hv. þm. N.-Ísf. sögðu það beinlínis, að við mundum ætlast til þess, að landssmiðjan smíðaði mótora til útflutnings, en eitthvað sögðu þeir í þá átt. Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að við mundum standa illa að vígi í samkeppni á utanlandsmarkaði, og eitthvað svipað því fórust hv. þm. N.-Ísf. orð. Mér hefir aldrei dottið í hug, að mótorar væru hér smíðaðir til útflutnings og reynt að keppa með þá við útlend fyrirtæki, nema með því móti að einhverjum Íslendingi dytti eitthvað það í hug, sem yrði til svo mikilla endurbóta á vélunum, en það tel ég enga fjarstæðu að láta sér detta í hug, að slíkt geti komið fyrir.

Hv. þm. N.-Ísf. fór að rifja upp sögu síldareinkasölunnar og taldi, að mér skildist, að jafnaðarmenn hefðu narrað framsóknarmenn til þess að sameinast sér um það að koma henni á. Hvað segir þá hv. þm. um þá Björn Líndal og Ólaf Thors?

Kallar hann þá jafnaðarmenn? Árið 1928 báðu þessir menn um, að tekin væri einkasala á síld, og töldu báðir, að hún væri mjög nauðsynleg. Það er rétt, síldareinkasalan fór illa og ríkissjóður tapaði stórfé á henni, en það er ekki mikill munur á því, hvort ríkissjóður tapar eða þjóðfélagið, og af því að hv. þm. N.-Ísf. er kunnugur fiskverzlun, þá minnist hann þess ef til vill, hvernig fór fyrir Copelandshringnum, sem hér starfaði um 1920, og að þjóðin tapaði þá mörgum tugum milljóna á saltfisksölunni. Þessi hringur og þau töp, sem hann varð fyrir, leiddu til þess, að margir menn, sem voru ríkir, urðu öreigar og búa að því enn þann dag í dag. Ég játa það, að síldareinkasalan fór illa, en í sjálfu sér sé ég ekki, að hún hafi verið neitt meira glæfrafyrirtæki heldur en þeir fiskhringar, sem hér hafa starfað og tapað stórfé. Og þótt síldareinkasalan gæfist illa, þá reyndist hún ekki verr en þeir hringar, sem stofnaðir voru af einstökum mönnum, og þrátt fyrir það, að síldareinkasalan fór illa, þá eru útgerðarmenn svo forhertir að heimta einkasölu á né og hafa nú komið henni á. Þetta fyrirkomulag virðist því eiga meiri ítök en ætla mætti af ræðum sjálfstæðismanna, og margir sjálfstæðismenn hafa lagt því lið sitt og talið það óhjákvæmilegt, að slíku fyrirkomulagi væri komið á og að það væri óverjandi að láta allt afskiptalaust af löggjöf og ríkisstj. Það fer fyrir brjóstið á hv. þm. N.-Ísf., að ríkisstj. á að geta mælt svo fyrir, að stofnun sú, sem rekin er fyrir fé ríkissjóðs, skuli skipta við landssmiðjuna, og hann tók það í spaugi sem dæmi, að menn færu hingað með koppa og kirnur utan af landi frá ríkisspítölunum og kæmu með það til landssmiðjunnar. Hann sagði þetta nú í spaugi, en ég vil segja það í fullri alvöru, að það veitti ekki af, að okkar ágæti brimbrjótur í Bolungavík kæmi hingað til rækilegrar viðgerðar. Ríkið hefir alltaf verið að lappa upp á hann, og álít ég 1íka, að það sé nauðsynlegt. Ég skildi ekki, hvað hv. þm. átti við með þeim setningum í ræðu sinni, þar sem hann kom með aðvörun til framsóknarmanna um að gæta þess, að flokkssjóður jafnaðarmanna fitni ekki of mikið. Ég vona, að það hafi ekki falizt í þessum orðum nein aðdróttun um það, að jafnaðarmenn eigi að fá fé í sjóð hjá sér í sambandi við þetta fyrirtæki. Ég sé ekki, að það þurfi að vera nein vonzka út af því, þó þetta frv. um landssmiðjuna sé lögfest, því það gerir litla breyt. á því ástandi, sem nú er.

Ég man ekki, hvort það er fleira, sem ástæða er til þess að tala um í þessu sambandi. Ég skal geta þess út af nál. meiri hl., að ég hafði verið að íhuga og er enn að íhuga, hvort ég muni koma með brtt. við þetta frv. Þeirri athugun er ekki lokið enn, og mun ég fyrir 3. umr. koma með brtt., ef ég við að athuga frv. nánar tel þess þörf.