02.04.1936
Efri deild: 40. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1299 í B-deild Alþingistíðinda. (1854)

32. mál, landssmiðja

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Ég vil víkja nokkrum orðum að ræðum þeirra tveggja hv. þm., sem hafa hér andmælt því, sem ég sagði í gær. Mér virðist, að hv. 1. þm. Eyf. ætti ekki að vera að tala um það, að menn væru í vondu skapi, því að mér virtist hann vera hálfúrillur sjálfur. Hann var reiður yfir því, að ég hefði tekið af honum orðið og farið að gera grein fyrir hans fyrirvara. Mér er ómögulegt að gera við því, að hann sendi sjálfur frá sér grg. í prentuðu nál., og þurfti enga ræðu frá honum til þess að undirbyggja það, sem ég sagði um það, að hann væri tvíátta um það, hvort hann ætti að vera með eða móti málinu. Ég get ekki skilið það öðruvísi, sem segir í nál., að annar úr meiri hl. (BSt) hafi þó fyrirvara um fylgi sitt við málið. Það er ekki fyrirvari um það, að koma með brtt., heldur um það, hvort hann er með eða móti málinu. Hann geymir sér allan rétt til þess að vera með eða móti málinu eftir atvikum. Ég veit ekki, hvað þessi fyrirvari getur þýtt annað, enda gerði hann sjálfur á þann hátt grein fyrir honum. Mér finnst það afsakanlegt, þó ég taki eftir því, hvað þessi afstaða þm. er spaugilega lík afstöðu hans flokks í heild til ríkisrekstrar, því sá flokkur hefir aldrei getað stigið almennilega í annan fótinn eða hinn í þessu máli, heldur alltaf tvístigið. Þetta sér maður vel á því, að Framsfl. hefir undanfarin ár dregizt með út í ríkisrekstur á mörgum sviðum, sérstaklega ríkisverzlnn. En hinsvegar hafa alltaf komið yfirlýsingar frá mönnum í Framsfl. og eins í málgögnum hans um það, að hann sé með einkarekstri og móti ríkisrekstri. (JJ: Já, alveg rétt). Já, „alveg rétt“, segir þessi dæmalausi postuli flokksins. Það er gaman að fá játningu hans fyrir þessu, þó að enginn bæði hann hér orð til hneigja. Hv. þm. talaði um, að þær væru kyndugar þessar hugleiðingar mínar út af frv. um stefnur flokkanna almennt. Ég sé ekki, að þær séu kyndugar. Hér er um stefnumál að ræða. Og þar sem hv. 4. landsk., frsm. meiri hl. n., sagði, að ég tæki enga afstöðu til landssmiðjunnar yfirleitt, heldur til frv., þá er það rangt. Ég tilgreini það sem fyrstu ástæðu í mínu nál., að ég sé á móti þessu fyrirtæki yfirleitt, svo að það er rangfærsla á hinu prentaða máli í nál. minni hl. Það er eðlilegt, að maður verði að taka afstöðu til fyrirtækisins í heild við umr. um slíkt frv. sem þetta. Ég er yfirleitt á móti því og tel það ekki hentugt, að ríkið fáist við þennan rekstur. Ég er á móti því að festa fyrirtæki með byggingum og löggjöf og lánsfé og öllu því, sem frv. fer fram á að festa þetta fyrirtæki með. Það er eðlilegt, að svona frv. komi fram. Báðir þeir hv. þm., sem hafa andmælt ræðu minni frá í gær, hafa talað um það, að ég ætti að bera fram till. um að leggja þennan rekstur niður. Það er engin furða, þó að þeir búist við því! En það eru til hér bæði verzlanir og önnur fyrirtæki, sem ég álít, að ættu ekki að vera til, en ég hefi ekki borið fram till. um að leggja þau niður, af því að ég veit, að meiri hl. í þinginu stendur á bak við þessar stofnanir, og það er því ekki annað en að eyða tíma þingsins og stofna til málalenginga að bera fram slíkar till. En ég hefi hinsvegar lýst minni afstöðu í því, að ég vil ekki festa slíkar stofnanir meira en nauðsynlegt er, svo að hvenær sem þeir menn kæmust að völdum, sem mér eru sammála um þetta, þá sé sem auðveldast fyrir þá að haga þessu eftir því, sem þeirra skoðun býður þeim. Það er ekki eins þægilegt, eftir að búið er að setja upp stórar byggingar og festa mikið fé í fyrirtækinu og búið að koma því þannig fyrir, að margir menn misstu atvinnu, sem yrði að segja upp, ef fyrirtækið ætti að hætta. En öll slík umrót eru óþægileg. Þar sem ég tel það óþarfa fyrir ríkið að eiga slíkt fyrirtæki. þá er ég á móti því að lögfesta það.

Hv. 1. þm. Eyf. sagði, að stefna sjálfstæðismanna væri ekki mjög ákveðin um ríkisrekstur, og hann nefndi það, sem ég nefndi áður, bæði póst og síma, og svo nefndi hann þar að auki áfengisverzlunina. Það er náttúrlega gott og blessað, þegar andstæðingur vili búa til stefnur fyrir þann flokk, sem hann er á móti, ef hann er beðinn um að gera það. En við sjálfstæðismenn erum ekki andvígir ríkisrekstri í sumum tilfellum. Við erum með því, að ríkið reki það, sem á einhvern hátt er nauðsynlegt eða heppilegt, að ríkið reki, m. a. vegna þess að ágóðinn eða arðurinn af rekstrinum skilar sér ekki öðruvísi en til þjóðarheildarinnar óbeinlínis. Þannig er það t. d. með samgöngurnar. Ég sé ekki, hvernig hægt er að stofna hlutafélög til þess að byggja vegi. Það er auðvitað mikill gróði af slíku, en hann skilar sér til þjóðfélagsins. Þjóðfélagið sem heild verður að leggja peninga í það, sem þjóðfélagið sem heild fær ágóða af. Ef menn eru t. d. sannfærðir um, að það eigi að veita þjóðinni sem bezta menntun og að það eigi því ekki að taka fullt gjald af þeim, sem á skólana ganga, þá á auðvitað að gera þetta. En arðurinn af því skilar sér í aukinni þekkingu þeirra, sem á skólana ganga, en þetta skilar ekki strax peningum í aðra hönd. Þetta verður ríkið því að reka. Póst- og síma mætti ef til vill reka af einstaklingum með árangri, en þó er hæpið, að nokkrir hefðu bolmagn til þess. Í Bandaríkjunum í Ameríku hefir talsíminn verið rekinn af Bellfélaginu, og það er viðurkennt, að sá talsímarekstur er hinn bezti í heiminum og jafnframt sá ódýrasti, og þaðan hafa komið allar uppfinningar og framfarir á því sviði. En það er líka stærsta fyrirtækið í heimi í þessari grein. Það hefir 400 þús. manna í sinni þjónustu og 3 eða 4 þús. verkfræðinga, sem gera ekkert annað en að finna upp eitthvað nýtt. Það þarf auðvitað geysilega mikið bolmagn til slíks. Í mörgum löndum eru járnbrautirnar reknar af ríkinu. Í Bandaríkjunum eru þær reknar af einstaklingum, og það hefir reynzt vel. Hinsvegar hefir verið talað um, að það væri eðlilegt að ríkið ræki þetta hér, ef til þess kæmi. Sömuleiðis finnst mér það eðlilegt, að ríkið fari af stað með starfsemi, sem einstaklingar treysta sér ekki til að fást við. En þegar einstaklingarnir eru farnir að geta tekið það að sér, þá á ríkið að hætta að fást við það. Þannig var það með landssmiðjuna. Það var þarft og gott að ná þessari vinnu inn í landið, sem eins og hv. þm. N.-Ísf. gat um, var hægt að vinna með tiltölulega einföldum verkfærum. Það var gott að fá þessa atvinnu við að byggja brýr inn í landið. En það er ekki ástæða til þess að halda áfram með þetta, þegar þegnar þjóðfélagsins geta annazt það. (SÁÓ: Fyrir hærra verð). En það verður að gæta þess, að þjóðfélagið er ekki fjandmaður einstaklinganna, sem byggja það upp. Það er ekki skaði, þó að í því séu nokkur stór og sterk fyrirtæki og að það sé arður af þeim. En það er eins og að sumir líti svo á, að þjóðfélagið annarsvegar og einstaklingarnir hinsvegar séu keppinautar og fjandmenn hvað gagnvart öðru.

Um áfengisverzlunina er það að segja, að ég álít, að hún gæti nákvæmlega eins verið í einstaklingsrekstri, og ég get ekki séð neitt á móti því. Ríkið gæti sett þeim, sem selja áfengið, allar þær reglur, sem nú eru um áfengisverzlunina. Ríkið gæti tekið allar sínar tekjur af víninu í tollum. En það er svo mikið af hræsni og viðkvæmni í kringum þetta mál, að ég get trúað því, að enga stj. langi til þess að reka höfuðið inn í það geitungahreiður. Það er því alveg eins gott, að ríkið hafi þetta með höndum. En ég efast ekki um, að reksturinn gæti farið eins vel úr hendi hjá einstaklingum.

Þetta vildi ég hafa sagt út af hinum almennu hugleiðingum hv. þm. um það, að Sjálfstfl. vissi ekki, hvað hann vildi í þessu efni.

Hv. þm. N.-Ísf. yndi fram á, að þetta fyrirkomulag gæti leitt til einkasölu eða sérleyfisréttar, eins og t. d. á mótorum. Það má búast við því, að ef landssmiðjan á að fara að annast smíði á mótorum, kannske við lélega samkeppni, þá fari hún að bægja öllum öðrum bátamótorum frá. Þá getur landssmiðjan blómgazt, en sjómenn og fiskimenn verða að borga meira fé fyrir vélarnar, og það kannske fyrir ófullkomnari vélar. En landssmiðjan getur blómgazt við þetta.

Hv. þm. fór að tilgreina, undir hvaða kringumstæðum Framsfl. væri með ríkisrekstri, og sagði, að hann væri með honum, ef hann teldi þörf á því, að eitthvað nýtt kæmist á. En það er ekki, því í hann er með ríkisrekstri, þar sem engin þörf er á slíku og einstaklingarnir eru færir um að gera þetta eins vel. „Eða af öðrum ástæðum“, bætti hann síðan við, og það rýmkar þetta mjög mikið. Hv. þm. talaði um, að það væri eðlilegt, að ríkið vildi vinna svona verk fyrir sjálft sig, rétt eins og t. d. einstaklingur, sem hefir eitthvert fyrirtæki og þenur það síðan út og vill taka ágóðann af fleira, eins og t. d. ef maður, sem gefur út stórblað og á stóra prentsmiðju, eignast svo skóg og býr sjálfur til pappírinn, og er þetta mjög eðlilegt, þegar einstaklingar eiga í hlut. En þetta horfir öðruvísi við fyrir ríkið. Ríkið getur ekki fetað í fótspor einstaklinganna, því að það hefir í sjálfu sér engan keppinaut. Einstaklingurinn skarar til sín því, sem hann fær í ágóða af öllum þessum aukagetum, en ríkið skarar engu til sín, nema frá sjálfu sér eða frá skattþegnunum. Það er sama eins og þegar talað er um, að ríkið græði á verzlun, en það er auðvitað ekkert annað en vitleysa. Það græðir ekki á öðrum en sínum eigin þegnum. Ríkið græðir ekki á verzlun nema að því leyti, að það getur kannske fengið betri innkaup. En þó að sagt sé t. d., að það græði 100 þús. kr., þá er það allt falsreikningur. Það er aðeins skattur, sem ríkið heimtar inn af sínum þegnum, og það græðir þetta því aðeins af sjálfu sér. Þetta er aðferð til þess að safna fé af einstaklingunum í sameiginlegan sjóð, og það er eins með þessa margskonar starfsemi ríkisins, þegar það á að gera sjálft við sín skip og byggja sjálft brýr. Þó það taki að sér að byggja brýr, prenta sjálft það, sem það þarf að prenta, o. s. frv., þá hrifsar það slík verkefni aðeins frá sjálfu sér, eða m. ö. o. frá skattþegnum þjóðfélagsins. Einstaklingarnir geta grætt á slíkri innbyrðis samkeppni, en ekki ríkið. Þetta liggur ekki alveg á yfirborðinu, en er ljóst þeim, sem lengra hugsa. Það, sem hér er um að ræða, er ríkisrekstur eða einstaklingsrekstur. Hvort er hentugra að ríkið hafi reksturinn í sínum höndum eða einstaklingarnir beri sjálfir áhættu og hagnað af honum? Um þetta stendur deilan, og annað ekki.

Það voru ákaflega einkennileg rök, sem um þetta komu fram í hv. Nd. og einnig hér hjá hv. 1. þm. Eyf., að með landssmiðjunni væri ekki stofnað til samkeppni við einstaklinga. En mér er óskiljanlegt, að fyrirtæki eins og þetta, sem stofnað er til þess að taka að sér margskonar vinnu, hefji ekki samkeppni við aðra, sem hliðstæð verk vinna, ekki sízt þegar það er tekið fram í frv., að landssmiðjan eigi að taka að sér verk fyrir einstaklinga, eftir því sem tök eru á. Og þar sem hún stendur að ýmsu leyti öðrum betur að vígi vegna ódýrara kapítals, lægri opinberra gjalda o. fl., er ekki við því að búast, að nokkur þoli samkeppni við hana.

Ég heyrði í hv. Nd. vitnað til þess, að þó ríkisprentsmiðjan hefði verið sett á stofn, þá héldu allar hinar prentsmiðjurnar áfram. Það er alveg rétt, en það þarf enginn mér að segja, að þar hafi verið jafngóð forretning eftir, þar sem þær hafa misst beztu viðskiptin. Eins fer svo um landssmiðjuna, að þangað missa hinar smiðjurnar ýms beztu viðskiptin, ríkið o. fl. Ég efast ekki um að meðan núv. forstjóri stjórnar landssmiðjunni, þá gangi hún vel, en það er mín skoðun, að ekki sé heppilegt að mergsjúga önnur fyrirtæki, sem búið er að leggja í fé bankanna. Svo eru aðeins fá orð til frsm. meiri hl., hv. 4. landsk. Hann talaði um, að það væri óeðlilegt, að ég skyldi vera á móti frv., en þó með því að landssmiðjan starfaði áfram. En ég hefi tekið það skýrt fram, að ég vil ekki láta ríkið reka slík fyrirtæki, nema undir alveg sér stökum kringumstæðum. Hitt er alveg fjarstæða, sem hv. þm. sagði, að hér væri ekki um neina breyt. á landssmiðjunni að ræða. Hér er alveg um svo gagngerða breyt. að ræða, að þó önnur stj. tæki við, sem gjarnan vildi leggja fyrirtækið niður, þá er mjög hæpið, að það væri hægt, vegna þess að enginn einstaklingur væri fær um að kaupa.

Þá flutti hv. frsm. alllangan kafla, sem oft áður hefir verið fluttur úr þeim herbúðum um, að hin frjálsa samkeppni væri nú ekki lengur til nema sem forngripur. Það er rétt, að frjáls samkeppni hefir beðið mikinn hnekki á síðustu tímum, vegna þess að einstaklingar og firmu, sem hafa þurft að selja, hafa reynt að komast framhjá henni og eyðileggja hana. Það hefir þess vegna verið gert til þess að hjálpa atvinnurekendum gegn neytendunum. Það eru því hin mestu öfugmæli, þegar okkur formælendum frjálsrar samkeppni er borið á brýn, að við séum á leigu hjá atvinnurekendum. Ég er með frjálsri samkeppi vegna neytendanna, því hún er eina tryggingin, sem hægt er að fá fyrir því, að neytandinn fái góða vöru fyrir rétt verð, eða a. m. k. fyrir hæfilegt verð.

Þá nefndi hv. frsm. sem dæmi, hvernig smjörlíkisgerðirnar, olíufélögin o. fl. mynduðu samtök um verðlag. Þetta er alveg rétt, og það gæti verið ástæða til þess að setja l. gegn því til verndar neytendunum. Það hefir verið gert í Bandaríkjunum. Hvernig er það t. d. með prentsmiðjurnar? Sé gert útboð, koma þær sér allar saman um tilboðin, en skrifa svo undir hver í sínu lagi og skipta svo bara verkefnunum.

En þrátt fyrir þetta er hin frjálsa samkeppni langt frá því að vera forngripur. Við skulum athuga t. d. verðið á smjörlíkinu og hvernig það myndast. Sá, sem bezt hefir staðið sig í samkeppninni og getur framleitt fyrir lægst verð, dregur alla hina með sér, auk þess sem hann alltaf þarf að vera viðbúinn að mæta nýjum keppinaut, ef framleiðslan sýnist sérstaklega arðvænleg. Verðið verður því nokkurskonar samnefnari fyrir skoðanir manna og getu.

Við höfum um þetta ágætt dæmi frá bílstjóraverkfallinu, þar sem knúð var fram lækkun á olíuverðinu, sem ríkisstj. hafði reynzt ómáttug að gera. En ástæðan til þess, að hægt var að koma lækkuninni fram, var sú, að eitt olíufélagið skarst úr leik og lækkaði verðið. Og það er haft fyrir satt, að hin félögin muni neyðast til að koma á eftir og lækka verðið líka. Þannig heldur samkeppnin verðinu alltaf á neðstu mörkum. En þegar ríkið er orðið eini aðilinn, getur það einokað vöruna og farið með verðið upp úr öllu hófi, eins og t. d. á tóbakinu og víninu, þar sem það er orðið hrein fjarstaða. En þótt allt sé gert af ríki og atvinnurekendum til þess að lama hina frjálsu samkeppni, er hún þó áreiðanlega við lýði og gerir meira gagn en nokkuð annað til þess að halda verðinu niðri.

Ég veit ekki, hvort ég á að minnast á fyrirhugaða mótorgerð landssmiðjunnar, en það er þó eina lífsmarkið með frv., ef það gæti orðið til þess, að smiðjan smíðaði þá vöru, sem aðrir ekki geta. En ég hefi bara svo ákaflega mikla ótrú á því út frá mínu leikmannsviti. Ég hefi vitanleg, enga sérþekkingu á þessum málum fremur en aðrir hv. þm., en ég fæ ekki séð, hvaða ástæða væri til þess, að lítil smiðja með litla þekkingu og litla framleiðslu ætti að geta framleitt eins góða og eins ódýra vöru og gamlar verksmiðjur úti í heimi með margfalda sölu. Það er alveg ómögulegt. Þó gæti skeð, að það borgaði sig að gera tilraun í þessa átt, ef ekki væri um annað eins lífsspursmál að ræða fyrir smábátaútveginn. Ef tilraunin misheppnaðist, er svo mikið í húfi, að mönnum er alls ekki leyfilegt að tefla í þá tvísýnu fyrir aðra eins smámuni og hundrað þús. kr. í erlendum gjaldeyri. — Þá er ég hræddur um, að aðeins yrði smíðuð ein gerð og menn sætu svo með hana lon og don, löngu eftir að komin væru ný og betri model frá öðrum verksmiðjum.

Það er rétt, sem hv. þm. N.-Ísf. benti á, að ef illa gengur með reksturinn, þá mundi ríkisvaldið vafalaust hlaupa undir baggann og vernda framleiðsluna. Það hefir verið gert fyrir einstaklinga, og væri þá sízt óeðlilegra, þegar ríkið ætti sjálft í hlut. En það mundi þá helzt verða gert með tollum og öðrum verzlunarþvingunum. En þá væri verr farið en heima setið, þó sparaðar væru 100 þús. kr., ef ein milljón eða e. t. v. meira misstist við minnkaða sölu á fiski. Þá færi verzlunin að verða lítið hentug. Þá var því slegið fram, að það hefðu verið þeir Ólafur Thors og Björn Líndal, sem einkum hefðu staðið að stofnun síldareinkasölunnar, og að svo væri nú komið, þrátt fyrir hennar gjaldþrot, að útgerðarmenn væru farnir að biðja um einkasölu aftur. En ég vil minna á, að hér er gálauslega farið með orðið „einkasala“. Það, sem þeir Ólafur Thors og Björn Líndal fóru fram á, var aðeins það, að ef ákveðinn meiri hl. af síldarsaltendum mynduðu með sér samtök um söluna, þá skyldu hinir vera neyddir til þess að vera með. Ég var þá mjög efablandinn, þó ekki sé hægt að líkja því saman, að útgerðarmenn sjálfir myndi með sér slíkan félagsskap eða að stofnað sé til pólitískrar einkasölu. Þó taldi ég vafasamt, að heppilegt væri að lögþvinga menn inn í félagsskapinn, og að því leyti álít ég betra fyrirkomulag hjá fisksölusamlaginu, að lofa þeim, sem vilja, að standa utan við. (IngP: Var það frjálst?). Já, nema rétt í byrjun. — Þá var verið að líkja tapi síldareinkasölunnar við tap fiskhringsins gamla. Þó sá samanburður sé mjög villandi, skal ég ekki fara langt út í að leiðrétta hann.

Gjaldþrot fiskhringsins stafaði af því, að hann borgaði of hátt verð fyrir fiskinn, en það fé rann allt til íslenzkra verkamanna, svo það er engin ástæða til þess að atyrða kaupendur fisksins fyrir það, jafnvel þó að það hafi ekki verið heppilegt fyrir þjóðfélagið. En peningarnir glötuðust ekki. En gjaldþrot síldareinkasölunnar var svo rækilegt, að þó sjómennirnir hefðu ekkert fengið fyrir síldina, þá var hún samt gjaldþrota. án þess nokkur hefði hag af. — Ég hefi nú talað lengur en ég ætlaði í upphafi. Ég mun ekki blanda mér í teoretísk atriði, en læt máli mínu lokið.