03.04.1936
Efri deild: 41. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1305 í B-deild Alþingistíðinda. (1857)

32. mál, landssmiðja

*Þorsteinn Briem:

Ég vildi gegna minni þingmannsskyldu, þegar þetta frv. var til 1. umr. og greiða atkv. um það, en ég sá mér ekki fært að greiða atkv. með því. Ég vil gera grein fyrir þeirri atkvgr. minni, með því að hún mun marka afstöðu tína til frv. áfram, nema því aðeins, að fleiri breyt. komi til.

Í fyrsta lagi er ég ekki sannfærður um, að þörf sé á slíkum lögum sem þessum; þessi svonefnda landssmiðja hefir starfað í allmörg ár án sérstakrar löggjafar, og virðist ekki hafa verið þörf á neinni knýjandi löggjöf hingað til, svo að ég fæ ekki séð, að nú sé sérstök þörf á löggjöf um þetta efni. Hæstv. forsrh. gat þess að vísu, að ef landssmiðjan væri rekin, eins og nú á sér stað, án sérstakrar löggjafar, þá væri landssmiðjunni ekki nein takmörk sett um það, hvernig hún eigi að starfa, og vildi hann gera mikið úr því, að það væri þörf á því að reisa einhverjar skorður við því, að landssmiðjan færi ekki út fyrir rétt takmörk, og þess vegna væri þörf nýrrar löggjafar, skildist mér. Ég veit ekki, hvort þess hefir orðið sérstaklega vart, að núv. hæstv. landsstj. hafi verið svo ákaflega hvimpin fyrir því, þótt hún fylgi ekki nákvæmlega lögum um ýms atriði, og skal ég að þessu sinni ekki fara lengra út í það. En mig undrar, hvað hæstv. ríkisstj. er orðin viðkvæm í þessum efnum. Ég geri þess vegna ekki mikið úr þessari ástæðu hæstv. ráðh., en hinsvegar get ég ímyndað mér, að á bak við þetta hafi legið aðrar ástæður en þær, sem hann nefndi, og frv. sjálft sýnir að vísu, að svo er; frv. mun vera borið fram til þess að fá nýja lánsheimild fyrir landssmiðjuna. Viðvíkjandi því atriði má fyrst benda á það, að landssmiðjan hefir stundum, eftir því sem ég bezt veit, tekið lán eða a. m. k. fengið vélar að láni, án þess að hlutaðeigandi ráðh. og jafnvel hlutaðeigandi landssmiðjustjórn hafi verið að spurð, og virðist þá ekki hafa verið sérstaklega næm tilfinning fyrir því, að það þyrfti nýja lánsheimild í lögum til þess að taka lán fyrir landssmiðjuna. Það hefir jafnvel komið fyrir, að þegar landssmiðjan hefir þannig án heimildar frá landssmiðjustjórn og líka án heimildar frá hlutaðeigandi ráðuneyti tekið slík lán, sem ég nefndi, þá hefir ríkisstj. neyðzt til, sökum þess að erlend firmu áttu í hlut, að greiða þessi lán, til þess að bjarga sóma landsins, og hefir náttúrlega skrifað það að nafninu til sem framlagt stofnfé til þessa fyrirtækis. Eftir að slíkt hefir komið fyrir og auk þess jafnvel allbagalegir árekstrar, þá mun stjórn verksmiðjunnar hafa tekið rögg á sig til þess að reyna að bæta ýmislegt í rekstri smiðjunnar og kippa ýmsu í lag, sem aflaga hafði farið, svo að ég get ímyndað mér, að útkoman í þessu efni hafi farið eitthvað batnandi síðustu tíma. Þess vegna vildi ég spyrja hæstv. stj., hvort landssmiðjan hefir nú getað greitt vexti eða afborganir af þeim framlögum, sem henni hafa verið veitt. Það er nauðsynlegt að fá að vita það áður en ný lánsheimild verður lögleidd. Ég get ímyndað mér, að bak við þetta frv. liggi auk þeirrar ástæðu, sem ég hefi nefnt, einnig sú ástæða, að æskilegt þyki, að viss fyrirtæki, sem njóta einhvers stuðnings frá ríkinu, séu skyldug til þess að láta þessa verksmiðju vinna þau verk fyrir sig, sem þörf er á að láta vinna af slíku tægi.

Þetta getur út af fyrir sig haft nokkuð til síns máls, og ég tel rétt, að þau fyrirtæki, sem eru hálfopinber, skipti við landssmiðjuna að öðru jöfnu, þegar báðum aðiljum er það hagkvæmt, en ég legg áherzlu á það, að þess sé gætt í hvert sinn, að þetta sé báðum aðiljum hagkvæmt. Ég tel það t. d. ekki hagkvæmt fyrir landssmiðjuna sjálfa að taka að sér verk, sem hún getur ekki haft verulegan hag af, og ég tel það ekki hagkvæmt fyrir eitthvert hálfopinbert fyrirtæki að skipta við landssmiðjuna, ef svo stendur á, að það getur fengið verkið unnið fyrir lægra verð annarsstaðar. Í frv. því, sem hér liggur fyrir, var í upphafi ekkert ákvæði um það, hvernig það skyldi sannprófað, hvort fyrirtæki þau, sem njóta að einhverju leyti opinbers stuðnings, geta fengið verk unnið fyrir lægra verð annarsstaðar en hjá landssmiðjunni, en í hv. Nd. var sett inn í frv. ákvæði, sem að vísu horfir í rétta átt, en er þó ekki nægilegn ákveðið. Í 2. gr. stendur, að ráðh. geti látið sanna með útboði, hvort vinnubrögð og verðlag sé jafnhagstætt hjá landssmiðjunni eins og annarsstaðar. Ég tel því, að í þessu efni þyrfti að vera ákvæði í þá átt, að aðilja væri jafnan heimilt að láta sanna með útboði, að svo væri. Ég býst við, að það hafi verið þetta tvennt, sem hafi vakað fyrir þeim aðiljum, sem að þessu frv. standa. Það hefir og að sjálfsögðu vakað fyrir sumum þeirra. a. m. k. öðrum stjórnarflokknum, að stefna með þessu frv. meira í áttina til ríkisrekstrar heldur en verið hefir, og skal ég ögn víkja að því atriði. Það hefir nú á síðustu árum verið allmikið um það, að einstaka menn og félög hafa tekið sig fram um að byrja á ýmiskonar nýjum iðnaði hér innanlands. Og mundi það koma í ljós við athugun, að þessi iðnaður er meiri en margan grunar. En þessi vísir til vaxandi iðnaðar hefir, eins og nú er ástatt, reidda öxi yfir höfði sér. Og er það sú óvissa, sem yfir slíkum iðnaðarfyrirtækjum sífellt vofir, að ríkið komi fram sem keppinautur til að byrja með, og þegar ríkinu ekki tekst að halda velli með frjálsri samkeppni. þá eru sett lagafyrirmæli, sem veikja einstaklinginn svo, að hann verður undir í samkeppninni. Það getur orðið ríkissjóði erfitt að bæta það upp með opinberum framkvæmdum, sem atvinnulíf þjóðarinnar getur tapað á, að einstaklingsframtakið sé þannig heft og lamað. Og ég sé ekki, hvernig ríkissjóður hefir ráð á því að festa svo mikið fjármagn í atvinnufyrirtækjum, sem þyrfti til þess að bæta þann atvinnumissi, sem orsakast af þessu brölti ríkisins. Nú er einnig á það að líta, að um leið og stofnað hefir verið til ýmiskonar innlends iðnaðar, þá hafa verið keyptar oft og tíðum dýrar vélar og byggðar dýrar byggingar undir atvinnureksturinn. Ef ríkið ætlar svo að stofna til samkeppni við þessi fyrirtæki, þá verður það að kaupa enn nýjar vélar og reisa ný hús, en það táknar, að með þessu móti er stofnað til tvöfalds kostnaðar við innkaup á vélum og tvöfalds byggingarkostnaðar. Ég hygg, að gjaldeyrismálum okkar sé þann veg komið, að ekki sé heppilegt, að ríkið geri mikið að slíku. Auk þess má gera ráð fyrir því, jafnvel þó allt gangi skaplega, að nokkur áhætta fylgi slíkum ríkisrekstri. Og það því fremur, sem þess má ekki vænta, að ráðh. þeir, sem með slík mál fara, sem jafnframt eru æðstu stjórnendur fyrirtækjanna, geti verið neinir sérfræðingar á því sviði. Þeir verða þar að sjá með annara augum. Þeir verða að hafa sína trúnaðarmenn og treysta þeim, og þeir geta sannarlega verið misjafnir. A. m. k. er hér alltaf meiri hætta á mistökum, jafnvel þó mennirnir séu allir að vilja gerðir, heldur en þegar kunnáttumenn taka sér slíkan rekstur fyrir hendur og reka sjálfir á eigin ábyrgð. Ég tala nú ekki um, ef það gæti skeð, sem ekki er nú útilokað í slíku landi sem Íslandi, að það kæmist pólitík inn í rekstur slíks fyrirtækis. Og við skulum hugsa okkur það t. d., að 2 flokkar stæðu að stjórn að einhverju leyti og annar flokkurinn hefði haft aðstöðu til að láta sína menn hafa forstjórn, en svo liti hinn flokkurinn svo á, að sér hefði verið fráskákað, og hann yrði óánægður og út af því rísi hættuleg stjórnar„krísa“. Það yrði náttúrlega að leysa „krísuna“ þannig, að báðir flokkarnir yrðu að hafa forstjórn. Og svo yrðu svo og svo margir menn að fá atvinnu og eftirlit eða sæti í stjórn og annað því um líkt. Og þá gætu orðið 2 tígulkóngar í því spili. Það hefir verið um það hvíslað, að það hafi skotið upp 2 tígulkóngum í vissi fyrirtæki, sem ríkið hefir með að gera. (Forsrh.: Er það í búnaðarfélaginu?). Ég á ekki við, þar sem 2 menn skipta með sér störfum líkt og ráðh. í stjórnarráðinu og búnaðarfélaginu, en ég býst við, að ráðh. geti litið miklu nær sér, ef hann vill finna dæmi. Þannig gæti ég hugsað mér, að fyrirtæki eins og landssmiðjan gæti orðið skuldbundin um allmiklu meira fólkshald heldur en þörf krefur. Það leiðir náttúrlega af sjálfu sér með slíkt fyrirtæki eins og landssmiðjuna, að það fer mikið eftir fjörinu í atvinnulífi þjóðarinnar, hvað mikið þar er að gera. Og þá má vel hugsa sér, að þegar bólga er í atvinnulífinu, þá séu þar ráðnir margir menn og teknir margir nemar, sem talið er þörf fyrir kannske á þeim tíma, þegar framkvæmdirnar eru á háöldutoppnum, en verður lítil þörf fyrir, þegar afturkippur kemur í atvinnulífið. Ég hygg, að það hafi komið fyrir jafnvel um landssmiðjuna, að hún hafi verið bundin miklu fleiri nemum heldur en ástæða hefir þótt til. Og svo er náttúrlega freistingin með hana eins og finnur fyrirtæki, sem ekki er nema eðlileg freisting, að þegar fyrirtæki eru búin að binda sér marga starfsmenn, nemendur og aðra, að verksmiðjan taki þá að sér að vinna verk fyrir lægra verð heldur en fyrirtækið getur staðið sig við. Og ég hygg, að reynslan hafi sýnt stj. landssmiðjunnar, að það er ekki varlegt fyrir landssmiðjuna að hafa fleiri verkefni með höndum heldur en þörf er á fyrir ríkið á hverjum tíma. Og ég hygg, að stj. landssmiðjunnar hafi talið það vafasamt, hvort ríkið ætti undantekningarlaust að láta landssmiðjuna vinna verk, sem aðrir geta unnið fyrir lægra verð og með jafngóðu afkasti og landssmiðjan. — Hv. 4. landsk. talaði um það, að með þessu frv. væri stigið stórt spor í þá átt að greiða fyrir íslenzkum hugvitsmönnum. Það er að vísu mjög lofsvert. En jafnvel um það atriði er nú ekki búið svo í frv. eins og æskilegt hefði verið. Um það segir í 2. málsl 2. gr. frv.: „Landssmiðjunni er heimilt að verja árlega af ágóða sínum nokkrum hluta, er ríkisstjórnin ákveður, til þess að vinna að smíðum, er íslenzkir hugvitsmenn hafa gert uppdrætti að. Þó skal jafnan leitað umsagnar kunnáttumanna, er ríkisstjórnin tilnefnir, um væntanlega nytsemi nýsmíðinnar, áður en hún er ákveðin.“ Ég hygg, að hér væri miklu betur um búið, að það væri ekki ríkisstjórnin, sem tilnefndi þessa kunnáttumenn, heldur væru það þeir aðiljar, sem hefðu bezta aðstöðu til þess á hverjum tíma að geta tilnefnt menn til þess að annast slíkt. Ég skal nefna aðilja eins og Verkfræðingafélag Íslands eða Landssamband iðnaðarmanna. Viðvíkjandi smíði nýrra véla þá finnst mér, þó ég beri ekki skyn á slíkt, að það muni ekki vera algerlega eins auðvelt eins og að borða matinn sinn. Það þurfa að fara fram allmargháttaðar tilraunir, áður en slíkt kemur að notum. Og það er mér kunnugt, að fiskibátaeigendur eru mjög tortryggnir á að kaupa nýjar tegundir af vélum (SÁÓ: Einmitt það!), nema það sé komin reynsla af þeim annarsstaðar. Enda er mér kunnugt um, að menn hafa orðið fyrir mjög þungum skakkaföllum af því að taka vélar, sem eru algerlega óreyndar annarsstaðar. Það er ekki lítið í húfi, ef bátur fær þannig lélega vél, en náttúrlega er hér um svo miklsvert mál að ræða, að það er síður en svo, að ég vilji bregða fæti fyrir, að gerðar séu þær tilraunir, sem fært þykir í þessu efni, og íslenzkir hugvitsmenn örvaðir til að vinna í þessa átt. Í frv. er ekki gert ráð fyrir, að ríkisstj. hafi ein yfirstjórn landssmiðjunnar með höndum, heldur er gert ráð fyrir, að það sé ráð, sem eigi að inna af hendi eftirlit með þessu fyrirtæki, samkvæmt l. frá síðasta þingi. Ég veit nú ekki, hversu mikið á að leggja upp úr slíku eftirliti. Ég veit ekki betur en að í því ráði, sem ætlað er þetta eftirlit, eigi nú sæti einn fyrrv. verzlunarmaður og núv. blaðamaður, einn fyrrv. læknir og svo einn fyrrv. eða núv. bílstjóri. Ég veit ekki til, að neinn þessara manna hafi sérþekkingu á því efni, sem hér er um að ræða, og ég get þess vegna ekki falið svo ákaflega mikla tryggingu í eftirliti þessa ráðs. Og því síður, sem þetta ráð á, auk þess að hafa eftirlit með landssmiðjunni, að hafa eftirlit með vegamálunum og vitamálunum. Ég hygg nú, að þetta ráð, eins og það er skipað, hafi algerlega nóg á sinni könnu, þó ekki sé á það bætt. Ég get ekki, án þess að vilja nokkuð þessa menn dæma, borið það traust til þeirra, að þeir muni leysa allan þann vanda, sem á þeim kemur til með að hvíla.