03.04.1936
Efri deild: 41. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1316 í B-deild Alþingistíðinda. (1861)

32. mál, landssmiðja

*Jónas Jónsson:

Ég hlustaði með blandinni ánægju á ræðu manns, sem eitt sinn var yfirmaður landssmiðjunnar, manns, sem þannig kom fram við það fyrirtæki, að með einsdæmum má kallast. Við andstæðingar þessa manns, sem er hv. 10. landsk., höfum verið að reyna að gleyma framkomu hans gagnvart þessu fyrirtæki, sem hann var settur yfir, en hann skilur alls ekki, hvílíkt miskunnarverk það er að gleyma hans fyrri verkum jafnt í þessu máli sem öðru. Ef hann hefði einhvern snefil af sómatilfinningu, myndi hann ekki tala eins og hann talar nú og endranær.

Háttv. 1. þm. Reykv. var að tala um afskipti Jóns sál. Þorlákssonar af þessu máli, en ekki á sögulegum grundvelli, þar sem hann taldi afskipti þessa látna flokksbróður síns af þessu nytjamáli mjög á annan veg en þau voru, því að um það verður ekki deilt, að það var íhaldsmaðurinn Jón Þorláksson, sem stofnaði landssmiðjuna, og enginn annar. Og þó að hann gerði marga hluti vel, þá mun stofnun þessa fyrirtækis samt jafnan verða með því þarfasta, sem hann gerði.

Ég er því hissa á því, ef flokksbróðir hans, hv. 1. þm. Reykv., og fylgihnöttur hans, halda, að þeir auki á sæmd sína með því að stíga á þennan kvist, sem hinn látni maður gróðursetti í blóma lífs síns.

Það mun hafa verið rétt eftir að Jón varð landsverkfræðingur, að hann stofnaði landssmiðjuna. Hann varð hinn fyrsti kennari þar, og svo virðist sem hann hafi sýnt þessu fyrirtæki fullan skilning og rækt. Það lítur helzt út fyrir, að Jón Þorláksson, sem alinn var upp í sveit, hafi tekið sér í þessu efni til fyrirmyndar þá gömlu og góðu búmannsreglu að láta smíða á heimilunum þá hluti, sem til búrekstrarins þurfti, til þess að þurfa að kaupa sem minnst að. Það má og líka vel vera, að hann hafi haft fyrir augum fordæmi menningarþjóðanna, sem þá voru þegar farnar að eiga verksmiðjur og vélsmiðjur til þess að framleiða vopn o. fl., sem þær töldu og telja enn ókleift fyrir sig að komast af án. En svo skiptir um, þegar Geir Zoëga tekur við stjórn vegamálanna, þá gerir hann það sama og Th. Krabbe, sem býr til gasið og selur ríkinu fyrir hærra verð en það kostar flutt hingað frá útlöndum, sem hann nú er orðinn stórríkur af. Geir gengur sem hluthafi í vélsmiðjuna Hamar og beinir öllum viðskiptum ríkisins þangað, en leggur landssmiðjuna niður í kreppunni eftir heimsstyrjöldina. Hann fær Klemenz heitinn Jónsson, sem þá var ráðh., til þess að gangast inn á þetta. Beztu smiðirnir eru fluttir í Hamar, en áhöldunum rænt og ruplað bæði þangað og annað. Þetta gekk allt eins og í sögu, eins og íhaldsmenn vildu. Nú leið nokkur tími, meðan íhaldið sat við völd, sem var á árunum 1924-'27. Landssmiðjan lá niðri. Hamar græddi. Hluthafarnir græddu, spillingin hafði fengið sína fullu framrás, og það þótti íhaldsmönnum gott. En nú komu kosningarnar 1927. Íhaldið varð að hrökklast frá völdum. Tryggvi sál. Þórhallson tók málið upp að nýju. Hann komst að gagnólíkri niðurstöðu og tengdafaðir hans, Kl. Jónsson. Hann sá enga ástæðu til þess að láta trúnaðarmenn ríkisins græða á Hamri, vegna þess að engin landssmiðja var til. Hann endurreisti því landssmiðjuna, og nokkrir af hinum góðu smiðum voru sóttir í Hamar, og smiðjan tók til starfa aftur. Þetta gekk nú allt sæmilega, tiltrú fyrirtækisins óx, vélarnar og verkfærin urðu fullkomin, og það endurtók sig, sem jafnan hefir verið viðurkennt, að öll vinna í landssmiðjunni þótti betri en annara hliðstæðra verkstæða. Það er rétt, að ég geti þess hér, að skömmu eftir þetta fóru brezkir togaraeigendur að láta gera við togara sína hér, þegar þess var þörf. Þeir lýstu því yfir, að þeir væru fegnir að geta verzlað við fyrirtæki, sem ekki tæki bak „provision“. Um þetta eru til bréf frá togaraeigendunum. Ég held nú, að það væri gott og sáluhjálplegt fyrir hv. 10. landsk. að athuga, hve yndislega kenningar Krists hafa verið praktiseraðar af núverandi samherjum hans í gegnum öll þessi mál.

Nú leið þar til þessi hv. þm., sem fyrir sína eigin sviksemi tókst að skríða inn í Framsfl., varð ráðh., sviksemi, sem hann hefir nú fengið sitt straff fyrir að verðleikum, m. a. með því að geta ekki haldið nema litlu broti af söfnuði sínum á, Akranesi, eftir að hann kom úr þeirri útlegð. Strax og þessi auðvirðilegi flugumaður er kominn í ráðherrasessinn, fer hann að reka erindi íhaldsmanna í þessu máli sem öðrum. Hann byrjar strax að gera landssmiðjunni allt til ills. Hann lætur ekkert tækifæri ónotað til þess að níða hana niður, m. a. tekst honum að fá því til vegar komið, að trésmíðaverkstæði smiðjunnar er selt. Að honum tókst ekki alveg að gereyðileggja þetta þjóðþrifafyrirtæki var mest því að þakka, að í stjórn þess var duglegur og kunnugur maður. Pálmi Loftsson framkvæmdastjóri, sem beitti allri sinni lagni til þess að fá því til vegar komið, að ekki yrði með öllu gengið milli bols og höfuðs á fyrirtækinu, sem hafði þær afleiðingar, að það lifir enn og blómgast svo að kalla dag frá degi. Þetta ætti að vera lærdómsríkt fyrir hv. 10. landsk. að athuga nú eftir á, þegar hann er með öllu flosnaður upp í íslenzkri pólitík.

Annars er það furðulegt að heyra þennan hv. þm. tala um skuldir landssmiðjunnar. Að hann skuli leyfa sér slíkt, sýnir bezt hans andlega vanþroska. Hann ætti að spyrja vini sína bræðurna í„Kveldúlfi“, hvað skuldir væru, mennina, sem hver um sig tekur 150 þús. kr. af rekstrarfé fyrirtækisins, sem þeir stjórna, til þess að byggja yfir sig óhófs „villur“. Hann ætti að athuga þetta og vita svo, hvort hann undrast eins mikið á eftir yfir því, þó að landssmiðjan hafi kannske einhverntíma skuldað eitthvað fyrir plötur.

Þá var hann að undrast yfir því, að landssmiðjan skyldi þurfa að taka rekstrarlán. En hann talar ekki um það, þó að „Kveldúlfur“ þurfi að taka 5 millj. króna rekstrarlán til síns mjög svo vafasama atvinnurekstrar. Út af þessum hugleiðingum hv. þm. vil ég segja honum það, að hver heiðarleg landsstj. hefði skilið það, að landssmiðjan þurfti að taka rekstrarlán. En þar sem um var að ræða stj. þá, sem þessi hv. þm. átti sæti í, var ekki að ræða um heiðarlega landstj., og því skyldi hún ekki jafneinfaldan hlut og þann, að landssmiðjan þyrfti að fá rekstrarfé, og þess vegna var Kveldúlfi leyft að taka fleiri millj. að láni. Svo er skemmst af því að segja, að þetta fyrirtæki hélt áfram að vaxa og dafna. — Alveg hliðstætt þessu fyrirtæki var það fyrirtæki, sem Pálmi Loftsson átti aðalþáttinn í að koma á fót, Slippurinn, sem sjálfstæðismönnum, Morgunblaðsmönnum, og varaliðinu hefði aldrei dottið í hug að líta við. Það er eftirtektarvert, að hugmyndin um það, að hér ætti að vera hægt að gera við skip, þurfti endilega að koma frá framsóknarmönnum. Nú fyrir nokkrum dögum var það sannað í Nýja dagblaðinu, að nú á næstu mánuðum myndu fara um 2 milljónir króna út úr landinu í viðgerðir á þessum „ryðkláfum“, sem hv. þm. G.-K. hefir nefnt svo. Upp úr þessu var svo komið fram með frv., sem nú liggur fyrir þinginu, um að banna þessa hluti, og ég geri ráð fyrir, að gjaldeyrisnefnd hafi manndóm í sér til þess að banna, að þessi skip verði flutt úr landinu. En eins og allir vita, þá hafa skipaútgerðarmenn hér fyrir umboðsmann mann, sem aftur á í vélaverksmiðju í Englandi og sendir þangað trollarana héðan úr landi frá þessum ágætu sjálfstæðismönnum, sem eru þó ekki sjálfstæðari en svo, að þeir hafa ekki haft manndóm í sér til þess að koma hér á skipaviðgerðum, heldur láta loddara, sem er í félagi við útlent firma, teyma skipin úr landi til þess að gera við þau þar. Er það ekki yndislegt fyrir sjálfstæðismenn að vita, hvað þeir eru sjálfstæðir og þjóðlegir? Þeir geta hrópað: „Ísland fyrir Ísland“ o. s. frv., þegar síðasti ryðkláfururinn fer frá landi til þess að gefa prósentur umboðsmanni erlends trollarafélags. En einmitt þetta dæmi, að núv. stjórnarflokkar þurftu að taka fram fyrir hendurnar á þessum ryðkláfaeigendum til þess að missa ekki úr landinu allar skipaviðgerðir, er náttúrlega alveg í samræmi við það, að það eru frumsóknarmenn og alþýðuflokksmenn, sem líka beita sér fyrir því, að þessi hugmynd Jóns heitins Þorlákssonar fái sinn eðlilega þroska.

En þá ætla ég að víkja örfáum orðum að því, hvers vegna ástæða sé til að hafa þessa löggjöf. Þar sem hér er um að ræða merkilega viðleitni til þess að koma upp margháttuðum iðnaði, sem nú er eingöngu framkvæmdur erlendis og enginn hefir haft manndáð í sér til að koma hér á, þá er alveg nauðsynlegt að hafa um þetta sérstaka löggjöf. Þær verksmiðjur, sem hér eru fyrir, eru svo takmarkaðar í starfi sínu, að þeim dettur ekki einu sinni í hug að reyna að smíða borð og stóla og ýmsa aðra þarfa hluti. Aftur á móti hefir landssmiðjan tekið sig fram með að smíða ýmislegt, sem hinum smiðjunum, sem við hana keppa, hefir ekki dottið í hug að reyna, eins og t. d. vigtir af ýmsu tægi, skólaborð og bekki. Þar er sem sagt byrjuð tilraun með margskonar iðnað, sem hægt er að framleiða hér á landi, en sem hinum ágætu privatfyrirtækjum hefir ekki dottið í hug að líta við, vegna þess að það hefir ekki verið nógu gróðarænlegt. En það er annað, sem þessir karlar geta. Og það er það, sem hv. 10. landsk. var ákaflega laginn í, þegar hann var ráðh., sem sé að bjóða út fyrir landið, og svo komu smiðjurnar sér saman um að undirbjóða til skiptis. Það er náttúrlega ákaflega fínn siður til þess að drepa landssmiðjuna, og það er þess vegna sem Morgunblaðsmenn vilja endilega láta bjóða út fyrir ríkið. Það er alveg eins og ef t. d. hv. 1. þm. Skagf. væri stórbóndi í Skagafirði og hefði smiðju á sínum bæ, og svo væri sagt við hann, að hann skyldi bjóða út viðgerðir á amboðum og öðru slíku og vita, hvort þeir á hinum bæjunum vildu ekki gera það. En ég er viss um, að hv. 1. þm. Skagf. mundi ekki vera svo vitlaus, ef hann ætti sinn eiginn sjóð að verja. Hann mundi blátt áfram láta gera þetta í sinni eigin smiðju. — En illgirnin er nógu mikil hjá þessum herrum. Þó þeir hafi ekki manndóm til þess að reyna að fá hjá sínum flokksbræðrum viðgerð á ryðkláfunum, þá reyna þeir að spilla fyrir því, að landssmiðjan geti náð sinni eðlilegu þróun. Það er ákaflega „interessant“ að athuga þetta, vanmáttinn annarsvegar og svo vöntun á góðgirni hinsvegar. Það er eins og aðalkrafturinn liggi í því að skaða keppinautana. Einn af þessum ágætu smiðjuhöldum hér í bænum hefir haldið því fram, að önnur smiðja hafi lagt 70 þús. kr. fram í undirboð til þess að setja keppinaut sinn á hausinn, sem að vísu ekki var landssmiðjan. Svona eru hyggindin og góðgirnin, tugum þúsunda er varið af þessum vesalingum aðeins til að skaða aðra.

Nú, verkaskiptingin er ákaflega glögg og eðlileg. Hér á landi er langsamlega mest gert á samkeppnisvísu. Þess vegna er ekki nema eðlilegt, að samkeppnismennirnir fari í sín fyrirtæki og skipti við þau, en aftur á móti er ómögulegt að fá menn, sem einhverja ábyrgðartilfinningu hafa fyrir því, hvernig ríkið er rekið, til að ganga inn á það, að það þurfi endilega að vera stórfelldar fjárflettingar í sambandi við annað eins og byggingar brúa og vita eða viðgerðir á skipum ríkisins. Það er eins og hæstv. forsrh. tók fram áðan, að þá hefir heiðarleg ríkisstjórn, eins og sú, sem nú er, og sem vill fara heiðarlega með ríkisfé, engin önnur ráð en að hafa sína eigin smiðju.

En ofan á þetta allt, sem ég hefi nú talið, þá er enn ein höfuðástæða, sem knýr mig til þess að óska þess og stuðla að því, að þetta frv. verði samþ., og hún er sú, hvað við í heild erum á eftir í þessu efni, bæði landssmiðjan og hinar smiðjurnar, af því að þær eru svo ungar og keppa við voldug erlend fyrirtæki. Það er þess vegna alveg nauðsynlegt, að einhver af þessum verksmiðjum geti risið hærra en hinar og tekið að sér ný verk og stærri heldur en hinar gera.

Þá kem ég að hv. þm. N.-Ísf. Það er búið að reikna það út af verkfræðingi landsins, Þor steini Loftssyni, að það sé ekkert því til fyrirstöðu, að hægt sé að smíða hér einfaldar tegundir af mótorum og þannig skapa vinnu í landinu, sem nú verður að borga stórfé fyrir út úr landinu. En nú er því þannig háttað, að ýmsir íhaldsmenn eru umboðsmenn fyrir erlendar vélaverksmiðjur, og þeir reyna af öllum mætti að spilla fyrir því, að þetta sé gert, og ég er alveg viss um það, að það er frá þessum umboðsmönnum og hinum erlendu fyrirtækjum, sem kjarninn úr ræðu hv. þm. N.-Ísf. er runninn. Ég gæti bezt trúað, að hann hafi fengið ræðuna vélritaða frá einhverjum þessara umboðsmanna. Í þessari einstæðu ræðu sinni leyfði hv. þm. sér að ráðast á það, að Íslendingar reyndu að smíða mótorana í sína eigin báta. Þetta er nú svona álíka og að segja: „Hvílík vitleysa af okkur Íslendingum að vera að smíða bátana okkar sjálfir! Við erum ekki nógu sjálfstæðir til þess, við verðum að fá þá frá Dönum!“ — Þetta er nú svipað því og þegar fyrirrennarar þessara manna gátu ekki hugsað sér íslenzkan fána; hann varð endilega að vera danskur. Þeir sögðust ekki geta lifað, ef hér væri íslenzkur fáni. En við, sem höfum lifað með þessu fólki, heyrt þess heimskulegu ræður og blaðagreinar og séð þeirra heimskulegu framkvæmdir í fánamálinu og mótormálinu, erum svo sem ekkert hissa. Við vitum, hvaða fólk við eigum við, og því er ekki um annað að gera en bara að framkvæma hlutina, alveg eins og að nota íslenzkan fána.

Það er bezt, að ég í þessu sambandi noti nú tækifærið til þess að gleðja hv. 10. landsk. með því að segja honum eina sjálfstæðissöguna úr hans eigin stjórnartíð. Það hafði verið stofnað félag á Stokkseyri til þess að koma upp 3 bátum. Og hvað gerir svo þessi prýðilega landsstjórn? Hún gengur í 2 ára ábyrgð fyrir þessum bátum í Danmörku, þar sem þeir eru að öllu leyti smíðaðir. En það kom vitanlega á daginn, eins og fyrirsjáanlegt var, að þessir blásnauðu menn, sem þessa báta áttu, gátu ekkert borgað á fyrsta ári, og það kom í hlutverk núv. ríkisstj. að framlengja víxilinn. Og það merkilega var, að á meðan á smíðinni stóð í Danmörku, sátu menn heima á Stokkseyri, sem voru bátasmiðir sjálfir og hefðu getað gert þetta, ef þeir hefðu fengið til þess efni. Þetta er ákaflega skemmtileg táknmynd yfir þeim hugsunarhætti, sem gegnsýrði allar framkvæmdir hv. 10. landsk. Það, sem því verður skorið úr með þessu frv., er það, hvort þingið vill hafa á sér þetta sama snið og landsstj. frá 1932–'34, sem sé það snið, sem kom fram í því að láta bátasmiði á Stokkseyri vera atvinnulausa á mölinni, á meðan Danir smíðuðu bátana.

Ég er alveg viss um það, að hinir lífrænu kraftar í þjóðfélaginu munu ekki linna látum, fyrr en landssmiðjan er orðin föst stofnun, eins og pósthúsið og síminn. Hinsvegar geta íhaldsmenn haft sín einkafyrirtæki. Þeir fara víst ekki að leita til rauðu smiðjunnar, eins og ég býst við, að þeir muni kalla hana. Þeir geta farið í sínar smiðjur, og við því er náttúrlega ekkert að segja.

Í sambandi við þetta mál er gaman að minnast á annað skylt mál, sem hér var á döfinni í fyrra, sem sé það, að ríkið tæki einkasölu á bifreiðum, rafmagnsvélum og mótorum o. fl. Það var samþ. á móti öllum atkv. íhaldsmanna og þess varaliðs, en með atkv. stjórnarflokkanna og eins manns, sem vildi styðja þetta mál. Ég lagði meira upp úr einu í sambandi við afgreiðslu þessa máls heldur en málinu sjálfu, sem sé því, að það var eins og spegill af því, hvernig okkar þing er, að það skyldi vera hægt að samþ. þetta mál, vegna þess að ef einhver maður úr þessum 26 manna meiri hl., sem samþ. frv., hefði verið fús til að taka framrétta hönd með peningum og stinga þeim í sinn vasa, þá hefði hann týnzt úr lestinni og frv. ekki gengið fram. Það hefir sagt mér skrifstofustjóri í stjórnarráðinu, að það hafi einu sinni verið lagðar á borðið fyrir framan hann 20 þús. kr. Ég ætla ekki að segja, hvað hann átti að gera, en hann gerði það ekki. En það er fullvíst, að hver einasti af okkur, sem gekk á móti bifreiða- og rafmagnsumboðsmönnunum í fyrra, hefði getað orðið stórríkur maður. Svo mikið var kappið í þessu máli, og slík meðul voru brúkuð. Hvort hinir, sem á móti frv. voru, hafi fengið nokkuð, veit ég ekki, en það er víst, að síðasta atkv. hefði verið vel borgað. Einhver hefði viljað leggja fram 20 þús. kr. í síðasta atkv., alveg eins og lagt var á borðið fyrir framan skrifstofustjórann. Það er mjög ánægjulegt fyrir meiri hl. Alþingis að hafa sýnt það svart á hvítu, að slíkt frv. sem þetta gat gengið hægt og rólega í gegn, þrátt fyrir það að auðmenn og agentar reyndu með allri þeirri spillingu, sem hægt var að koma við, að hindra framgang þess. Það eru margir, sem leyfa sér að tala illa um þm. og álíta, að spillingin búi í þinginu. Og er það sérstaklega sá auðvirðilegi flokkur, sem stendur til annarar hliðar við Íhaldsflokkinn. hliðstætt við hv. 10. landsk., nefnilega nazistarnir. En það er mála sannast, að sá litli flokkur, sem talar eins og hér séu tómir mútuþrælar, er ekki tekinn hátíðlega. Og það liggur skjalleg sönnun fyrir því, að fyrir alþingi Íslendinga er ekki hægt að brúka peninga, a. m. k. ekki núna. Það hefir kannske einhverntíma verið hægt, þegar þeir flokkar voru við völd, sem nú eru í stjórnarandstöðu.

Ég býst nú ekki við að taka til máls aftur um innihald þessa frv. En það getur vel verið, að ég muni seinna sjá ástæðu til þess að tala um lífsskoðun og ýms dæmi af framferði þeirra manna, sem hafa beitt sér gegn þessu frv., því að það er fullkomin ástæða til að halda eldhúsdag yfir slíku.