03.04.1936
Efri deild: 41. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1322 í B-deild Alþingistíðinda. (1862)

32. mál, landssmiðja

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Það hafa nú svo margir látið ljós sitt skína í þessu máli, að ég býst við, að það verði fáir að lokum, sem ekki hafa tekið til máls. En það hefir komið svo margt fram í þessum umr., að ég tel ekki rétt að sitja alveg hjá. Það hefir nú verið rifjuð hér upp saga þessa máls, og ég ætla að stikla örlítið á steinunum. Það mun hafa verið 1910, sem þáverandi landsverkfræðingur, Jón heitinn Þorláksson, kom á stofn smiðju, sem nefnd var landssmiðjan, og mun það hafa verið í sambandi við brúa- og vitabyggingar, sem þá voru í uppsiglingu hér á landi. Þetta hefir hér í umr. verið talið eitt af hans beztu verkum, og ætla ég ekki að draga úr því. Starf smiðjunnar virðist hafa verið jafnt og þétt fram til ársins 1920. Þá fer að kippa úr starfi hennar, og verkefnin, sem áður lágu fyrir henni, fóru að færast í annara hendur, sem sé vélsmiðjanna Hamars og Héðins, sem þá voru nýstofnaðar. Á því áraskeiði og fram til ársins 1927 var hér töluvert unnið að brúa- og vitabyggingum, og það, sem smíðað var hér innanlands, var unnið af þessum 2 vélsmiðjum, og þá sérstaklega Hamri. Það hefir verið bent á það í þessum umr., að mönnum hafi blöskrað sú mikla álagning, sem lögð var á þessa vinnu af hálfu smiðjanna og ríkissjóður látinn borga. Þess vegna var það, að 2 alþýðuflokksmenn, þeir Héðinn Valdimarsson og Jón Baldvinsson. fluttu till. í Sþ. 1927, sem hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina:

l. Að láta smíða hér á landi brýr og vita, sem fyrirhugað er að byggja.

2. Að nota áhaldasmiðju ríkissjóðs til nýsmíða og aðgerða, er landið þarf að láta framkvæma.“

Þessi till. var samþ., að ég hygg af mönnum úr öllum flokkum. Ég hefi ekki sérstaklega gáð að því, hverjir hafi greitt mótatkv., en það virðist svo, að hugir manna hafi hneigzt að því, að ótækt væri að láta einstök fyrirtæki græða svo mjög á verkefnum ríkisins.

Í öðru lagi vakti fyrir þessum mönnum, að ekki bæri að láta þessa vinnu fara út úr landinu að því leyti, sem kleift væri að framkvæma hana hér. En skriður komst enginn á málið. Því hreyfði ég þessu nokkuð á þingi 1929 í umr. um fjárlögin, og ræddi þá við forsrh. Tryggva Þórhallsson um, hvað gengi með þetta mál. Þá hafði yfirleitt lítið sem ekkert verið gert. Upp úr því komst þó skriður á málið. Þáverandi stj. setti rögg á sig og hrinti smiðjunni nokkurnveginn í þann farveg, sem hún er nú komin í.

Þetta er í stuttu máli saga málsins. Ég sé ekki betur en að núverandi stjórnarflokkar óskiptir, og e. t. v. einhverjir úr Sjálfstfl., hafi á þessum þingum talið sjálfsagt, að ríkið sæi sjálft um smíði hinna stóru verkefna, sem það þarf að láta leysa árlega og grundvöllurinn undir landssmiðjunni var þannig myndaður. Því kemur mér dálítið undarlega fyrir sjónir, þegar hér vill svo til, að tveir flokkar þingsins ráðast með frekju og andúð á móti því að lögfesta það, að þessi smiðja skuli fá að starfa og að hún geti búið þannig að sínu fólki og sínum verkefnum, að hún sé fyllilega starfhæf.

Það hefir verið farið hér inn á lífsskoðanir manna um það, hvort einkaframtakið á að haldast óskert eða hvort ríkið á að fá að hafa með höndum þau verkefni, sem hér er um að ræða, og einhver fleiri. Ég ætla alveg að leiða hjá mér þessa hlið málsins, en snúa mér að þeirri gagnrýni, sem fram hefir komið hjá sumum hv. ræðumönnum. Ég get alveg hlaupið framhjá þeim hv. þm. N.-Ísf. og hv. l. þm. Reykv., þeim er í rauninni svarað um leið og ég svara hv. 10. landsk., því ég gat ekki betur fundið en að uppistaðan í hans ræðu væri nokkurn veginn sú sama og í þeim ræðum, sem áður voru fluttar. Hann vék að ýmsum framkvæmdaratriðum, eins og lántöku og því um líkt. Þessu svaraði að vísu hv. þm. S.-Þ., en ég skal frá mínu sjónarmiði bæta því við, að sá hv. þm. er ekki einn um þá skoðun, að á meðan hv. 10. landsk. var í landssfj. og yfirmaður þessa fyrirtækis, sýndi hann fullkomna andúð á móti því, að þetta fyrirtæki gæti þrifizt og blómgazt. Hv. þm. S.-Þ. sannaði, að hv. 10. landsk. gekk þá vitandi og óvitandi erinda þeirra manna, sem vildu bægja verkefnum frá landssmiðjunni, sem hún að sjálfsögðu átti kost á að fá, hefði þess nokkuð verið leitað.

Það er vitanlegt um svona fyrirtæki, sem veltir hundruðum þúsunda, að það undir ýmsum kringumstæðum vantar fjármagn, því það er svo um svona verkefni, að þau fást ekki æfinlega greidd jafnóðum, og þá verður oft að fá lán til þess að geta haldið rekstrinum áfram. Er ekki nema sjálfsagt, að það sé gert, enda mun það hafa mætt mest á stjórn smiðjunnar að koma slíkum lántökum í framkvæmd. Ég verð að segja, að mér þykir undarlegt, þar sem hv. 10. landsk. var eitt sinn í flokki þeirra manna, sem vildu efla þetta fyrirtæki, að hann skuli nú vilja vinna á móti, að það þrifist og auki starfsemi sína á einn og annan hátt, að starfræksla þess sé lögbundin og þannig viðurkennd af því opinbera, svo fjandsamleg öfl geti ekki orðið til þess að leggja það niður einn góðan veðurdag.

Hv. 10. landsk. talaði um lántökur landssmiðjunnar og að þeir hefðu orðið vegna þjóðarmetnaðar að greiða kröfur, sem landssmiðjan hefði verið búin að stofna til erlendis. Þakkað skyldi honum, þó hann ekki gerði ríkisfyrirtæki ómerkt að skuldbindingum, sem það var búið að stofna til vegna nauðsynlegra tækja til starfrækslunnar. Hv. þm. kom inn á það, að með þessu frv. væri fyrst og fremst verið að stofna til aukins ríkisrekstrar. Ég er þeirrar skoðunar, að það stefni meira og meira að því, að það verði bæði á þessu sviði og öðrum að láta ríkið og bæjarfélögin hafa með höndum hin og þessi fyrirtæki, sem einstaklingarnir sumpart eru að gefast upp við að reka og sumpart skortir framtak til þess að koma upp og reka, svo að notum komi. Það er ekki nema eðlilegt, að þar sem einstaklingana skortir bolmagn, leggist ríkið á með sínu margfalda afli, til þess að þau verk séu unnin, sem ber að vinna í landinu sjálfu. Þetta mál hefir tvennskonar þýðingu. Í fyrsta lagi er það atvinnumál. Þegar atvinnuleysið gerir alstaðar vart við sig, er ekki nema sjálfsagt, að hnigið sé meir og meir að því að koma inn í landið ýmiskonar starfsemi, sem við getum leyst af hendi innanlands, en hingað til hefir verið greitt fé fyrir til útlanda. Nú hefir landssmiðjan sýnt sérstakt framtak í þessa átt. Hún hefir fitjað upp á mörgu nýju, sem engri annari smiðju hér hefir dottið í hug að reyna. Benti hv. þm. S.-Þ. á ýms dæmi, og mætti þó margt fleira telja. Í grg., er þessu frv. fylgdi á síðasta þingi, var minnzt á eitt og annað, sem er þessu til sönnunar. Ég veit til þess, að eftir að landssmiðjan hefir verið byrjuð á slíkum verkum, hafa hinar smiðjurnar farið að feta í hennar fótspor. Það sýnir bara, að einstaklingsframtakið er ekki nógu vakandi fyrir því, hvað gera má í þessum efnum. Og hvað spörum við svo mikinn gjaldeyri á þessum gjaldeyriseklutímum með því að færa inn í landið svo og svo mikið af vinnu við hluti, sem við getum ekki án verið? Svo segir hv. þm., að þetta dragi úr þrótti einstaklinganna, lami framtak þeirra o. s. frv. Nú er það svo, að það lætur nærri, að landssmiðjan hafi yfir að ráða nálægt 1/3 af því vinnuafli, sem hinar þrjár höfuðsmiðjur í járniðnaðinum hér hafa haft. Á síðastliðnu ári unnu í landssmiðjunni um 40–50 manns, en í hinum smiðjunum samanlagt 80–100 manns. Hér er þá um 1/3 af hinu fasta vinnuafli í járniðnaðinum að ræða, og það lítur ekki út fyrir, enn sem komið er, sem ég ekki harma, að það dragi nokkuð úr starfi hinna smiðjanna, þó landssmiðjan auki sína starfsemi, enda hallast aukningin að þeim verkefnum, sem öðrum hefir ekki dottið í hug að byrja á. Ég hygg því, að það sé engin hætta á því, að einstaklingarnir geti ekki haldið áfram með sínar smiðjur, þó landssmiðjan færi út kvíarnar, þar sem henni er ætlað að fara m. a. inn á ný svið, sem hinar smiðjurnar hafa alls ekki komið nærri. Þá kom hv. þm. inn á gjaldeyrisspursmálið. Ég get ekki skilið rökfærslur hans fyrir því, að það sé óhagur að því fyrir ríkið með tilliti til gjaldeyrismálanna, að landssmiðjan færi í aukana starfsemi sína og vinni eitt og annað, sem annars þarf að kaupa frá útlöndum. Hann hefir sennilega átt við, að það mundi þurfa að kaupa eitthvað af vélum til þessarar starfsemi. En ég býst við, að í flestum tilfellum séu þær vélar, sem landssmiðjan kynni að þurfa að kaupa, alls ekki til í landinu áður, þannig að ef landssmiðjan ekki kaupir þær, þá þurfi hinar smiðjurnar að gera það, ef þeim annars dytti í hug að hreyfa hönd eða fót til þess að fást við smíði þeirra hluta, sem þessar vélar þarf við. Þá minntist hv. þm. á, að það mundu hafa orðið meiri mistök hjá landssmiðjunni heldur en hjá hliðstæðum smiðjum einstaklinga. Ég veit ekki, á hverju hann byggir þá skoðun sína. Það hefir yfirleitt verið viðurkennt, síðan landssmiðjan tók til starfa 1930, að smíði hennar hefir, ef það hefir ekki verið fullkomnara, þá a. m. k. ekki staðið verkum hinna smiðjanna að baki. Það er eins og betri kraftar hafi valizt til þess að vinna á þessum stað, og það verður að viðurkenna, að forstjóri landssmiðjunnar hefir fullkomna þekkingu á þeim verkum, sem hann á að stjórna, og stendur ekki að baki þeirra, er hinum smiðjunum stjórna, enda hefi ég ekki heyrt neina halda því fram, að vinna landssmiðjunnar væri lakari heldur en vinna hinna smiðjanna. En hitt hefi ég orðið var við, að verk hennar hafa reynzt ódýrari. Ég veit ekki, hvort það liggur í betri vinnubrögðum eða hagkvæmari innkaupum, en það hefir sýnt sig, að landssmiðjan hefir með góðum árangri getað selt sömu hluti miklu ódýrari en hinar smiðjurnar hafa gert. Þetta er einn af kostum hennar, en ekki ókostum. Þeir, sem þarna vinna, leggja að sjálfsögðu jafnt fram krafta sína og kunnáttu til þess að gera vinnu sína sem bezt úr garði, hvort sem þeir vinna fyrir ríkið eða einstaka menn.

Svo var hv. þm. hræddur um, að utan um þetta fyrirtæki mundi hlaðast óhæfilegur hópur manna, og vitnaði til þess, að þegar bólga væri í atvinnuvegunum, yrðu teknir svo og svo margir menn, sem yrði svo að halda, þótt verkefni minnkaði. Um þetta er það að segja, að yfirleitt komast ekki inn í þessa iðjugrein aðrir en þeir, sem hafa kunnáttu og þekkingu á því, sem þeir eigu að vinna. Menn verða að undirbúa sig svo og svo mörg ár til þess að vera taldir starfhæfir á þessu sviði. Þetta sigur allt saman hægt áfram. því það er ekki rétt hjá hv. þm., að það sé hrúgað inn ótakmörkuðum fjölda nemenda. Samkv. samkomulagi, er nú gildir milli fyrirtækjanna í þessari grein og sveinafélagsins, má ekki hafa nema einn námssvein á móti hverjum 3 fullgildum sveinum sem vinna á hverjum stað að staðaldri, svo útilokað er, að inn í þennan iðnað komist nema takmarkaður fjöldi starfsmanna. Það er spursmál, hvort þetta gerir meira en halda við starfsmannafjöldanum, svo ekki er hætta á, að það komi inn í þetta óhæfilegur fjöldi manna, sem yrði að halda föstum, þó minna yrði að gera. Og þegar byrjað er á fleiri og fleiri verkefnum, er ekki hætta á öðru en nóg verði með starfskraftana að gera. Það er hin mesta rökvilla hjá hv. þm., að hér sé aðeins að ræða um tímabundna vinnu, meðan fara fram viðgerðir þeirra skipa, sem nú eru til. Verkefnin falla alltaf til. Mér er kunnugt, að á síðasta ári, sem var ekkert uppgangsár, bar yfirleitt ekki á öðru en smiðjurnar hefðu allar nóg að gera, að undanteknum þeim tíma, sem Andradeilan stóð yfir. Hitt kannað vera, að meira sé að gera suma tíma árs heldur en aðra.

Hv. þm. vill meina, að það sé freisting fyrir svona fyrirtæki að segja ekki upp mönnum, þó verkefni minnki, og játa ég það. En til hvers eru þessi fyrirtæki? Eru þau ekki m. a. til þess, að menn, sem þurfa að vinna, hafi atvinnu? Þau eru ekki eingöngu til þess að skapa einhverjum arð, heldur eru þau ekki sízt til þess að skapa starfsmönnum sínum lífsframfæri. Þess vegna teljum við yfirleitt tryggara, að ríkið hafi a. m. k. hönd í bagga með svona fyrirtækjum, til þess að verkamennirnir séu ekki reknir út á gaddinn. þegar einhverjum atvinnurekanda dettur í hug að láta þá fara. Þetta er nú mín persónulega skoðun.

Það er nógu fróðlegt, þegar talað er um verkefni þessara smiðja, að athuga, hvað mikið verkefni liggur fyrir í viðgerðum allra okkar skipa og undirtektirnar, sem það hefir fengið að framkvæma þær innanlands. Það hefir einhver sniðugur maður reiknað út, að við mundum láta um 1/2 millj. kr. út úr landinu á ári fyrir viðgerðir skipa, sem allar væri hægt að framkvæma hér heima í okkar smiðjum. Verkefnið er því nóg, að ógleymdum þeim erlendu skipum, sem oft og tíðum þurfa að fá hér viðgerð, og hægt er að gera því betur við, sem við fáum betri tæki. Sjá allir, hvað það er hagkvæmara heldur en ef aðeins er hægt að klastra í þau til bráðabirgða og aðalaðgerðin þarf svo að fara fram í öðrum löndum. Tæki til slíkra viðgerða þurfa okkar vélsmiðjur að hafa, landssmiðjan ekki síður en hinar, að því er ég tel.

„Er þörf á því í“, spurði hv. þm., „að láta landssmiðjuna vinna annað en það, sem ríkið þarf að láta vinna?“ Ég vil nú benda honum á, að það er ekkert smáræði, sem ríkið þarf að láta starfa að vitasmíði og brúasmiði, að ógleymdum öllum öðrum byggingum og verksmiðjum, sem ríkið lætur koma upp.

Þá kem ég að því, sem er eitt af aðalatriðum þessa máls, og það er, að ef landssmiðjan hefði ekki verið, hefðu einkafyrirtækin haft aðstöðu til þess að trekkja ríkið upp á þessari vinnu. Það mun hægt að sanna það, ef krafizt er, að álagning á vinnu fyrir ríkið var óeðlilega mikil, meðan einstaklingsfyrirtækin voru einráð. Það mun meira að segja vera dæmi til, að einkafyrirtæki hafi haft sinn arð að mestu leyti af viðskiptum við ríkið. Það fékkst miklu minna fyrir það, sem gert var fyrir einstaklingana, og þeir söfnuðu skuldum, en ríkið var einn af þeim fáu, sem greiddu kontant fyrir það, sem gert var. Það var því þjóðarhagur, þegar hnigið var að því ráði, að ríkið léti vinna þetta fyrir sannvirði, í stað þess að láta einstaklinga græða á að hafa það á hendi.

Ég ætla að geyma mér að tala um frv. sjálft, en það er hér ýmislegt, sem ég hefi punktað niður úr ræðu hv. þm. Hann dvaldi nokkuð lengi við mótorana. Það er mikið lagt upp úr því ásamt öðru, að landssmiðjan geti með auknum vélum ráðizt í smíði ýmsra hluta, sem nú eru keyptir frá útlöndum, en líkindi eru til, að hægt sé að vinna í landinu sjálfu. Hefir í því sambandi verið bent á mótorana. Hæstv. atvmrh. benti á, að ekki væri bundið við, að hún smíðaði mótorana að öllu leyti; hún gæti e. t. v. keypt suma hlutana tilbúna frá viðkomandi verksmiðju erlendis, en smíðað aðra og sett mótorana saman. Það er vitanlegt, að það er ekki lítill gjaldeyrir, sem út úr landinu fer fyrir mótorvélar. Svo er annað merkilegt atriði í sambandi við vélarnar. Ég get ekki lagt fram nú, hvað margar tegundir mótora eru í landinu, en ég mun athuga það fyrir 3. umr. Það kemur einn umboðssalinn á fætur öðrum og gyllir þetta fyrir mönnum, hvað þeirra mótorar eru sparneytnir, ódýrir o. s. frv. Því miður hafa margir glæpzt á því að fara eftir þessum skrumauglýsingum og keypt mótora, sem eru lítt nothæfir til lengdar. Þvílík fásinna er ekki í því fólgin, að hrúga þannig inn í landið svo hundruðum skiptir af tegundum mótora, og svo eru engir varahlutar fyrir hendi, þegar þeir bila. Ef vél bilar á miðri vertíð, verða bátarnir oft að liggja margar vikur, meðan verið er að afla varahluta. Því telja margir, að að því beri að stefna að hafa vélategundirnar færri og tryggja það, að allir hlutar þeim tilheyrandi séu fyrirliggjandi í landinu, svo aldrei þurfi að verða stöðvun af þessum sökum. Eitt af því, sem til greina getur komið í þessu sambandi, er það, hvort við getum ekki sjálfir fetað okkur áfram í því að búa til þessar vélar. Ég geri ráð fyrir, að það yrði farið hægt á stað og reynslan látin skera úr, hvort þessi íslenzka vinna stæði hinni erlendu á sporði. Óttinn við það, að lokað mundi verða fyrir innflutning erlendra véla, er ekki annað en firra út í bláinn. En ég tel, að ef að þessu ráði væri hnigið, værum við miklu betur á vegi staddir en ella með að vera sjálfum okkur nógir. Hugsum okkur þann möguleika, að heimsstyrjöld væri að brjótast út og Þýzkaland og Norðurlönd lokuðust fyrir okkur. Hvert ættum við þá að leita eftir varahlutum? Við stæðum upp með okkar vélar og yrðum að reyna að basla við að smíða varahluta í þær sjálfir. Mundi þá ekki koma í góðar þarfir, ef búið væri að koma hér upp lítilli mótorverksmiðju, sem gæti hjálpað í þessu efni? Í þessu sambandi má benda á það, að á síðasta ári hafa verið fluttir inn mótorar bæði í skipum og lausir fyrir um 60 þús. kr. Og það ár var ekkert góðæri, eins og menn vita, heldur var þröngt um gjaldeyri.

Þá vil ég víkja með örfáum orðum að landssmiðjunni sem fyrirtæki. Hún hefir ekki þurft að knékrjúpa fyrir einum eða neinum fjárhagslega. Á ársreikningi hennar 1934 kemur fram rekstrarágóði af fyrirtækinu 49286 kr. Og eftir því, sem ég hefi fengið upplýsingar um rekstrarágóða hennar síðastliðið ár, þá nemur hann um 39 þús. kr.

Það er vitanlegt, að rekstrarfé landssmiðjunnar hefir verið mjög lítið. Lán, sem á henni hvíla, eru lítil, nema það, sem ríkissjóður lagði til hennar í upphafi vega, á fjórða hundr. þús. kr.

Á árinu, sem leið, voru vinnulaun, sem landssmiðjan greiddi starfsmönnum sínum, um 160 þús. kr., og ég vil segja, að það má nú finna minna grand í mat sínum en 160 þús. kr. Nú býst ég við, að hv. þm. segi, að hinar verksmiðjurnar mundu hafa tekið við þessum mönnum, sem þarna vinna, þó að landssmiðjan hefði ekki tekið þá í þjónustu sína. En ég svara: Nei, þær hefðu alls ekki tekið við þessum mönnum. Það hefði aðeins orðið þeim mun meira af atvinnulausum mönnum í landinu meðal þessarar stéttar, ef landssmiðjan hefði ekki verið til. Landssmiðjan hefir verið slyng að skapa sér verkefni, sem hinum smiðjunum hefir alls ekki dottið í hug að fitja upp á. Þess vegna get ég ekki séð, hvað það eiginlega er, sem 10. landsk. berst fyrir í þessu sambandi. Hann hefir margtekið það fram, að hann sé fulltrúi sveitabænda. Hvað getur það verið mótsnúið þeim, að hér sé rekin slík smiðja af ríkinu, sem færir landsmönnum ódýrari vinnu heldur en hægt er að fá sömu vinnu hjá einstökum mönnum, og sem skapur fjölda manna atvinnu og er að vinna sig upp, svo að ríkið eignist þar eignir, og sem tryggir það, að landsmenn þurfi miklu síður að leita til annara landa um viðgerðir á hlutum, sem landsmenn þurfa að nota? Ég skil ekki þann bónda, sem þarf að vera á móti þessu. Hvað varðar bóndann um það, hvort ein eða tvær slíkar smiðjur eru til hér í bænum? Það er ekki svo sem þjóðfélagið velti um koll, þó að fáeinar smiðjur skili minni arði en annars, — a. m. k. kemur slíkt ekkert við hagsmunum bænda. Hér er ekki um hagsmunamál bænda að ræða, heldur nokkurra manna, sem lagt hafa fé sitt í einkafyrirtæki, sem mun skila nokkru minni arði við það, að ríkið rekur samskonar fyrirtæki við hliðina á því.

Mun ég ekki hafa þessi orð mín fleiri nú. En e. t. v. gefst tækifæri til að ræða þetta mál síðar. Og ef hv. 10. landsk. áfram leggur kapp á að draga þetta mál, þá mun ég bæta ýmsu við þetta af fróðleik, sem gott væri fyrir hv. 10. landsk. að fá að vita í þessu máli.