20.04.1936
Efri deild: 52. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í B-deild Alþingistíðinda. (1868)

32. mál, landssmiðja

*Þorsteinn Briem:

Það er nú orðið alllangt liðið síðan þetta mál var hér síðast til umr., ég ætla, að það sé nálega hálfur mánuður. Og má því vera, að ég sé búinn að gleyma mörgu af því, sem búið var að segja um frv. og ég þarf að svara.

Ég vil þá fyrst beina þeirri fyrirspurn til hæstv. atvmrh., hvort landssmiðjan hefir greitt vexti af því fé, sem ríkið hefir lagt í hana eða lánað af varasjóði landsverzlunarinnar gömlu. Þegar frv. var hér til umr. síðast, kvaðst hæstv. ráðh. ætla að athuga þetta. Ég vona, að sú athugun hafi farið fram, og vænti, að hæstv. ráðh. gefi greið og góð svör við þessari fyrirspurn minni.

Ég þarf ekki að svara miklu af því, sem hæstv. ráðh. sagði, en get lýst ánægju minni yfir því, sem hann sagði, að það væri sjálfsagt að greiða fyrir því, að þeir smiðir, sem vinna í vegagerð hjá ríkinu, geti fengið vinnu í landssmiðjunni að vetrinum. Ég ætla að vísu, að vegamálastjóri geti útvegað þeim atvinnu, en þetta er ákjósanlegast fyrir þá. — Hæstv. forsrh. sagði, að stj. væri ekki sérlega viðkvæm fyrir því, þó að andstæðingar hennar teldu, að hún tefldi á fremstu nöf laga í meðferð mála, og bað mig að nefna einhver dæmi þess. Ég skal nú verða við því og nefna það dæmi, sem hendi er næst, það mál, sem afgr. var hér í þd. þann sama dag. breyt. á þingsköpum Alþingis. Ég ætla, að það sé ekki ofmælt, að með þessari breyt. hafi hæstv. stj. teflt á fremstu nafir stjskr. — Annars svaraði hæstv. forsrh. allt öðru en því, sem ég hafði sagt, og taldi ósamræmi í því hjá mér, að ég skyldi vera á móti þessu frv. um ríkisrekstur á landssmiðjunni, en vilja þó, að hún væri látin halda áfram. Hæstv. ráðh. blandaði þessu alveg saman. Ég mælti ekki orð í þá átt, að ég óskaði, að landssmiðjan yrði lögð niður, og hygg, að það geti vel samrýmzt því, að vera á móti þessu lagafrv. Ég vil ekki, að landssmiðjan sé lögð niður, en ég vil heldur ekki, að þessi l. séu samþ. óbreytt.

Þá kom hæstv. ráðh. með þá fyrirspurn, hvort menn vildu t. d. setja ríkisstj. í þá aðstöðu, að hún yrði að greiða 25 þús. kr. fyrir smíði, í staðinn fyrir 15 þús. kr. Ég ætla, að þetta dæmi sé nokkuð langt sótt. því starfsmenn ríkisstj. gera nokkurn veginn réttar áætlanir um hvert verk fyrirfram, og á þetta sérstaklega við um brúargerðir.

Þá var hann, og ég hygg fleiri hv. þm., að álasa mér fyrir það, að ég hefði lagt trésmíðadeild landssmiðjunnar niður, þegar ég hafði með þau mál að gera. En hæstv. ráðh. hefir því miður verið of gleyminn í þessu efni, því ég hefi í höndum bréf frá stjórn landssmiðjunnar, sem hann átti þá sæti í, þar sem segir á þessa leið: Þar sem það hefir komið í ljós, að trésmíði fyrir ýmsar ríkisstofnanir er of lítil til þess að borið geti uppi sérstaka trésmíðadeild, og þar sem ekki munu veruleg vandkvæði á því fyrir smiðjuna að hætta þeim rekstri, þá telur stjórn smiðjunnar rétt að leggja þá deild starfrækslunnar niður svo fljótt sem við verður komið, eða frá 1. marz næstkomandi, og reyna nú þegar að selja vélar og áhöld trésmiðjunnar, en það hvorttveggja er í bókum smiðjunnar talið tæplega 6000 kr. virði.“

Þetta er skrifað 1933 og undir bréfinu stendur fyrstur formaður stj. landssmiðjunnar, Pálmi Loftsson, og síðastur núverandi hæstv. forsrh. Hermann Jónasson, sem þá átti sæti í stjórn landssmiðjunnar.

Eftir að ég hefi skýrt frá till. hæstv. forsrh., þegar hann var í stjórn landssmiðjunnar og hafði sérstaka aðstöðu til þess að fylgjast vel og nákvæmlega með öllum rekstri hverrar deildar landssmiðjunnar og landssmiðjunni í heild, og eftir að ég hefi sýnt fram á, að till. hans hefir verið þessi, þegar hann hafði sem bezta aðstöðu til þess að kynna sér þetta og skapa sér sjálfstæða skoðun um þetta, þá verður að telja, að ásökun í minn garð fyrir það að leggja þessa deild niður komi úr hörðustu átt. Og yfir höfuð væri honum betra að greiða kinnhestinn þann veg, að hann kæmi ekki í hans eigið andlit.

Hæstv. ráðh. talaði um, að það væri mjög álitlegt fyrir landssmiðjuna að taka upp ýmsa nýsmíði, og það myndi verða væntanlega mikill gróði að því. Ég hefi hjá mér upplýsingar frá hæstv. forsrh., þegar hann var sjálfur í stjórn landssmiðjunnar og hafði flestum betur tækifæri til þess að fylgjast með rekstri hennar, því það segir í bréfi því, sem ég vitnaði í áðan: „Það kom stjórn smiðjunnar mjög á óvart af áðurgefnum upplýsingum forstjórans, að þá er rekstur smiðjunnar hefir nú verið nánar athugaður, kemur í ljós, að ýmsar nýsmíðar hafa gefið ýmist lítinn eða engan hagnað, og jafnvel beint tap.“

Svo er sagt, að forstjórinn hafi ráðizt í þær til þess að forðast það að segja upp smiðum, og að kostnaður ýmiskonar hafi farið úr hófi fram, en ég skal ekki fara út í það frekar. En ég verð að telja, að það, sem hæstv. forsrh. segir núna um þetta, komi ekki sem bezt heim við það, sem hann hefir skrifað ráðuneytinu, þegar hann átti sæti í stjórn smiðjunnar og hafði þess vegna betri aðstöðu til þess að kynna sér, hvað liði rekstri smiðjunnar og hvað væri til hagnaðar í rekstrinum og hvað ekki. Það er alveg rétt, sem hann sagði, að 1934 var gróði á rekstri landssmiðjunnar frá því, sem verið hafði áður. Raunar var þessi gróði ekki eins mikill og einn hv. þm. vildi telja. En þetta ár var gróði á rekstrinum, og hygg ég að sá gróði hafi stafað að nokkru leyti af því, að árið 1933 voru eftir till. stj. gerðar ýmsar sparnaðarráðstafanir, rekstrarkostnaður var t. d. lækkaður um 4000 kr. á mánuði. Auglýsingakostnaður, sem oft hafði verið 2000 kr. á ári, hafði líka verið felldur niður og ýmisleg endurskoðun á rekstri landssmiðjunnar farið fram árið áður, og það kemur fram í gróða á næsta ári. Auk þess vildi svo til, að það þurfti að gera mjög mikið við eitt ríkisskipið, Esju, þar sem ketillinn í henni bilaði. Þó að gróði hafi orðið á landssmiðjunni, þá er það eðlilegt, að svo eigi að vera, en hann hefir því miður reynzt lítill sum árin, og meðan ekki kemur betur í ljós gróði á þeim rekstri, þá ætti ekki að vera ástæða til þess að gera sérstakar ráðstafanir með lögum til þess að auka þann rekstur. Það mun vera hollara að prófa sig á fram án sérstakra lagafyrirmæla.

Hv. 4. þ.m. Reykv. talaði af allmiklum móti um þetta mál, og skal ég ekki lá honum það, því það er hans bjargfasta skoðun, að flest eða öll atvinnufyrirtæki eigi að vera rekin af ríkinu, og er það náttúrlega skoðun fyrir sig, og ég get borið virðingu fyrir þeirri skoðun, þegar hún er borin fram af jafneinlægum huga og kemur fram hjá hv. þm. Og þó að hann hafi kastað nokkru til mín, þá hefi ég ekki neina sérstaka tilhneigingu til þess að svara í sama tón um þetta, því þetta er ekki hans venja. En ég verð þó að gera aths. við nokkur atriði í ræðu hans. Hann sagði, að ég hefði sýnt landssmiðjunni fullkomna andúð, þegar ég hafði með þau mál að gera. Ég hygg, að ef hann kynnti sér þetta mál sjálfur, þá sé hann svo sanngjarn maður, að hann mundi taka þessi orð aftur, ef hann kynnti sér þetta nánar, og mun hann þá sjá, að í afgreiðslu stjórnarráðsins hefir fyllilega verið farið eftir till. stjórnar landssmiðjunnar, auk þess sem ég get frætt hann á því, að ég gerði beinlínís nokkuð til þess, að landssmiðjan fengi verkefni. Ég gerði líka töluvert til þess, að hún gæti innheimt skuldir, sem hún átti útistandandi, að svo miklu leyti, sem því varð við komið, bæði gegnum mitt ráðuneyti og önnur. Það var reynt að gæta þess, þó það tækist ekki alltaf, að landssmiðjan næði skuldum sínum, og það oft vafasömum skuldum, af þeim styrkjum, sem veittir voru af ríkinu. Hv. þm. blandaði því og saman, eins og hæstv. forsrh., og talaði um, að það að vera á móti þessu lagafrv. væri það sama og að vera á móti landssmiðjunni, en það vil ég ekki kannast við. Ég er ekkert á móti henni og ég tel jafnvel rétt, að menn prófi sig áfram með landssmiðjuna, en ég tel ekki ástæðu til þess að setja um hana sérstök lög, þar sem hún hefir starfað án löggjafar hingað til.

Hann var að tala um, og virtist ekkert finna athugavert við það, að ég hefði verið að tala um erlendar kröfur, sem hefðu komið á ríkisstj. vegna landssmiðjunnar. Ég verð að segja, að í þessu tilfelli, þar sem svo stóð á, að vélar höfðu verið keyptar án samþykkis landssmiðjustjórnar, sem ég get sannað með bréfi, og líka án samþykkis hlutaðeigandi ráðh., sem ég hefi líka aflað mér vissu fyrir að því er snertir fyrirrennara minn, — að þegar svo erlendar kröfur komu eftir alllangan tíma á ríkisstj. fyrir þær framkvæmdir, sem gerðar höfðu verið bæði án samþykkis yfirstjórnar landssmiðjunnar og hlutaðeigandi ráðh., þá verð ég að telja það athugavert.

Hv. þm. talaði og um gjaldeyrissparnað í sambandi við þetta mál. Það má segja, að að einu leyti verði sparnaður, og það er að svo miklu leyti, sem hægt er að koma í veg fyrir, að vinna fari úr landinu. En hinsvegar ætla ég, að það sé vafasamur sparnaður að leggja mikið fé í að kaupa þær vélar, sem kosta allmikið fé, en eru til í landinu. Mér skildist á hæstv. fjmrh., þegar hann talaði opinberlega í útvarpið í vetur, að hann varaði atvinnurekendur við því að kaupa nýjar vélar, jafnvel til atvinnurekstrar, nema með sem lengstum gjaldfresti.

Hv. þm. vildi telja, að þau ummæli mín væru ekki á rökum byggð, að landssmiðjunni hætti til að binda of mikið við sig fasta starfsmenn og halda þeim of lengi, án þess að það væru arðberandi verkefni fyrir þá. Ég skal t. d. benda honum á það, að ég tel ekki rétt, að hafðir séu jafnmargir nemendur eins og voru á tímabili í landssmiðjunni. Það getur verið óþægilegt og kostnaðarsamt að binda sig þannig með mikinn kostnað, án þess að hafa nægileg verkefni. Hv. þm. sagði að vísu í öðru orðinu, að landssmiðjan gæti alltaf haft nægileg verkefni, en svo að ég vitni í það bréf, sem ég hefi hér meðferðis, þar sem hæstv. forsrh. er meðal annara undir, þá hygg ég, að út af því geti borið, því í þessu bréfi er einmitt á mörgum stöðum tekið fram, að kostnaðurinn hafi farið úr hófi fram vegna þess, að starfsmönnum hafi ekki verið fækkað í hlutfalli við þverrandi verkefni. Það er öllum kunnugt, að í slíkum framkvæmdum sem þessum er flóð og fjara eins og í öllu atvinnulífi, og það hlýtur því að vera upp og ofan með þetta eins og annað. Það kann að vera, að verkefnunum gæti fjölgað, og þau gætu aukizt nokkuð með því að stuðla meira að því, að viðgerð skipa færi fram innanlands, og ég get verið því meðmæltur að svo miklu leyti, sem það er ekki til stórra þyngsla fyrir atvinnureksturinn. Hinsvegar hefi ég tekið eftir því, að áætlanir manna um það, hversu hér mundi vera um mikla vinnu að ræða, eru mjög á reiki. Ég man ekki betur en þessi hv. þm. nefndi ½ millj. kr. á ári, og ég man ekki betur en hv. þm. S.-Þ. nefndi 2 millj. Í Nd. hefir þetta mál verið til umr., og ég held, að flmt. frv., sem fjallaði um þetta, hafi talað um 1 millj. Ég hefi fyrir mér upplýsingar frá tveimur atvinnurekendum, sem ég ætla, að þekki þetta, en annar þeirra er líka bankastjóri; telja þeir, að venjulega muni þetta nema 250– 300 þús. kr. á ári. Það er náttúrlega ekki víst, að öll þessi vinna komi í hlut landssmiðjunnar. nema þá að sérstök löggjöf komi til. Ég býst við, að hv. þm. hafi haft það á tilfinningunni, að þessar upphæðir, sem hann og fleiri hafa nefnt, væru ekki alveg áreiðanlegar, enda munar það allmiklu, þar sem sumir segja 200–300 þús., en aðrir 2 millj. Ég held, að hv. þm. hafi haft það á tilfinningunni, að þessi upphæð væri ekki mjög ákveðin, enda bætti hann því við, að vinna við brúarsmíði og vitabyggingar væri alltaf nóg. Ég vil nú spyrja hv. þm. að því, hvað mikið verði byggt af brúm og vitum í ár, því að ég ætla, að menn muni geta gert sér hugmynd um það. Hinsvegar er það öllum ljóst, að það er ekki nema nokkur hluti af brúarsmíði og vitasmíði, sem landssmiðjan getur unnið að.

Hv. þm. var að tala um, að það væri okrað á ríkinu af einstökum fyrirtækjum. Ég skal nú ekki bera blak af þeim, að þau hafi vilja til þess. En ég vil ætla, að landsstj. geti haft þeim verkfræðingum og kunnáttumönnum á að skipa, sem geti nokkurn veginn vitað, hvað sé sannvirði fyrir vinnu á hverjum tíma, auk þess sem til er nokkuð, sem heitir útboð, og hefir það þá stundum komið fyrir, að vinnan hefir verið tekin fyrir neðan það, sem kalla mætti sannvirði.

Hvað mótorana snertir, þá skýtur nú nokkuð skökku við í þessari hv. d. Ég man ekki betur þegar ég hlustaði á umr. í hv. Nd., en að þá væri talað um að fullsmíða mótora. En hér er talað um að hálfsmíða mótora, og lætur það að líkum, að verkefnið minnki að sama skapi. Hitt er rétt, sem hv. þm. tók fram, að það eru notaðar hér of margar tegundir af mótorum. En ég vil ætla, að þetta breytist, og það er þegar farið að breytast, og vil ég þakka það þeim tilraunum með mótora og gæði á þeim, sem fiskifélagið hefir komið á fót. Fiskifélagið getur gefið betri upplýsingar en aðrir um hinar ýmsu tegundir mótora, og ég ætla, að útgerðarmenn hafi yfirleitt notfært sér þær ráðleggingar, og það því fremur, sem það er vitað mál, að undanfarin ár hafa ýmsir útgerðarmenn orðið fyrir allmiklu tapi, vegna þess að þeir hafa tekið upp viðskipti við nýjar verksmiðjur og keypt tegundir, sem aðrir hafa ekki prófað áður. Og ég hygg, að útvegsmenn hafi síðan yfirleitt varazt að detta ofan í þann pytt. Ég tók það fram í fyrri ræðu minni, að þar af leiðandi væru bátaeigendur að verða tortryggnir gagnvart nýjum mótoragerðum. Hv. þm. málaði það með sterkum litum, hvílík vandræði það yrðu, ef við fengjum ekkert frá útlöndum, og ef okkur vantaði þá mótora. En þarf ekkert frá útlöndum nema mótora? Jafnvel þó við gætum hálfsmíðað mótora hér heima, eins og hann sagði, þarf þá ekki að fá þessa hluti frá útlöndum, sem við getum hálfsmíðað þá úr, og þarf ekki jafnvel þó við gætum alsmíðað þá, að kaupa járn og stál?

Hv. þm. talaði um ágóðann á ári hverju. Ég veit ekki, hvernig hann les reikninga, en ég ætla, að ýmsir aðrir lesi reikninga öðruvísi. Á lið, sem talinn er taps- og ágóðareikningur landssmiðjunnar, ætla ég, að það sé ekki gróði á þetta eina ár, heldur samansafnaður gróði og tap að frádregnum töpum frá undanförnum árum, og þegar litið er til þess, að landssmiðjan hefir alllengi starfað, þá vex mér ekki í augum þessi upphæð, sem er á taps- og gróðareikningnum í árslok 1935. Ég ætla, að það væru 39 þús. kr. En það er upplýst, að þar af eru óinnheimtar skuldir, sem munu vera yfir 30 þús. kr. Ég ætla, að allmikill hluti af þeim sé næsta óviss, a. m. k. mun flestum atvinnufyrirtækjum reynast það svo, að þegar skuldalistinn er kannske margra blaðsíðna skrá yfir smáupphæðir, sem ef til vill eru innan við 100 kr., að þá vilji verða vanskil á slíkum skuldum, svo að ég hygg, að ef nákvæmlega væri farið yfir þetta, þá færi það að verða nokkuð vafasamt.

Hv. þm. spurði um það, hvað það gæti verið á njóti bændum, að slík lög sem þessi væru sett, og hvort það snerti bændur nokkurn hlut. Ég hygg, að þó að járnsmíði snerti þá ekki beinlínis nema að litlu leyti, þá snerti það bændur nokkuð, hvort stöðugt er haldið áfram á þeirri braut að gera hvert fyrirtækið af öðru að ríkisrekstrarfyrirtæki. Þegar haldið er áfram stig af stigi og skriðunni hleypt af stað, þá ætla ég, að margur bóndinn fari að hugsa um það, hvar skriðan muni stöðvast, og svo mikið er víst, að þegar bóndi sér, að skriða hleypur ofan hliðina fyrir ofan túnið hans, þá gefur hann því auga, hvort hún ætli að koma á hans eigið tún. Og ég hygg, að eins og nú er haldið áfram, að alltaf eru tekin fleiri og fleiri fyrirtæki undir ríkið, þá fari að verða ástæða til þess fyrir bændur þessa lands að athuga, hvort þessi skriða fer ekki að hlaupa nærri þeirra eigin túni, og ég vil fullyrða það, að enn séu margir bændur hér á landi, sem kæra sig ekki um að fá þá skriðu heim yfir sín eigin bú, þannig að þar komi ríkisrekstur í stað einyrkjabúskapar. Það má því segja, að þetta mál komi bændum landsins einnig nokkuð við.

Þá kem ég að þeim hv. þm., sem ég reyndar get sleppt að svara, því hann talaði ekkert um málið sjálft. En hann brá út af venju sinni að því leyti, að hann var eins og að afsaka það í ræðu sinni, að hann hefði ekki talað um málið, en þetta var óþarfi, því allir menn í þessari hv. d., og það er raunar þingkunnugt og landskunnugt, að hann gerir það ekki að jafnaði, sá hv. þm., að tala um málin, sem fyrir liggja. Hann hljóp vítt og breitt og komst jafnvel í önnur ríki. Minntist hann á, að þau rækju sínar vopnasmiðjur, sem vel getur verið, að til sé, en þó ætla ég, að það sé ekki almennt. Þá las hann upp heilmikið raus um vegamálastjóra, sagði m. a., að hann ætti hlutabréf í ákveðinni járnsmiðju hér í bænum. Ég skal ekkert um það segja, ég veit það ekki og hefi ekki aflað mér upplýsinga um það. En sami hv. þm. vildi gefa í skyn, að ég ætti einnig hlutabréf í slíku fyrirtæki, og ef það er jafnsatt, sem hann segir um vegamálastjóra, þá legg ég ekki mikinn trúnað á það, því ég hefi aldrei komið nærri neinu slíku fyrirtæki.

Þá var hann eitthvað að tala um, að ég hefði lánað áhöld o. fl. frá landssmiðjunni. Ég veit alls ekki, hvað hann á við, og vísa því algerlega frá mér.

Þá talaði hann um straff, sem ég hefði fengið við síðustu kosningar. Ég held, að það hafi nú ekki verið svo tilfinnanlegt. Ég veit ekki betur en í boði á móti mér hafi verið mætasti, starfhæfasti og þjóðkunnasti maðurinn, sem Framsfl. hafði á að skipa, þ. e. a. m. k. maður, sem ég vil ekki segja um annað en gott eitt, og ætla ég, að ég geri engum framsóknarmanni rangt til, þó að ég segi, að hann sé þeirra hæfasta þingmannsefni. Þennan mann sendi flokkurinn móti mér, og hann bar ekki sigur úr býtum, og svo langt frá því. Það var því ekki un neitt straff að ræða, heldur miklu fremur viðurkenningu.

Þessi sami þm. var og að átelja með sterkum orðum, að ég hefði lagt niður trésmíðadeild landssmiðjunnar. Ég ætla að biðja hann að beina geiri sínum móti öðrum manni, sem nær honum stendur. Ég las áðan upp kafla úr bréfi, þar sem þáv. stjórn landssmiðjunnar leggur til, að trésmíðadeildin verði lögð niður. Í þeirri stjórn átti sæti hæstv. forsrh., og þangað ætti hv. þm. að beina geiri sínum, þar sem hann lagði þetta til.

Þá vildi hv. þm. halda því fram að ég hefði átt einhverja sök á um rekstur landssmiðjunnar, að þar hafi ekki allt gengið eftir snúru. Ég hefi svarað þessu með því, er ég beindi til hv. 4. þm. Reykv., og ég get bent á aðrar sannanir í því, að landssmiðjan hefir rétt við eftir ráðstafanir, sem gerðar voru að minni tilhlutun eftir till. landssmiðjustjórnar á árinu 1933. Þetta get ég sýnt með bréfum, sem fóru milli mín og stjórnarinnar.

Þá var hv. þm. með ýmsar skáldsögur, og m. a. komst hann inn á fánamálið, ef ég man rétt, og þá minntist hann ennfremur á ábyrgð fyrir bátum á Stokkseyri. Það var ekki ég, heldur þáv. fjmrh. En hv. þm. vill kannske ekki minnast á hann, þegar hann er kominn heim, en hann gat talað um hann, meðan hann var fjarverandi í annari heimsálfu.

Loks minntist hann á raftækjamálin. Ég ætla ekki að svara því, en vil benda honum á að lesa Alþýðublaðið. Þar kom í fyrravetur röggsamleg grein um þessi mál, og finnst mér óþarfi að svara honum nokkru, fyrr en hann hefir lesið hana.