20.04.1936
Efri deild: 52. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1334 í B-deild Alþingistíðinda. (1869)

32. mál, landssmiðja

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Út af ummælum hv. 10. landsk. þm. um yfirlit það, sem ég gaf um efnahag eða rekstrarafkomu landssmiðjunnar, vil ég segja nokkur orð.

Landssmiðjan hefir fengið úr ríkissjóði frá byrjun til ársloka 1934 kr. 109215,82, eins og sjá má á LR fyrir árið 1934, bls. 70.

Vexti hefir smiðjan greitt öll árin af þessu fé, en henni hefir verið endurgreitt aftur. Árið 1934 greiðir hún í peningum kr. 6209,95 í vexti, en fær það endurgreitt upp í framlag ríkissjóðs, sem það ár var kr. 33 þús. Árið 1935 er ekki enn fulluppgert, en vextir verða greiddir það ár, en viðskipti landssmiðjunnar eru ekki enn uppgerð til fulls.

Fleiri upplýsingar þarf ég ekki að gefa fram yfir það, sem reikningarnir sýna. 31. des. 1934 eru eignir þessa fyrirtækis taldar á reikningi kr. 211243,88, skuldir við ríkissjóð 109 þús. kr., þ. e. höfuðstólinn, við banka 15 þús. kr., og hagnaður á árunum 1930–34 tæpar 50 þús. kr. Hygg ég, að reikningar þessir séu mjög nærri sanni, vil ég benda á, að fasteignir eru virtar um 39 þús. kr., og þó húsin séu gömul, eru þau þó alltaf þess virði; mun það og ekki orka tvímælis.

Vélar og áhöld eru afskrifuð eftir föstum og settum reglum, og eru skráðar á 50 þús. kr., og vörubirgðir metnar á 79 þús. kr.

Útistandandi skuldir eru færðar til reiknings 32800 kr. brúttó, eða að frádreginni afskrift skulda, 2400 kr., 30400 kr. Ég hefi ekki gengið gegnum skuldalistann, en mér er kunnugt um, að nokkur hluti þeirra er hjá ríkisstofnunum, ógreitt þegar reikningnum var lokað, en engin ástæða til að óttast, að þær séu tapaðar. Þó er ein skuld, að ég hygg um 5–6 þús. kr., sem að ég ætla í ráðherratíð hv. 10. landsk. þm. hafi verið gerðir samningar um, og tveir stjórnarmenn landssmiðjunnar tóku að sér greiðslu á. Ég held því, að það sé engin ástæða til að tortryggja, að það, sem talið er hagnaður, sé raunverulegur hagnaður.

Hitt er ekki óeðlilegt, að landssmiðjan, sem byrjaði algerlega fjárvana og engin lán hefir tekið hjá bönkunum, þurfi á nokkru fjárframlagi að halda frá ríkinu.