24.04.1936
Efri deild: 55. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1343 í B-deild Alþingistíðinda. (1876)

32. mál, landssmiðja

*Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Þegar frv. þetta var til 2. umr. hér, eða a. m. k. við 1. umr., var því haldið fram af hæstv. stj. og öðrum, að hér væri um það að ræða að stofna til fyrirtækis, sem ríkið ræki svo í frjálsri samkeppni við önnur samskonar fyrirtæki til þess að tryggja, að ríkisstj. geti fengið verkin unnin fyrir sanngjarnt verð, en ekki til þess að skapa þessu fyrirtæki óeðlilega sérstöðu. Ég vefengdi, að með frv. væri landssmiðjunni sköpuð þessi aðstaða, og lofaði að bera fram brtt. við 3. umr., sem miðaði í þá átt að veita smiðjunni í raun og veru hliðstöðu við aðrar samskonar smiðjur. Er þó ekki lengra farið en svo, að smiðjan stendur alltaf vel að vígi um það að hafa aðgang að landsfé og er eftir sem áður ríkisfyrirtæki. Þessar brtt. mínar á þskj. 384 miða fyrst og fremst í þessa átt. A-liður brtt., við 2. gr. frv., gengur út á það, að ráðh. skuli jafnan láta prófa með útboði, hvort tilboð landssmiðjunnar geti talizt eðlileg, en eins og frv. er nú, er aðeins heimild til þessa. Og þar sem hæstv. stj. hefir lýst yfir því, að hún muni tryggja, að verðlag landssmiðjunnar haldist alltaf eðlilegt, skil ég ekki að hún verði því mótfallin, að þetta standi í l. B- og c-liðir brtt. við 2. gr. eru í raun og veru ein till. Í frvgr. stendur um nýsmíðar, sem íslenzkir hugvitsmenn hafa gert uppdrætti að, að um væntanlega nytsemi smíðanna skuli leita umsagnar kunnáttumanna, er ríkisstj. tilnefnir. Þarna er ekki nógu vel um búið. Mér finnst þurfa að tryggja þetta betur, því að það er ekki nógu vel tryggt með því, að hver ráðh. geti útnefnt svokallaða kunnáttumenn eftir sínum geðþótta til að meta nytsemi þessara verka. Ég legg því til, að þetta verði lagt undir dóm þriggja manna n. Og eru þá ekki aðrir aðiljar eðlilegri til að útnefna þessa menn en Landssamband iðnaðarmanna, Verkfræðingafélag Íslands og svo ráðh. Ég held, að ekki geti orðið ágreiningur um það, að heppilegra er að láta fagmenn útnefna þessa n., en ekki ráðh. einan, sem aldrei er að vita, hve mikla þekkingu hefir eða góðan vilja. Ráðh. eru alltaf pólitískir menn.

Hinar tvær brtt. miða svo enn í sömu átt og sú fyrsta. Sú fyrri er þess efnis, að verð lóða þeirra, sem afhenda skal landssmiðjunni samkvæmt 3. gr., skuli reikna sem lán til smiðjunnar, og endurgreiðist það samkvæmt 4. gr. Liggur það í augum uppi, að lóð þessi er ekki annað en fé, sem til smiðjunnar er lagt. Fær ekkert fyrirtæki slíkt fé ókeypis, fremur en annað fé. Smiðjan verður að endurgreiða lóðina, en henni er hinsvegar hagur að því að fá þessa lóð. Verð lóðarinnar reiknast eftir fasteignamati, en lóðir í Rvík eru yfirleitt vel kaupandi fyrir fasteignamatsverð.

III. brtt. er svo við 7. gr. frv., og er hún mikilsverð. Miðar hún að því, að landssmiðjan greiði öll opinber gjöld til ríkis og bæjar, eins og einkafyrirtæki. Að vísu er í frv. gengið út frá því, að smiðjan greiði útsvör og skatt, en hún á að greiða þetta eftir öðrum reglum en einkafyrirtæki. En með brtt. minni er þessu svo komið fyrir, að ekki er hægt að vefengja.

Þessar brtt. mínar eru í samræmi við það, sem ég veit, að er álit allra hér, að landssmiðjan eigi að starfa hliðstætt öðrum samskonar fyrirtækjum.