24.04.1936
Efri deild: 55. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (1877)

32. mál, landssmiðja

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég verð að segja, að mér fellur ekki við brtt. hv. þm. Get ég heldur ekki fallizt á þá staðhæfingu hans, að það sé ætlun þeirra, sem að frv. standa, að landssmiðjan skuli starfa sem einkafyrirtæki í frjálsri samkeppni. Ætlunin er einmitt að tryggja henni nokkra sérstöðu.

Ég er mótfallinn l. brtt., að ráðh. skuli jafnan sanna með útboði, að verð landssmiðjunnar sé eðlilegt. Álít ég ekki rétt að binda þetta svona fast, þar sem það getur skapað óheilbrigða samkeppni. Ég segi þetta af því að mér er kunnugt um, að ekki er ástæðulaust að óttast slíkt.

Nú er það svo, að settur er ákveðinn taxti um verðlag á vinnu þeirri, sem landssmiðjan framkvæmir, og er taxti þessi settur af forstjóra smiðjunnar og síðan endurskoðaður af stj. hennar. Er ætlazt til, að taxti þessi gildi um alla almenna vinnu, en þó getur hann breytzt og lækkað, ef um meiri háttar framkvæmdir er að ræða. Ég álít ekki rétt að breyta þessu fyrirkomulagi. Ef lítið er að gera hjá smiðjum yfirleitt, verður landssmiðjan að halda að sér þeirri vinnu, sem ríkið lætur framkvæma. Slíkt hið sama myndi hver einstaklingur gera, ef hann ætti fyrirtækið. Þess vegna myndi ríkið líka láta smiðjuna vinna fyrir sig, jafnvel þótt verðlag hennar reyndist eitthvað ofurlítið hærra en hjá öðrum, enda gæti það vel komið fyrir, að aðrar smiðjur byðu óeðlilega lágt í hin og þessi verk til þess að sýna, að þær væru samkeppnisfærar, eða til þess að skapa landssmiðjunni álitshnekki, eða þá til þess að draga að sér vinnu, þegar lítið er að gera.

Við b- og c-lið I. brtt. finn ég ekkert athugavert annað en það, að undir vissum kringumstæðum gæti staðið svo á, að aðrir aðiljar væru dómbærari en verkfræðingafélagið og Landssamband iðnaðarmanna, t. d. ef um væri að ræða einhverja nýbreytni, er snertir landbúnaðarvélar. Þar býst ég við, að fulltrúar búnaðarfélagsins væru heppilegri dómendur.

Starfsmenn þessir, sem iðn stunda í útlöndum, sjá þar oft ýmsar nýjungar, og mönnum hér geta dottið í hug ýmsar nýjungar vegna aukinnar þekkingar. Ég tel, að brtt. skipti ekki miklu máli og sé í flestum tilfellum eðlileg, en ég sé ekki ástæðu til þess að láta hana tefja málið, svo ég mun greiða atkv. á móti henni.

Þá er brtt. við 3. gr., og mun ég einnig greiða atkv. á móti henni. Ég álít ekkert athugavert við það, þótt ríkissjóður hlynni nokkuð að þessari stofnun sinni, svo að hún hafi að einhverju betri aðstöðu heldur en einkastofnanir, sem við hana keppa, og mér finnst það ekki um of, þótt ríkissjóður láti þessa lóð af mörkum. Hún hefir ekki gefið ríkissjóði tekjur, og ég sé engu ástæðu til að breyta þessu. Ég játa það, að stofnuninni er ívilnað með þessu, en ég sé ekkert á móti því. Ríkið ívilnar þar sjálfu sér og sinni stofnun.

Þá er brtt. við 7. gr., og er um það, að landssmiðjan skuli greiða útsvar. Ég hefi sagt það áður, að með þessu frv. er stofnuninni sköpuð sérstaða, og er það eins með þeim ákvæðum, sem um þetta gilda. Ég tel sjálfsagt, að fyrirtækið greiði tekjuskatt til ríkissjóðs, en útsvör aðeins vissa prósentu, eins og önnur slík fyrirtæki. Ég mun því einnig greiða atkv. á móti þessari brtt., og vænti ég þess, að frv. þetta nái framgangi í þeirri mynd, sem það nú hefir.