29.04.1936
Neðri deild: 59. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1350 í B-deild Alþingistíðinda. (1891)

109. mál, bæjargjöld í Vestmannaeyjum

*Jónas Guðmundsson:

Eins og tekið er fram í grg. frv. og kunnugt er, þá liggur fyrir þinginu frv. um tekjuauka fyrir bæjar- og sveitarfélög. Frv. þetta var afgr. frá Ed. í dag. Einn liðurinn í frv., eins og það kom frá mþn., var svipaður lögum þeim, sem hér er verið að tala um að framlengja fyrir Vestmannaeyjakaupstað, en þar var ætlazt til, að hann næði til allra kaupstaða landsins, því að þeim er ekki síður þörf aukinna tekjustofna en Vestmannaeyjakaupstað.

Þegar þetta sama mál lá hér fyrir í fyrra, var ég því fylgjandi, en áleit þá, eins og ég tel enn, að allir kaupstaðir landsins hefðu þörf fyrir svipaðar tekjur. Nú hefir svo farið, að einmitt þessi kafli hefir fallið úr frv. um aukna tekjustofna fyrir bæjar- og sveitarsjóði. Ég get því ekki fyrir mitt leyti gengið inn á það, að frv. þetta verði samþ., ef aðrir kaupstaðir landsins eiga ekki að fá sömu fríðindi. Mér finnst það því vera skylda Alþingis að athuga það nú, hvort ekki sé hægt að afgr. frv. þetta þannig, að það verði sem heildarlög fyrir alla kaupstaði landsins, og sýna þar með, að það skilji þörf kaupstaðanna almennt eins vel og það skilur þörf Vestmannaeyja. Takist þetta ekki, þá ræður það atkv. mínu um frv. þetta, hvernig frv. um tekjuauka fyrir bæjar- og sveitarfélög reiðir af.