29.04.1936
Neðri deild: 59. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í B-deild Alþingistíðinda. (1893)

109. mál, bæjargjöld í Vestmannaeyjum

*Páll Þorbjörnsson:

Eins og kunnugt er, er þetta mál, sem hér liggur fyrir, ekkert nýtt fyrir hv. Alþingi, því að Vestmannaeyjar voru fyrsti bærinn, sem fór þess á leit að fá þennan tekjustofn, eða a. m. k. fyrsti bærinn, sem fékk slíkt samþ. hér á þingi. Á síðasta þingi var svo hér til umr. að framlengja þennan tekjustofn, og eins og kunnugt er, þá var það gert, þó að maður geti ekki nægilega skilið, með hvaða forsendum þeir menn greiddu því atkv., sem það gerðu, en stóðu svo á móti hliðstæðum tekjustofnum fyrir önnur bæjarfélög, því að eins og kunnugt er, þá lá fyrir þinginu í fyrra frv. um svipaðar tekjuöflunarheimildir fyrir Alþingi, en það féll, og samskonar frv. fyrir Sauðárkrók, en því var vísað til stj., með því að þá var ákveðið að skipa mþn. til þess að gera athuganir og till. um tekjustofna bæjar og sveitarfélaga. Í þriðja lagi var flutt hér á síðasta þingi frv. til hafnarl. fyrir Siglufjörð, og í því frv. var farið fram á að leggja á vörugjald, sem skyldi renna í hafnarsjóð. Ég hygg, að það muni vera einsdæmi í sinni röð, að frv. til hafnarl. sé fellt hér á þingi, en það sýnir, hvernig þingheimur hefir litið á þetta vörugjaldsfrv., þó að svo slysaðist til, að Vestmannaeyjar fengju þennan tekjustofn nokkur undanfarin ár.

Eins og kunnugt er, var sett mþn., sem hafði það starf með höndum að athuga tekjustofna fyrir sveitar- og bæjarfélög. Þessi n. gekk svo frá frv. Ég skal ekki segja með fullri vissu, hvort nm. hafa allir verið sammála um hina einstöku tekjustofna, en svo mikið er víst, að hæstv. stj. leizt ekki fært að bera þetta frv. fram sem stjfrv., og því varð það úr, að tveir af þessum nm. fluttu þetta frv. í Ed. Eins og kom fram í ræðu hv. þm. Vestm., hefir þetta frv. tekið allmiklum stakkaskiptum frá því, er það kom frá. mþn., enda kom það fljótlega í ljós, er hv. þm. fóru að kynnu sér innihald frv., að margir voru því mjög mótfallnir og beittu sér gegn ýmsum liðum þess, sérstaklega þó þeim lið, sem nú um nokkur ár hefir verið lögfestur sem tekjustofn fyrir Vestmannaeyjar, sem sé vörugjaldinu.

Þetta frv., sem er ennþá í Ed., nema það hafi verið afgr. þaðan í dag, það er í þeim búningi, að búið er að fella burt úr því þennan tekjustofn.

Hv. þm. Vestm. getur þess í grg. þessa frv., að það sé borið fram sökum þess, að ekki nái fram að ganga frv. um tekjustofna sveitar- og bæjarfélaga. Það mun hafa verið svo, þegar hann bar þetta frv. fram, að litlar líkur virtust fyrir því, að það frv. næði fram að ganga, en nú er að komast á það nokkurt skrið, og hygg ég, að það sé nú að komast út úr Ed., ef það hefir þá ekki verið afgr. þaðan í dag.

Ég get ekki séð, að Vestmannaeyjakaupstaður hafi einhverja sérstöðu fram yfir aðra bæi hér á landi, sem geri það að verkum, að hann skuli hafa þennan tekjustofn fram yfir alla aðra bæi, þar sem þingheimur hefir líka séð þann annmarka á þessum tekjustofni, að hann hefir ekki viljað samþ. hann til handa öðrum einstökum bæjum eða bæjum hér á landi í heild.

Maður heyrir því oft haldið fram af þeim mönnum, sem eru að tala um erfiðleika á að ná tekjum í bæjarsjóði, að ein höfuðástæðan sé sú, að útgerð sé nú svo víða rekin með samvinnusniði, og á hana sé ekki lagt útsvar, a. m. k. ekki neitt svipað því, sem lagt sé á einstaklingsrekstur. En í þessu bæjarfélagi er ekki þessu til að dreifa, a. m. k. ekki svipað því, sem gerzt hefir í öðrum bæjarfélögum á landinu. Mér er ekki kunnugt um, að það sé nema fisksalan, sem dregizt hefir úr höndum einstaklinganna og inn á nokkurskonar samvinnusnið. Í Vestmannaeyjum er ekkert kaupfélag, sem hefir ótakmarkaða ábyrgð og getur því komið undir skattfrelsi samvinnulaganna, eins og kunnugt er um marga bæi á landinu, svo sem Ísafjörð, Akureyri og Neskaupstað, þar sem samvinnufélög hafa verzlun með höndum og njóta skattfrelsis að mestu leyti. Þess vegna er ekki að þessu leyti ástæða til að veita þessu bæjarfélagi þennan tekjustofn fram yfir önnur bæjarfélög.

Hv. þm. Vestm. vill halda því fram, og mér er ekki grunlaust um, að það hafi ráðið nokkru um atkv. ýmissa hv. þm. að undanförnu, að Vestmannaeyjar hafi þá sérstöðu, að það vörugjald, sem þar er lagt á, komi eingöngu niður á vörur, sem notaðar séu í bænum sjálfum. Má að vísu segja, að Vestmannaeyjar hafi ekki mikil vöruskipti við utanbæjarmenn. Þó er það svo, að nokkur brögð munu vera að því, þó ekki mikil. Landmenn skipta lítið eitt við Vestmannaeyjar. Það er ekki heldur ótítt, að útflutningsvörur, t. d. frá Vík í Mýrdal, séu fluttar þar í land til geymslu. Ennfremur er þess skammt að minnast, að á síðasta hausti fór fram nokkur síldarsöltun í Vestmannaeyjum, bæði af mönnum, sem áttu þar heima, og eins af utanaðkomandi mönnum, og þeir, sem komu aðvífandi til síldarsöltunar, urðu að búa við ýmis gjöld þar, m. a. þetta vörugjald. Hér er um stórkostlegan mismun að ræða við það, sem er í ýmsum öðrum bæjum. Ég hygg, að bæjarstjórnin hafi líka séð sitt óvænna á síðasta hausti og létt þessu gjaldi af þessari vöru. Það er því ekki allskostar rétt, að það séu eingöngu vörur, sem neytt er eða notaðar í plássinu sjálfu, sem þetta gjald er lagt á. Og það er full ástæða til að ætla, að eftir því, sem stundir líða fram, verði hnigið að því, að í Vestmannaeyjum verði miðstöð fyrir flota árið um kring, bæði erlendan og innlendan, svo að í því tilfelli mundi þetta gjald lenda á utanbæjarmönnum. (JJós: Víkurvörurnar eru allar undanskildar). Er það ekki bara framkvæmdaratriði? Ég hygg, að hvergi sé stafur fyrir því. (JJós: Það leggst ekkert á landbúnaðarafurðir, sem þar er skipað upp).

Um leið og hv. þm. Vestm. var að svara ræðu hv. 6. landsk., þar sem hann hefði sagt, að sér væri ekki kunnugt um, að fjárhagur Vestmannaeyja væri svo illa kominn, að hann þyrfti á þessum skatti að halda, þá vildi hann segja, að í blöðum okkar hv. 6. landsk. hefði þessi kaupstaður verið rógborinn svo mikið, að enginn annar kaupstaður hefði orðið fyrir slíkum rógburði. Ég hygg, að hann hafi ekki skilið orð hv. þm. rétt. Ég hygg, að hv. þm. hafi átt við, að Vestmannaeyjar hefðu skilyrði frekar en margir aðrir bæir til að afla sér tekna án þess að fara inn á þessa braut.

Annars er ekki ástæða til að fara mikið inn á það, sem skrifað hefir verið og skrafað um fjárhag Vestmannaeyja og ýmislegt í sambandi við það. Ég býst við, að þar hafi ýmislegt annað komið til greina en aðstaðan til tekjuöflunar.

Þá kom hv. þm. Vestm. að hinum sívaxandi kröfum, sem áttu að réttlæta það, að Vestmannaeyjar ættu að halda þessum tekjustofni áfram. Hann minntist á fátækraframfærslu og sjúkrahjálp. Ég vil minna á, að á síðasta þingi voru samþ. l., sem eiga að hafa talsverð áhrif á sjúkrakostnað og fátækrahjálp og eiga að verða til hjálpar bæði bæjum og einstaklingum. Ég hygg því, að ekki sé ástæða til, a. m. k. ekki nú í ár, að samþ. slíkan tekjustofn sem þennan. meðan ekki er fengin reynsla um sívaxandi kröfur þrátt fyrir samþ. þessara l. (JJós: Þau l. þyngja útgjöldin fyrst í stað). Já, et til vill fyrst í stað, en hv. þm. Vestm. veit eins vel og ég, að eftir að menn eru komnir inn í tryggingarnar, koma þessi 1. til með að létta stórkostlega undir með mönnum, bæði hvað fátækrahjálp og sjúkrakostnað snertir. Og ennfremur er nú fyrir þinginu frv. um framfærslu sjúkra manna og örkumla, sem við vitum báðir að koma til með að létta undir í þessu efni.

Það, sem ég vil leggja höfuðáherzluna á í sambandi við þetta mál, er það, að hér í þinginu er á ferð frv. um heildarlög fyrir alla bæi landsins, og þegar tekin var ákvörðun um að undirbúa slíka löggjöf, var ætlazt til, að þar með væru úr sögunni sérákvæði um tekjuöflun fyrir einstök bæjarfélög. Þegar þetta frv. kom fram í Ed., kom fljótt í ljós, og sérstaklega sýndi það sig við atkvgr. þar, að mikill meiri hl. d. var nokkurn veginn ásáttur um afgreiðslu málsins, og nú mun það vera farið út úr d. Því sýnist ekki ástæða til að hraða því svo mjög að veita Vestmannaeyjum þessa heimild. Ég vil í því sambandi enn á ný vísa til þeirrar meðferðar, sem samskonar frv. fyrir bæði Akureyri, Siglufjörð og Sauðárkrók fengu á síðasta þingi. Þá var talið ástæðulaust að samþ. þau frv., þar sem bera ætti fram frv. um heildarlöggjöf um tekjur bæjar- og sveitarfélaga.

Hinsvegar get ég sagt það sem mína skoðun, að það sé kannske skaðlítið, þó að málinu sé vísað til 3. umr., en mín skoðun um málið sjálft er óbreytt frá því sem áður. Ég álít, að þessi tekjustofn sé óheilbrigður og eigi ekki að vera í gildi, eins og hefir líka sýnt sig að vera álit Ed.

Ég legg því til, að þetta frv. verði fellt, a. m. k. við 3. umr.