07.05.1936
Efri deild: 67. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1356 í B-deild Alþingistíðinda. (1905)

109. mál, bæjargjöld í Vestmannaeyjum

*Bernharð Stefánsson:

Ég mun fylgja því, að þessu máli verði vísað til 3. umr., en eins og getið er um í nál. á þskj. 553 og hv. frsm. n. einnig tók fram, þá er frekara fylgi mitt við málið nokkuð bundið við það, hvernig fer um frv. það, sem liggur fyrir hv. Nd. um tekjustofna bæjar- og sveitarfélaga.

Ef það frv. verður samþ. og með þeim breyt., að viðunandi megi telja fyrir kaupstaði og kauptún, þá tel ég óþarfa að setja sérstök lög um þetta efni fyrir Vestmannaeyjar. En aftur á móti, ef það verður vitanlegt innan skamms, að frv. um tekjustofna bæjar- og sveitarfélaga gengur ekki fram, þá tel ég óhjákvæmilegt að gefa svipaða heimild og hér er farið fram á á fleiri stöðum en fyrir Vestmannaeyjar.

En þar sem svo er orðið áliðið þingtímans, að frv., sem nú er borið fram, hefir engar líkur til þess að ná samþykki þingsins, þá er eini vegurinn til þess að afla tekna fyrir fleiri kauptún og kaupstaði, að bera fram brtt. við þetta frv. Ég vildi því taka undir ósk hv. formanns fjhn., að málinu verði frestað, þangað til séð verður, hvernig fer um frv. um tekjustofna bæjar- og sveitarfélaga í Nd. Ef það fellur þar, eða það verður gert að hégóma einum. — (MJ: Eða samþ. óbreytt ). Já, þá mun ég fyrir mitt leyti bera fram brtt. við þetta frv., sem fela í sér samskonar réttindi fyrir a. m. k. einn kaupstað, sem stendur mjög svipað á um eins og Vestmannaeyjar, nefnilega að því leyti, að hann hefir mjög lítil viðskipti við aðra en borgarana í bænum og aðkomumenn, sem þar dvelja.