06.05.1936
Neðri deild: 64. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1359 í B-deild Alþingistíðinda. (1926)

134. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Landbn. er sammála um að bera fram þetta frv. á þskj. 517, og er það gert í samráði við nýbýlastjórn.

1. gr. frv. er eingöngu um það, að þau verðbréf, er nýbýladeild hefur út samkv. 1., skuli tryggð með ábyrgð ríkissjóðs. Í nýbýlalögunum frá síðasta þingi er það tekið fram, að nýbýladeild skuli vera ein grein búnaðarbankans, sem er rekinn með ábyrgð ríkissjóðs. Þessi bréf voru því að áliti landbn. nægilega trygg, þó að ekki væri tekið fram um ábyrgð ríkissjóðs fyrir þeim sérstaklega. En við samningu reglugerðar um þetta atriði var litið svo á, að betur færi á því, að þetta væri tekið fram í l. Þess vegna er þetta ákvæði tekið upp í frv.

Þá er 2. gr. frv. A.-liðurinn fjallar um það, að á undan láni nýbýlasjóðs megi hvíla hæfilegt kaupverð óræktaðs lands býlisins að dómi nýbýlastjórnar, þó aldrei yfir 1500 kr. Það sýndi sig, þegar átti að fara að framkvæma þessi l., að flest af þeim löndum, sem átti að byggja á, voru veðsett, svo að ef ekki væri gerð breyt. á ákvæðunum um veðsetninguna, þá yrðu viðkomandi menn fyrst að greiða upp þau lán, sem hvíla á þeim löndum, sem á að reisa nýbýlin á, sem mundi vera þeim ókleift undir flestum kringumstæðum. Hér er því lagt til að breyta l. þannig, að lán skuli veitt gegn 1. veðrétti í býlinu, sé það óveðsett, ella með síðari veðrétti og uppfærslurétti, og að á undan láni nýbýlasjóðs megi aðeins hvíla hæfilegt kaupverð óræktaðs lands býlisins, þó ekki yfir 1500 kr. Þetta virðist því ekki vera hættulegt ákvæði, en nauðsynlegt, til þess að úr framkvæmd þessara mála geti orðið.

B.-liður gr. er sá, að á undan láni nýbýladeildar megi hvíla 50% af verðmæti varanlegra mannvirkja, er landinu kann að fylgja, og skuli lán úr nýbýladeild vera þeim mun lægra, er slíku láni nemur, þannig að það ásamt láni úr nýbýladeild fari ekki fram úr 3500 kr.

Það virðist ekki ástæða til, þar sem búið er að veita lán út á slíkar byggingar, að nýbýladeild fari að greiða þau upp með sínu láni, því að oft mundi það verða til þess, að slík lán færu út úr lánaveltu landbúnaðarins. Með því að borga upp ræktunarsjóðslán, sem kynnu að hvíla á þessum framkvæmdum, þá yrði það til þess, að það yrði að borga ræktunarsjóði, og bréf fyrir þessum upphæðum yrðu þá dregin út, og velta landbúnaðarins minnkaði að sama skapi.

Ég skal aðeins minnast á brtt., sem komin er fram frá minni hl. landbn., þeim hv. þm. A.- Húnv. og hv. þm. Borgf., um það að láta þessi l. ná yfir jarðir, sem eru í byggð og hafa ekki meiri hús en það, að fasteignamat þeirra er ekki yfir 800 kr., svo að þær gætu fengið styrk samkvæmt nýbýlalögunum.

Þetta var talsvert rætt í landbn., en eftir nánari athugun gat meiri hl. ekki fylgt þessari till. Þó að við viðurkennum, að full þörf sé á að létta undir með þeim mönnum, sem þannig er ástatt um, þá álitum við, að réttara mundi að setja sérstök ákvæði um þetta efni, og helzt þá í sambandi við l. um byggingar- og landnámssjóð. Ég vil líka benda á, að þótt þessi brtt. við nýbýlalögin væri samþ., þá gætu þau ákvæði ekki komið til framkvæmda á þessu ári, þar sem nú þegar er búið að ráðstafa til nýbýla öllu því fé, sem er ætlað til þessara framkvæmda á yfirstandandi ári.

Ég tel því réttara að samþ. ekki þessa brtt., en koma þá heldur með hana á næsta þingi, og þá helzt í sambandi við l. um byggingar- og landnámssjóð.