06.05.1936
Neðri deild: 65. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1361 í B-deild Alþingistíðinda. (1930)

134. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

*Pétur Ottesen:

Ég vil benda á það, úr því að þetta mál er nú tekið fyrir að öllum óvörum, að 1. flm. þess er ekki viðstaddur. Það er tæpast viðeigandi að taka mál fyrir án þess að þdm., eða a. m. k. flm., hafi nokkurt hugboð um það áður, og þar sem ég býst við því, að atkvgr. eigi að fylgja, vil ég benda hæstv. forseta á það, að úrslit málsins við atkvgr. geta orðið allt öðru vísi nú en ef það hefði verið boðað með dagskrá. (Forseti: Ég mun fresta atkvgr. til morguns).

Það er nú svo um ýmsar jarðir hér á landi, að byggð á þeim í framtíðinni veltur alveg á því, hvort hægt verður að bæta úr þeim húsnæðisskorti, sem þar er nú. En það er staðreynd, að þær lánsstofnanir, sem lána ættu fé til þessa, geta engan veginn fullnægt eftirspurninni. Því er fjöldi bænda úti um allt land, sem verður að láta vera að byggja upp hjá sér, af því að þeir geta ekki fengið lánsfé til þess. Útkoman verður því sú, að þeir, sem mesta þörfina hafa, en minnst í veitunni, verða útundan.

Á síðasta þingi voru gerðar til þess ráðstafanir með löggjöf, að menn, sem reistu ný býli, gætu bæði fengið til þess styrk og lán. En þótt gott sé og þarft að fjölga nýjum býlum í sveitum, verður vel að gæta þess, að ekki leggist jafnóðum gömul býli í eyði sökum húsaskorts. Eigi að vinna að því nauðsynjaverki að fjölga býlum í sveitunum, verður ekki síður að leggja áherzlu á það að halda við hinum gömlu býlum.

Brtt. okkar miðar að því, að þar sem hús eru nú ekki metin meira en 800 kr. eða 500 kr. við næsta mat, skuli menn fá styrk til bygginga samkv. lögunum um nýbýli. Við teljum það rétt, ef auka á býlin í landinu, að þeir, sem við verstan húsakost eiga að búa, njóti sömu hlunninda og þeir, sem fá nýbýlastyrk, svo að aukning nýbýla komi fram sem bein fjölgun íslenzkra sveitabýla, en ekki aðeins til að fylla í skarð þeirra býla, sem verið hafa í byggð, en lagzt í eyði sökum ónógs húsakostar.