06.05.1936
Neðri deild: 65. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1362 í B-deild Alþingistíðinda. (1932)

134. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

*Pétur Ottesen:

Ég er hræddur um, að það verði lítið úr þeim fyrirætlunum hv. síðasta ræðumanns að efla ræktunarsjóð og byggingar- og landnámssjóð til þess að veita lán til endurbyggingar á sveitabæjum. Ég veit ekki betur en að nú á þessu þingi sé verið að rýra framlög til ræktunarsjóðs og byggingar- og landnámssjóðs. Nú er einmitt verið að berja í gegnum þingið frv., sem dregur til muna úr tekjum ræktunarsjóðs. Og það er ekki sýnilegt, að öðrum stoðum verði undir hann rennt í staðinn. Þess vegna er það augljóst, að ýmsar af þeim jörðum, sem nú eru í byggð, munu innan skamms leggjast í eyði, af því að engin hjálp fæst til að endurreisa eða gera við hús þeirra. Það er náttúrlega rétt hjá hv. 2. þm. Árn., að fé það, sem til þess er ætlað á fjárl., hrekkur ekki til að fullnægja umsóknum um styrk til nýbýla. En þegar litið er til þess, að ef jafnmörg býli leggjast í auðn og þau, sem reist eru af nýju, bara af því að ekki er á þeim búandi vegna húsaskorts, þá mun skammt sækjast um býlafjölgun í landinu. Þess vegna verður að stuðla að því, að þær jarðir, sem nú eru byggðar, haldi áfram að vera það. Ég hygg, að þeirri hugsun verði bezt náð með því, að bolmagn nýbýlasjóðs sé fyrst og fremst notað til þess að halda þeim jörðum í byggð, sem nú eru byggðar, og jafnframt til stofnunar nýbýla eftir föngum. Ég held líka, að þetta falli fullkomlega saman við tilgang nýbýlalaganna. Hv. þm. sagði, að þær jarðir, sem hefðu undir 800 kr. húsaverð samkv. fasteignamati, væru ekki eins margar og ég hélt fram. Hv. 1. flm. till., þm. A.-Húnv., hefir athugað þetta, en ég ekki, og komizt að þeirri niðurstöðu, er ég áður gat um. En vitanlega eru það sömu erfiðleikarnir, sem mæta þeim, er eiga að úthluta lánum og styrk til endurbyggingar á sveitabæjum, eins og að fullnægja umsóknum um framlög til nýbýla, sem hv. þm. sagði, að ekki væri hægt. Sú þörf er allra brýnust og mest aðkallandi að halda núverandi jörðum í byggð.

Þar sem aðalflm. brtt. er hér ekki viðstaddur nú og till. á að koma hér undir atkv. við þessa umr., þá virðist mér réttara að fresta afgreiðslu hennar, svo að hv. 1. flm. geti gert nánari grein fyrir henni síðar. Ég legg því til, að brtt. verði tekin aftur til 3. umr.