06.05.1936
Neðri deild: 65. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í B-deild Alþingistíðinda. (1934)

134. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

*Pétur Ottesen:

Ég býst við, að það verði ekki til frekari úrlausnar á endurbyggingu sveitabæja, þó að bent sé á þessa leið, sem hv. síðasti ræðumaður drap á, heldur en að vísa bændum á ræktunarsjóð, þess heldur sem hv. allshn. hefir nú setzt svo rækilega á þetta frv. um byggingarsjóði í sveitum, að enginn ágreiningur virðist hafa verið um það í n. að láta ekki skjóta upp bólu á því framar, auk þess sem það liggur ljóst fyrir hverjum heilskyggnum manni, að það eru sem stendur litlir eða engir möguleikar til að afla þessum byggingarsjóðum fjár. Ég tel, að mestir möguleikar séu í því fólgnir, ef hægt er að efla ræktunarsjóð til að gegna þessu hlutverki, en á því munu vera miklir erfiðleikar. Þó er hitt verra, að fyrir því sýnist vera lítill vilji á meðal stjórnarflokkanna í þinginu, þar sem verið er með ýmiskonar ráðstöfunum að draga úr tekjum og möguleikum ræktunarsjóðs, til þess að hann geti gegnt þessu hlutverki framvegis.