08.05.1936
Efri deild: 69. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1381 í B-deild Alþingistíðinda. (1973)

137. mál, viðbótarrekstrarlán handa Landsbanka Íslands

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það var út af fyrirspurn hv. 1. þm. Reykv. Í sambandi við lántökuna 1935 voru þær upplýsingar gefnar af hendi ríkisstj., að gefnu tilefni, að ríkisstj. mundi forðast allar erlendar lántökur og ábyrgðir og það að ganga í ábyrgð fyrir erlendum lánum. Hv. þm. spurði, hvort það kæmi ekki í bága við þessar upplýsingar, ef ríkisstj. notaði heimild þá, sem gert er ráð fyrir í frv. Ég get sagt, að ég álít, að svo sé ekki, vegna þess að þessi ábyrgðarheimild og þessi lántökuheimild, sem hér er gert ráð fyrir, mun ekki verða notuð nema í ýtrustu nauðsyn, og ekki fyrr en bankastjórnin og ríkisstj. álítur, að til þess þurfi að koma. Fyrst munu verða reynd þau ráð, sem helzt þykja tiltæk um niðurfærslu innflutnings og eins til þess að draga úr gjaldeyriseftirspurn eins og hægt er, og forðast þannig eins og unnt er, að til þessa þurfi að koma. Ég lít svo á, að þetta fari á engan hátt í bága við áður gefnar upplýsingar um þessi mál.