08.05.1936
Efri deild: 69. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1381 í B-deild Alþingistíðinda. (1974)

137. mál, viðbótarrekstrarlán handa Landsbanka Íslands

*Magnús Jónsson:

Ég man nú ekki eftir því, hvernig ummæli hæstv. ráðh. voru í sambandi við lántökuna 1935, eða að talað væri um undantekningar, ef mikil nauðsyn væri fyrir hendi. En það er svo sem auðvitað og sjálfsagt, að erlendum fjármálamönnum hefir verið það ljóst, að loforð í þessa átt þýða ekkert, nema ríkisstj. ætli svo samtímis að gera þær ráðstafanir, sem þarf, til þess að ekki komi til þess, að slíkar lántökur þurfi. Það er til ákaflega lítils að lofa bót og betrun og halda hinsvegar áfram þeirri stefnu í fjármálum almennt, sem hlýtur að leiða til þess, að til slíkrar lántöku þurfi að koma.

Nú skildist mér á hæstv. ráðh., að ríkisstj. stefni að því marki að gera aðrar ráðstafanir, svo að til þessa þurfi ekki að koma. Ég býst við, að hann eigi þar við strangari innflutnings- og gjaldeyrishöft en þau, sem gilt hafa upp á síðkastið. En það er vitanlega fleira en slíkar ráðstafanir, sem þarf að gera. Slíkar ráðstafanir eru ekki annað en nokkurskonar ytri ráðstafanir og koma ekki að liði, nema fjármálastefnan í landinu sé á þann hátt, að til þess þurfi ekki að koma, sem hér um ræðir. Án þess að ég ætli að fara út í neinar fjármálaumræður, þá vil ég segja það sem mína skoðun, að því hefir farið fjarri, að ríkisstj. og stjórnarflokkarnir hafi stefnt í þá átt í fjármálastjórninni undanfarið. Eitt fyrsta skrefið í þá átt og það, sem stj. og þing hefir á valdi sínu, er vitanlega stjórn fjármála ríkissjóðs. En það hefir alltaf jafnt og þétt hert á sköttunum og aukið fjáreyðslu ríkissjóðs. Mér finnst, að hæstv. ráðh. hafi illa haldið að þessu leyti orð sín um það, að gera þær ráðstafanir innanlands, sem þarf til þess að jöfnuður geti komizt á. Ég vil benda hæstv. ráðh. á það, að þetta rekur sig á þá reglu hans að auka kaupgetuna innanlands. En hann getur auðvitað með þessu haldið henni innilokaðri.

Ég vil hinsvegar benda á það, að ef það er falin ástæða í þessu máli, að hér sé ekki um annað að ræða en yfirdráttarlán, og því treyst, að slíkt lán verði borgað út í fyrsta gjalddaga, er hætt við, að þetta lán, ef það verður tekið, yrði að einhverju leyti fast.